þriðjudagur, apríl 30, 2013

Kúguð til að ganga með barn fyrir aðra

Þessi frétt lét ekki mikið yfir sér í blaðinu í dag, og ég á varla von á að talsmenn staðgöngumæðrunar haldi henni mikið á lofti.

„Bandarísk kona í Bretlandi hefur verið dæmd í fimm ára fangelsi fyrir að hafa neytt fjórtán ára dóttur sína til að verða þungaða. Barnið ætlaði konan að ala upp sjálf.

Konan notaði gjafasæði og þvingaði dóttur sína til að ganga með barn fyrir sig. Konan átti þrjú ættleidd börn en hafði verið neitað um að ættleiða það fjórða. Stúlkan sagði fyrir rétti að hún hefði ekki viljað ganga með barn en hefði vonast til þess að móðir hennar myndi elska hana meira ef hún hlýddi. Stúlkan varð ófrísk fljótlega en missti fóstur. Móðirin gerði í kjölfarið sex tilraunir til viðbótar áður en stúlkan varð aftur þunguð og eignaðist son árið 2011, þegar hún var sautján ára.

Ljósmæður á spítalanum þar sem drengurinn fæddist fylltust hins vegar grunsemdum þegar stúlkan vildi gefa syni sínum brjóst en móðir hennar bannaði það vegna þess að hún vildi ekki að hún tengdist barninu. Spítalinn tilkynnti mál mæðgnanna til barnaverndar. Stúlkan, sonur hennar og yngri systkini hennar tvö voru send í fóstur.“

Þetta mál er auðvitað ekki dæmigert fyrir staðgöngumæðrun, enda var ekki farið í gegnum 'eðlilegt' ferli varðandi staðgöngumæðrun (sem er leyfð í Bretlandi). Dóttirin þar að auki undir lögaldri og annað í þeim dúr. Konan sjálf er auðvitað snarklikkuð.

En.

Ég og fleiri sem erum andvíg því að staðgöngumæðrun verði leyfð hér á landi höfum bent á að það sé mjög erfitt að standa í þeim sporum að vera beðin um að ganga með barn fyrir ættingja eða vinkonu sem getur ekki eignast börn með eðlilegum hætti. Sama á við um stelpugreyið í fréttinni.
„Stúlkan sagði fyrir rétti að hún hefði ekki viljað ganga með barn en hefði vonast til þess að móðir hennar myndi elska hana meira ef hún hlýddi.“
Hvort það á að skrifa þetta á ást hennar á móður sinni, meðvirkni eða að hún hafi verið svo tilfinningalega svelt að hún hafi viljað gera hvað sem er til að móðir hennar elskaði hana meira, er erfitt að segja. En sannarlega notfærði móðurómyndin sér það.

Það er ákkúrat þetta, tilfinningalega kúgunin, sem þetta mál á sameiginlegt með því sem hef varað við* verði staðgöngumæðrun leyfð: Þrýstingurinn að gera systur sinni eða vinkonu þennan greiða gæti orðið ansi mikill og erfitt að standa gegn honum. Það á jafnt við um þær sem eru orðnar sjálfráða og unglinginn í dæminu hér að ofan.

Meira segja í þingsályktunartillögunni sem lögð var fram hér um árið var tekið fram að erfitt yrði að koma í veg fyrir þetta, jafnvel þegar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni: „Þó er þessi leið ekki gallalaus enda mögulegt að úrræðið leiði til óeðlilegs þrýstings á ættingja konu eða pars sem ekki getur eignast barn á náttúrulegan hátt.“

Fólk sem er fylgjandi staðgöngumæðrun mun auðvitað bara líta á þetta hræðilega mál í Bretlandi sem alls óskylt mál, og skella skollaeyrum við aðvörunum.


___
* Ég hef talsvert skrifað um staðgöngumæðrun, hér ræddi ég m.a. þrýsting á ættingja og vinkonur, og hér er annar pistill um þingsályktunartillöguna.

Efnisorð: , ,

sunnudagur, apríl 28, 2013

Úrslit kosninga apríl 2013

Fylgi Sjálfstæðisflokks og Framsóknar kom ekki á óvart enda höfðu skoðanakannanir fyrir löngu sagt fyrir um það. Þó það sé ekki öruggt þá er líklegast að þessir flokkar myndi ríkisstjórn. Mér er fyrirmunað að skilja þá Íslendinga sem með atkvæði sínu studdu slíka ríkisstjórn aftur til valda.

Konum fækkar (mikil eftirsjá er að Álfheiði Ingadóttur og Ólínu Þorvarðardóttur) en verst af öllu er þó að næsta kjörtímabil munu andfeministar hafa aukið vægi á alþingi. Brynjar Níelsson og helvítis Píratarnir verða sígjammandi með sína kvenfyrirlitningu, og barist verður fyrir því að engir karlmenn verði dæmdir fyrir nauðgun og að konur verði settar á söluskrá.

Oj barasta og svei.


Efnisorð: , , , ,

föstudagur, apríl 26, 2013

Landspítali, fyrir og eftir

Ekki alls fyrir löngu upplýsti Hulda Gunnlaugsdóttir fv. forstjóri Landspítalans (sem nú er farið að kalla LSH, eins og það sé einhver framför) að á tímabili eftir bankahrunið haustið 2008 hafi spítalinn farið í greiðsluþrot, hvorki hafi verið til peningar fyrir launum starfsfólks né lyfjum.

En hvað gerðist eftir að þessar fréttir komu fram, að Landspítalinn hafi verið nánast óstarfhæfur eftir bankahrunið? Ekkert, bara ekki neitt. Það er eins og enginn hafi áttað sig á hvað gerðist, eða bara ekki hlustað. Ekkert hefur dregið úr háværum kvörtunum — almennings jafnt sem stjórnmálamanna í stjórnarandstöðu. Æpt er að heilbrigðiskerfið sé fjársvelt og vonda vonda ríkisstjórnin eigi að skammast sín — enginn virðist hafa séð heildarmynd þess sem gerðist á undan hruni, við hrun og eftir hrun.

Sjálfstæðisflokkurinn, með dyggri aðstoð Framsóknar hafði fjársvelt Landspítalann rétt eins og allt heilbrigðiskerfið árum saman. Þessu hefur verið lýst á þann veg að
„fjarað hefði undan kerfinu frá 1995, en það hefði vaxið að gæðum fram að því. En steininn hafi tekið úr árið 2003 „þegar Alþingi, af sinni vel þekktu visku ákvað, þegar fjáraukalög voru afgreidd, að fylla ekki um eins milljarðs gat í heimildum til Landspítalans. Síðan var farið út í að skera niður á Landspítalanum og svo framvegis. Í næstum tuttugu ár höfum við ekkert gert til að bæta tækjabúnað Landspítalans.“
Þetta var liður í einkavæðingarferlinu; eftir því sem almenningur fengi minni þjónustu frá hinu ríkisrekna kerfi yrði það hlynntara einkarekstri. Deildum var lokað á sumrin, fólk lá á göngum spítala, ný tæki voru ekki keypt.

Sú ríkisstjórn sem er að ljúka störfum þessa dagana þurfti að draga úr öllum ríkisútgjöldum vegna skuldastöðu ríkissjóðs (les: fall Seðlabankans undir stjórn Davíðs Oddssonar). Þarafleiðandi þurfti að draga úr heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og beina henni til Landspítalans. Í ofanálag fékk spítalinn sannarlega ekki allt það fjármagn sem hann þurfti en hlutfallslega þó mun meira en fyrir hrun. Þannig virka velferðarstjórnir í kreppu: veita meiri peninga hlutfallslega en áður, en hafa of litlum peningum úr að spila til að ná að gera stöðuna frábæra, enda of mikið gengið á áður.

En þó að tækin séu gömul og léleg og álag á starfsfólk gríðarlegt (niðurskurðurinn bitnar mest á starfsfólki) þá er Landspítalinn ennþá í Fossvogi og við Hringbraut og í fullum rekstri. Það er enn verið að bjarga mannslífum, börn eru enn að fæðast og fólk fær enn frábæra hjúkrun og lyf sem lina þjáningar og auka lífsgæði. Spítalinn, fjársveltur sem hann hefur verið árum saman (frá því á tímum góðæris) er enn í dag góður spítali og heilbrigðiskerfi okkar er enn með því besta sem gerist meðal þjóða.

Enginn þakkar ríkistjórnnni fyrir að taka gjaldþrota Landspítala og reka hann án þess að hiksta yrði vart en spítalinn er augljóslega fölur á vangann og yfir því er kvartað linnulaust. Þó berast af og til sögur af því að fólk fái hreint ágæta þjónustu, sbr. ágætan pistil Ármanns Jakobssonar. Skömmu eftir hans reynslu af heilbrigðiskerfinu þurfti ég að leita á náðir heilsugæslustöðvarinnar í hverfinu mínu. Fyrst hringdi ég og talaði við hjúkrunafræðing, við ræddum ástand og horfur og hún gaf sér góðan tíma að heyra lýsingar mínar á því sem hrjáði mig. Ákveðið var líta á bágtið síðdegis sama dag. Þá skoðaði annar hjúkrunarfræðingur mig í krók og kring og fékk lækni til að gera hið sama. Í þetta var tekinn drjúgur tími og viðmót þeirra var hið jákvæðasta. Fyrir þetta greiddi ég heilar 1000 krónur. Það er því ekki ofsagt að tekist hafi að halda hækkunum á komugjöldum í lágmarki (frítt fyrir börn), á sama tíma hefur bíómiðinn hækkað uppí 1300 kall.

Nú hefur rofað svo til í ríkisfjármálum, að enginn niðurskurður verður í heilbrigðisþjónustunni á þessu ári (þeim sársaukafulla tíma er semsagt lokið) og nær milljarður fer í tækjakaup á Landspítala. Tækjakaup sem góðærisstjórn frjálshyggjunnar dró við sig með þekktum afleiðingum.

Ég sagði að enginn þakkaði ríkisstjórninni. Það er rangt. Ég er þessari ríkisstjórn þakklát fyrir frammistöðuna, og þó að alltaf megi benda á einhver atriði sem ég og fleiri hefðum viljað sjá fara öðruvísi, veit ég að enginn hefði getað betur.

Ég er auðvitað sérstaklega ánægð með framfarir í kvenfrelsismálum. Í dag var fyrsti kvenforsætisráðherrann okkar kvödd með rauðum rósum eftir langan og farsælan feril. Við Jóhönnu Sigurðardóttur og ríkisstjórn hennar segi ég: takk, þið stóðuð ykkur vel!

Efnisorð: , , , ,

fimmtudagur, apríl 25, 2013

Gott fordæmi virkar en lagasetning hefur úrslitaáhrif

Fyrir ekki svo mörgum árum þótti sjálfsagt að reykt væri allstaðar. Reykingamenn fengu að reykja á vinnustöðum, í flugvélum og hvar sem þeir komu. Væru þeir gestir á heimili þar sem ekki var reykt, tóku þeir samt sem áður upp sígarettuna og púuðu sem mest þeir máttu, nema þeim væri beinlínis bannað það. Ekki nennti allt reyklaust fólk að taka þann slag. Það var ekki fyrr en sett voru lög um bann við reykingum á vinnustöðum sem fór að renna upp ljós fyrir reykingamönnum og þeir fóru flestir að reyna að muna eftir að biðja um leyfi til að reykja. Fram að því hafði áróður gegn reykingum náð til sumra en allsekki allra þó dropinn hafi vissulega holað steininn. En það þurfti að setja reykingamönnum skorður með lögum svo þeir sæju að sér.

Kvennaframboð níunda áratugarins hristu verulega uppí rótgrónum stjórnmálaflokkum og þar urðu menn að hugsa sinn gang ef þeir áttu ekki að missa atkvæði kvenna til Kvennalistans. Konur áttu eftir það fleiri sæti á framboðslistum allra flokka. Þær voru þó sjaldnast í efstu sætum sem leiddi til þess að þær voru lengi enn fámennar á þingi. Vinstriflokkarnir Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur tóku upp kynjakvóta til að tryggja að konur ættu greiðari aðgang á þing og í sveitastjórnir, síðar setti Samfylkingin sér þá reglu að nota fléttulista í prófkjörum en uppstillingarnefnd Vinstrihreyfinginnar-græns framboðs raðaði á lista framanaf en nú hafa prófkjör tekið við að mestu og kynjajafnvægið batnaði enn við það. Fordæmi vinstriflokkanna hefur fjölgað konum í þeirra röðum á þingi og sett pressu á hina flokkana. Þá hefur lagasetning um hlutfall kvenna í stjórnum hlutafélaga verið enn eitt lóð á vogarskálarnar. Nú væri hver sá flokkur sem ekki sýndi fram á nokkurnveginn jafn hlutfall karla og kvenna á framboðslistum og að konurnar ættu ekki (mikið) síðri möguleika á þingsæti, talinn argasta afturhald* og mætti búast við að konur myndu í stórum stíl sniðganga framboðið þegar í kjörklefana kemur.

Það er því ekki til marks um tilgangsleysi kynjakvóta** og fléttulista eða gagnsleysi lagasetninga að Píratar og Sjálfstæðismenn geta — þrátt fyrir að hafna kynjakvótum í orði kveðnu — hreykt sér af jöfnu hlutfall kvenna og karla á framboðslistum,*** heldur niðurstaða árangurs þeirra sem gengu gegn viðteknum venjum og sátu undir ákúrum fyrir vitleysisgang og frekju.

Nú er það orðin viðtekin venja að konur komist ofarlega á framboðslista, áður var það undantekning sem átti að duga öllum konum.

Eitt síðasta virki reykingamanna, veitingastaðir, voru illþolanlegir reyklausu fólki allt þar til sett voru lög um að þar væri alfarið bannað að reykja. Þau voru sett því veitingamenn höfðu þverskallast við að fylgja reglum um reyklaus svæði. Lagasetningin hafði úrslitaáhrif, nú er hvergi reykt. Áður en langt um líður mun þykja fáránlegt að nokkrum manni hafi dottið í hug að reykja á veitingastöðum. Ójafnt hlutfall kynja á þingi vekur vonandi í nálægri framtíð álíka furðu.

_____
* Talandi um argasta afturhald. Hægri grænir eru með karla í efsta sæti í 5 kjördæmum en konu í einu kjördæmi. Í NA-kjördæmi eru karlar í fyrstu 17 sætunum, þá kemur ein kona er í 18. sæti og svo karlar í 19.-20. sæti. Í Suðvesturkjördæmi eru karlar í fyrstu 20 sætum, svo ein kona í 21.sæti og karlar í 22.-26. sæti.

** Knúzið hefur spurt flokka um afstöðu þeirra til jafnréttismála og femínisma. Ein spurningin lýtur að kynjakvótum í stjórnum fyrirtækja. Þar eru það bara Sjálfstæðisflokkur, Píratar og Flokkur heimilanna sem hafna kynjakvótum með öllu. Píratar koma með ítarleg svör þó að enn sé jafnfréttisstefna flokksins ekki til — en auðvitað vilja þeir óheft aðgengi að klámi. Aðrir flokkar svara að mestu leyti mjög skikkanlega, Húmanistar vilja t.d. að kynferðisbrot fyrnist ekki (því miður eru þeir hlynntir sáttaleið milli þolenda og gerenda, en annars var svar þeirra alveg 80% mjög fínt) og Björt framtíð fékk plús í kladdann fyrir að vera hlynnt sænsku leiðinni. Aðrir flokkar svöruðu einnig vel (óþarft að telja alla romsuna upp) en Lýðræðisvaktin, Landsbyggðarflokkurinn og Vinstri græn fengu fullt hús stiga.

*** Fléttulistar tryggja ekki að konur komist á þing, því að ef aðeins efsti maður á lista kemst inn og efsti maðurinn er karl þá er til lítils að vera með konu í öðru sæti. Kjördæmin eru sex og alls eru 45 karlar í fyrsta sæti framboðanna en 27 konur. Píratar eru einir með jafnt hlutfall karla og kvenna í efsta sæti. Framsókn, Sjálfstæðisflokkur, Björt framtíð, Samfylking, Regnboginn, Flokkur heimilanna og Lýðræðisvaktin, tefla fram 4 körlum og 2 konum í efsta sæti. Dögun og Vinstri græn eru einu flokkarnir sem hafa fleiri konur en karla í efsta sæti á framboðslistum: 4 konur og 2 karla hvor. Athygli vekur að Landsbyggðarflokkurinn sem býður bara fram í einu kjördæmi er með þrjár konur í þremur efstu sætunum. Ég myndi kjósa þær ef ég gæti, bara útá það.

Efnisorð: , ,

laugardagur, apríl 20, 2013

Öskjuhlíðin, III

Mér þykir óþolandi að vera sammála Sjálfstæðismönnum en ég er algjörlega á bandi Gísla Marteins Baldurssonar varðandi „grisjun“ skógarins í Öskjuhlíð vegna Reykjavíkurflugvallar.

Nú hafa Ögmundur Jónasson og Jón Gnarr skrifað undir samkomulag um umfangsmikla trjáeyðingu. Þetta gera þeir þrátt fyrir að Umhverfis- og samgöngunefnd Reykjavíkurborgar hafi hafnað því fyrir einu og hálfu ári og Skógræktarfélag Reykjavíkur leggist alfarið gegn umfangsmikilli trjáeyðingu í Öskjuhlíð.* En það virðist engu skipta.

Djöfuls helvíti bara.

___
* Viðbót: Lesa má umsögn Skógræktarfélagsins í athugasemd Einars Gunnarssonar við frétt um viðbragð félagsins við „grisjuninni“.
Önnur viðbót: leiðari Sjálfstæðismannsins Ólafs Þ. Stephensen, sem spyr þessara spurninga: „Hvernig getur það talizt vernd útivistarsvæðis að fella einn elzta og grózkumesta skóginn í borginni? Finnst borgarbúum upp til hópa í lagi að ganga á náttúruna og möguleika þeirra til útivistar í þágu innanlandsflugsins? Það er sömuleiðis tilefni til að setja spurningarmerki við að fulltrúar flokksins sem kennir sig við umhverfisvernd, Vinstri grænna, hafi séð ástæðu til þess að standa að þessum samþykktum, bæði hjá ríki og borg. Er þetta umhverfisverndarpólitík?“

Efnisorð: , ,

föstudagur, apríl 19, 2013

Sporin hræða ekki nærri nógu marga

Alveg þar til fyrir nokkrum dögum virtust kosningaloforð Framsóknar — þessi sem eru miðuð við þá sem spenntu bogann mest í góðærinu, þá sem búa í stærstu húsunum — ætla að fleyta Sigmundi Davíð beint í forsætisráðherrastólinn.

Sjónvarpsviðtalið við Bjarna Ben þar sem hann sýndi á sér nýja hlið (og þurfti ekkert að svara hvernig reka ætti þjóðarbúið með lægri sköttum) er talið hafa markað þáttaskil í kosningabaráttunni og vegna þess hafi Sjálfstæðisflokkurinn rétt úr kútnum. En það munar líka eflaust um Fréttablaðið/Vísir sem er í harðri kosningabaráttu fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þar hefur Framsókn verið undir sérstakri smásjá og lesendur verið fræddir vandlega um heimskuna í kosningaloforðum Sigmundar Davíðs. Ekki veitti af, en svo varð bara ansi áberandi að afhjúpunin var ekki bara kjósenda vegna heldur til að 'færa fylgið heim í hús' aftur til Sjálfstæðisflokksins. Viðtalið við dóttur Bjarna Benediktssonar, sem var á forsíðu Vísis í gær, afhjúpaði svo afstöðu blaðins endanlega: Bjarni Ben er skemmtilegur og kósý gaur, kjósið hann.

Krúttbangsinn Bjarni vorkennir hátekjufólki óskaplega fyrir mikla lífskjaraskerðingu sem er afleiðing vondrar skattastefnu vinstristjórnarinnar. Skattalækkunarkosningaloforð Sjálfstæðismanna kemur sér einmitt best fyrir hátekjufólkið, kjörlendi Sjálfstæðismanna. Semsagt, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur fókusera á þá sem búa best og hafa bestu tekjurnar, það er ekkert nýtt við það fremur en annað hjá þessum flokkum.

Það má ekki milli sjá hvor flokkurinn hefur verri fortíð og spilltari flokksmenn, hvort sem þeim er flaggað fyrir þessar kosningar eða þeir fjármagna og stjórna bakvið tjöldin. Báðir flokkar hafa slíka virkjana- og álverssögu að baki að landið mun aldrei jafna sig — og efnahagsinnspýtingin margfræga reyndist heldur til skaða en hitt. En nú vilja þeir ólmir virkja meir, engu verður eirt komist þeir til valda.

Kjósendur nær og fjær virðast sömuleiðis vilja meira af því sama. Þeir virðast ætla að nota atkvæðin sín til að þakka fyrir frjálst framsal kvóta, sem lagði nánast heilu byggðirnar í auðn; húsnæðislánaverðbólguna (afleiðingar kosningaloforðs Framsóknar 2003), einkavinavæðingu bankanna, samþykktina við Íraksstríðið — kjósendur eru bara alveg sáttir við þetta! Þeir virðast líka sáttir við framgang þessara flokka síðastliðið kjörtímabil þar sem málþófi var beitt til að koma í veg fyrir nýja stjórnarskrá (sem þó Framsóknarflokkurinn hafði sett sem skilyrði fyrir að styðja ríkisstjórnina) og að forða því að LÍÚ missi spón úr sínum aski.

Nú benda kannanir semsagt til að fylgið sé að fara frá Framsókn yfir til Sjálfstæðisflokksins, en ekki er ljóst hvor flokkurinn hefur yfirhöndina. Þá er bara spurningin: hvort er verra, að Framsókn ráði öllu — líklega með aðstoð Sjálfstæðisflokks — eða Sjálfstæðisflokkur ráði öllu — pottþétt með aðstoð Framsóknarflokks? Svarið er bæði.

Efnisorð: , , , , ,

miðvikudagur, apríl 17, 2013

Vert að lesa

Undanfarið hef ég lesið afar margt sem ég er innilega ósammála, en jafnframt margt sem ég tek undir að mestu eða öllu leyti. Flest tengist lesefnið kosningum en ekki allt.

Dæmi um góða grein sem er allsendis ópólitísk (en hinsvegar gott innlegg í feminíska umræðu) er sú sem Sólveig Anna Bóasdóttir skrifaði um fyrirgefningu. Hún er guðfræðingur og skrifar hugvekjuna með biblíuna til hliðsjónar en kemst að þeirri niðurstöðu að fyrirgefning er ekki alltaf svarið.

Aðrar greinar sem eru um kosningarnar og ég mæli með að fólk lesi (eða áframsendi á fólk sem þegar hefur ekki lesið þær) eru eftirtaldar.

Grein Jóns Kalmans Stefánssonar þar sem hann spáir í hver sé lærdómur okkar af hruninu, sé tekið mið af fylgi Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks.

Pistill Einars Vilhjálmssonar spjótkastara (sem ekki hefur verið talinn „sérstakur vinstrimaður í pólitík“) þar sem hann ræðir skammdrægt minni kjósenda sem bitnar á VG.

Pistill Önnu Bentínu Hermansen þar sem hún ræðir hrunið, klappstýru útrásarvíkinganna, lærdóminn sem við ætluðum að draga af kreppunni, og loforðin sem stór hluti kjósenda virðist ætla að gleypa við.

Pistill Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur er samt allra bestur. Ef ég væri ekki svona hófstillt manneskja hefði ég hrópað húrra að loknum lestrinum.

Ég birti hann í heild.

„Íslenska þjóðin vill fullkomna heilbrigðisþjónustu fyrir alla óháð efnahag. Hún vill skóla þar sem allir geta fundið menntun við sitt hæfi endurgjaldslaust. Hún vill hlúa að börnum og að fólk fái að eldast með reisn. Hún vill anda að sér hreinu lofti þegar hún kemur út á morgnana og er stolt af einstæðri náttúru og vill njóta hennar sumar jafnt og vetur.

Í rauninni er þetta hjartalag íslensku þjóðarinnar talsvert róttækara en stefnuskrá flokkanna sem bjóða fram til Alþingis og þess vegna rembast úfinhærðir hugsjónamenn við að stofna smáflokka í von um að þessi góði hugur brjótist eins og á úr leysingum og hægt verði að stofna þetta sæluríki íslensku þjóðarinnar. En allt kemur fyrir ekki.

Íslenska þjóðin vill ekki greiða skatta. Og hún hefur samúð með öllum sem vilja ekki greiða skatta. Þess vegna þurfa sjúkir að greiða sífellt meiri gjöld á sjúkrahúsum, fyrir lyf og fyrir læknisheimsóknir. Og þess vegna eru sett á skólagjöld. Og þess vegna hímir fólk í biðröðum eftir matargjöfum af því bætur og lægstu laun hrökkva ekki fyrir nauðþurftum.
Þannig var það fyrir hrun – og þannig er það líka eftir hrun.

Eini munurinn er sá að reynt var síðustu fjögur árin að nota skattkerfið til að jafna lífskjörin í dýpstu efnahagslægð sem íslensk þjóð hefur upplifað eftir að hún fékk sjálfstæði. Þannig átti milli – og lágtekjufólk ekki að þurfa að reka samfélagið að stærstu leyti, án hjálpar fjármagnseigenda og hátekjufólks.

Þeirri skattpíningu efnafólks lofar Sjálfstæðisflokkurinn að aflétta. Og Framsóknarflokkurinn bætir um betur og lofar því að verja 300 milljörðum til að fella niður fimmtung af öllum skuldum fólks þótt útreikningar Seðlabankans sýni að meira en helmingur fjárins myndi lenda í vasa þeirra sem eiga 30 milljónir eða meira í hreina eign.

En þjóðin vill líka að fiskurinn í sjónum, vatnið og orkan í fossunum og iðrum jarðar, sé sameign okkar allra. Þeir sem noti þessi gæði eiga þess vegna að greiða fyrir það gjald til samfélagsins.

Þjóðin snerist samt gegn veiðigjaldi. Auðvitað vilja útgerðarmenn ekki borga skatt, hugsaði fólk. Það vill enginn. Það verða því ekki lagðir vegir fyrir þann pening, né heldur verða reknir fyrir hann skólar og peningarnir verða ekki nýttir í til að ýta undir frumkvöðlastarfsemi, rannsóknarstarf, listir og menningu. Þeir sem fengu gefins kvóta geta hinsvegar selt hann dýrum dómum og braskað fyrir arðinn eða lagt hann á bankareikning í útlöndum.

En hvað með hreina loftið, vatnið, fossana og orkuna í iðrum jarðar? Var ekki verið að gera skoðanakönnun, þar sem meirihluti þjóðarinnar vill alls ekki fleiri álver. Afhverju ætlar þjóðin þá að kjósa yfir sig flokka sem vilja halda áfram á braut, stóriðju, mengunar og eyðileggingar?

Af því að þjóðin ætlar að velja stjórnmálamennina sem vilja lækka skattana og fella niður veiðigjaldið. Þess vegna þarf að blása upp risastóra sápukúlu og hrinda af stað fölskum hagvexti, skapa þenslu, sem eykur verðbólgu og hækkar lánin. Í þessa jöfnu hendum við svo nokkrum fossum, fljótum og vötnum sem drepast fyrir augunum á okkur.

Og eftir nokkur ár þegar okkur langar í fossana og fljótin aftur,segja stjórnmálamennirnir: Ekki benda á mig, ég er farinn úr stjórnmálum fyrir löngu. Þið fenguð að velja, náttúruna eða peningana, og þið völduð peningana.

Og svo kemur kreppa.

Hvar eru þá peningarnir? spyr fólk. Og fær sama svarið og venjulega. Þeir eru hjá stórfyrirtækjunum sem vilja ekki greiða skatta til samfélagsins. Ef það á að breyta því, pakka þau bara saman og fara eitthvað annað.

Bíddu við, er þá bara allt svart?

Nei, við getum skrifað þessa sögu uppá nýtt en látið innganginn halda sér. Hann er svona:

Íslenska þjóðin vill fullkomna heilbrigðisþjónustu fyrir alla óháð efnahag. Hún vill skóla þar sem allir geta fundið menntun við sitt hæfi endurgjaldslaust. Hún vill hlúa að börnum og að fólk fái að eldast með reisn. Hun vill anda að sér hreinu lofti þegar hún kemur út á morgnana og er stolt af einstæðri náttúru og vill njóta hennar sumar jafnt og vetur.

Svo skulum við horfa í spegil og hugsa hverju við sjálf viljum fórna til að ná þessu markmiði og hverjir séu líklegir til að hjálpa okkur áleiðis.“

Ákkúrat og einmitt.

Efnisorð: , , , , , ,

mánudagur, apríl 15, 2013

Stefnur og skuldir

Nú stíga píratar fram og segjast vera jafnréttissinnar, það orð hefur mikið verið notað undanfarið af andfeministum sem segjast aðhyllast jafnrétti en hafna feminisma með öllu. Í því jafnrétti felst jafnrétti karla til að kaupa sér konu til kynlífsathafna, jafnrétti karla til að glápa á konur í klámi og jafnrétti karla til að hata feminista. Þá er ótalið mikið baráttumál sem er jafnrétti karla til að sitja í jafnréttisnefnd, sem hefur kynjahalla í þá áttina sem gerir karla brjálaða, ein allra nefnda.

Píratar segja að „kallað [hafi verið] eftir víðtækari stefnu í jafnréttismálum og umhverfismálum“ og hyggjast bregðast við því. Í fyrsta lagi var ekki kallað eftir stefnu, heldur bent á að flokkurinn hefur enga stefnu. Í öðru lagi er svolítið seint í rassinn gripið, því utankjörfundaratkvæðagreiðsla hófst fyrir rúmum mánuði. Fram til þessa hafa kjósendur því ekki getað tekið afstöðu til þessarar fínu (enn óséðu) stefnu. Og nú er spurt: hvað um kjósendur sem hafa þegar kosið utan kjörfundar? Þeir hafa ekki getað tekið afstöðu með eða á móti stefnu sem var ekki þá (og er ekki enn) til. Verður hún yfirleitt tilbúin fyrir kosningar? (Og verður tekið fram í jafnréttisstefnunni að karlar með sjálfsvirðingu þurfi ekki að þurrka af, það sé kvennaverk því að konur fá svo mikið útúr húsverkum?) Önnur spurning sem vaknar er sú hvort þeir andfeministar sem aðhyllst hafa Pírata verði ekki svekktir þegar alltíeinu á að fara að dúkka upp með eitthvað jafnréttisplagg?

Ekki veit ég frekar en aðrir hvort Píratar komast á þing, hverjir þeirra eða hvort þeir sitja eitt eða fleiri kjörtímabil. En má búast við að þeir afneiti öllu því sem þeir segja núna eftir nokkur ár, þegar þeir hafa breyst og þroskast ennþá meira? Eða verður áfram sama hentistefnan, bakkað með stór orð bara til að friða kjósendur?

En ég ætlaði reyndar ekki að skrifa meir um Pírata (bendi þó á snaggaralega úttekt Þórunnar Hrefnu á þeim), heldur halda áfram að skoða framboð. Í kjölfarið á ummælum Ásgerðar Jónu Flosadóttur um Amnesty verður Flokkur heimilanna fyrir valinu, já og nokkrir aðrir flokkar með svipaða stefnu (þá á ég ekki við um skoðanir á innflytjendum, þróunarhjálp eða mannréttindasamtökum; þar er ÁJF vonandi ein á báti). Það er víst best að játa strax, í nafni upplýstrar umræðu, að öll umfjöllun um Ásgerði Jónu og flokk hennar er samsæri úr herbúðum VG. Þessvegna bendi ég á ágæta úttekt Gísla Ásgeirssonar á starfsferli Ásgerðar Jónu, því mér var sagt að gera það á herráðsfundinum sem Álfheiður Ingadóttir stjórnaði.

Alveg frá því að Pétur Gunnlaugsson, efsti maður á lista Flokks heimilanna í suðvesturkjördæmi, hellti sér yfir Kristínu Ástgeirsdóttur á blaðamannafundi sem haldinn var þegar rannsóknarskýrsla alþingis var kynnt, hef ég haft skömm á honum. Maðurinn er fífl. Ég hef aldrei haft geð í mér að hlusta á Útvarp Sögu en mér skilst að álit mitt á manninum yxi ekki við hlustun. Með fólk sem þetta innanborðs á flokkurinn auðvitað aldrei séns á atkvæði mínu. En þó skárri frambjóðendur væru í öllum sætum þá líkar mér ekki yfirhöfuð við þá flokka sem berjast eingöngu fyrir skuldaniðurfellingu heimilanna.

Mér líst ekki á einsmálsflokka yfirleitt (eins og lesa mátti í þarsíðustu bloggfærslu minni), en heimtufrekja fólks sem reisti sér hurðarás um öxl og ætlast til að aðrir borgi skuldir þess nær ekki hljómgrunni á mínu heimili (sem er alveg hæfilega skuldsett). Án þess að ég hafi skoðað alla frambjóðendur allra skuldaraflokkanna þá sýnist mér þeir (og stuðningsmenn þeirra) yfirleitt búa í raðhúsum og einbýlishúsum, og ég bara get ekki vorkennt fólki fyrir að kaupa slíkt húsnæði, og þaraðauki allt á lánum. Það er þeirra skuldavandi, en ekki allra heimila. Að leigjendur og fólk sem skuldar lítið eða ekkert í húsnæði sínu, eigi með einhverjum hætti að létta undir skuldabyrði þessa fólks, það get ég ekki samþykkt.

Þannig að nei, ekkert þessara framboða — Flokkur heimilanna, Sturla Jónsson, Dögun — fær atkvæði mitt.

Efnisorð: , , , ,

laugardagur, apríl 13, 2013

Alþýðufylkingin og Regnboginn

Ég hef verið að skoða tvö af nýju framboðunum sem eru lengst til vinstri, Alþýðufylkinguna og Regnbogann.

Margt er gott og gilt í stefnumálum Regnbogans, m.a. þetta.

Launajafnrétti og kvenfrelsi eru meðal mikilvægustu baráttumála okkar samtíma. Bæta þarf búsetuúrræði og þjónustu við fatlaða, öryrkja og aldraða. Standa þarf vörð um mannréttindi samkynhneigðra og transfólks.

Tryggja þarf aðgengi að tryggu húsnæði á leigumarkaði.

Setja verður launamál þeirra lægst launuðu á oddinn, bæði lífeyrisþega og fólks á vinnumarkaði. Taka á til alvarlegrar umræðu að lögbinda lægstu laun með tilliti til framfærslu.

Við höfnum ofurtrú á frjálshyggjuna og markaðssamfélagið … Við teljum að blandað hagkerfi opinbers rekstrar og einkarekstrar smárra rekstrareininga sé farsælla

Regnboginn skartar m.a. fyrrum þingmönnum Vinstri grænna: Atla Gíslasyni og Jóni Bjarnasyni og fyrrverandi Framsóknarþingmanninum Bjarna Harðarsyni (sem var í VG um tíma). Ég hef lengi haft mikið álit á Atla sem feminista og Bjarni finnst mér skemmtilegur. Afar góðar konur eru einnig á framboðslistum: Harpa Njálsdóttir félagsfræðingur sem mikið hefur fjallað um fátækt er í efsta sæti í Reykjavík norður, Anna Bentína Hermansen, kynjafræðingur og ráðgjafi á Stígamótum er í sjötta sæti í sama kjördæmi, og Anna Ólafsdóttir Björnsson fyrrum Vinstri græn Kvennalistakona er í þriðja sæti (á undan henni eru tvær konur) í Suðvesturkjördæmi. Mér líst sannarlega vel á þessar, og fleiri konur framboðsins.

En þrátt fyrir þessar ágætu konur þá er Regnboginn í mínum huga fyrst og fremst framboðsflokkur karla sem sviku VG þegar mest reið á. Það kom sér illa fyrir VG, það kom sér illa fyrir ríkisstjórnina, en fyrst og fremst sýndi það óbilgirni sem er vægast sagt óheppileg þegar vinna þarf saman. Og það þurfti sannarlega að vinna saman að því að moka skítahauginn sem blasti við núverandi ríkisstjórn þegar hún tók við völdum.

Framboðslistar Alþýðufylkingarinnar gefa afar góða mynd af fólkinu sem býður sig fram. Aldur og staða frambjóðenda skiptir jú líka máli, og þarna má sjá óvenju marga starfsmenn úr félagslega geiranum auk verkafólks.

Það er galli að það séu karlmenn í efstu sætum í báðum þeim kjördæmum (Reykjavík norður og suður) þar sem flokkurinn býður fram. Vésteinn Valgarðsson, sem er efstur á lista í suðurkjördæminu, hefur reyndar skrifað gegn klámi og fær plús fyrir það, en Þorvaldur Þorvaldsson hefur aldrei höfðað til mín.

Þó er margt í stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar sem ég get tekið undir.

Komið verði á „samræmdu félagslegu lífeyriskerfi sem tryggir öllum sömu upphæð til framfærslu sem þess þurfa með, hvort sem ástæðan er öldrun, örorka, veikindi, atvinnuleysi eða annað.“

Aukið vægi hins félagslega í samfélaginu á kostnað markaðsvæðingar, sérstaklega á sviðum almannaþjónustu sem allir þurfa á að halda og umsjón með auðlindum, sem eiga að vera sameign þjóðarinnar.

Auðlindir lands og sjávar verði raunveruleg sameign þjóðarinnar, óframseljanlegar og að arðurinn skili sér til þjóðarinnar … Komið verði í veg fyrir að útgerðarmenn geti braskað með fiskveiðiréttindi.

Alþýðufylkingin berst gegn því að auðmenn sölsi undir sig vatns- og orkuauðlindir þjóðarinnar. Til þess er nauðsynlegt að þær séu reknar félagslega, með hóflega nýtingu og þarfir þjóðarinnar að leiðarljósi. Allur hagnaður af auðlindunum skal skila sér í bættum lífskjörum þjóðarinnar.

Stemma skal stigu við of mikilli samþjöppun og einokun í landbúnaði og ferðaþjónustu sem getur valdið óhóflegri ofníðslu á landi. Einnig skal koma í veg fyrir að auðmenn geti yfirtekið skipulagsmál í sveitarfélögum í krafti lóðareigna.

Ég myndi fagna því mjög ef þessi sjónarmið yrðu ofan á í samfélaginu og lagasetningu alþingis.

Það er blæbrigðamunur og sumstaðar áherslumunur en ekki að mínu mati raunverulegur grundvallarmunur á vinstri flokkunum, Alþýðufylkingu, Regnboganum og Vinstri grænum. Helst vildi ég að allir þessir flokkar mynduðu saman ríkisstjórn (Samfylkingin mætti vera með ef hún héldi sig vinstra megin á mottunni) og ynnu saman að félagslegum jöfnuði í þágu allra. En þar sem Alþýðufylkingin og Regnboginn ná varla einu prósentustigi í könnunum fyrir þingkosningarnar, væri það sóun á atkvæði að kjósa annanhvorn flokkinn. Þessvegna kemur hvorugur þeirra til greina í mínum huga.

___
Viðbót: Vésteinn Valgarðsson svarar spurningum Knúzzins um afstöðu Alþýðufylkingarinnar til jafnréttismála og feminisma. Það er mjög vel til fundið hjá Knúzinu að spyrja framboðin um afstöðu þeirra, því fjölmiðlar hafa upp til hópa gleymt þessum málefnum í aðdraganda kosninganna, og svör Vésteins eru honum og flokk hans til sóma.

Atli Gíslason hefur svarað Knúzinu fyrir hönd Regnbogans. Svör hans eru afar feminísk, eins og hans var von og vísa.

Efnisorð: , , , , , ,

föstudagur, apríl 12, 2013

Píratar

Stefnuskrá Pírata hefst og endar á því að andæfa „tilraunum innanríkisráðuneytisins á Íslandi til þess að sía út klám á internetinu“. Þar á milli er talað gegn höfundarrétti en með kannabisreykingum og kosningum á netinu (þó ekki til alþingis) sem lausn við flestum vanda.

Það er eitthvað pirrandi við að Píratar tala eins og annað fólk og flokkar hafi aldrei notað netið, þeir hafi einkaleyfi á því og skilji það best allra.* Þeir tala um breytingar á samfélaginu vegna netsins en ekki má gera breytingar á netinu. Afhverju vilja Píratar fara á þing ef þeir eru þeirrar skoðunar að það megi ekki reyna að móta umhverfi sitt?

Varðstaða Pírata um klámið er augljós ástæða þess að ég mun ekki kjósa þá. Að sama skapi er augljóst að klámsjúkir kannabisreykjandi karlmenn, hvort sem þeir kalla sig anarkista eða frjálshyggjumenn, finna samhljóm með Pírötum.

Áherslan á að allt gerist á netinu og netið sé ósnertanlegt (allt annað er ritskoðun sem leiði til fasisma**) er eina mál Pírata sem flokks. Þeir setja ekki fram stefnu varðandi heilbrigðismál eða umhverfismál — flokkurinn sem heild er á móti grænum sköttum. Einsmálsflokkar,*** hvort sem þeir veifa tjáningarfrelsi eða „stöðu heimilanna“ hafa þann galla að þegar til á að taka, í þingumræðum og atkvæðagreiðslum á þingi, hafa kjósendur ekki hugmynd um hvernig einstakir þingmenn einsmálsflokksins bregðast við. Eftirtaldir frambjóðendur Pírata (öll í 1. sæti í sínu kjördæmi) eru tildæmis með ýmist mjög skrítna — eða enga — afstöðu í mikilvægum málum.

Hildur Sif Thorarensen (norðvestur) er á móti listamannalaunum en Helgi Hrafn Gunnarsson (Reykjavík norður) hefur enga skoðun á þeim, né heldur rekstri menningarstofnana eða á einkarekstri í heilbrigðisþjónustu. En hann sagði á beinni línu DV: „internetið og frjáls samskipti er í mikilli hættu sökum höfundaréttar “, það eru hans helstu áhyggjuefni.

Hildur Sif og Jón Þór Ólafsson (Reykjavíkur norður) hafa enga skoðun á virkjunum yfirleitt. Virkja eða ekki virkja, þeim er bara alveg sama. Jón Þór er reyndar ekkert sérstaklega meðvitaður í umhverfismálum, nema hvað hann afneitar gróðurhúsaáhrifum!

Jóni Þór finnst allir skattar of háir (eða hreinlega óþarfir) og vill ekki ríkisrekið sjónvarp eða útvarp (það vill Smári McCarthy í suðurkjördæmi ekki heldur) og vill ekki opinberan stuðning við listir, en hann vill áfengi í matvörubúðir og lögleiðingu kannabis. Jón Þór er andvígur því að tannlækningar séu hluti af sjúkratryggingakerfinu (svosem nýgerðum samningi um tannlækningar skólabarna) og það kemur ekki á óvart að hann segist vera sammála þeirri staðhæfingu að því frjálsari sem markaðurinn er því frjálsara er fólk — enda er Jón Þór frjálshyggjumaður.

Verða kjósendur Pírata voða glaðir þegar nýju þingmennirnir þeirra viðra þessa afstöðu sína (eða afstöðuleysi) eða kjósa í þinginu eftir þessari sannfæringu sinni?

Mitt í því að ég sit og skrifa um Pírata rekst ég á þessa óborganlegu bloggfærslu Pírata nr. 1 í Reykjavíkurkjördæmi suður, Jóns Þórs Ólafssonar.



Getur verið að feministar, umhverfissinnar og vinstrisinnað fólk ætli í alvöru að kjósa Pírata?
___
* Píratar virðast ekki vera alveg eins klárir á netið og þeir vilja vera láta, það þyrfti einhver að kenna þeim að gúggla mönnum sem bjóða sig fram á lista hjá þeim. Eða kannski fellur þetta bara vel í kramið hjá flokknum jafnt sem fylgismönnum hans?

** Það er munur á að birta og skoða klám og því að gagnrýna stjórnvöld.

*** Margrét Tryggvadóttir kom með ágæta úttekt á vandanum við einsmálsflokka hér.

Efnisorð: , , , , , , , , ,

miðvikudagur, apríl 10, 2013

Lof og last

LOF

Lof fær Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fyrir að samþykkja (loksins) alþjóðlegan vopnaviðskiptasamning sem hefur verið til umræðu árum saman. Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir samninginn „sigur fyrir jarðarbúa.

Lof fá allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis um tillögur sem eru viðbrögð við mikilli fjölgun kynferðisbrotamála gegn börnum að undanförnu. Jóhanna Sigurðardóttir sem skipaði starfshóp strax í janúar af sama tilefni; starfshópurinn komst að svipaðri niðurstöðu og þingnefndin. Og ríkisstjórnin fyrir að veita nú þegar um 190 milljónum kr. til að fjármagna forgangstillögur nefndarinnar.

Lof fær Landvernd fyrir að setja af stað undirsskriftarsöfnun vegna Mývatns þar sem farið er fram á nýtt umhverfismat og stöðvun framkvæmda þar til það liggur fyrir.
(Muna þarf að svara tölvupóstinum frá Landvernd sem berst í kjölfar undirskriftarinnar, smella þarf á hlekk til að staðfesta undirskriftina endanlega — annars fellur hún dauð niður).

LAST

Æðsti prestur rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar fyrir að vara við feminisma og segjast telja femínisma mjög hættulegt fyrirbæri sem geti eyðilagt Rússland. Samtök femínista boði gervifrelsi utan hjónbands og fjölskyldu. Eiginmenn eigi að sjá fyrir fjölskyldum sínum, konurnar eigi að leggja áherslu á heimilið og börnin. Leggist þetta hlutverk kvenna af sé allt ónýtt, fjölskyldan og fósturjörðin.

Bræðralag múslima í Egyptalandi fyrir að skammast útí Sameinuðu þjóðirnar fyrir að leggja til umbætur í þágu kvenna og að segja að í drögunum séu ákvæði sem stríði gegn grundvallarkenningum íslam sem muni leiða til niðurbrots samfélagsins. Það gerir sérstakar athugasemdir við 10 atriði, þar á meðal um algjört jafnrétti karls og konu í hjónabandi og að eiginmaður þurfi ekki að veita samþykki fyrir því að eiginkonan vinni úti, fari í ferðalög eða noti getnaðarvarnir.

Geir Haarde fyrir að neita að leyfa þingnefnd að heyra upptöku af samtali sínu og Davíðs Oddssonar 6. október 2008 þegar Davíð lét Kaupþing fá 500 milljónir evra — um það leyti sem bankinn lagði upp laupana með þeim afleiðingum peningarnir töpuðust. Sagt er að þetta sé stærsta einstaka mál hrunsins. Þetta er svo augljós hefnd af Geirs hálfu fyrir að hafa verið dreginn fyrir Landsdóm að það er ekki fyndið. Reyndar er ekkert fyndið við Geir, síst af öllu pólitískur ferill hans sem stóð og féll með innleiðingu frjálshyggju í íslenskt samfélag.

Efnisorð: , , , , , , , ,

mánudagur, apríl 08, 2013

Tíu börn og tvær konur


Ein ástæða þess að niðurstaða Alþingisprófs DV varð sú að ég ætti samleið með VG er andstaða mín við aðild Íslands að NATÓ, Atlantshafsbandalaginu. Ástæða andúðar minnar á NATÓ blasir við í fjölmiðlum í dag.



[Úr frétt Smugunnar] Þúsundir óbreyttra afgana hafa verið drepnir í átökum frá því að Bandaríkjamenn réðust á Afganistan árið 2001. Tugir þúsunda til viðbóta hafa dáið á vergangi og í tengslum við stríðið. Í nótt drápu herir Nató drápu tíu börn og tvær konur í loftárásum.

Árni Þór Sigurðsson þingmaður VG og formaður utanríkismálanefndar Alþingis segir af því tilefni:
„Enn á ný sannast að saklausir borgarar, börn þar á meðal, eru iðulega fórnarlömb í stríðsátökum. Klisjan um að Nató sé „varnarbandalag“ verður býsna hjáróma þegar við heyrum fréttir eins og þessar,“ segir Ári Þór. „Hernaðarbandalagið Nató á skilyrðirlaust að láta af árásum sínum, sem æ ofan í æ hafa hörmulegar afleiðingar, og á reyndar að draga sig út úr Afganistan. Þá kröfu á Ísland að reisa á vettvangi Nató,“ segir Árni Þór.

Hann minnir um leið á að stefna Vinstri grænna sé að standa utan hernaðarbandalaga. „Tilgangsleysi þessa bandalags og aðildar Íslands ætti því að vera hverjum manni ljóst. Það á að vinna að lausn svæðisbundinna stríðsátaka á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, þar sem öll ríki eiga aðild.“

Ég tek undir orð Árna Þórs, sem ég á 88% samleið með, skv. Alþingisprófinu.

Efnisorð: ,

sunnudagur, apríl 07, 2013

Egg, karfa, talning

Það kom mér ekki stórkostlega á óvart að sjá að ég ætti mesta samleið með Vinstri grænum í Alþingisprófi DV. Mun þó skoða önnur framboð og stefnuskrár þeirra til að gefa þeim möguleika á að vinna atkvæði mitt. Það er þó öruggt að ég þarf ekki að leggjast í miklar rannsóknir til að vita að ég mun ekki kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Ég fagna lélegu fylgi Sjálfstæðisflokksins – og horfi með skelfingu til fylgisaukningar Framsóknarflokksins. Það er flokkur sem hefði átt að leggja niður fyrir löngu.

Ég fór að skoða hvað ég hefði sagt andstyggilegt um Framsóknarflokkinn gegnum tíðina (fjölmargt) og þá rakst ég á gamla bloggfærslu þar sem ég lýsti skoðun minni á ýmsum flokkum sem buðu fram í síðustu borgarstjórnarkosningum. Þetta er úr útlistun minni á einhverju fyrirbæri sem hét Reykjavíkurframboðið, en mér fannst stefna framboðsins „pínulítið galin“:
„Hún gengur útfrá því sem gefnu að hægt sé að veðsetja óselt byggingarland í Vatnsmýrinni og því verði til nógir peningar til að gera hitt og þetta í borginni. Í fyrsta lagi þá er furðulegt að tala um að taka lán fyrir rekstri borgarinnar sem útgangspunkt í fjármálarekstri hennar […] Svo byrjar maður ekki að tala um að eyða peningum sem á eftir að fá að láni út á eign sem á eftir að vita hvort einhver vill lána útá ... Þetta er grundvöllur allra rekstraráætlana og stefnu Reykjavíkurframboðsins. Fyrr má nú telja eggin áður en þau eru komin í körfuna.“
Framsóknarflokkurinn ætlar nú, skilji ég barbabrelluna rétt, að nota peninga sem erlendir kröfuhafar bankana eigi að gefa Íslendingum umyrðalaust, til að lækka „skuldir heimilanna“. Þetta smáatriði að peningarnir eru kannski ekki svona auðfengnir virðist ekkert vefjast fyrir Framsóknarflokknum — eða kjósendum.

Í annarri bloggfærslu sagði ég um kjósendur að mótstaða þeirra gegn lýðskrumi væri á núllpunkti. Fari sem horfir munu þessar kosningar staðfesta það.

Efnisorð:

þriðjudagur, apríl 02, 2013

Heldur vildi ég hlaupa apríl

Í gær var kynnt nýtt framboð, Flokkur heimilanna, með Pétur Gunnlaugsson í broddi fylkingar. Á mynd mátti sjá hann ásamt Arnþrúði Karlsdóttur og Ásgerði Jónu Flosadóttur. Ég var alveg sannfærð um að þetta væri aprílgabb enda þótt fréttin væri í öllum fjölmiðlum, það er bara eitthvað svo fjarstæðukennt að þetta fólk trúi því að einhver kjósi þau.

Áðan var ég svo að horfa á hinn fyrirfram umdeilda þátt Blachman í danska sjónvarpinu. Hefði hann verið sýndur degi fyrr hefði ég verið tilbúin að veðja að um aprílgabb væri að ræða. Þátturinn var svo slæmur að ég á ekki orð. Eða öllu heldur: ég á of mörg orð til að koma skipulagi á röð þeirra. Skrifa hugsanlega um þáttinn seinna en vonandi tekst mér að gleyma honum.


Efnisorð: , ,