fimmtudagur, september 29, 2011

Knúz

Sjá, ég boða yður mikil tíðindi.

Í dag hóf göngu sína feminísk vefsíða sem stofnuð er af vinum Gunnars Hrafns, sem kallaði sig Sigurbjörn. Sem Sigurbjörn hélt hann úti feminískri gagnrýni á blogginu gagnrýnt.blogspot.com. Það var dúndurblogg. Gunnar Hrafn lést sviplega í sumar en andi hans svífur yfir vötnum á hinum nýja feminíska vef, knúz.is.

Fjölmargar konur og aðrir feministar skrifa á knúzið (allur fimmára bekkurinn og fleiri til) og bind ég miklar vonir um að þau haldi uppi merkjum kynuslandi, hressilegs, skemmtilegs, bálreiðs og gagnrýnins feminisma.

Til hamingju með daginn!

Efnisorð:

þriðjudagur, september 27, 2011

Feminismi er misheppnaður í meðförum kvenna

Það fer að verða ansi þreytt að sjá menn sem eru sæmilega ritfærir (mér er meira sama um ólæsa og óskrifandi froðufellandi fávita í athugasemdakerfum) sem eyða miklu púðri í að segja feministum á hve miklum villigötum þær eru, sem halda því fram þeir séu í raun hlynntir feminisma, bara ekki í meðförum kvenna.

Einn pistillinn (sem er of langur og ítarlegur til að ég nenni að skrifa svar við einstökum atriðum hans) er á þá leið að feministar séu innbyrðis ósammála (um klámiðnaðinn) en hengi sig í marxismann án þess að fatta að hann eigi ekkert sameiginlegt með feminisma. Pistlahöfundurinn virðist líka halda að við séum allar á sellufundum hjá Femínístafélaginu alla daga og opnum ekki munninn án þess að fá fyrst flokkslínuna. Og hann hneykslast á því sem honum finnst vera ósamræmi í að vera á móti staðgöngu en með fóstureyðingum og móti vændi en með kynfrelsi kvenna. Vændi sé ekkert verra en að vinna á elliheimili. Fyrst og fremst eru feministar bara almennt og yfirleitt á villigötum, segir þessi karlmaður, sem veit auðvitað betur.

Á annarri síðu safnast karlmenn (mikið til þeir sömu og ég er að tala um hér að ofan) í athugasemdarkerfi* til að vera enn einu sinni sammála um hve vændi sé jákvætt og allsekki allar konur í því af neinni neyð, félagslegri, fjárhagslegri eða vegna þess að þær eru þvingaðar til þess. Á þeirri síðu, sem haldið er úti af konu sem er feministi sem er hlynnt klámiðnaðinum (og er þessvegna í sérlegu uppáhaldi þessara karla sem endalaust hrósa henni fyrir þá afstöðu, kampakátir) og þar eru einhverjar rannsóknir tilteknar sem eiga að sanna að vændi sé bara alltílæ, langflestar konur vilji ekkert frekar en hleypa uppá sig hverjum kallinum á fætur öðrum gegn greiðslu, bara gaman að því. Þar er því bæði hafnað að tölfræði sem feministar setja fram um annað og að „persónuleg reynsla og einstaka dæmi“ hafi vægi í rökræðunni.

Svo það sé á hreinu: Ég hef ekkert á móti því að vændiskonur hafi réttindi. Ég vil bara svo miklu frekar að þær hefðu þess kost að sjá sér farborða á annan hátt; að konur hafi aðgang að sæmilega borgaðri vinnu sem felst ekki í því að karlmenn rúnki sér á líkama þeirra.** Þessvegna styð ég að konum (og körlum) sé leyfilegt að selja sig, en hemill hafður á eftirspurninni með því að banna karlmönnum að kaupa sér aðgang að líkama þeirra. Ég vil ekki búa í samfélagi — og reyndar vil ég ekki búa í þannig heimi — þar sem konur eru neysluvara karlmanna.

Einu sinni birti ég pistil þar sem klámneytendur og vændiskaupendur — þessir sem þykjast þekkja muninn á því að kona sé að selja uppá sig eða myndir af sér á netinu af sjálfsdáðum eða sé þvinguð til þess — voru spurðir hversu margar konur og börn þeim þætti í lagi að þjáðust fyrir þá. Spurningin var þessi:

„Hvað finnst þér annars ásættanlegur fórnarkostnaður? Hefurðu rétt á að horfa á klám ef það er bara ein lítil stelpa sem er seld í klámið? En ef þær eru fimm? Hundrað? Svona, komdu með tölu. Hver er sú tala kvenna og barna sem þarf að nauðga, drepa og berja til að þér finnist að kannski sé réttur þinn til að horfa á klám ekki þess virði? Hundruðir? Þúsundir? Tugþúsundir?“

En þessir gaurar, sem skrifa heilu langlokurnar dag eftir dag, þeir bara geta ekki þolað að við viljum ekki að þeir kaupi sér konur til að ríða eða rúnka sér yfir. Og þessvegna skella þeir yfir sig sauðagærunni, þykjast styðja feminisma en berjast gegn honum linnulaust.
___
* Meðal annarra sem veita þessari vændisupphafningu mótvægi í athugasemdakerfinu eru Baun, Þorgerður E og Parísar-Kristín, sem stendur sig sérstaklega vel. (Ákveðið var á sellufundi að ég myndi hrósa þeim, í staðinn þarf ég ekki að vaska upp næst.)

** Ég er líka á móti því að fólk vinni við hörmulegar aðstæður, ýmist 'sjálfviljugt' eða í þrælavinnu, s.s. í þrælkunarbúðum í Asíu, það er líklega marxisminn sem afvegaleiðir mig svo illa. Það eru reyndar bara frjálshyggjumenn sem vilja halda því fram að fólk megi vera þakklátt fyrir að vinna á svoleiðis stöðum, öll vinna sé góð sama við hvaða aðstæður og hve lítið fólk ber úr býtum. Sumt fólk sér samsvörun þarna á milli og þess að margar austur-evrópskar konur eru 'sjálfviljugar' í klámiðnaðnum, annað fólk sér bara 'sjálfviljuga' þáttinn.

Efnisorð: , , , , ,

sunnudagur, september 25, 2011

Garðar og gróður

Nú er tími haustlaukanna.

Þessi frasi er nánast í hverju blaði þessa dagana. Vegna þess að ég er nú gríðarleg haustlaukakona þá les ég allt sem að gagni getur komið um þessa litlu lauka sem eiga að boða okkur vorið þegar þar að kemur. Og les ég nú og les og rek þá augun í þessa setningu (bls.42): „Mýs eru gjarnar á að grafa upp og éta frá okkur laukana …“ og litlu síðar, þá er verið að tala um fræ og hvernig hægt að er búa um þau yfir veturinn: „Þarna þarf líka að verjast músum á einhvern hátt því þeim þykir fræið gott á köldum vetrum.“

Við, sem búum í þéttbýli (en erum ekki svo blinduð af sveitamennsku að okkur þyki ekki í lagi að hafa dýr í borg) verðum ekki vör við allar þessar mýs sem éta fræ og lauka. Ástæðan er sú að yfir girðingar og um alla garða læðast og stökkva hin ágætustu loðdýr sem mýs (og rottur) forðast eins og heitan eldinn. Af þessum sökum er margt skynsamt fólk afskaplega sátt við lausagöngu katta.

Og sé okkur á annaðborð annt um að garðarnir séu gróðursælir, erum við síst á móti kattaskít í beðin, því hann eru ókeypis áburður.

Efnisorð:

laugardagur, september 24, 2011

Afi morðingi, afi fyrirmynd

Það hlýtur að vera merkilegur hugsunargangur hjá þeim sem hata heilu dýrategundirnar. Reglulega fá svoleiðis menn pláss í fjölmiðlum (rétt eins og þeir sem hata fólk af öðrum trúarbrögðum eða með annan litarhátt) til að básúna hatur sitt. Heilu bæjarfélögin hrökkva þá í kút, stundum bregðast þau við eins og dýrahatararnir ætlast til, stundum ekki. Árið 2003 var farið í herferð á Ísafirði þar sem byssuóðum manni var sleppt lausum á ketti innan bæjarmarkanna og skaut hann allt kvikt, villiketti jafnt sem heimilisketti, og jafnvel það sem ekki hrærðist, s.s. útidyr húsa.

Nú trommar enn einn kattahatarinn upp í fjölmiðlum, uppfullur af skilningsleysi á eðli katta — sem hann vill að haldi sig innan lóðamarka (eins og kettir hafi sömu hugmyndir um lóðamörk) annars grípi hann til aðgerða.

„Það getur ekki endað með öðru en að einstaklingarnir grípi bara til eigin ráða,“ segir Þórhallur sem ekki vill útskýra nánar í hverju það geti fólgist. „Það er ekki nema nokkurra daga verk að útrýma þessu,“ bætir hann þó við.


Miðað við það sem er haft eftir Þórhalli í blaðinu þá á hann barnabörn. Mikið held ég að hann sé þeim fögur fyrirmynd í gæsku og kærleika. Dómgreind hans er líka á því stigi að finnast ekkert að því að því að vera með svona yfirlýsingar í fjölmiðlum, „Útrýma þessu,“ smekklega orðað.

Öll saman nú: aaaaaa við afa sem á svo bágt í hausnum.

Efnisorð:

laugardagur, september 17, 2011

Klámritstjóri kveður sér hljóðs

Davíð Þór Jónsson skrifar pistil í Fréttablaðið í dag. Það er undarleg samsetning þar sem hann talar um sósíalisma, kristni og feminisma og segir að því hafi öllu verið miskunnarlaust misbeitt gegnum tíðina. „Öll þessi hugmyndafræði bræðralags, samhjálpar og mannjöfnuðar hefur verið notuð til að réttlæta mannréttindabrot, misrétti og kúgun.“ Ég sé reyndar ekki hvernig feminismi fellur að þessu, sé ekki mannréttindabrotin, misréttið og kúgunina.

Davíð Þór segist vera feministi.
„Ég er femínisti. Ég styð félagslegt, efnahagslegt og pólitískt jafnrétti kynjanna. Mér finnst að allir eigi að fá sömu tækifæri og sömu laun fyrir sömu vinnu, óháð kynferði. Í raun get ég ekki verið sósíalisti án þess að vera femínisti.“
Mér finnst líka samasem merki vera milli þess að vera sósíalisti og að vera feministi, en mér finnst hinsvegar feminismi vera talsvert meira heldur en bara „sömu tækifæri og sömu laun“. Feministar hafa auðvitað alla tíð barist fyrir að konur fái sömu laun og karlar fyrir sömu vinnu (og 'kvennastörf' séu metin til jafns við 'karlastörf') og að konur hafi sömu tækifæri og karlar til mennta og starfa. En feminismi snýst um margt fleira, s.s. baráttu gegn ofbeldi sem konur verða fyrir, baráttu gegn því að konur séu notaðar í kynlífsiðnaði, baráttu fyrir því að konur njóti virðingar í hvívetna og svo mætti lengi telja. Ekkert af þessu tekur Davíð Þór undir, kannski vegna plássleysis í hinu afmarkaða formi sem blaðapistillinn er.

Kannski er það líka vegna plássleysis sem eftirfarandi bútur úr pistli Davíðs Þórs er torráðinn.
„Femínismi, sem setur konur í þá stöðu að þurfa að afsaka og réttlæta klæðaburð sinn, notkun á snyrtivörum, verkaskiptinguna inni á heimilinu eða jafnvel langanir í kynlífi, er á villigötum. Þegar hugmyndafræði, sama hvaða nafni hún nefnist, fer að fela í sér ritskoðun, tískulögreglu og persónunjósnir er hún löngu hætt að snúast um hugsjónir. Þá hefur vænisýkin tekið völdin, eins og svo sorglega mörg dæmi sanna.“

Hvað á hann við? Ég kannast ekki við að konur þurfi að réttlæta klæðaburð sinn enda þótt stundum sé rætt um hvort búrkur eigi rétt á sér. Eina skiptið sem ég hef séð konu þurfa að réttlæta snyrtivörunotkun sína var núna nýlega þegar kona sem bauð sig fram til að stjórna sjónvarpsþætti og gagnrýndi um leið sjónvarpsþátt sem til stóð að sýna fyrir einsleita sýn á konur; hún var gagnrýnd fyrir að vera með varalit þegar hún setti fram gagnrýni sína.

Verkaskipting inn á heimilum hefur hinsvegar verið baráttumál feminista í áratugi, enda þótt ekki hafi verið mikið talað um hana undanfarið, m.a. vegna þess að áherslan hefur verið á að berjast gegn margvíslegu ofbeldi gegn konum. En feministum finnst semsagt, almennt og upp til hópa, að búi par, þar af eitt stykki fullorðinn karlmaður á heimili, geti hann ekki ætlast til þess að sleppa við að þrífa baðherbergið, vaska upp, kaupa inn, þvo þvotta, þrífa gólf, þurrka af, eða eitthvert af öllum hinum heimilisstörfunum sem þarf að sinna daglega eða vikulega — bara vegna þess að á heimilinu sé kona. (Sama gildir um umönnun barna, þvo af þeim, þvo þau, snýta og skeina.) Þetta er svo sjálfsögð og eðlileg krafa að það er furðulegt að Davíð Þór skuli telja verkaskiptingu á heimili upp með þeim atriðum sem honum finnst að sé feminismi á villigötum og flokkist undir „ritskoðun, tískulögreglu og persónunjósnir“.

Ég klóra mér líka talsvert í kollinum yfir síðasta liðnum sem hann telur upp, langanir í kynlífi. Ég hef verið feministi talsvert lengi en man ekki eftir að mér hafi borist tilkynning um hvað mig má langa til að gera í kynlífi. Mér þykir líklegra að Davíð Þór sé að verja kynlífsiðnaðinn, en hann var lengi vel ritstjóri klámblaðsins Bleiks og blás sem birti myndir teknar uppí klofinu á konum og seldi karlmönnum til að rúnka sér yfir. Kannski telur hann sig vera að verja rétt hamingjusömu hórunnar, sem karlmenn einir trúa á, en samkvæmt þeim þráir fjöldi kvenna ekkert frekar en að selja karlmönnum ljósmyndir eða hreyfimyndir af svo þeir geti rúnkað sér yfir þeim og enn fleiri konur bíða í röðum eftir að selja aðgang uppá sig. Hamingjusama hóran er rúnkmaskína.

Kannski er það þessi draumakona karla sem Davíð Þór þykist vera að verja. Að meina karlmönnum aðgang að henni sé „mannréttindabrot, misrétti og kúgun“. Ef það er ekki það sem klámritstjórinn fyrrverandi á við, þá þyrfti hann e.t.v. að skýra þessi orð sín betur.

Efnisorð: , , , , ,

föstudagur, september 16, 2011

Steinsteypuskrímslið

Það verður líklega jafn vonlaust að berjast gegn Landspítalasteypuskrímslinu og gegn Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma.

Ég, fyrir mitt leyti, vil þó bóka mótmæli.

Ásýnd miðbæjar Reykjavíkur mun breytast mjög til hins verra, svipað og þegar steypuklessunum var troðið ofaní miðbæ Hafnarfjarðar, svo að hann hefur aldrei beðið þess bætur. Án þess að ég vorkenni íbúum Smáragötu að fá svona plássfrekan nágranna sem mun að öllum líkindum ekki bara skyggja á Bláfjöll heldur sólina, þá eru Laufásvegur og þær götur allar á Skólavörðuholti og Þingholtin almennt talin þau hverfi Reykjavíkur sem fallegast eru. Við hliðina á steinsteypuskrímslinu verða þau eins og niðursetningar í eilífum skugga mannlífsins.

Umferð bíla kringum spítalann mun aukast umtalsvert — sama hvað hver segir —  enda mun starfsfólk spítalans varla allt flytja úr sínum Grafarvogi og Kópavogi og í Þingholtin til að geta komið sér á umhverfisvænan hátt í vinnuna. Ég held líka að eftir langar vaktir þá langi ekki marga til að stíga á hjólhestinn og hjóla heim í myrkri og hálku, eða slagviðri. Ef venja á Íslendinga af einkabílnum þarf fyrst að leggja allar hjólabrautirnar og fjölga strætóferðum umtalsvert og sjá svo til með framhaldið eftir því hvernig það gengur; hvort þessi bílaþjóð láti sér segjast. Það er fáránlegt að ætla bara að taka sénsinn á að allir mæti hjólandi.

Sjúkraflutningamenn hafa áhyggjur af aðgengi, vegna umferðarhnúta (ekki af völdum reiðhjóla). Skipulagsstofnun og ýmsir arkitektar og skipulagsfræðingar hafa einnig ýmislegt við staðsetninguna að athuga.

Að öllum líkindum skiptir ekkert af þessu máli.

Það verður byggt og byggt og byggt. Ægilega gaman fyrir verktakafyrirtækin og fjármögnunarfyrirtækin (og jújú, það verða uppgrip í byggingabransanum almennt og vinna í boði fyrir karlmenn í byggingariðnaði), semsé fara „hjól atvinnulífsins að snúast“ — en við hin sitjum svo uppi með skrímslið.

Það er eins og mig minni að þetta hafi allt gerst áður.

Efnisorð:

mánudagur, september 12, 2011

Hugleiðing um bleika og bláa hönnun

Stórfróðlegur pistill Sóleyjar Stefánsdóttur grafísks hönnuðar í Víðsjá vakti mig enn og aftur til umhugsunar um hvernig heimurinn er hannaður fyrir karla (iPod, karlmannsfatnaður sem viðmið, bílbelti, stólar í kvikmyndahúsum). Hún minntist þar meðal annars á snjósleða sem eru hannaðir þannig að þyngd þeirra er ákkúrat þannig að meðalkarlmaður getur reist þá við ef þeir velta, en meðalkonan ekki. Snjósleðinn er ekki hannaður svo þungur að meðalkarlmanninum sé ofraun að reisa hann við, en heldur ekki léttur nægilega til að konur ráði með góðu móti við hann. Markhópurinn er karlmenn og hönnunin miðar við þá.

Annað sem Sóley talaði um er notkun bleika litarins. Stelpudót er bleikt en svo komast þær að því þegar þær eldast að sá bleiki þykir væminn og nýtur takmarkaðrar virðingar. Sóley nefndi nokkur dæmi um hve bláa litnum — strákalitnum — er hinsvegar hampað þegar skapa á hugmynd um styrkleika og virðingu, s.s. í bankaauglýsingum (og auglýsingum Sjálfstæðisflokksins).

Þá rann upp fyrir mér ljós. Blátt er eftirsóknarverðasti liturinn.** Enginn þjóðfáni er bleikur.*** Fjölmargir, og fáni Evrópusambandsins að auki, eru meira og minna bláir. Virðing, traust og heilu þjóðirnar, þær eru bláar. Líklega er það þessvegna sem hin gamla aðferð við að nota bláan lit fyrir stelpur og rauðan fyrir stráka var lögð af og hlutunum snúið við svo að stelpurnar fengu væmna bleika litinn í sinn hlut en strákarnir þann bláa. Og það þykir auðvitað eðlilegt, því heimurinn er hannaður fyrir þá.

___
* Pistill Sóleyjar byrjar á 26:39 mínútu og er tíu mínútna langur. Bleikt og blátt umræðan er á 30-31 mínútu.
** Í könnun sem var gerð um eftirsóknarverð málverk kom í ljós að blái liturinn var í uppáhaldi hjá flestum þátttakenda, sem voru frá 14 þjóðlöndum.
*** Í þremur fánum vottar fyrir bleiku, en þeir hafa líka bláan, grænan, rauðan, gulan, hvítan, svartan lit, svo ekki er sá bleiki áberandi. En það eru semsagt Montserrat, Turks- og Caicos-eyjar og Bresku Jómfrúaeyjar sem flagga svo fjölskrúðugum fánum að meira segja bleikur slæðist þar með. Það eru reyndar engar trylltar bleikar litasprengingar heldur svo fölbleikur litur í svo litlu magni að það er vart sýnilegt. Í fána Montserrat er semsagt Erin, sem er persónugervingur Írlands, og húðlitur hennar er bleikur. Bresku Jómfrúaeyjar hafa heilaga Úrsúlu og hennar húðlitur er líka bleikur. Í fána Turks- og Caicos-eyja er m.a. bleikur kuðungur.

Efnisorð: ,

laugardagur, september 10, 2011

Saga einnar af 5.200 konum sem leitað hafa til Stígamóta

Það er hraustlega gert af Önnu Bentínu Hermansen að stíga fram fyrir skjöldu og tjá sig um reynslu sína af þjónustu Stígamóta. Henni var nauðgað og eftir að hafa reynt að flýja tilfinningar sínar og bægja vanlíðan sinni burtu leitaði hún loks til Stígamóta. Þar var hún í viðtölum og síðar sjálfshjálparhóp, hvoru tveggja sér að kostnaðarlausu.

Grein Önnu Bentínu lýsir hvernig þolandi nauðgunar situr uppi með tilfinningar sem leiða til kvíða, þunglyndis og félagsfælni, og hvernig hægt er að losna undan þeim. Anna Bentína þakkar Stígamótum fyrir hvernig hún losnaði undan þessum tilfinningum og endurheimti fyrri styrk. Hún fullyrðir að: „Þjónusta Stígamóta er besti ferðafélaginn á þessu ferðalagi og algjörlega ómissandi fyrir okkar samfélag.“

Endursögn mín er ófullkomin (og ég er hætt að treysta því að tenglar á fjölmiðla endist út vikuna) svo að ég leyfi mér að birta alla grein Önnu Bentínu.

„Ég er ein af þeim rúmlega 5.200 konum sem hafa leitað til Stígamóta eftir að hafa verið beitt kynferðisofbeldi. Á bak við hverja einustu tölu er manneskja sem hefur nafn og á sitt líf. Stundum held ég að tölur geri fólk ónæmt fyrir þessum málum, þess vegna finnst mér mikilvægt að koma fram undir nafni. Í dag get ég það því mér finnst ég ekkert hafa að fela enda hef ég ekkert að skammast mín fyrir. Ég get staðið fyrir framan þjóðina stolt yfir því að hafa komist í gegnum þessa reynslu og tekist á við hana þannig að ég er sterkari fyrir vikið. Hins vegar eru ekki allir það lánsamir og þá á ég við fólkið sem aldrei leitar sér hjálpar og býr með skömm sína og reynslu í þögn sem verður stundum óbærileg.

Ég þekki það sjálf því það tók mig tíma að leita mér hjálpar. Ég reyndi að ýta reynslu minni í burtu, vann eins og berserkur, kaffærði mig í verkefnum og var á sífelldum flótta undan líðan minni. Ég var full af skömm, sektarkennd og sjálfsásökunum vegna þess ofbeldis sem var framið á mér en ekki af mér. Mér leið eins og ég hefði verið svipt stórum hluta af sjálfri mér og þessi hluti myndaði tómarúm sem fylltist af kvíða, þunglyndi og félagsfælni. Skömmin að hafa orðið fyrir þessu var helsti þátturinn sem kom í veg fyrir að ég leitaði mér hjálpar.

Ég var í nokkur ár í einstaklingsviðtölum áður en ég treysti mér til að fara í sjálfshjálparhóp á Stígamótum. Í þessum hópum eru 5-6 einstaklingar og leiðbeinandi. Við hittumst tvisvar í viku í tvo mánuði og fórum í gegnum reynslu okkar, líðan og tilfinningar. Í þessum hópi gerðist kraftaverk. Ég hitti aðrar konur sem höfðu sömu reynslu. Ég heyrði þær segja frá sömu skömminni og sjálfsásökunum sem ég upplifði og þá fyrst skildi ég hversu fáránlegt það er að þau sem beitt eru ofbeldi beri þá skömm sem ofbeldismaðurinn ætti að bera. Ég sá líka að kvíðinn og þunglyndið voru ekki karaktereinkenni sem ég hafði þróað með mér, heldur afleiðingar af ofbeldinu. Ég sá að ég hafði svipt sjálfa mig helmingnum af lífinu í viðleitni minni að kæfa niður reynsluna sem ég varð fyrir. Ég uppgötvaði að mestu fordómarnir sem ég þurfti að yfirstíga voru eigin fordómar gagnvart sjálfri mér og því sem ég hafði upplifað.

Mikilvægasta verkfærið í bataferlinu er að rjúfa þögnina og fá viðurkenningu á þessari erfiðu lífsreynslu. Gefa sjálfri sér leyfi til að upplifa sársaukann og þjáninguna. Þetta leyfi fékk ég á Stígamótum, þar var ég umvafin skilningi og líðan mín var viðurkennd. Fyrir mér snérist vinna mín á Stígamótun um að gefa sjálfri mér þá gjöf að fara í gegnum þessa reynslu og gera hana upp að því marki sem mér var framast unnt. Eina leiðin út úr sársaukanum er að fara í gegnum hann og þessi vinna hefur gert mig sterkari. Að rjúfa þögnina er töfrum líkast, þú heyrir ekki bara í sjálfri þér og setur í orð það ósegjanlega. Það er eins og orðin moki út skömminni, þú færir hana út úr sjálfri þér, sleppir henni lausri og sérð hversu mikil fásinna það er að þú berir hana. Þú skilar henni á réttan stað, til ofbeldismannsins. Þú stendur uppi sem sigurvegari vegna þess að þú komst í gegnum eina erfiðustu lífsreynslu sem hægt er að hugsa sér og þar af leiðandi býrðu yfir miklum styrk.

Það óeigingjarna starf sem unnið er á Stígamótum bjargaði lífi mínu. Ég hefði ekki getað haldið áfram mikið lengur í þeirri vanlíðan sem ég var í. Ef ég hefði þurft að borga fyrir viðtölin og hópavinnuna hefði ég líklega ekki getað leitað mér hjálpar. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að fólk geti sótt sér aðstoð án þess að þurfa að hafa áhyggjur af fjárhagslegum þætti þess. Að auki tekur samfélagið ábyrgð með því að veita þessa þjónustu ókeypis. Það sýnir hluttekningu og viðurkennir þörfina fyrir svona úrræði. Vegna vinnu minnar á Stígamótum hef ég fundið þann styrk aftur sem bjó alltaf í mér. Grundvöllurinn molnaði eftir reynslu mína en á Stígamótum byggði ég hann upp á ný. Ég reis upp úr öskustónni, vængjuð nýjum krafti, endurheimti sjálfa mig og það sterkari en nokkru sinni fyrr. Hver einasta manneskja sem upplifað hefur kynferðisofbeldi getur endurheimt sjálfa sig eins og ég gerði. Hún þarf bara að byrja og hvert ferðalag hefst á einu skrefi. Þjónusta Stígamóta er besti ferðafélaginn á þessu ferðalagi og algjörlega ómissandi fyrir okkar samfélag.“

Efnisorð:

föstudagur, september 09, 2011

Spornað við offjölgun upplýstra kvenna í menningarþáttum

Fyrr á þessu ári spáði ég því að Þorgerður E. Sigurðardóttir yrði ekki lengi í Kiljunni, enda alveg nóg að hafa eina konu til að tjá sig um bókmenntir, og bara til trafala að hafa bókmenntafræðimenntaðan feminista í því starfi. Og nú les ég að Þorgerður E. verður ekki með í vetur. Því er reyndar borið við að karlmaðurinn sem var með henni í þáttunum sé að gefa út bók og því ekki góður kandídat í að fjalla um bækur annarra, en hvernig það kemur í veg fyrir að einhver önnur skynsöm kona (eða jafnvel karlmaður) yrði fenginn til að sitja við hlið Þorgerðar skil ég ekki.

En ég er nú bara feministi.

Efnisorð: , ,

laugardagur, september 03, 2011

Tjáningarfrelsi með ábyrgð

Ég hef oft velt fyrir mér hve mismunandi skilning fólk leggur í tjáningarfrelsi. Allra fyrsti pistill minn hér* kom inn á tjáningarfrelsi og síðan þá hef ég haft í huga að skrifa ítarlegar um hvernig mér þykir sem það hugtak hafa verið teygt og togað og misnotað,** ekki bara hér heldur víðar í heiminum og finnst mér þar Bandaríkin vera víti til varnaðar.

Þegar upp hafa komið mál í samfélaginu þar sem tekist er á um tjáningarfrelsi hefur mig oft langað til að leggja orð í belg en alltaf hætt við, ég vil frekar tala um tjáningarfrelsi almennt heldur en einblína bara á eitt mál. Samt kemst ég líklega ekki hjá því að nefna dæmi.*** Ekkert af þessum málum eitt og sér varð samt til þess að ég lét loks verða af því að skrifa um tjáningarfrelsið.

Andi laganna um prentfrelsi og tjáningarfrelsi var alveg örugglega sá að tryggja þegnum ríkisins (ekki bara Íslands, heldur Frakklands, Bandaríkjanna o.s.frv.) frelsi til að andæfa yfirvaldinu. Hver sem er ætti að mega gagnrýna þjóðhöfðingja, ríkisstjórn og embættismenn án þess að vera refsað fyrir (svo framarlega sem engum væri hótað eða farið væri með staðlausa stafi). En flestir virðast þó skilja það svo að þetta frelsi sé frelsi allra til að segja allt um alla, hversu niðrandi sem það er og að auki birta opinberlega allan andskotann hversu viðurstyggilegur hann er og hvaða afleiðingar það hefur fyrir einstaklinga og þjóðfélagshópa. Hér er ég auðvitað fyrst og fremst með klám í huga sem skákar í skjóli tjáningarfrelsis og prentfrelsis, en líka dreifing á allskyns viðbjóði öðrum. Nýlega féll dómur í Bandaríkjunum um að það mætti ekki banna dreifingu á myndum frá hundaati (þar sem hundar deyja) því það væri skerðing á tjáningarfrelsi! Þvílík afbökun á anda lagana.

Það er langur vegur milli þess að hindra tjáningu kínverska listamannsins Ai Wei Wei, sem er einn þeirra sem gagnrýnir mannréttindabrot í heimalandi sínu og hefur ítrekað verið áreittur af lögreglu og fangelsaður fyrir vikið, og þess að banna auglýsingar á skyndibita í barnatímum, en samt flokkast hvort tveggja undir skerðingu á tjáningarfrelsi, að mati sumra. Sú afstaða að finnast óheft aðgengi að klámefni á netinu flokkist líka undir tjáningarfrelsi, jafnvel þótt vitað sé að margar þeirra kvenna sem sjást í og á klámmyndum séu ekki þar af fúsum og frjálsum vilja, og hinar hafa sogast inn í heim klámiðnaðarins vegna brotinnar sjálfsmyndar. En talsmönnum tjáningarfrelsis er sama um slíkt. Ekkert má banna því þá verði allt bannað. En er ekki einhver munur á því að listamaður (eða hver annar almennur borgari) megi gagnrýna stjórnvöld og á klámi? Er ekki munur á gagnrýni á mannréttindabrot og því að reyna að selja litlum börnum sem trúa öllu sem fyrir augu þeirra ber, óhollan mat og annað drasl?

Hér á landi eru samband íslenskra auglýsingastofa, ýmsir frjálshyggjupostular, kvenhatarar, rasistar og allra handa markaðssinnar hörðustu talmenn þess að allt megi segja og auglýsa hvar og hvenær sem er hvort sem það móðgar, særir, eða grefur undan virðingu fyrir öðrum, grafi undan réttindum þeirra eða sé skaðlegt á annan hátt.

Markaðshyggjufíflin álíta bann við auglýsingum kringum barnatíma vera skerðingu á tjáningarfrelsi — en fólki eins og mér þykir það veruleg afbökun og gengisfelling á hugtakinu tjáningarfrelsi að líta svo á að það að selja börnum morgunkorn, sælgæti, skyndibita og leikföng sé stjórnarskrárvarið athæfi. (Fyrir utan nú afneitunina á samhengi holls mataræðis og heilsufarsvandamála. Eða hvernig stendur á því að í öðru orðinu hafa auglýsingar ekki áhrif á börn en í hinu er best að ná þeim ungum til að gera þau að dyggum neytendum?)****

Það er a.m.k. mikill munur á því eða hæðast að kóngafólki í Thailandi, en kona nokkur var dæmd í 18 ára fangelsi fyrir slíka goðgá (málið er nú komið fyrir önnur dómsstig). Ætli auglýsingastofur þar í landi borgi málskostnað konunnar?

Í Bandaríkjunum er krafan um tjáningarfrelsið mjög hávær og hefur löngu gengið út fyrir öll mörk. Þannig eru það talin stjórnarskrárvarin réttindi trylltra trúarofstækismanna að vera með ósmekkleg mótmæli við jarðarfarir samkynhneigðra. Að banna mótmælendunum að hrella syrgjendur með þessum hætti er semsagt 'að skerða tjáningarfrelsi'. Í þessu sama landi var fólki meinað að mótmæla Bush forseta nema þar sem öruggt væri að hann sæi það hvorki né heyrði.

Mörk siðferðis og tjáningarfrelsis geta verið óskýr í huga sumra, þeim finnst það sem okkur hinum þykir ósmekklegt og siðlaust bara vera réttur sinn til tjáningar, sama hvenær, hvar og gegn hverjum orð þeirra og athafnir beinast.

Þeir sem helst vilja fá að segja niðrandi hluti um minnihlutahópa, konur eða fólk af öðrum trúarbrögðum og uppruna (og svo þeir sem vilja selja börnum drasl og dreifa klámi) eru trylltir þegar dregnar eru úr þeim tennurnar í formi banns við meiðandi og hatursfullum ummælum. Dæmi um það er Vilhjálmur Eyþórsson sem hefur farið mikinn vegna þess ákvæðis í íslensku stjórnarskránni (þeirri sem er enn gildandi) um undanþágu á fortakslausu amerísku tjáningarfrelsi þar sem allt má. Í 233. grein almennra hegningarlaga stendur semsé að
„Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á [mann eða hóp manna] vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, [kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar] sæti sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“
Þetta kallar Vilhjálmur „fyrsta og stærsta skrefið í átt til alræðis“ það sem „tjáningarfrelsis, undirstaða alls lýðræðis og allra mannréttinda í raun afnumið á Íslandi.“ Hann vill nefnilega fá að andskotast útí fjölmenningarstefnuna, feminista og „brölt og rassaköst hómósexúalista“ í friði (hann á sér a.m.k. einn norskan skoðanabróður í því máli).

Stoltenberg forsætisráðherra Noregs er þeirrar skoðunar að ekki megi þagga niður í hatursáróðrinum. Það má vel vera að það sé rétt hjá honum. Breivik skorti samt hvergi umræðuvettvang, hann tjáði sig víða. Í hans tilviki að minnsta kosti, dugði ekki skrifleg tjáning til. Hún leysir því ekki allan vanda. Frelsið til að tjá sig um ógeðfelldar hugsanir getur leitt til þess að æsa upp hatur í garð einstaklinga og hópa, og orðin geta leitt til þess að einhver ákveður að „gera eitthvað í málunum.“

Sænskir fjölmiðlar hyggjast nú takmarka aðgang að athugasemdakerfum sínum og krefjast þess að fólk skrái sig inn gegnum facebook. Gallinn er auðvitað sá að fólk getur stofnað facebook síðu undir hvaða nafni sem er. Mörg augljós dæmi um slíkt má sjá í athugasemdakerfi DV.

Það hlýtur að vera hægt að hafa opið fyrir athugasemdir við fréttir af stjórnvöldum, fjármálagerningum, og slíku sem flest fólk getur verið sammála að þurfi opna umræðu um, þar sem ekki veitir af gagnrýni og jafnvel að fólk geti fengið útrás fyrir reiði sína (þó ritstjórnir eigi alltaf að hafa eftirlit með orðbragði og hótunum) en hafa jafnframt lokað fyrir athugasemdir við fréttir eða greinar þar sem t.d. fjallað er um kynferðisbrot, persónulegar illdeilur fólks, slys, dauðsföll, eða í raun bara allt það sem flokkast ekki undir hið opinbera eða yfirvaldið í samfélaginu.*****

Tjáningarfrelsi ætti að umgangast af varúð og líta á það sem frelsi með ábyrgð.

___
* Í mínum allra fyrsta pistli á þessu bloggi sagði ég þetta: „Mér finnst að prentfrelsi og málfrelsi sé stórlega ofmetið og að myndirnar [af Múhameð spámanni] hefðu aldrei átt að vera birtar. Hef ekki kynnt mér það eins nákvæmlega og ég ætlaði mér, en er nokkuð viss um að hugmyndin um prent-og málfrelsi kom fyrst fram í bandarísku stjórnarskránni – nú eða þeirri frönsku – og að meiningin hafi verið sú að halda aftur af þeirri ágengu tilhneigingu stjórnvalda að þagga niður í þegnum sínum og meina þeim að gagnrýna sig. Málfrelsi og prentfrelsi átti örugglega aldrei að vera til að gefa þegnum leyfi til að níða skóinn af hverjum öðrum á opinberum vettvangi, hvorki einstaklingum né hópum.“
** Fyrr á árinu skrifaði ég reyndar bloggfærslu um tillitssemi sem mér finnst tengjast málinu meir en lítið.
*** Ég á til dæmis við umræðuna um Gillzenegger, Koddu-sýninguna (blómabókarmálið), yfirlýsingu Breiviks og fjöldamorðin.
**** Svo virðist sem allar gamlar fréttir á Smugunni hafi horfið þegar síðunni var breytt. Sama sýnist mér uppi á teningnum varðandi gamlar fréttir á RÚV; það er varla góð stefna hjá fjölmiðlum að fréttir séu eins og mjólk sem á sér síðasta neysludag.
***** Helst vildi ég líka að fjölmiðlar, allir með tölu, hættu að birta slúðurfréttir, hvortheldurer af útlendingum (og þá einnig Íslendingum), ástalífi þeirra, skemmtanalífi eða misgáfulegum athugasemdum þeirra um lífið og tilveruna, því engum er greiði gerður með þessum upplýsingum: okkur hinum kemur þetta ekki við og þetta er í besta falli ómerkilegt slúður en þó aðallega illgirni í garð misviturra einstaklinga sem virðast ekki kunna fótum sínum forráð.

Efnisorð: , , ,