föstudagur, nóvember 30, 2018

Dagur þrjú í Klausturgate

Fréttamenn hafa spurt Bjarna Ben hvort hann hefði lofað Gunnari Braga sendiherrastöðu (eða svo gott sem) en hann neitaði því staðfastlega að Gunnar Bragi ætti neitt inni hjá Sjálfstæðisflokknum fyrir að hafa gert Geir H Haarde að sendiherra (og Árna líka til að dreifa athyglinni frá því að dæmdur maður fékk eftirsóknarvert starf). Bjarni bætti því jafnframt við að Gunnar Bragi væri líka búinn að draga þetta til baka og biðja sig afsökunar á að hafa logið þessu uppá sig. En enginn fjölmiðlamannanna spurði hann afhverju Sigmundur Davíð hefði staðfest þessa sögu á barnum þegar Gunnar Bragi var að stæra sig af þessu. Það væri fróðlegt að heyra svör Bjarna við því.

Þegar Bjarni Ben var spurður hvort honum þætti að Klaustur-þingmennirnir ættu að segja af sér varð hann flóttalegur og vildi nú ekki alveg taka undir það, sagði „það ekki fara vel á því að þingmenn lýsi skoðunum sínum á því hvað aðrir þingmenn eigi að gera varðandi stöðu sína“. Enda hefur hann aldrei sagt af sér eftir nein hneykslismál sem tengjast honum, og slapp alveg við að taka pokann sinn þegar Sigmundur Davíð hraktist úr embætti eftir að Panamaskjölin komu í dagsljósið.

Þegar Sigmundur Davíð sagði í viðtali í dag að kjafthátturinn á Klaustri hefði ekki verið neitt einsdæmi [það kom mér ekki á óvart] og hann hefði oft setið með þingmönnum sem hefðu haft jafnvel verra orðbragð — og að nú væru þeir meðal þeirra sem hneyksluðust mest. Mér varð hugsað til viðtalsins á Stöð 2 þar sem Heimir Már spurði Pál Magnússon hvort hann þekkti svona orðbragð eins og var viðhaft á Klausturbarnum. Páll sagðist aldrei á lífsleiðinni hafa heyrt annað eins. Hann andmælti um of, þótti mér.

Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, nóvember 29, 2018

Staðan eftir sólarhring af Klausturgate

Eftir allar þær fréttir sem birtar hafa verið uppúr Klausturgate* í gær og í dag — sem sýndu innræti þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins einkar vel — er staðan sú að enginn ætlar að segja af sér, hætta þingmennsku eða hætta að drekka.

Eina manneskjan sem hefur sagt af sér er ekki þingmaður og var ekki á fundinum. Henni blöskraði hinsvegar svo ummæli félaga hennar í Miðflokknum að hún getur ekki stutt flokkinn lengur og sagði af sér sem varamaður í bankaráði Seðlabankans.

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins og eina konan sem var í sexmenningahópnum á Klausturbarnum er þó að íhuga afsögn, en það sagði hún nýkomin útaf fundi í velferðarnefnd og var spurð af forviða fréttamanni hvort henni þætti það fara saman að sitja í þeirri nefnd sem fjallar meðal annars um málefni fólks með fötlun — en ummæli þingkonunnar á Klausturbarnum um Freyju Haraldsdóttur voru sérlega ósmekkleg.

Viðtal Einars Þorsteinssonar við Gunnar Braga Sveinsson í Kastljósi í kvöld var fantagott. Einar talaði enga tæpitungu við Gunnar Braga sem — þótt hann reyndi að bera sig vel — kom út nákvæmlega eins og kúkurinn sem hann er.

Frá sjónarhóli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er allt þetta mál eflaust bara aðför að honum persónulega, þessum góða manni. (Soros stendur örugglega bakvið upptökuna og birtinguna í DV og Stundinni.)

Nú hlýtur Anna Sigurlaug Pálsdóttir að sitja við eldhúsborðið og skrifa bréf.


____
* Klausturgate (dregur að hluta nafn sitt af Watergate) er orðið sem notað er yfir leynilegu upptökurnar frá Klausturbarnum þar sem þingmenn Miðflokks og Flokks fólksins skemmtu sér við að níða konur, fólk með fötlun og samkynhneigða

Efnisorð: , , , , ,

miðvikudagur, nóvember 28, 2018

He for she — barátta Gunnars Braga Sveinssonar fyrir konur

Þegar Gunnar Bragi Sveinsson var enn í Framsóknarflokknum með Sigmund Davíð í forsæti þá var Gunnar Bragi mikill talsmaður jafnréttis. Framsóknarflokkurinn verðlaunaði hann fyrir að hafa „sett jafnréttismál á dagskrá. Í ræðum á vettvangi Sameinuðu Þjóðanna hafi hann talað fyrir jafnrétti og mikilvægi þess að fá karlmenn með í baráttuna fyrir kynjajafnrétti“. Hann hlaut líka athygli erlendra fjölmiðla fyrir (þá fyrirhugaða) ráðstefnu um jafnrétti sem ætluð var körlum eingöngu, svokallaða rakarastofuráðstefnu. Um tíma leit út fyrir að Gunnar Bragi væri mikill feministi.*

En svo situr hann þögull hjá (eða skrapp hann á klósettið og ummælin féllu á meðan?**) þegar Bergþór Ólason samflokksmaður hans í Miðflokknum notar viðurstyggileg orð um Ingu Sæland. Kallarnir í hennar flokki Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson hreyfðu engum mótmælum þegar þeir heyrðu þessi orð um flokksformann sinn. Þetta virðist bara þykja eðlilegt meðal þessara kalla að tala svona um konur. Meðal þingmanna að tala um þingkonu. Meðal karla að tala um samstarfskonu sína.
Viðstaddir voru semsagt Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir (sem ræddu málin á Klaustri Bar þann 20. nóvember síðastliðinn) ásamt Karli Gauta Hjaltasyni og Ólafi Ísleifssyni, þingmönnum Flokks fólksins. Orðaskiptin voru mjög hávær, áttu sér stað í vitna viðurvist og náðust að hluta á upptöku. Þar er meðal annars rætt um útlit stjórnmálakvenna, gáfnafar og andlega eiginleika.
Það var auðvitað fleira sagt í þessu samtali sem þykir fréttnæmt, sendiherraráðningin þykir tíðindum sæta (það plott var reyndar strax augljóst)***.

En hér þykir mér mikilvægt að ræða aðkomu Gunnars Braga. Hann talar reyndar sjálfur illa um þingkonur**** (í öðrum hluta viðtalsins sem birtur var rétt áðan). Talar niðrandi um útlit þeirra og gáfur — eina þeirra kallar hann „helvítis tík“. Eina konan sem er viðstödd reynir að benda körlunum á að þeir myndu ekki tala svona um karlmenn en þeir hlæja að því. Hún tekur að einhverju leyti þátt í að rakka konur niður en gerir veikburða tilraunir til að koma böndum á kvenfyrirlitningu Gunnars Braga og kumpána. En þeir halda áfram, alveg ótrauðir í því sem varla verður kallað he for she.

En þetta er nú málið. Sama hvað karlar þykjast jafnréttissinnaðir og miklir feministar þá fella þeir grímuna í einrúmi eða í hóp annarra karla (mjóróma píp einnar konu er bara yfirgnæft). Svona tala karlar um konur, líka fínu jafnréttissinnuðu karlarnir.

Það var svosem vitað fyrir en það er stundum gott að fá staðfestingu.

___
Ath. lesa má allar „leyniupptökur af þingmönnum“ í einni beit hér hjá Stundinni.

* Alveg hafði ég gleymt að Sigmundur Davíð hefði verið „valinn einn fremsti karlkynsfemínisti heims af Financial Times árið 2015“, þar til Stundin rifjaði það upp daginn eftir að þessi bloggfærsla var skrifuð.

** Í smástund voanaði ég að Gunnar Bragi hefði þá afsökun að hafa verið fjarstaddur þennan hluta samtalsins en það var áður en Stundin birti þann hluta viðtalsins þar sem augljóst var að hann dregur ekki af sér þegar kemur að því að níða konur.

*** RÚV rekur hvernig „Sendiherrastöður hafa ítrekað verið notaðar sem útleið úr stjórnmálum í gegnum tíðina. Einkum og sér í lagi fyrir karlmenn sem gegnt hafa ráðherraembætti og/eða verið formenn í sínum flokkum.“

**** Blogghöfundi láðist algerlega að minnast á ömurleg ummæli sem Gunnar Bragi viðhafði um Friðrik Ómar söngvara (sem má m.a. lesa hér].

[Enn ein viðbótin:] Og úff úff úff, enn bætist við ógeðið sem þessir menn létu útúr sér. Þeir gerðu líka grín að Freyju Haralds. Og enginn þeirra mótmælti neinu af þessu.

Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, nóvember 22, 2018

Fávitar og sinnaskiptin

Sólborg Guðbrandsdóttir heitir ung kona sem hefur tekið að sér að safna skjáskotum af óumbeðnum kynfæramyndum og hótunum um kynferðisofbeldi á samfélagsmiðlum. Það eru þolendur hins stafræna kynferðisofbeldis sem senda henni skjáskotin sem hún svo birtir á instagramsíðu sem kallast Fávitar.

Undanfarið hafa birst viðtöl við Sólborgu um þetta stafræna ofbeldi og Fávitasöfnunina. Það sem hér fór á undan og það sem á eftir kemur er úr viðtali á Vísi sem birtist í gær.
„Sólborg sér oftast sjálf nöfn þeirra sem hafa sent þolendum skilaboð og myndirnar og segir því fara fjarri að þar fari fyrst og fremst einhverjir stereótýpískir perrar. Þvert á móti virðist gerendurnir oft á tíðum frambærilegir og vinalegir á yfirborðinu. Hún kýs hins vegar að nafngreina þá ekki því hún telur að það muni draga frá ástæðu þess að hún haldi síðunni úti.

„Ég er með þetta Instagram til að fræða um kynferðislega áreitni og sýna fram á hversu ótrúlega algengt það er að verða fyrir kynferðislegu áreitni og taka einhverja umræðu, tala um þetta, þetta verði ekki tabú. Þetta eru alls konar einstaklingar í samfélaginu og það að ég sé að fara að nafngreina einhvern á netinu til að reyna að svala reiði einhverra sem eru að skoða Instagrammið er bara ekki að fara að skila neinu,“ segir hún.

„Ég vil, án þess að ég sé eitthvað að bakka gerendur upp, þá vil ég að það sé rými fyrir þá til að læra af mistökum sínum. Ég vil að þeir verði betri og við náum einhvern veginn að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur. Það verður að vera rými. Það er ekki nóg að við ætlum að henda einhverjum út á land og það eigi að drepa hann eða meiða hann, þetta skilar nákvæmlega engu.“

Erum við þá að mála fólk of mikið út í horn ef það er staðið að einhverju svona?

„Fólk er klárlega að mála sig sjálft út í horn en eins og við viljum að það sé hjálp fyrir þolendur í samfélaginu þá verður líka að vera hjálp fyrir gerendur. Ég vil bara búa í samfélagi þar sem við getum aðstoðað hvort annað og frætt. Við erum öll bara fólk. Við erum ekki skrímsli þó að mörgum finnist þessi hegðun vera í þá áttina.“

Sólborg er hvorki í þeim hluta viðtalsins sem hér er birtur né annarstaðar í viðtalinu (né öðrum viðtölum sem ég hef lesið) að segja að allir karlmenn beiti stafrænu kynferðisofbeldi né fer hún fram á refsingar yfir þeim fávitum sem beita því, og það kemur skýrt fram að hún vill ekki og ætlar ekki að nafngreina þá. Þetta er mjög augljóst og skiljanlegt öllum sem hafa einhvern lesskilning. En auðvitað lesa menn bara út úr þessu það sem þeir vilja og sem hentar þeirra heimsmynd. Sú heimsmynd gengur útá að karlmenn séu í stórhættu því konur séu orðnar brjálaðar og saki alla karlmenn um kynferðisofbeldi, ljúgi því auðvitað eins og þær eru langar til.

Skal nú nefndur til sögunnar Guðbjörn Guðbjörnsson sem skrifar athugasemd við viðtalið.
„Er þetta [innskot blogghöfundar: skjáskotin] aðallega fólk frá Orkuveitunni og slíkum perra vinnustöðum? Er fólk virkilega að velta sér upp úr facebook síðum, þar sem hver sem er - með hvaða prófíl sem er - og alhæfir síðan um alla kynferðisglæpi karlmanna?



Hvenær ætla karlmenn að standa upp mótmæla alhæfingum frá einhverjum stelpum og kerlingum með grænt hár og hring í nefinu um að þeir séu almennt kynferðisafbrotamenn eða perrar?* Þarf ekki einhver karlmaður að standa upp og kæra til lögreglu fullyrðinar og alhæfingar á borð við þær sem hér koma fram í þessari grein og láta fólk sem þetta - blaðamann sem ásakanda - sæta rannsókn hjá lögreglu?

Eða er konum almennt stætt á því að ásaka karlmenn hryllilega um glæpi og misnotkun, þegar í raun er um örfáa einstaklinga að ræða? Á slíkum konum að vera leyft að "kriminalísera" drengi og karla almennt án þess að þeir geti komið við vörnumj eða að þær þurfi að færa fram sannanir?
Guðbjörn skrifar bara þessu einu athugasemd en hún er svo stútfull af bulli að undrum sætir. Rétt upp hönd sem las bara eitthvað af þessum atriðum útúr viðtalinu við Sólborgu.

Kannski fældi það Guðbjörn frá því að skrifa meira, að í næstu athugasemd á eftir er honum einmitt bent á að Sólborg segi ekkert af því sem hann telur upp. Reyndar svara honum þrjár manneskjur og er sótt talsvert að honum. Einn segir t.a.m. „ Hér að ofan eru skjáskot af ofbeldi skíthæla gegn konum, jafnvel barnungum, og Guðbjörn telur að karlmenn þurfi að rísa til varnar. Fórnarlambsblætið gerist varla verra...“ En í síðustu athugasemdinni sem er beint gegn Guðbirni er hann spurður hvort hann eigi dóttur. „ Ef svo er, myndir þú samþykkja viðlíka dónaskap í hennar garð??? Ef ekki, máttu grjóthalda kjafti.“

Þetta er algeng spurning þeirra sem reyna að höfða til forstokkaðra karla sem hamast gegn kvennabaráttu almennt og sérstaklega því að konur upplýsi um kynferðisofbeldi. Hugsunin er sú að ef karlmaður á dætur þá hljóti hann að skilja að með slíkri hegðun vinni hann gegn hagsmunum dætra sinna.

Og það er nú fyrst sem þetta verður persónulegt. Það er að segja, blogghöfundur ætlar að rifja upp persónuleg mál dóttur Guðbjörns, jafnvel þótt það sé augljóslega ósmekklegt að gera það.

Guðbjörn sagði frá því í viðtali í fyrra að dóttur hans hefði verið nauðgað þegar hún var 16 ára. Hann segir að maðurinn sem nauðgaði dóttur hans hafi verið sýknaður í héraðsdómi og Hæstarétti.
„Guðbjörn vill meina að ástæðan fyrir svona dómum sé hugarfar og skapgerð dómaranna. Hann telur að flestir þeirra séu nákvæmlega sömu karlremburnar og hann var sjálfur fyrir nokkrum árum.

„Þegar gömul karlremba eins og ég verður fyrir svona áfalli þá opnast augu manns, en ég var áhugalaus og fáfróður um þessi mál og með gamaldags viðhorf. Ég fór að skoða aðra dóma og önnur mál. Fyrir það fyrsta er aðeins lítið hlutfall nauðgunarmála kært til lögreglu. Hlutfall þeirra sem sakfelldir eru er síðan ömurlega lágt. Þetta strandar á dómstólunum og það er því miður Sjálfstæðisflokkurinn sem skipar þangað menn í sinni eigin mynd, gamlar karlrembur af báðum kynjum. “ segir Guðbjörn.
Hann segir einnig:
„Ég vil heldur ekki segja að hér sé á ferðinni eitthvert allsherjarsamsæri, en það er einhvern veginn eins og að næstum allt kerfið standi með kynferðisbrotamönnum. Það eitt og sér hlýtur að verða til þess að þessi mál verði rannsökuð til hlítar.“ 

Guðbjörn hefur heillast af baráttu og dug foreldra þolenda Roberts Downey:
„Undanfarnar vikur og mánuði hef ég dáðst að hugrekki Bergs Þórs Ingólfssonar leikara og það hlýtur að vera siðferðis- og borgaraleg skylda okkar allra að styðja hann þar til að síðasta steini í þessu máli hefur verið velt við.“
Semsagt, Guðbjörn fullur skilnings. Guðbjörn fullur gagnrýni á kerfið. Guðbjörn í bata frá gamaldsags karlrembunni sem hann var áður.

Ef eingöngu væri miðað við athugasemd Guðbjörns við fréttina um Fávitaskjáskotasíðuna þá væri svarið við spurningunni um hvort hann myndi bregðast öðruvísi við ef hann ætti dætur; að já hann eigi dætur en honum sé algjörlega skítsama um áreiti og ofbeldi sem stelpur verða fyrir. En ef viðtalið frá í fyrra er tekið til hliðsjónar þá er svarið að jú hann eigi dóttur sem hafi einmitt orðið fyrir kynferðisofbeldi og hann sé bara alveg hreint í rusli yfir því sem hún varð fyrir, hann standi með stúlkum og gagnrýni þá sem standi með kynferðisbrotamönnum.

Hvað gerðist?

Þessi sinnaskipti föðurins sem var fullur skilnings og lýsti yfir stuðningi við baráttu gegn kynferðisofbeldi fyrir ári síðan eru óskiljanleg.

Efnisorð: , , , ,

sunnudagur, nóvember 11, 2018

11.11.1918

Í dag er þess minnst að hundrað ár eru síðan fyrri heimsstyröldinni lauk formlega með vopnahléssamningi milli Þýskalands og bandamanna. Þegar upp var staðið lágu að minnsta kosti 15 milljónir í valnum, hermenn og óbreyttir borgarar. Þetta var mesta mannfall í stríði fram til þessa* en seinni heimsstyrjöldin — sem var bein afleiðing þeirrar fyrri — sló það met margfaldlega. Reyndar hefur undanfarin fjögur ár verið minnst stóratburða fyrri heimstyrjaldarinnar: Árið 1916 voru hundrað ár frá orustunni við ána Somme (sem stóð í 140 daga frá júlí fram í nóvember; á fyrsta degi féllu 60.000) þar sem breska heimsveldið og Frakkar börðust saman gegn Þjóðverjum; og orustan milli Frakka og Þjóðverja við bæinn Verdun** (sem stóð tæpa 10 mánuði frá febrúar fram í desember). Orusturnar við belgíska bæinn Ypres voru margar flest ár stríðsins og féllu þar hundruðir þúsunda, þar af allt að 800.000 í þriggja mánaða orustu sem stóð frá júlí til nóvember 2017. Um þetta hafa verið gerðar ótal greinar, bækur, kvikmyndir, útvarps- og sjónvarpsþættir, og á síðari tímum hlaðvarpsþættir. Þótt blogghöfundur hafi ekki brennandi áhuga á stríðum sem slíkum (og rugli þessum orustum öllum saman og þarf þessvegna að leita heimilda fyrir hverri setningu hér) þá eru þetta auðvitað heimssögulegir atburðir sem áhugavert er að heyra lærða jafnt sem leika fjalla um.***

Það má reyndar segja að allt þetta ár hafi verið einstaklega gjöfult þegar kemur að neyslu á fjölmiðlum. Árið 1918 var meiriháttar ár á Íslandi: frostavetur, eldgos, drepsótt og fullveldi. Ríkisútvarpið hefur hreinlega tekið flugið til að minnast þessara atburða, þó aðallega fullveldisins, og hafa sjónvarpsþættir og útvarpsþættir streymt frá þessari mikilvægu stofnun sem uppfyllir kröfur um menningar- og fræðsluhlutverk sitt sem aldrei fyrr. Það hefur verið nánast fullt starf að hlusta (gegnum hlaðvarp) og horfa á þætti um árið 1918, og hefur þó örugglega eitthvað farið framhjá blogghöfundi.

Og svo ég haldi áfram að hrósa Ríkisútvarpinu, þá hefur það sýnt tvær sjónvarpsþáttaraðir — sem eru alls ótengdar árinu 1918 — sem eru annars vegar um Víetnamstríðið og hinsvegar um sögu Danmerkur. Hvor um sig algjörlega frábærar, jafn ólíkar og þær eru.

Öfugt við árið 1918 sem var hörmulegt í alla staði er 2018 hin besta fjölmiðla- og fróðleiksveisla.

___
* Dan Snow sagnfræðingur hefur þó bent á að fimmtíu árum áður en heimsstyrjöldin fyrri hófst í Evrópu hafi milli 20 og 30 milljónir látist í átökum í Kína.
** Dýravinir eru varaðir við að lesa um orustuna við Verdun á Vísindavefnum.
*** Dæmi um leikmenn: Illugi Jökulsson skrifar til að mynda grein í Stundina um vopnahléssamningana 11.11. 1918.


Efnisorð: , ,

fimmtudagur, nóvember 08, 2018

Þarf alltaf að vera vín?

Forsíða Fréttablaðsins í dag kom mér mjög á óvart. Gleðilega á óvart, svo það sé tekið fram. Þar eru settar fram ýmsar tölulegar staðreyndir um áfengisdrykkju en mest bar þó á spurningunni Þarf alltaf að vera vín?

Tölulegu upplýsingarnar eru t.d. þær að þeim sem greinast með skorpulifur fjölgar um 10 prósent á hverju ári á Íslandi, og helst í hendur við aukna dagdrykkju. Þá kemur fram að Ísland er í 10. sæti yfir þau lönd þar sem flestir neyta áfengis. Einnig er rifjað upp að í lok sumars kom út ein umfangsmesta fjölþjóðlega rannsókn seinni tíma á áhrifum áfengis á heilsu fólks, þar sem niðurstöðurnar kollvörpuðu þeirri mýtu að einn eða tveri drykkir á dag teldust heilsubætandi.

Inni í blaðinu er svo talað við fólk sem hefur ýmist hætt að drekka eða aldrei á ævinni bragðað vín, og segja þau t.a.m. frá edrúlífinu og því hvernig þeim líður innan um drukkið fólk. Einn viðmælenda ræðir hópþrýsting og að það hafi verið litið á það sem vandamál að hún drykki ekki.

Allt er þetta gott og blessað og hugnast blogghöfundi. En það sem vakti undrun mína í morgunsárið þegar forsíða blaðsins blasti við var ósamkvæmnin. Fréttablaðið er nefnilega einn þeirra fjölmiðla sem hefur auglýst áfengi (það heitir umfjöllun og kynning) af miklum móð árum saman, og hefur þannig og með leiðaraskrifum beitt sér gegn lögum sem kveða á um að bannað sé að auglýsa áfengi. og oft og iðulega lagt orð í belg varðandi frumvörp um að selja áfengi í matvöruverslunum og þá ávallt verið hlynnt því brennivíni í búðir.

Það er auðvitað ekkert nýtt að fjölmiðlar séu ósamkvæmir sjálfum sér (hér er minnst á Vikuna sem hampar bæði megrunarkúrum og kökuuppskriftum) og í stundum er það auðvitað jákvætt að 'láta báðar raddir heyrast'. En forsíðan og þriggja blaðsíðna umfjöllunin stingur samt svo í stúf að það er eins og blaðið hafi verið tekið yfir af góðtemplurum sem hafa engan skilning á gildi þess að drekka áfengi sem oftast og hafa engan sans fyrir frjálsum markaði eða mikilvægi sölu áfengisauglýsinga. Betur ef svo væri.

Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, nóvember 01, 2018

Ógnin, tvöfalda ógnin

Það er verulega sérkennilegt hve stjórn Sjómannafélag Íslands leyfir sér að ganga langt til að koma í veg fyrir að Heiðveig María Einarsdóttir, sjómaður og viðskiptalögfræðingur, verði formaður félagsins. Eitt er nú að breyta reglunum svo að hún sé ekki kjörgeng (hún hafi ekki verið í félaginu nægilega lengi) annað og öllu alvarlegra er að reka hana úr félaginu!

Mér þykir augljóst að kallarnir í stjórninni hafi ekki viljað fá konu sem formann Sjómannafélagsins. Þeir hafi viljað vernda sína kallavinnustétt. Engar kéllingar hér. En svo virðist vera sem það hafi ekki verið (eina) ástæðan. Heldur hafi kallarnir verið hræddir við að hún væri partur af samsæri sósíalista, sem nú þegar hafa tekið völdin í öðrum stéttarfélögum, og því hafi þurft að beita öllum brögðum til að losna við þessa ógn.

Kona sem er þar að auki sósíalisti: það er tvöföld ógn.

Það er von að þeir skjálfi á beinunum, litlu hræddu karlarnir.

Efnisorð: , , ,