mánudagur, júlí 24, 2006

„Ég myndi vita ef þær væru ekki að þessu ánægjunnar vegna“

Karlmenn virðast halda að þeir geti þekkt úr konur sem eru neyddar til (engin kona gerir það algerlega að fúsum og frjálsum vilja og hér á ég því ekki aðeins við konur í mansali en auðvitað þær líka - meira um það seinna) að leika í klámmynd, stunda nektardans eða vændi. Þær hljóti að líta öðruvísi út, vera öðruvísi á svipinn eða eitthvað. Verða þær að vera með glóðarauga, skítugar og grátandi og biðjandi góða manninn um að bjarga sér til að karlmenn átti sig á að þær eru ekki glaðar og graðar að græða peninga?

Einn kunningi minn þvertók fyrir að konurnar á strippstöðunum væru þar nema af ánægjunni einni saman og benti á, því til sönnunnar, að þær væru fallegar með flottan skrokk. Það bendir auðvitað til mikillar hamingju, eða hvað? (Kannski ruglaðist hann því konur eru svo ægilega óhamingjusamar og öfundsjúkar ef þær eru ekki fallegar og fullkomnar í laginu? Og því hljóti allar fallegar vel vaxnar konur að vera happí? – Og auðvitað mest gaman að fá að sýna þessa óumdeilanlegu fegurð?!) Annar fullvissaði mig þegar hann sá ógeðssvipinn á mér, eftir að hafa sagt frá ítrekuðum viðskiptum sínum við vændiskonur í Hamborg á sjómennskuárum sínum, að þær hefðu auðvitað allar verið fallegar! - Úff, hvað ég varð fegin. Hefði alveg farið með mig ef hann hefði keypt kynlíf af ófríðum konum!

Efnisorð: ,

mánudagur, júlí 17, 2006

Góð og vond vændisfrumvörp

Þegar vorþingi lauk gerðu fjölmiðlar mikið mál úr rifrildum um hvenær því ætti að ljúka og að afgreiða hefði átt 100 lagafrumvörp eða svo á síðustu dögunum. Hvergi sá ég þó skýrt frá því hvaða frumvörp þetta hefðu verið og velti fyrir mér afhverju lesendum blaða fengju ekki að vita þetta og þá helst í aðgengilegu formi þar sem fram kæmi um hvað frumvarp fjallaði, hver lögðu það fram og greiddu atvæði með og á móti og svo að lokum hvernig hin nýju lög hefðu áhrif á almenning í landinu. En þó ég hafi velt þessu fyrir mér um stund og frústrerast yfir lélegum fjölmiðlum, þá dreif ég mig ekki að gera það sem ég vissi að myndi upplýsa mig um málið, að minnsta kosti að hluta til, en það er að lesa mér til á Alþingi.is. En svo rakst ég á einhverstaðar að vændisfrumvarpið hefði ekki verið samþykkt – en það var frumvarpið sem ég hafði mestar áhyggjur af. Það er reyndar týpiskt að slíkt frumvarp hafi ekki komist á dagskrá (og enn veit ég ekki hvort því var frestað eða það fellt, enda vandratað um vef Alþingis) því auðvitað er flestum þingmönnum skítsama um slíkt mál.

Annað er það og betra, að þetta tiltekna frumvarp í þessu formi skyldi ekki vera samþykkt því ég hef verið mjög ósátt við að ekki væri lagt til að sænska leiðin yrði farin. Kolbrún Halldórsdóttir hefur lagt til held ég í þrígang – í þrjú ár í röð – að fara að dæmi Svía og banna körlum að kaupa sér vændiskonur til afnota – en það hefur ekki hlotið nokkurn hljómgrunn meðal Sjálfstæðismanna, hvorki karla þess flokks né kvenna. Nú veit ég ekki hvort það er vegna þess að fólk í þeim flokki aðhyllist frjálshyggju eða hvort það er vegna þess að Sjálfstæðismenn eru illgjarnari en gengur og gerist, en þessi flokkur sker sig úr, því þingmenn allra annarra flokka eru hlynntir frumvarpinu. Og með því að Sjálfstæðisflokkurinn ræður allsherjarnefnd þá hefur verið hægt að svæfa frumvarpið þar árum saman. En nú er semsé nýtt frumvarp um sama mál á ferðinni, að þessu sinni komið frá Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra. Þar er ekki lagt til að sænska leiðin sé farin heldur er í raun verið að leyfa vændi alfarið, með því skilyrði þó að þriðji aðili megi ekki hagnast á því. Melludólgar mega semsagt ekki starfa en að öðru leyti á vændi að vera löglegt og hljóta allir að fagna því. Eða hvað er betra en að búa í samfélagi þar sem körlum býðst að kaupa sér konur til að níðast á? Og vita að konur eiga þó alltaf þá leið færa rati þær í ógöngur; að selja líkama sinn ókunnugum. Með blessun ríkisins. Og Björns.

Efnisorð: ,

laugardagur, júlí 15, 2006

Margrétar Thatcher syndrómið

Madeleine Albright, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á að hafa sagt að það sé frátekið pláss í Helvíti fyrir konur sem aðstoða ekki aðrar konur. Ekki trúi ég nú á Helvíti, svona sem samastað, en ég skil vel frústrasjónina bakvið fullyrðinguna. Við viljum kjósa konur til áhrifa, sjá þær í forstjórastólum og sem stjórnarformenn – en stundum eru þær konur sem komast í þessi áhrifamiklu störf bara allsekki feministar. Þeim finnst þær hafa eingöngu komist þar sem þær eru á eigin verðleikum, að áratuga barátta kvenna hafi ekki haft nein áhrif á þær, komi þeim ekki við. Þær segja jafnvel að þær hafi aldrei verið látnar gjalda kynferðis síns. Þær virðast þannig allsekki sjá allar hinar konurnar sem hafa verið látnar gjalda þess.

Það má vera að það séu til konur sem aldrei hafa þurft að heyra klámbrandara í vinnunni eða gert hafi verið lítið úr þeim og þeirra störfum, að þær hafi aldrei vitað til að karlmennirnir á þeirra vinnustöðum hafi fengið örari launahækkanir og betra kaup. Það má vera að þær hafi aldrei átt í vandræðum vegna veikinda barna eða þurft að sleppa barneignum til að halda í við starfsframa karlanna. Heppnar voru þær. Og kannski varð sú heppni til þess að þær komust svona langt, það voru kannski bara engar hindranir í veginum. Einhvernvegin finnst mér nú samt líklegt að þær hafi orðið varar við eitthvað af þessu, en ákveðið að líta framhjá því, annaðhvort til að skemma ekki móralinn eða til þess að halda bjartsýninni. Eða kannski finnst þeim þetta bara eðlilegt og svona verði maður bara að sætta sig við, óþarfi að gera veður útaf því.

Svo eru líka til konur sem komast langt sem álíta að það sé vegna þess að þær séu svo sérstakar, útvaldar, betri en hinar. (Ekki spurning að þær eru góðar og standa sig vel en það er hugsunarhátturinn sem ég er að tala um hér.) Með því að njóta sérstöðunnar þá dettur þeim auðvitað ekki í hug að samsama sig öðrum konum, líta jafnvel niður á þær, því þær eru ekki eins klárar eða hvað það nú er sem þær skara fram úr í. Konur með þennan hugsunarhátt ráða ekki aðrar konur í vinnu eða hjálpa þeim á neinn hátt. Kjósa gegn þeim eða hafna tillögum þeirra.

Allt þetta hentar körlum afar vel. Þeir hrósa konum sem eru ekki sífellt að kvarta og eru alveg sammála því að þessi tiltekna kona sé alveg sérstök og ‘ekki eins og hinar’. Þarafleiðir að þeir geta svosem alveg sætt sig við þessa einu, en hinar eru alveg jafn ómögulegar. Þannig tekst körlum og þessum tilteknu konum að viðhalda ríkjandi ástandi, enda þótt ein og ein kona komist áfram.

En afhverju er yfirleitt verið að hleypa þessum einstöku konum að? Einhverjir reyna að bauna því á feminista að þær geti ekki kvartað yfir stöðu kvenna með því að benda á að ‘karlar hafi leyft konum að fá kosningarétt,’ og hleypt þeim í hinar og þessar stöður. Valdhafar hafa um aldir vitað að til þess að skríllinn geri ekki blóðugar uppreisnir þá þarf að leyfa honum að sprella. Þannig mátti einu sinni á ári gera grín að kirkjunni, án þess að hljóta bannfæringu í kjölfarið, á karnivölum. Guðlast var jafn bannað fyrir því. En með því að leyfa það innan ákveðinna marka þá fékk skríllinn útrás. Á sama hátt hefur lengi tíðkast að hleypa einum og einum einstaklingi fram fyrir raðir jafningja hans og á það að vera til marks um að hópurinn sem hann tilheyrir sé jafngildur valdhöfum, en er í raun til að létta af þrýstingi. Það að Condoleezza Rice er ráðherra í ríkisstjórn Bush hefur hvorki bætt stöðu svartra í Bandaríkjunum né er staða hennar til marks um hve mikið mark er tekið á svörtum yfirleitt. Ein kona við stjórnvölinn í stórfyrirtæki – Rannveig Rist – er ekki til marks um frábæra stöðu kvenna í viðskiptalífinu. Til þess þyrftu þær að vera fleiri. Til dæmis jafnmargar körlum. Og jafnmargar í stöðu bankastjóra. Það er engin kona bankastjóri á Íslandi! En það að ein kona sé – til málamynda – tekin inn í hóp karla, það breytir litlu. Þessvegna þarf miklu að breyta, ekki síst hugsunarhætti þeirra kvenna sem þó hafa komist áfram. Án þess þó að hóta þeim Helvítisvist.

Efnisorð:

þriðjudagur, júlí 04, 2006

Aldrei að hrósa neinum

Gat nú skeð, ég er varla búin að sleppa orðunum um hve Boston Legal sé frábært og svo er nýjasti þátturinn alger ömurð. Ekki eitt réttlætanlegt atriði.

Efnisorð:

sunnudagur, júlí 02, 2006

Barist gegn nauðgunum með aðferðum sem virka ekki

Ég er ekki alltaf sammála þeim aðferðum sem notaðar eru til að vekja athygli á nauðgunum. Of oft er einblínt á einhvern einn þátt, sem gerir það að verkum að auðveldlega er hægt að útiloka hann. Dæmi um það er þegar sagt er að nauðgun sé alltaf ofbeldi. Ég geri mér grein fyrir að þá er átt við að með því að nauðga konu er verið að beita hana ofbeldi og að nauðgun sé ofbeldisglæpir og öll eigum við að vera á móti ofbeldi. Gallinn er sá, að með því að segja að nauðgun sé ofbeldi, þá geta nauðgararnir og vinir þeirra, sem alltaf hlaupa í vörn fyrir þá og réttlæta gerðir þeirra (aðallega þó til að þurfa ekki að horfast í augu við að þeir eigi vini sem eru nauðgarar) geta oft sagt að engu ofbeldi hafi verið beitt. Bæði vegna þess að konan var ekki barin áður en henni var nauðgað, á meðan eða eftir á, en líka vegna þess að karlar hafa oft á tíðum aðrar hugmyndir um hvað ofbeldi er heldur en við hin.

Strákavinir hrinda oft hverjir öðrum, slá til hvers annars eða taka einhvern hálstaki, bara grínsins vegna og vegna þess að þeir hafa vanið sig á það. (Svo átta þeir sig heldur ekki á því að undirliggjandi ástæða er oft að þá langar til að snerta vini sína en finnst það ‘hommalegt’ og þá verða snertingarnar svona stórkarlalegar.) Þar af leiðir að þeim finnst ofbeldi ekki vera neitt minna en beinbrot og glóðarauga, að minnsta kosti þarf hnefum að hafa verið beitt svo sjái á konunni. Þetta hefur endurspeglast í dómskerfinu (sem fer eftir handriti sem er skrifað af körlum, sem hafa sama viðhorf og strákarnir, enda voru þeir víst strákar einu sinni) þar sem nánast aldrei er fallist á að um nauðgun hafi verið ræða nema hægt sé að sýna fram á áverka. Að hóta með hnefunum, hrinda eða slá utanundir telst ekki ofbeldi hjá körlum.

Þessvegna virkar ekki röksemdin um að nauðgun sé alltaf ofbeldi, því þeir geta með góðri samvisku sagt að konan, sem kærði þá eða vini þeirra, hafi bara allsekki verið beitt ofbeldi; þarafleiðir að henni hafi ekki verið nauðgað. Þegar kona reynir ekki að verja sig vegna hræðslu, og nauðgarinn þarf því ekki einusinni að lúskra á henni, eða þegar kona liggur áfengisdauð eða því sem næst og getur því ekki varist, telur því ekki sem ofbeldi í hugum slíkra karlmanna. Að nauðgun sem slík sé ofbeldi er auðvitað fyrir ofan þeirra skilning.

Það þýðir heldur ekki að segja að nauðgun snúist um kynlíf (röksemd sem er held ég reyndar lítið notuð í fræðslu/áróðursskyni en heyrist oftar sem röksemd í umræðum). Vinir eins nauðgara sem ég þekki segja að það geti ekki verið að hann hafi nauðgað stelpunni – barið hana í klessu reyndar – en hann hafi alltaf átt svo mikinn séns í stelpur og sé ekki í neinum vandræðum með að fá sér að ríða, þessvegna hafi hann ekki nauðgað henni. (Sá fékk fangelsisdóm fyrir að misþyrma stelpunni en dómurinn taldi að nauðgunin hefði ekki sannast á hann, enda afar líklegt að stelpan hafi viljað kynlíf með honum þegar hann hafði barið hana með beltinu sínu um stund. Fátt eins æsandi náttúrulega.) Vinir hans sögðu að hann hefði alltaf barið stelpur sem hann komst í tæri við, en það væri fjarri honum að nauðga þeim, þessum ægilega sjarmör sem gæti fengið kynlíf hvar og hvenær sem hann vildi.

Málið er nú samt það að sú krafa karla að þeir fái kynlíf með hverri sem er og hvernig sem er, er ein ástæða þess að þeir nauðga. Þeir telja sig eiga rétt á kynlífi og smáatriði eins og samþykki konunnar þvælist ekki fyrir þeim. Þegar frægir gæjar eins og Kobe Bryant (bandarískur körfuboltamaður) er ásakaður um nauðgun, þá er fullt af fólki sem segir að það getur nú ekki verið að þeir ÞURFI AÐ NAUÐGA, því þeir séu umvafnir kvenfólki. Líkurnar eru þó þær að hann, eins og margir aðrir minna frægir – eða bara alls ekki frægir – telji sig vera yfir það hafinn að kona neiti honum. Eða kannski að hún geti nú ekki verið að hafna svona stórkostlegu tækifæri á að sofa hjá HONUM. Að því leytinu má segja að nauðgun snúist um kynlíf. En fyrir konuna, þolandann, snýst nauðgun allsekki um kynlíf (nema þegar nauðgunin eyðileggur fyrir henni kynlíf næstu árin vegna eftirkastanna, meira um það síðar), því hún upplifir ekkert kynlíf heldur nauðgun, árás á líkama sinn þar sem kynfæri hennar og aðrir kynnæmir hlutar líkamans verða verst úti.

Hið annars ágæta slagorð, NEI ÞÝÐIR NEI, er líka eitt og sér meingallað. Það er fullt af konum sem segja ekki nei. Þær segja kannski ‘hættu’ eða ‘ekki gera þetta’ eða þær segja ekki neitt. Á meðan hugsanirnar þjóta um hugann, ‘hvernig lenti ég í þessum aðstæðum?’ ‘getur verið að maðurinn ætli sér að nauðga mér?’ ‘ég vissi að ég átti ekki að …’ þá er ekki víst að konan muni eftir ‘lykilorðinu’ nei. Og hver segir svosem að það myndi duga þeim? Auðvitað er slagorðið að benda karlmönnum á að konan þurfi að gefa samþykki sitt fyrir kynlífi, annars sé ekki öruggt að hún vilji það, en það er ekki það sem karlmenn lesa endilega útúrþví. Heyri þeir ekki NEI, þá halda þeir ótrauðir áfram. Margir þeirra sem nauðga áfengisdauðum konum, eða konum sem eru orðnar svo drukknar eða dópaðar að þær koma ekki upp orði, þeir segja keikir frá því að þeir hafi sko ekki nauðgað neinum, hún hafi hreint ekki sagt nei þessi.

Auðvitað er áríðandi að segja körlum að þeir eigi að taka mark á því þegar konur samþykkja ekki kynlíf. Og auðvitað inniheldur öll ásökun eða ákæra um nauðgun orðið ‘kynlíf’, samanber setninguna hér að framan. Og auðvitað er nauðgun ofbeldi, hvernig sem svo karlar kjósa að túlka það. Þannig að ég skil alveg að reynt sé að sýna körlum fram á, í slagorðum eða hnitmiðuðu máli, hvað nauðgun sé og hvenær þeir eru komnir yfir mörkin, gallinn er bara sá að þeir munu alltaf nota hvern frasa fyrir sig til að benda á að þeir hafi allsekki nauðgað. Þessvegna verður alltaf að tala um nauðgun á sem fjölbreyttastan hátt – ekki bara eitt slagorð sem látið er ganga í áraraðir þar til annað tekur við – stöðugt, sem víðast og þar til það skilst hvað nauðgun er. Því nauðgun er ekki ‘bara ofbeldi’ eða ‘bara kynlíf’ og það er ekki nóg að ‘segja bara nei’. Því ef karlar, þarmeð taldir strákar, taka það ekki til sín, þá hætta þeir aldrei.

Efnisorð: ,