þriðjudagur, júní 24, 2008

Plástur á aukakílóin

Þó ég líti lyfjafyrirtæki oft hornauga þá gegnir öðru máli um lyfjaverslanir. Ég er líklega haldin einhverri gamaldags hugmynd um vinalega apótekara sem vilja hvern vanda leysa og gauka apótekaralakkrís að börnum með feita putta. En auðvitað eru gömlu apótekin löngu liðin undir lok og étin upp til agna af stórfyrirtækjum sem reka þau með markaðshlutdeild í huga.

Það er líklega þessvegna sem ég hef verið að reka augun í ýmsan varning í lyfjaverslunum, varning sem ég get ekki með góðu móti séð að komi 'hjálparstarfi' lyfsala við. Fyrir nokkrum árum rak mig í rogastans þegar ég sá stillt upp við afgreiðsluborðið kremi og áberandi leiðbeiningum um notkun þess. Kremið átti að 'auka unað ástarlífsins' eða eitthvað álíka og var að mig minnir kallað 'fullnægingarkrem fyrir konur'. Það átti að virka þannig að ef það væri borið á sníp með fingrunum þá fengi konan fullnægingu. Flest fólk veit reyndar að sé verið að vesenast í snípnum með fingrunum þá gæti það leitt til fullnægingar, en þarna var búið að markaðssetja rándýrt (kostaði yfir fimmþúsund kall þá) krem sem kynnt var sem töfralausn. Og þetta var selt í lyfjabúðum, rétt eins og hvert annað lyf eða nauðsynjavara.

Í gær átti ég svo leið í lyfjabúð og meðan ég beið við kassann sá ég bækling (ekki vöruna sjálfa) um plástur sem á að verða til þess að fólk missi aukakílóin. Textinn hljóðar svona:

Plástur á aukakílóin
100% náttúruvara
Einn á sólarhring
Minnkar matarlyst
Árangur eftir viku
Virkar allstaðar [á meðfylgjandi mynd sést grönn kona setja plástur á lendina]

Þarna koma fram sérkennilegar upplýsingar (ekki vissi ég að aukakílóin ættu svo bágt að þau þyrftu plástur) og ekki er ég viss um að framleiðandi geti staðið undir þessum fullyrðingum, nema virkni plástranna sé sú að fólki verði óglatt og missi matarlyst af þeim sökum (er það kannski ástæða þess að aðeins má nota einn á dag? Eru þetta fantasterkir nikótínplástrar?). Best af öllu er auðvitað að koma að tölunni 100% - hún gefur ísmeygilega til kynna að megrunaraðferðin virki 100% þótt það sé ekki það sem textinn segir.

Augljóslega er verið að spila á sívaxandi þörf fólks til að passa í ímyndina sem gefin er af hamingjusömu fólki; að það sé grannt. Það er vont að vera feit og þessvegna á fólk að hlaupa upp til handa og fóta og reyna bókstaflega allt til þess að ná 'hinni æskilegu kjörþyngd'. Að sama skapi er skylda að lifa hamingjusömu kynlífi (burtséð frá hvernig sambandið er að öðru leyti við makann eða hvort áföll á lífsleiðinni hafi haft sálræn áhrif á getuna til að njóta kynlífs) og sífellt er verið að ota að fólki lausnum sem eiga að gera það sígratt og glatt.

Fólk sem er fast í fortíðinni eins og ég, áttar sig ekkert endilega á því að hér er verið að pranga inná það svikinni vöru. Það ímyndar sér að lyfjabúðin sé framvörður heilbrigðiskerfisins og að læknar og vísindamenn vinni að því dag og nótt að tryggja því áferðafalleg læri og kröftugar fullnægingar. Eflaust kaupa einhver þetta plástursdót og þegar það virkar ekki er einhverju öðru drasli prangað inn á fólk (dæmi um megrunarlausnir sem ég man eftir: megrunarkaramellur, megrunarduft, auk allra kúranna) og einhver græðir. Þau sem ekki græða er fólkið sem er búið að fylla af skömm og sektarkennd yfir að líta ekki út eins og tískusýningarmódel, fólk sem kaupir allt draslið og reynir endalaust með engum árangri.

Það er verulega súrt að lyfjaverslanirnar skuli taka þátt í þessum blekkingarleik.

Efnisorð:

miðvikudagur, júní 18, 2008

Ísbirnir eru enn í útrýmingarhættu

Ég legg til að umhverfisráðherra segi af sér. Ofaná öll þau svik við umhverfisverndarstefnu þá sem Samfylkingin daðraði við í kosningabaráttunni og hvalveiðarnar bætist útrýmingarherferð á hendur ísbjörnum.

Enn betra: helvítis ríkisstjórnin segi af sér.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, júní 03, 2008

Ísbirnir eru í útrýmingarhættu

Að sjálfsögðu var ísbjörninn drepinn. Algert aukaatriði að engin hætta stafaði af honum, að hægt hefði verið að bíða eftir að fá lyf til að svæfa hann og flytja annað.

Íslendingum almennt - og karlmönnum sérstaklega - er alveg sama um dýr í útrýmingarhættu. Hvort heldur það eru ísbirnir eða hvalir. Væri þeim boðið á tígrisdýraveiðar myndu þeir kátir drepa þau líka.

Íslenskum karlmönnum finnst þeir alltaf þurfa að drepa allt sem fyrir verður. Sá sem skaut ísbjörninn mun örugglega koma í öllum fréttum og verða mikil hetja. Og sofnar með standpínu í nótt.

Efnisorð: ,

sunnudagur, júní 01, 2008

Samfélag á fyllibyttustiginu

Ég hef ekki gert mikið af því að hampa karlmönnum á þessu bloggi, síst af öllu karlmönnum sem lítinn eða engan skilning sýna málefnum feminista. En í SÁÁ blaðinu (sem fylgdi Fréttablaðinu um helgina) skrifaði Gunnar Smári Egilsson grein um alkóhólisma sem féll algerlega í kramið hjá mér.

Samfélag á fyllibyttustiginu
„Það er varla nokkur maður sem myndi andmæla því að áfengis- og fíkniefnaneysla breiðist hratt út á Vesturlöndum. Svo hratt að kalla mætti faraldur. Afleiðingar þessarar auknu neyslu eru ömurlegar fyrir milljónir einstaklinga og fjölskyldur þeirra. Samfélagsáhrif þessarar neyslu eru ekki síður hörmulegar; auknir glæpir, meira ofbeldi, brotnar og veikar fjölskyldur. Það mætti jafnvel halda því fram að áfengis- og fíkniefnaneysla hafi svo gegnsósað samfélagið að hegðun og lífsgildi fíkilsins séu í raun orðið normið í samfélaginu. Að við höfum drukkið frá okkur mest allt vit og séum sem hópur dottin niður á stig fyllibyttunnar.

Með því að renna í skyndi yfir sviðið - ekki ósvipað og við gerum þegar við kominn inn á barinn og kortleggjum stöðuna - þá er augljóst að svokölluð umræða í samfélaginu er flest á stigi fyllerísröfls. Ekki jafn agressíf og óheft og hún var um þar síðustu aldamót (sem varð til þess að þeim fáu sem ekki voru meira og minna drukknir alla daga tókst að banna áfengi) heldur frekar eins og röfl langdrukkinna á barmi kojufyllerís: Sambland sjálfsvorkunnar og ásakana sem þó eru það linar að ekki er hægt að flokka þær sem hótanir. Þjóðarsálirnar og -líkamarnir hafa misst samstillingu. Ef sálin er reið svíkur líkaminn. Og ef líkaminn er upptendraður logar dauft á týrum sálarinnar. Þess vegna mótmæla Íslendingar engu sem skiptir máli en kasta eggjum svo trukkbílstjórar [sic] fái að sofa. Eða vaka (ég hef ekki enn náð því um hvað þetta mál snýst).

Silfur Egils er hinn fullkomni hádegisbar röflsins; bar þar sem þjónninn er fyllstur og grípur frammí fyrir kúnnunum. Bloggið er síðan röfl þeirra sem drekka einir bakvið gardínur - og sem hafa annað hvort snökt eða gelt frá sér alla sem áður tóku upp símann.

(Samfélagsleg áhrif Internetsins byggjast á því að búa til hópa úr fólki sem áður var einangrað. Fyrsta afrekið var að sameina nördana sem áður voru bara einn í hverjum bekk, ofsóttir og eineltir. Í gegnum Netið gátu þeir myndað samfélag, eflst og styrkst og orðið að öflugum neysluhópi í samfélaginu. Næstu afrek Netsins - ef afrek skyldi kalla - var að sameina nýnasista og aðra fasista. Og síðan barnaníðinga. Og loks þá sem heima sitja, drekka og röfla. Saman mynda þeir bloggsamfélagið; samfélagið sem krafðist auga fyrir auga hundsins Lúkasar og fleytti kertum í minningu hans.)

Ef við göngum niður Laugaveginn er eins og við séum í heimsókn hjá langdrukknum hjónum. Heimilið er löngu niður dankað, engin drift til að skipta um brotna rúðu eða gera við lekt rör og svo til allir veggir eru útkrotaðir. Og ef við spyrjum hvers vegna er eins og hjónin séu fyrst núna að taka eftir þessu kroti? Síðan svara þau því til að krakkarnir hafi krotað þetta. Hvenær? - spyrjum við. Í fyrra, -- svara hjónin.

Þó einstaklingar hafi gert kraftaverk í endurgerð gamalla húsa þá er sá hluti gamla bæjarins sem er frekar opinbert rými en íbúðargötur eins og kvistherbergi gamallar fyllibyttu. Til að fullkomna innsetninguna ættu bæjaryfirvöld að prjóna daunillan sokk og láta hann lafa fram af brunarústunum á horni Lækjargötu og Aðalstrætis [sic]. Og smíða hálfétinn risasviðakjamma frá Umferðarmiðstöðinni í garðinn á bak við Sirkus heitinn.

Hvers konar fólk býr í borg sem svona er gengið um?

Fyllibyttur
Fyrir hálfri öld fór fólk út úr bænum til að drekka frá sér ráð og rænu; æla, míga og skíta undir berum himni; nauðga, slást og berja. Þá voru Þórsmerkurferðir einskonar frí frá mennskunni í bænum. Fólk fór yfir tvær óbrúaðar ár til að komast nú örugglega í hvarf frá kröfum um eðlilega kurteisi og tillitssemi. Síðan fóru menn að gera bisness úr þessu hömluleysi og við fengum Húsafell og Þjóðhátíð í Eyjum. Þá hélt fólk sig á mottunni meira og minna í heilt ár (fyrir utan nokkur sveitaböll) en sleppti svo rækilega fram af sér beislinu um verslunarmannahelgina. Til að draga aðeins úr nauðgunum og misþyrmingum var flugbjörgunarsveitin fengin til að halda mestu svínunum við stíurnar og Stígamót setti upp tjöld til að sinna nýnauðguðum.

Þetta taumleysi hefur fyrir löngu sprengt af sér verslunarmannahelgina og er flutt í bæinn. Í miðbæ Reykjavíkur er standandi 10 til 20 þúsund manna útihátíð föstudags- og laugardagskvöld allan ársins hring + daginn fyrir alla frídaga. Munurinn er hins vegar sá að þar sést hvorki lögga né flugbjörgunarsveit eða tjald frá Stígamótum.

Fórnarlömbin birtast í pungum á bakinu á Morgunblaðinu á sunnu- og mánudögum. Þar er helstu atburðum safnað saman í knappt mál svo það trufli sem minnst; höfuðkúpubrot í Bankastræti, hópslagsmál í Tryggvagötu, nauðgun í húsgarði við Laugaveg.

Og við hinar fyllibytturnar sættum okkur við þetta sem einskonar fórn til að geta haldið uppi taumlausasta næturlífi í veröldinni (fyrir utan fáein svæði þar sem er virkt borgarastríð; Saigon viku fyrir flótta Bandaríkjamanna, Libería undir Charles Taylor). Unga fólkið, sem er barið og nauðgað og sem bera mun þess merki ævina á enda, er eins og sjómennirnir sem við drekktum á árum áður og kölluðum fórn til Ægis. Fyrir þrjátíu árum eða svo drukknuðu 10, 20, 30 sjómenn á hverju ári og þótti eðlilegt. Þar til það þótti ekki lengur eðlilegt og menn fóru að gæta að öryggi. Síðan hafa jafn margir drukknað til sjós eins og mannfórnin var á einu til tveimur meðalárum. Að ekki sé talað um alla þá sjómenn sem hafa haldið hönd eða fæti sem annars hefðu kubbast af.

Í næturlífinu látum við fórnirnar hins vegar halda áfram. Við þorum ekki að raska neinu af ótta við að næturlífið í Reykjavíku þyki ekki lengur eitt af undrum veraldar og Quentin Tarantino kynni að mæta hjá Jay Leno án þess að tala um hvernig Íslendingar ældu hver upp í annan. Er það ekki þess virði þó nokkur ungmenni beri varanlegan heilaskaða eftir glerflösku í hnakkann?

Drykkja og ólifnaður í kjölfarið einkenna alla fólksflutninga og umbrotatíma. Þannig var það á átjándu og nítjándu öld; ekki síst í Bandaríkjunum, sem var einn stór svellandi pottur. Það var því ekki að undra að þar næðu þeir sem reyndu að andæfa þessari þróun mestum árangri. Og barátta bindindishreyfinga og annarra siðbótar- og mannræktarsamtaka mótar enn í dag bandarískt samfélag meira en víðast hvar annar staðar.

Eins og bindindishreyfingin var farvegur andófs gegn fyllerísvæðingu samfélagsins á nítjándu öld þá hafa AA-samtökin verið farvegur fyrir þá sem glíma vilja við Bakkus frá miðri síðustu öld. Munurinn er hins vegar afgerandi. Bindindishreyfingin var mest út á við. Hún vildi siðbót samfélagsins. AA er hins vegar öll inn á við og leggur blátt bann við baráttu fyrir almennri siðbót. Annar félagssskapur sem lætur sig þessi mál varða - eins og til dæmis SÁÁ - hefur síðan dregið dám af þessu prinsippi AA. Stemmingin í nútímanum er að áfengisvandinn sé einkamál og við hann verði ekki fengist nema á einkanlega svæðinu (í næstu dyrum við Guð).

Þess vegna er samfélagið okkar svona gegnsósa af afleiðingum drykkjunnar og svo margt sem ber með sér svipmót fíkilsins og fyllibyttunnar. Hinir drukknu hafa fengið að vaða uppi vegna þess að það er almennt álitið til lítils að ætla að siða menn til betrunar. Betrun verður að koma þegar hún kemur og hinn fulli hlammast loks á sinn botn.

En þarna er verið að rugla saman tveimur óskyldum hlutum. Annars vegar lausn hverrar fyllibyttu úr vítahring drykkjunnar og hins vegar hvaða siðferðismörk við viljum hafa í samfélagi okkar. Úr því að AA getur ekki staðið í slíkri baráttu og SÁÁ vill það ekki þá sárvantar einskonar fyllerísvakt í samfélagið sem baular á bytturnar - ekki ósvipað og femínistar baula á karlrembur.

Slík vakt ætti ekki aðeins að hrekja útihátíðina aftur upp í Þórsmörk (hún myndi þá bætast við fyllerí jeppa- og vélsleðamanna) heldur líka benda á drukknar röksemdir, kenndar niðurstöður og timbraðar ákvarðanir í stjórnmálum, viðskiptum og öðrum opinberum vettvangi.

Er einhver sem heldur til dæmis að þeir Davíð Oddsoon og Halldór Ásgrímsson hafi verið edrú þegar þeir ákváðu að styðja innrás Bandaríkjamanna inn í Írak?“

Gunnar Smári Egilsson, SÁÁ blaðið, maí 2008.

__
Burtséð frá því hvernig Gunnar Smári lítur á bloggara þá gæti ég ekki verið meira sammála um umgengnina um Reykjavík og drykkjuna sem við látum yfir okkur ganga. Og vegna þess að ég er forræðishyggjusinni frá helvíti þá myndi ég vilja að bannað væri að selja áfengi jafnt sem önnur vímuefni. Til vara legg ég til að opnunartími veitingahúsa verði styttur og breytt til fyrra horfs ef ekki lokað uppúr miðnætti, eins og hjá siðuðum þjóðum. Partur af útihátíðarstemningunni er nefnilega sá að það er hægt að vera nánast linnulaust við drykkju í miðbænum sólarhringunum saman, rétt eins og á útihátíð.

Efnisorð: , ,