sunnudagur, janúar 27, 2008

Að leysa lífsgátur eða grilla og græða

Í sjónvarpsþætti* setti besti vinur aðal, sem einnig gengur undir nafninu Hannes Hólmsteinn, fram eftirfarandi skilgreiningu á Sjálfstæðismönnum:

„Sjálfstæðismenn eru mjög foringjahollir og það er dálítill munur kannski ef maður tekur þetta svona... Sjálfstæðisflokkinn annars vegar og vinstri flokkana hins vegar þá er... í Sjálfstæðisflokknum er eiginlega fólk sem að hugsar ekkert mikið um pólitík og er frekar ópólitískt.
Það hljómar dálítið einkennilega kannski en... og ég á kannski ekki að segja það svona, en til einföldunar má segja að Sjálfstæðismenn eru menn sem vilja græða á daginn og grilla á kvöldin.
Vinstri menn eru menn, sem halda að með masi og fundahöldum þá sé... og sko ljóðalestri, þá sé hægt að leysa einhverjar lífsgátur. Þarna er dálítill munur. Þannig að vinstri menn eru miklu pólitískari heldur en hægri menn. Þess vegna eru þeir ekki eins foringjahollir.
Hægri mennirnir, þeir eru bara að reka sín fyrirtæki, þeir vilja leggja á brattann, þeir vilja bæta kjör sín og sinna, þannig að þeim finnst hérna... gott að hafa mann sem sér um pólitíkina fyrir þá og Davíð var slíkur maður.“

Þetta hefði þótt kvikindislegt ef einhver okkar afturhaldskommatittanna hefði sagt þetta. Sjálf er ég þó ekki í vafa í hvorum hópnum ég vildi vera, þeim sem grillar og græðir eða þeim sem heldur að hægt sé að leysa lífsgátur (án þess þó að ég haldi að það sé það sem sameinar vinstrimenn, frekar myndi ég segja að það væri fólk sem hefði áhuga á að öllum í samfélaginu farnist sem best, en kannski er það gáta lífsins í hugum HHG hvernig hægt sé að langa til þess).

--
*Einhver ágæt kona [Lára Hanna] skrifaði niður eftir Hannesi en ég stel hiklaust af bloggi hennar.

Viðbót, skrifuð í lok október 2008: Í fyrra myndbandinu í þessari færslu Láru Hönnu má sjá brot úr viðtalinu við HHG.

Efnisorð:

laugardagur, janúar 26, 2008

Verðlaunasætið

Þó mér lítist ekki á fleiri stólaskipti á þessu kjörtímabili þá vil ég ekki að þessi borgarstjórn verði langlíf.* Ég vil ekki mislæg gatnamót á Miklubraut/Kringlumýrarbraut en þó hef ég enn sterkari skoðun á flugvellinum: Hann á að fara burt og ekki bruðla með peninga í að byggja nýjan heldur flytja innanlandsflugið til Keflavíkur.

Það er auðvitað fáránlegt að Ólafur F. Magnússon sé orðinn borgarstjóri** enda þótt við höfum setið uppi með Halldór Ásgrímsson sem forsætisráðherra eftir svipaða samninga. Halldór var líka nánast fylgislaus en hann fékk að verða forsætisráðherra til að Sjálfstæðisflokkurinn gæti myndað ríkisstjórn. Og þó ég muni ekki hvort einhver sagði það orðrétt en þá virtist ríkja sú stemning að Halldór ætti þetta skilið eftir langan feril á þingi, svipað og Vihjálmur Þ. Vilhjálmsson sagði um Ólaf, að hann langaði auðvitað að spreyta sig á þessu embætti. Venjulegum kjósanda sundlar þegar ráðamenn tala um æðstu embætti sem þau séu eitthvað sem menn eigi að fá að prófa því það sé svo spennandi.

En talandi um Framsóknarflokkinn, þá er það eina góða í þessu öllu saman að nú er Framsóknarflokkurinn hvorki við völd í höfuðborginni né í ríkisstjórn, og man ég ekki eftir öðru eins. Megi þetta ástand vara sem lengst og helvítis Framsóknarflokkurinn þurrkast út.

--
*Ég fór ekki á pallana til að mótmæla nýja meirihlutanum en hefði gjarnan viljað vera þar. Helvíti skítt samt að öll umræðan snúist um skrílslæti og að þar hafi eingöngu menntaskólanemar og ungliðar stjórnmálaflokkanna verið að verki. Þau höfðu kannski hæst en ég sá nú ýmis andlit þarna sem flokkast undir hvorugt.

** Það er ekki skrítið að fólk velti fyrir sér heilsufari Ólafs uppá það að gera hvort hann þurfi varamann – sem hann hefur ekki – en að gefa í skyn að hann sé geðveikur og að það sé fyndið eða niðurlægjandi eru verulega ósmekklegar dylgjur og fór t.d. Spaugstofan langt yfir strikið í þættinum í kvöld.

Efnisorð:

laugardagur, janúar 19, 2008

Vildum við verða eins og strákarnir?

Mega konur:

— drekka eins og karlmenn
— sofa hjá mörgum eins og strákarnir
— keyra stóra bíla
— horfa á fótbolta og drekka bjór
— velja sér nám og starf sem miðar að því að græða peninga, sama á hvers kostnað það er: annarra kvenna, umhverfisins, samfélagsins
— sleppa því að heimsækja ættingja á spítala eða elliheimili
— sleppa því að taka þátt í að sinna öldruðum ættingjum sem þurfa aðstoð allan sólarhringinn þar til þeir komast á stofnanir
— sleppa því að baka fyrir jólin, taka ekki þátt í að skipuleggja stórviðburði í fjölskyldunni, hjálpa ekki til við uppvaskið eftir veislur*

Hvar liggja mörk þess hvenær konur eru að ganga gegn viðteknum venjum (sem er þá plús fyrir kvennabaráttuna) og þess að þær eru farnar að herma eftir karlmönnum og apa upp eftir þeim ósiðina? Til hvers var kvennabaráttan? Til þess að konur gætu gert allt sem karlmenn gera og mættu nýta alla möguleika til fulls eða finnst okkur að einhverstaðar séu mörkin og þau liggi þar sem hegðun kvenna er farin að líkjast þeirri hegðun karla sem okkur hefur þótt gagnrýnisverðust hingað til: axla ekki ábyrgð innan fjölskyldu, lítil virðing borin fyrir samfélagi, heimtufrekja og græðgi á tíma og líkama annarra. Hvernig geta konur farið úr fari heimavinnandi húsmóðurinnar ef hún má ekki fara að vinna störf sem körlum voru áður ætluð og afla sér launa innan kerfis sem karlar bjuggu til? Konur hafa sannarlega bent á að það þurfi að breyta leikreglunum, en þar til þurfum við líklega að spila leikinn en þó vonandi á okkar forsendum.

Kynlífsbylting sjöunda áratugarins aflétti ýmsum hömlum og var bráðnauðsynleg. Þó eru margar konur enn að sleikja sárin eftir að hafa gengið lengra en samfélaginu þótti hæfa og lét bitna á einstökum konum. Enn í dag eru konur ásakaðar um ósæmilega hegðun í kynferðismálum og kannski þarf samfélagið að breytast í þá átt að samþykkja hvaða hegðun sem er en kannski hefur hegðun karla (sem hefur einkennst af því að sofa hjá öllum konum sem þeir hitta án nokkurs tillits til hverjar þær eru eða eða hvaða væntingar þær hafa til lífsins; með öðrum orðum án þess að bera fyrir þeim virðingu) í kynferðismálum ekki verið til neinnar fyrirmyndar og brýna þyrfti fyrir bæði stelpum og strákum að það sé ekki farsæl leið til að byggja upp sjálfsímynd og sjálfsvirðingu.

Drykkja kvenna er svo enn annað mál. Að sjálfsögðu mega konur drekka eins og þær vilja. Alkóhólismi gerir þó ekki greinarmun á fólki og ýmiskonar óhöpp, ógæfa og glæpir eru líklegri til að verða á vegi þeirra sem stunda mikla drykkju (ölvunarakstur er t.d. afar sjaldan stundaður af ódrukknu fólki).

En viljum við þá áfram tvískipt samfélag? Að karlmenn aki stórum jeppum og séu forstjórar sem drekki bjór meðan þeir horfa á fótboltann og synir þeirra detti svakalega íðað um helgar og ríði öllu lauslegu en stelpur verjist ágangi þeirra stóreygar sötrandi sódavatn meðan mæður þeirra heimavinnandi húsmæðurnar með stífpressaða stórisana skutlist í saumaklúbb á sparneytna bílnum? Ég vil það auðvitað ekki. En ég vil áfram halda áfram að horfa gagnrýnum augum á hvaða ósiði konur apa upp eftir karlmönnum og hvar afturámóti við getum staðið þeim jafnfætis án þess að bera kinnroða vegna þess hvernig við komumst þangað. Engri konu vil ég banna að hegða sér eins og henni sýnist. En stundum sýnist mér að konur hegði sér eins og körlum hentar best og hef áhyggjur af að þær - og við allar - sitji eftir með sárt ennið.

Kvennabaráttan átti að koma okkur öllum til góða, það er ekki ásættanlegt að fórna einstaklingum. Þessvegna held ég áfram að hafa áhyggjur af kófdrukknum unglingsstúlkum sem halda að strákarnir líti á sig sem jafningja þegar þær sofa hjá heilu partýi á einu kvöldi.

___
* Listinn hér að ofan er ekki listi yfir hegðun sem ég fordæmi. Sumt af þessu finnst mér sjálfsagt. Annað hef ég gert eða geri en set þó spurningarmerki við hversu jákvætt það sé fyrir kvennabaráttuna í heild.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, janúar 08, 2008

Ekið framhjá slösuðum manni

Fyrir tveimur árum síðan var ég að aka heim til mín um miðja nótt. Þar sem ég beygði inn eina götuna sá ég mann liggjandi á grúfu á gangstéttinni. Ég sá hann reyna að rísa upp en hlunkast aftur niður. Ég sá að hann var blóðugur í framan. Ég ók áfram nokkra metra en stoppaði svo því þeirri hugsun laust niður í hausinn á mér að mér yrði ekki rótt ef ég læsi um það daginn eftir að maður hefði dáið úr kulda eða blóðmissi úti á götu í hverfinu mínu, vitandi að ég hefði getað komið honum til bjargar. Svo að ég fór útúr bílnum og spurði hann hvort ég gæti aðstoðað hann. Hann var þá að skreiðast á fætur og mér varð ljóst að hann var kófdrukkinn og hafði dottið í hálkunni. Nújæja, hann gat verið jafn slasaður fyrir því.

Ég horfði á blóðið sem lak úr gatinu á enninu á honum og bauðst til að hringja á löggu eða sjúkrabíl en hann mátti ekki heyra á það minnst. Ég reyndi að telja honum hughvarf og stakk mér inní bíl eftir símanum mínum. Ég vildi allsekki fá manninn inní bíl til mín, ekki vegna blóðsins heldur vegna þess að mér er ekki rótt að vera ein í lokuðu rými með ókunnugum og dauðadrukknum karlmanni. Mér tókst að hringja á lögguna og segja frá ástandi mannsins og bað um að hann yrði sóttur, ég skyldi bíða með honum eftir þeim, á meðan stóð hinn slasaði reikulum fótum fyrir aftan bílinn og virtist ekki vera meðvitaður um neitt í kringum sig.

Þegar ég kom út og sagði honum að hann yrði brátt sóttur varð hann reiður og vildi það allsekki, sagðist ætla að labba heim til sín. Hann sagði götunafnið og benti í leiðinni þangað – en í þveröfuga átt. Ég reyndi að gera honum það ljóst og að hann myndi líklega ekki rata þangað í þessu ástandi, allavega ekki ef hann ætlaði þessa leið. Eftir því sem ég tönnlaðist meir á götuheitinu sem hann sagðist búa á var eins og rynni upp fyrir honum ljós: Þarna stóð kvenmaður fyrir framan hann og vildi vita hvar hann ætti heima og hvernig væri hægt að komast þangað. Hann gerði sig allan tilkippilegan í framan og sagði eitthvað (sem ég man ekki hvað var) um að við færum tvö saman heim til hans.

Á þessum tímapunkti verður að viðurkennast að runnu einnig á mig tvær grímur, hér var ég í gríðarlegu hjálparstarfi að bjarga mannslífi en varð að horfast í augu við að kynferði mitt var aðalmálið; að fyrir karlmanninum sem hefði átt að vera mér þakklátur fyrir hjálpsemina var ég bara stykki sem stingandi sé í. Og hann tók gleði sína því kvöldinu var bjargað. Mikið óskaplega var þetta hjartnæm stund.

Þegar ég hafði með samanbitnum tönnum gert honum ljóst að ég væri ekki að fara neitt en hinsvegar væri lögreglan á leiðinni að sækja hann, sá hann sitt óvænna og æpti að hann ætlaði sko ekki að bíða eftir því heldur stökk af stað – í ranga átt.

Mikið rosalega sem mér var sama þótt hann yrði úti á leiðinni. Og alveg mun ég láta á móti mér að stoppa þegar ég sé einhverja fyllibyttuna með nefið frosið fast við gangstétt, ég tekst þá bara á við samviskubitið síðar.

Efnisorð: ,