föstudagur, nóvember 29, 2013

Gefðu mér stærstu skuldaleiðréttingar í veröldinni í skóinn, góði jólasveinn í nótt

Þó ekki sé von á neinum af jólasveinunum þrettán nærri strax til byggða þá er nokkuð ljóst að ég set skóinn útí glugga í nótt. Á morgun er nefnilega, eins og ríkisstjórnin hefur boðað, von á Skuldagleypi, hinum nýja öllu-bjargandi-jólasveini (og hann verður ekkert líkur skrímsli Frankensteins þó hann sé samsettur úr mörgum nefndum, það er bara fyrirframtilbúin lygi). Það gæti auðvitað verið að hann setti ekki í skóinn fyrr en eftir blaðamannafundinn í Hörpu (ekki veitir af salarkynnunum, þetta eru róttækustu aðgerðir stjórnvalda nokkurs staðar í veröldinni), en þá er spurning hversu skjótt eftir að fundinum lýkur — strax?

Á morgun verð ég örugglega á þönum á milli gluggans og sjónvarpsins, nei ég meina útvarpsins, því auðvitað verður ekki bein sjónvarpsútsending, hvað þá aukafréttatími, vegna þess að eftir að gerð var hressileg jólahreingerning í útvarpshúsinu (sem einnig var boðuð) kom í ljós að barninu hafði verið kastað út með baðvatninu. En hey, hvaða máli skiptir það, á morgun fáum við öll monnípeningaglás!

Ég er svo spennt.

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, nóvember 26, 2013

Nafn- og myndbirtingar kynferðisbrotamanna

Það er skiljanlegt að síðan sem birtir myndir og dóma yfir barnaníðingum sé umdeild, en verð að segja að mér liggur ekkert á að fordæma hana. Mér er auðvitað fælingarmáttur afhjúpunarinnar ofarlega í huga, en ég held líka að nafn- og myndbirting gæti bjargað einhverjum börnum frá því að lenda í klóm níðinga.

Sumir þessara karla hafa lokkað til sín ókunnug börn, rænt þeim, eða kynnst þeim á netinu (í tilviki eldri barnanna) og unnið þannig trúnað þeirra en brotið á þeim síðar. Þessi síða gæti forðað einhverjum börnum frá því að lenda í klóm þeirra.* Aðrir barnaníðingar, og þeir eru fleiri, níðast á börnum sínum og stjúpbörnum eða öðrum börnum sér nákomnum, og þá má auðvitað spyrja hvort það gagnist nokkuð að birta nöfn þeirra og myndir. En á móti kemur að eftir að þeir hafa verið dæmdir (á síðunni eru bara dæmdir barnaníðingar**) eru miklar líkur á að þeir hafi ekki lengur aðgang að eigin börnum. Sumir barnaníðinganna eiga eftir að koma sér í kynni við einstæðar mæður til þess að hafa aðgang að dætrum þeirra eða sonum. Hver sú kona sem hefur kynnst svona manni og sér nafn hans á þessari síðu hefur þá a.m.k. það forskot að geta slitið sambandinu (eða ekki farið í það) áður en hann hefst handa við að eyðileggja börnin hennar. Ég myndi allavega hnippa í konu sem ég vissi að væri farin að hitta mann sem væri á þessum lista, hvort sem hún ætti börn eða ekki.

Það sem truflar mig helst er að sumir þessara manna eru nafnlausir í dómunum sem er vísað til á síðunni, vegna þess að þeir hafa níðst á fjölskyldumeðlimum (börnum, stjúpbörnum, nánum ættingjum sínum eða eiginkonunnar) og nafnleysið er ekki síst til að hlífa fórnarlambinu eða fórnarlömbunum, því um leið og nafn níðingsins er birt er ljóst hver fórnarlömbin eru. En kannski og vonandi er nafn ógeðsins komið á barnaníðingasíðuna með samþykki fórnarlambanna, það eru kannski þau sem senda inn ábendingarnar, hver veit? Annars væri auðvitað frekar svakalegt að afhjúpa þau þarna.

Svo eru það hinar röksemdirnar gegn svona nafn- og myndbirtingum, þessum sem snúa að æstum múg með heykvíslar, útskúfun úr mannlegu samfélagi og allt það. Mér er afturámóti fokk sama um þessa nauðgara og níðinga og vil að þeir fái hvergi að þrífast, þeir mættu deyja svangir útí skafli mín vegna.

___
* Ég á ekki við að Blátt áfram eigi að fara með myndalista í skóla til að hrella lítil börn (róið ykkur), en fullorðið fólk, eins og konan sem sá á eftir Steingrími Njálssyni fara með lítinn dreng heim með sér, getur orðið til þess að gripið er inn í atburðarrás sem annars myndi enda með skelfingu.

** Mér væri reyndar að meinalausu að birt væru nöfn og myndir þeirra sem er vitað að hafa nauðgað eða níðst á börnum en ekki verið dæmdir. Karl Vignir sem stundaði stórfelld kynferðisbrot í marga áratugi, slapp með vægan dóm af því megnið af glæpum hans eru fyrndir, jafnvel þó hann hafi játað. En ég skil að forsvarsmenn síðunnar leggi ekki í það, þá væri hætt við að margir (eða mun fleiri) myndu fordæma framtakið.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, nóvember 21, 2013

Sundhöllin og upprennandi ófriður

Fyrirhuguð útisundlaug og viðbygging við Sundhöllina er í kunnuglegum byggingastíl. Hann heitir „skemmtilegt mótvægi“. Það eru reyndar bara arkitektar sem líta svo á að það sé skemmtilegt mótvægi við gamlar byggingar að klessa gjörólíkum óskapnaði upp að þeim, í huga okkar hinna er slíkur stíll kallaður „í hróplegri andstöðu við umhverfið“.



Myndin hér að ofan og sú fyrir neðan sýna verðlaunatillöguna. Um hana sagði dómnefndin: „Aðlögun að Sundhöllinni er einstaklega vel heppnuð þar sem gagnsæ viðbygging myndar skemmtilegt mótvægi við þyngra yfirbragð Sundhallarinnar.“

Líklega þykir arkitektum jafnt sem dómnefnd að mótvægið við gömlu Heilsuverndarstöðina, sem er næsta bygging hinumegin, verði líka skemmtilegt. Jafnvel bráðskemmtilegt.



Tilhugsunin um að þessum glergjörningi verði hróflað upp við Barónstíginn vekur álíka gleði og þegar alræmd skrifstofubygging, sem var troðið milli Hótel Borgar og Reykjavíkurapóteks, er barin augum.


En það virðist ekki vera nóg að hafa svona víti til að varast, áhugi arkitekta á að gera eitthvað sem fellur að umhverfi sínu virðist vera á núllpunkti.

Undantekning frá þeirri reglu er þessi gamla tillaga (um hana má lesa hér). Ef það þarf endilega að koma þarna fyrir útisundlaug (þarf endilega að setja útisundlaug þarna?) þá væri nær að nota þessa teikningu sem gerði ráð fyrir sama byggingastíl og er á Sundhöllinni.


Þetta er skásta lausnin, ef það á að annaðborð að reisa þarna fleiri mannvirki. En auðvitað kom hún ekki til greina svo efnt var til samkeppni, með ofangreindum afleiðingum.

Rétt eins Heilsuverndarstöðin er Sundhöllin friðlýst, en það dugir greinilega ekki til að hún fái að vera í friði.


___
Viðbót: Bendi á þessa bloggfærslu, þó ég sé ósammála í flestum atriðum.

Efnisorð:

sunnudagur, nóvember 17, 2013

Greinargerð II

Hér verður haldið áfram að mæla með lesefni og nú er fólk hvatt til að leggja leið sína á Heimspekivefinn sem um þessar mundir birtir gamlar greinar eftir íslenska höfunda.

Greinarnar sem hér er vísað á eru allar frá nítjándu öld og fjalla um kvenréttindamál. Í kynningu á Heimspekivefnum segir að „höfundar greinanna eigi það allir sameiginlegt að hamra á mikilvægi þess að konur fái notið menntunar til jafns við karla. Menntun er lykillinn að bættum kjörum og réttindum. Á þessum tíma var það hinsvegar útbreidd skoðun að aukin réttindi myndu óhjákvæmilega bitna á getu kvenna til að sinna móðurhlutverkinu“.

Þetta eru greinarnar fimm sem birtust upphaflega á síðum Skírnis og Fjallkonunnar.

Jafnrétti kvenna“ eftir Guðmund Þorláksson, sem segir meðal annars:
„Erfiðara hefur þetta mál átt uppdráttar í Norðurálfunni. Það hefur raunar fengið öfluga með­mælendur, svo sem Englendinginn Stuart Mill, Þjóðverjann H. von Scheel og fleiri, en hinir hafa þó verið jafnan fleiri, er móti hafa verið. Merkastir af þeim eru Bischoff, líffræðingur í München, og Proudhon, frakkneskur maður. Bischoff hefur nýlega ritað stóra bók á móti þessu; þar segir hann, að konur geti alls ekki lært neitt vísindalegt, það skyldi þá helst vera ögn í grasafræði, um falleg­ustu blómin eða þess háttar.“

Rjettur kvenna aukinn árið sem leið“ eftir Eirík Jónsson:
„Hér eru þrjú höfuðatriði, sem sérílagi koma til greina: jöfn ráð giftra kvenna við bændurna á því sem hjónin eiga eða eignast, eða heimild þeirra til þess, sem þær afla eða erfa í hjúskap; kosningarréttur; og réttur til atvinnu og embætta til jafns við karlmenn.“

Um jafnrjetti og jafnstæði kvenna gagnvart karlmönnum“ eftir Eirík Jónsson:
„Vor öld á það lof skilið, að á síðara hluta hennar hefur hér verið margur steinn úr götu tekinn, og að því er nú á hverju ári kappsamlega unnið, að greiða veg fyrir jafnrétti karla og kvenna. Mest hefur til þessa áunnist, þar sem til atvinnunnar kemur, og kvenmenn nema það nú til atvinnu í þúsunda tali, sem fáum mundi hafa þótt í mál takanda á fyrirfarandi öldum. Vér nefnum fátt eitt til dæmis. Í fyrra stúderuðu 108 stúlkur við háskólana á Svisslandi. Við háskólann í París nema læknisfræði 50 kvenmenn, og við tvo háskóla á Hollandi 40. Vér nefndum í fyrra kvennaskólann (í Girton) í námunda við Cambridge, og eru þar nú drjúgum fleiri. En við háskólana í Cambridge, Lundúnum og Dýflinni nema ýmis fræði hér umbil 750 kvenna (samtals). … Vér látum þess getið, að 150 kvenmenn gegna póst­embættum í Austurríki, og 1000 þjónustu við hraðfréttasendingar í Lundúnum, Dýflinni og Edína­borg.“

Kvenfrelsi“ eftir Ónefndan:
„Lög um sérstök fjárráð giftra kvenna teljum vér með mestu nauðsynjamálum. Að konan megi sjálf ráða eigum sínum á sama hátt og maður hennar ræður fé sínu, er svo eðlilegt, að óþarft er að færa rök fyrir því eða telja þá kosti, er því fylgja. Það er eitt, t.d., að tengdaforeldrar þurfa síður að óttast, að tengdasynir sói arfi dætra þeirra, ef þær ráða sjálfar fé sínu að lögum. Í öðru lagi getur bóndinn haft góðan hag af því, að skuldunautar geta eigi krafið konuna um skuldir hans. Í þriðja lagi er það óeðlilegt, að konan sé svipt að miklu leyti fjárráðum sínum um leið og hún giftist. Með því að giftur maður fær þannig ráð yfir eignum konu sinnar, gifta margir sig eingöngu til fjár, og er þá jafnan hætt við, að sambúð hjónanna verði eigi svo ástúðleg sem hún annars ætti að vera. Það er heldur eigi fýsilegt fyrir ungar stúlkur, sem eru í góðum efnum, að gifta sig og mega búast við því, að ráða þaðan af engu um eigur sínar. Eyðsluseggir og ráðleysingjar svalla og sólunda oft þeim eigum, sem þeir hafa fengið í hendur með konunum og steypa þeim í eymd og volæði. Flestir munu þekkja mörg dæmi til þessa, enn vér leyfum oss hér að segja frá einu dæmi úr Noregi, er sýnir hve lögunum er þar áfátt í þessum greinum álíka og hér.“

Nokkur orð um menntun og rjettindi kvenna“ eftir Bríeti Bjarnhéðinsdóttur:
„En til þess að dæturnar geti orðið nýtir limir þjóðfélagsins, verða foreldrar og vandamenn þeirra að taka jafnt tillit til vilja þeirra og hæfileika sem sonanna. Þeir verða að hætta að gjöra þennan mikla mun á mey og manni.“
[Þetta hljómar næstum eins og hún sé að tala um kynskipt leikföng.]

Allt eru þetta greinar skrifaðar á árunum 1876-1885. Deilum um hlutverk og menntun kvenna lauk þó auðvitað ekki þarna, þær standa enn. Sigríður Matthíasdóttir skrifaði áhugaverða doktorsritgerð þar sem hún ræðir slíkar deilur á öndverðri 20. öld. Ritgerðin kom út á bók 2004 og nefnist Hinn sanni Íslendingur. Þjóðerni, kyngervi og vald á Íslandi 1900-1930. Áhugasömum er bent á að lesa hana líka.

Efnisorð:

fimmtudagur, nóvember 14, 2013

Enn fleiri klikkaðar hugmyndir úr Eyjum

Það var ekki nóg með að Vestmanneyingar hefðu Árna Johnsen til að dæla út úr sér klikkuðum hugmyndum, Elliði Vignisson bæjarstjóri virðist ætla að feta dyggilega í fótspor hans.

Elliði sveiflast nú með hagræðingarhópnum sem honum finnst greinilega vanta fleiri hugmyndir, og kastar ekki bara fram vangaveltum um að ríkið hætti að reka Sinfóníuna og Þjóðleikhúsið, heldur sér nú matarholu í eldfjallaeyju sem reis úr hafi í Vestmannaeyjum fyrir fimmtíu árum.* Hann vill selja skipulagðar þyrluferðir með ferðamenn út í Surtsey og vill ræða hvers virði stórkostleg náttúra er ef enginn fær að njóta hennar. Það var Sjálfstæðismönnum líkt að setja verðmiða á Surtsey. Og ekki þarf að koma á óvart að þeir vilji græða á henni, eins og öllu öðru.

Það er ekki algengt að það spretti upp eyjar úr hafinu á vorum tímum og jarðfræðingar og líffræðingar hafa verið ákaflega áhugasamir að fylgjast með Surtsey. Fuglar hafa hreiðrað þar um sig, óáreittir að mestu af mannaferðum, skordýr finnast þar og plöntur hafa fest rætur á eynni. Það eitt að sjá hvaða plöntur berast þangað er merkilegt. Þyrlur eru ekki sérlega hljóðlátar og gætu haft verulega vond áhrif á fuglalífið. Skordýr geta borist með ferðamönnum og skófatnaður þeirra getur borið með sér fræ og plöntugró og breytt flóru eyjarinnar. Og eins og nú er altalað með ferðamannastaði þá fylgir ferðamönnum átroðningur. Enda sagði forstöðumaður Vistfræðideildar Náttúrufræðistofnunar Íslands að það væri full ástæða að hafa Surtsey lokaða almenningi næstu áratugi.

En hver hlustar svosem á svoleiðis röfl, verður ekki bara skipt um stjórn Náttúrufræðistofnunar til að fá sérfræðinga til að skipta um skoðun? Til vara getur hinn umhverfisvæni Sigurður Ingi skrifað uppá eitthvert plagg sem leyfir Eyjamönnum að selja ferðir til Surtseyjar, þeir eru strax farnir að ræða fjölda starfa við afgreiðslu og markaðssetningu, sbr. þessa athugasemd.


Það er gott að vita að til er Vestmanneyingur sem hefur heyrt minnst á þróun mannsins. Verra er ef Eyjamönnum með bæjarstjórann í broddi fylkingar tekst að hafa áhrif á friðun Surtseyjar.

___
* [Viðbót] Elliði hefur áður viðrað þessar hugmyndir sínar, nánar tiltekið árið 2007. Viðhorf hans til Surtseyjar var sannarlega við hæfi á því herrans ári þegar hann sagði að Surtsey væri „klárlega söluvara hvað ferðaþjónustu varðar“. Svo kom eitthvað svokallað babb í bátinn en nú sér Elliði fram á betri tíð þegar aftur eru komin stjórnvöld sem líta á náttúruna sem söluvöru.

Efnisorð: , , , ,

sunnudagur, nóvember 10, 2013

Greinargerð

Mig langar til að vekja athygli á nokkrum áhugaverðum greinum af ýmsu tagi sem hugsanlega hafa farið framhjá einhverjum.

Fyrst er snilldar knúzpistill eftir Guðnýju Elísu Guðgeirsdóttur um tillitssemi sem ætlast er til að þolendur kynferðisofbeldis sýni gerendum.
„Þolendur! Ekki vera eigingjarnar dívur. Hugsið um gerendurna, þeirra lífsgæði eru mikilvæg. Sýnið þeim tillitssemi.“
Svo er fín grein um staðgöngumæðrun þar sem Kári Emil Helgason ræðir öll helstu vafaatriði málsins en sjálfur var hann áður hlynntur staðgöngumæðrun.

Einnig á Knúzinu er pistill Sögu Garðarsdóttur sem tæklar kynjakvóta umræðuna á skemmtilegan hátt. — Mig langar líka til að vekja athygli á greininni því ég finn til samkenndar með Sögu þegar hún segist skrifa status „í þeirri von að allt internetið mætti lesa hann og umræðunni myndi svo ljúka með kommentinu „Rétt, Saga, þetta er rétt. Sorry! Kveðja, efasemdarfólkið.“ Það er af nákvæmlega sömu ástæðu sem ég skrifa blogg, og verð svo alltaf jafn hissa þegar mér hefur ekki tekist að „sannfæra alnetið“.

Úr allt annarri átt er bloggpistill Bergþóru Gísladóttur sem ræðir bók um hænsnarækt þar sem fram kemur að „Mönnum ætti að vera það fullljóst, að þeir sem halda hænsni, hafa sömu skyldur við þau eins og við aðrar skepnur, sem þeir hafa undir höndum, þær, að reyna að láta þeim líða vel." Og Bergþóra spyr, „hvað getum við gert til að stuðla að mannúðlegri meðferð á dýrum?“

Þó dómsorð Ingibjargar Þorsteinsdóttur héraðsdómara í meiðyrðamáli sem Egill Gillz Einarsson höfðaði teljist ekki sem greinarskrif eru þau áhugaverð lesning. Þar rökstyður hún sýknudóm sinn yfir þeim sem Egill Gillz kærði mjög ítarlega og segir m.a. þetta:
„Ekki verður séð, þátt fyrir miklar deilur um málflutning hans í nafni Gillz, að hann hafi skýrlega tekið afstöðu gegn kynferðislegu ofbeldi fyrr en kærur gegn honum komu fram. Hafði stefnandi þó fullt tilefni til að gera hreint fyrir sínum dyrum hvað þetta atriði varðar þegar haft er í huga að efni frá honum er á köflum afar tvírætt og ögrandi og má auðveldlega skilja sem hvatningu til ofbeldis af þessu tagi.“
Það er líka vert að benda á pistil Agnars Kr. Þorsteinssonar sem hann skrifar í kjölfarið á þeirri spurningu Elliða Vignissonar í Eyjum hvort þjóðin hafi efni á að reka þjóðleikhús og sinfóníuhljómsveit. Agnar fjallar um andúð og jafnvel hatur margra Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna á listamönnum og menningargeiranum, og setur það í sögulegt samhengi.

Eftir pólitíkina er gott að hressa sig við. Kristín Svava Tómasdóttir skrifar grein sem er nánast fáránlega skemmtileg miðað við efnið, íslenska manntalið 1703. Það er uppáhaldsmanntal Kristínar Svövu og hefur þaraðauki verið tekið á varðveisluskrá UNESCO. Greinin er á hinu ágæta vefriti Smjörfjalli sögunnar sem ég mæli eindregið með að fólk lesi.

Efnisorð: , , , , , , , , ,

föstudagur, nóvember 08, 2013

Dýraathvörf fyrir fólk sem þolir ekki langtímasambönd

Því ber að fagna að opnað hafi verið athvarf fyrir hunda og ketti sem finnast á lausagangi í sveitarfélaginu Árborg. Auðvitað væri betra að engin dýr villtust að heiman, að engin þeirra þyrftu að flýja vondar aðstæður og engum þeirra væri kastað á guð og gaddinn, en til að bregðast við slíku er nauðsynlegt að bjóða dýrunum húsaskjól þar til úr rætist. Kattholt hefur tekið til sín vegalausa ketti af höfuðborgarsvæðinu og hundahótelið á Leirum á Kjalarnesi hýsir hunda sem eru í sömu aðstæðum. Dýrahjálp hefur svo sinnt flestum dýrategundum og komið þeim fyrir á fósturheimilum þar til þau eignast eða finna aftur heimili.

Allt er þetta gott og blessað.

Gallinn er samt enn sá, að fólk sem kann ekkert með dýr að fara og ætti aldrei að eignast dýr, tekur að sér litla sæta kettlinga og hvolpa, til þess eins að losa sig við dýrin þegar þau stækka eða sýna óæskilega hegðun. Hér gætu komið margar sorglegar sögur um það. En þar sem að nú líður að stærstu gjafakaupahátíð ársins er rétt að árétta að dýr eru ekki jólagjafir, þau hafa tilfinningar sem þarf að taka tillit til og þarfir sem þarf að uppfylla. Þau lifa lengur en marga grunar og ættu því aldrei að koma inn á heimili nema gert sé ráð fyrir þeim til langs tíma. Ef fullorðna fólkið á heimilinu þolir ekki dýr nema þau séu hljóðlaus, skíti ekkert út og skíti yfirleitt ekki neitt, þá ætti frekar að leyfa börnunum að heimsækja fólk sem á dýr en að taka dýr inn á heimili þar sem þau verða fullorðna fólkinu til ama og leiðinda og freistingin að losa sig við dýrið er mikil. Reyndar er til fólk, ótrúlega margt fólk, sem losar sig við hund eða kött og fær sér svo annað dýr, eins og Margrét Tryggvadóttir rakti í pistli. Lokaorðin hennar eru þessi.
„Kæra fólk, að eiga dýr, sérstaklega hunda og ketti, er langtímaskuldbinding og krefst þess að fólk forgangsraði þannig að dýrið sé ekki afgangsstærð. Ef þið treystið ykkur ekki til þess er betra að sleppa dýrahaldi en að gerast hálfviti sem lítur á gæludýr sem leikfang í stuttan tíma og fær sér svo nýtt þegar hann er orðinn leiður á því gamla.“
Og svo ég endurtaki: Umfram allt þarf að gelda fressketti og gera læður ófrjóar. Það munar um hvern kettling sem fæðist bara til að lenda í vondum höndum eða á vergangi, deyja ungur eða lifa sem útigangsköttur alla ævi. Stjórnandi dýraathvarfsins nýopnaða óskar sér þess að það verði alltaf tómt, engin dýr þurfi að koma þangað. Stuðlum að því að dýraathvörfin verði alltaf tóm. Tökum ekki að okkur dýr nema geta veitt þeim góð, varanleg heimili.

Efnisorð:

mánudagur, nóvember 04, 2013

Bara í útlöndum

* Varúð - eftirfarandi lestur gæti valdið vanlíðan *

Í desember síðastliðnum varð kona fyrir hópnauðgun í Nýju Delí á Indlandi. Afleiðingarnar af nauðguninni og misþyrmingunum urðu þær að konan lést af sárum sínum nokkrum dögum seinna. Fréttin af þessu voðaverki barst um alla heimsbyggðina. Enda þótt málið sé alþekkt þá ætla ég að rekja það hér í tilefni af því að mennirnir sem frömdu verknaðninn hafa nú áfrýjað dauðadómnum sem þeir fengu í haust. Þá voru þeir allir dæmdir sekir, líka sá þeirra sem hafði verið dauður í nokkra mánuði.

Árásin á konuna og vin hennar átti sér stað 16. desember 2012 í bíl sem þau héldu að væri almenningsfarartæki. Vini konunnar var misþyrmt og hann rotaður. Í bílnum voru auk þeirra fimm karlkyns farþegar og bílstjóri. Eftir að allt er afstaðið var konunni og vini hennar hent út. Innan sólarhrings var búið að handtaka bílstjórann og alla farþegana: Ram Singh (34 ára), Mukesh Singh (26), Vinay Sharma (20), Pawan Gupta (19), Akshay Thaku (28) og sautján ára ónafngreindur unglingur.

Svo gerist þetta, í tímaröð.

19. desember. Pawan Gupta segist sekur.

29. desember. Konan deyr.

3. janúar 2013. Lögreglan leggur fram kæru á hendur fullorðnu karlmönnunum fimm fyrir nauðgun, morð, mannrán, spilla sönnunargögnum og tilraun til að myrða vin konunnar. Mukesh Singh, Vinay Sharma, Akshay Thakur og Pawan Gupta neita allir sök. Samkvæmt þeim eru þeir saklausir (líka Pawan Gupta sem áður hafði játað á sig glæpinn).

Nú hefði heimsbyggðin öll átt að hætta að tala um þetta mál í virðingarskyni við þá sem höfðu setið saklausir í fangelsi í rúman hálfan mánuð, ákærðir fyrir hræðilegan glæp. Við vitum jú að menn eru saklausir uns sekt er sönnuð. Og sekt er aldrei sönnuð nema menn játi eða séu dæmdir sekir af til þess gerðum dómara.

Hér er því um að ræða menn sem sitja saklausir í fangelsi, bornir þungum sökum. Eftirleiðis verður því fjallað um þá á þeim nótum.

10. janúar. Lögmaður saklausu mannanna segir að fólkið sem varð fyrir árásinni hafi sjálfu verið að kenna hvernig fór, og að hann hafi aldrei heyrt um nauðgunarmál þar sem sómakærar konur komi við sögu. Vinur konunnar hafi þaraðauki átt að koma henni til hjálpar og þetta sé allt alfarið honum að kenna.

Febrúar. Réttarhöld hefjast yfir sakleysingjunum.

11. mars 2013. Ram Singh finnst hengdur í klefa sínum. Ekki hefur verið úr því skorið hvort hann, þessi saklausi maður, fyrirfór sér vegna þess að hann var sakaður um glæp sem hann framdi ekki eða hvort fangaverðir myrtu hann saklausan. Hann var aðeins 34 ára að aldri, blessuð sé minning hans.

6. ágúst. Réttarhöldin standa enn yfir og tekist er á um sekt eða sýknu sakborninganna. Mukesh Singh segist fyrir rétti vera blásaklaus af glæpnum því hann hafi bara keyrt bílinn en ekki nauðgað stelpunni. Hann segir reyndar að Ram Singh (sem dó saklaus í fangelsi), Akshay, Pawan Gupta, Vinay Sharma og unglingurinn hafi verið í bílnum, en það er auðvitað bara bull, enginn þeirra var í bílnum (eins og þeir hafa margsannað í réttarhöldunum) og þeir eru allir saklausir. Þó loga enn netheimar um allan heim þar sem þeir eru kallaðir öllum illum nöfnum.

31. ágúst. Unglingadómstóll dæmir sautján ára unglinginn sekan. Hann fær þriggja ára fangelsisdóm að frádregnum átta mánuðum sem hann hefur þegar setið inni. Hann var talinn hafa gengið harðast fram gegn konunni og nú er semsagt komið í ljós — með dómi — að hann er sekur. Helvítið á honum.

10. september. Mukesh Singh, Vinay Sharma, Akshay Thakur og Pawan Gupta fundnir sekir um nauðgun og morð (og sitthvað fleira) eftir átta mánaða réttarhöld. Sönnunargögn voru m.a. DNA og vitnisburður Mukesh auk þess sem vinur konunnar bar kennsl á þá. Þeir voru allir dæmdir til dauða. Jafnframt var Ram Singh fundinn sekur en ekki dæmdur til dauða því hann var þegar dauður.

Dómur hefur fallið, allir karlmennirnir sem voru ásakaðir um að hafa nauðgað og misþyrmt konunni hafa verið fundnir sekir og eru því djöfuls nauðgarar og ógeð.

En ekki fyrr.

Frá því þeir voru handteknir í desember og fram í september voru þeir saklausir. Blásaklausir englar sem mátti ekki orði á halla. En um leið og dómarinn sagði 'sekir', þá bara búmm, urðu þeir sekari en fjandinn.

Það finnst það kannski einhverjum skrítið.


Efnisorð: