laugardagur, október 24, 2020

Um baráttu einstakrar konu, kvennasamstöðu og konurnar í framlínustörfum

 

Hvernig við getum nýtt nálgun Ruth Bader Ginsburg  í femínískri baráttu fyrir kvenfrelsi og öðrum mannréttindum er efni pistils eftir Heiðu Björg Hilmisdóttur. Þetta er besta yfirferð á ferli hæstaréttardómarans og hugsjónakonunnar bandarísku sem ég hef lesið. Það vakti auðvitað sérstakan áhuga minn að lesa það sem Heiða Björg segir um lymskuna í kynjakerfinu:

„RBG flutti sig frá Harvard til Columbia, af fjölskylduástæðum, og útskrifaðist þaðan með hæstu einkunn í sínum árgangi. Þrátt fyrir það gekk henni afar illa að fá starf, enda ekki bara kona heldur jafnframt gyðingur og móðir. Þegar hún loksins fékk stöðu var henni hreinskilnislega tilkynnt að hún fengi lægri laun en karlarnir. Mér varð hugsað til þessa um daginn, þegar ég las grein um að núna væru stjórnendur hættir að leggja eins mikla áherslu á menntun fólks í ráðningum. Það helst einhven veginn lóðrétt í hendur við að núna eru konur orðnar fjölmennari í flestum deildum háskóla og mennta sig í auknum mæli betur en karlarnir. Þá allt í einu er menntun ekki stóra málið. Við skulum aldrei vanmeta tilhneigingu kynjakerfisins til að viðhalda ríkjandi valdastrúktúr.“

Þetta tiltekna atriði kom fyrir í pistli hér á blogginu svo snemma sem árið 2007 en ég hef einmitt líka tekið eftir því undanfarið að þetta sé beinlínis orðin stefna sumstaðar; einsog það sé meðvitundarleysi um að þetta hafi áhrif á ráðningarmöguleika kvenna. Eða einmitt öfugt: að þetta sé viðleitni til að viðhalda valdastrúktúr sem hyglir körlum sama hvað. 

Víkjum þá að hinum ágæta íslenska kvennafrídegi sem í dag var bara venjulegur laugardagur og hvorki mótmæli né hátíðarhöld þótt 45 ár séu liðin frá stóra kvennaverkfallinu 1975.

Kvenréttindafélagið og Tatjana Latinović formaður hefur þó verið í fjölmiðlum og rifjað upp tölfræðina sem enn er konum í óhag.

„Tatjana Latinović, formaður Kvenréttindafélags Íslands segir að í dag sé framlag kvenna til samfélagsins enn ekki að fullu metið að verðleikum. „Konur eru enn með 25 prósent lægri atvinnutekjur að meðaltali en karlar. Þar með hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir sex klukkustundir og eina mínútu miðað við fullan vinnudag frá klukkan níu til fimm. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið klukkan 15:01 í dag.

Kvennastörf eru undirstaða samfélags okkar, undirstaða vinnumarkaðarins. En þrátt fyrir að vera nú viðurkennd sem lykilstörf í samfélaginu, hafa þessi störf í áratugi verið metin minna virði en önnur störf þar sem karlar eru í meirihluta. Konur bera líka enn þann dag í dag hitann og þungann af umönnun barna og aldraða, og án dagvistunar og hjúkrunarheimila og án ólaunaðrar vinnu kvenna á heimilum væri ekki hægt að halda vinnumarkaðnum gangandi. Án þeirra væri íslenskt samfélag óstarfhæft.“

Á Kvennafrísvefnum

má einnig lesa um hvernig  „konur bera hitann og þungan af baráttunni gegn Covid-19 faraldrinum og verða að sama skapi fyrir mestum skaða af völdum hans, fjárhagslegum, heilsufarslegum og samfélagslegum.   

Konur sinna að stærstum hluta störfum sem skilgreind eru á tímum veirunnar sem nauðsynleg grunnþjónusta, eða framlínustörf. Konur eru 75% af starfsfólki í heilbrigðis- og félagsþjónustu, 73% starfsfólks í fræðslustarfsemi og 57% þeirra sem starfa við þjónustu og verslun.  

Það eru þessar konur sem eru í mestri smithættu og þær vinna oftast undir miklu líkamlegu og andlegu álagi. Þetta eru störf sem verður að vinna á staðnum, bjóða ekki upp á fjarvinnu og sveigjanleika, sem leiðir til þess að erfitt er fyrir konurnar að bregðast við aðstæðum heima fyrir t.d. lokun skóla og leikskóla, veikindum og umönnun fjölskyldumeðlima.  

Faraldurinn hefur einnig haft þær afleiðingar að heimilisofbeldi hefur aukist út um allan heim og er Ísland þar engin undantekning. Í maí á þessu ári höfðu borist um 11% fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi til lögreglu en á sama tímabili árin á undan. 

COVID-19 hefur afhjúpað hið grimma vanmat á hefðbundnum kvennastörfum sem er í engu samræmi við mikilvægi þeirra. Störf kvenna eru undirstaða samfélagsins og kjörin þurfa að endurspegla það. Konur í framlínustörfum eiga miklar þakkir skilið fyrir hetjudáð sína og seiglu í krefjandi aðstæðum. En þær lifa ekki á þökkunum einum saman.“

Þetta eru mikilvæg skilaboð.

Efnisorð: