föstudagur, ágúst 31, 2018

Hrokkið í vörn

Stundum gerist það að ég les pistil þar sem ég er sammála hverju orði. Þannig var um pistil séra Bjarna Karlssonar um Nauðgunarmenninguna sem birtist í Fréttablaðinu í gær. Samlíkingin milli kristinna brúðkaupa og búrku var snjöll, svo ræddi Bjarni ofbeldi í nánum samböndum sem stærsta heilsufarslega áhættuþátt kvenna, yfirráðahyggju mannkyns sem orsakir loftlagsbreytinga, og sagði að kynbundið ofbeldi er menningarheilkenni.

En alveg undir lokin, eftir að hafa talað um skömm og #metoo, fer hann að gagnrýna DV fyrir „skammarherferð á hendur nafngreindum einstaklingum“. Þarna skautar Bjarni langt útaf brautinni. Hann er hugsanlega að bera blak af Kjartani Guðjónssyni (og það er mjög svekkjandi ef hann er að gera það) en alveg örugglega að hlaupa í vörn fyrir vini sína og kunningja í prestastéttinni, en DV hefur undanfarið rifjað upp ýmis afbrot kirkjunnar manna.

Auðvitað kemur sú umfjöllun illa við einhvern, og auðvitað finnst einhverjum að málin séu gömul, halda því fram að iðrun/veikindi/dauði gerenda eigi að koma í veg fyrir að málin séu rifjuð upp, eða þá af tillitsemi við fjölskyldur þeirra. En við erum með fjölmiðla, við búum í upplýsingaþjóðfélagi, það væri fáránlegt að aldrei yrði framar minnst á eitthvað óþægilegt fyrir neinn. Og hvenær fyrnist þá þöggunarfresturinn, þegar ættingjar í þriðja lið eru dauðir? Það virkar auðvitað ekki þannig. Og það er beinlínis lélegt af Bjarna að skrifa heilan pistil um nauðgunarmenningu í því skyni einu að við sem samfélag eigum að „endurreisa fólk“.

Í dag birtist svo pistill eftir Þórlind Kjartansson, og er titillinn vísun í lag með Ladda: Æ, og skammastu þín svo. Þórlindur er prýðilega ritfær og oft ánægjulegt að lesa pistla hans (enda þótt ég hafi það alltaf bakvið eyrað að hann er stækur frjálshyggjumaður). Hann er þarna semsagt (eins og Bjarni) að tala um skömm, hún leikur reyndar aðalhlutverkið. Og allt er það mjög gott sem hann segir. Eða svona framanaf.

En svo, eins og Bjarni, kemur hann sér að efninu.
„Í vikunni gekk um netið skjal sem á uppruna sinn í jafnréttisstarfi Reykjavíkurborgar. Þar er að finna lista yfir ýmiss konar forréttindi sem sagt er að karlmenn, hvítt fólk, gagnkynhneigðir, sískynhneigðir, ófatlaðir og Íslendingar njóta. Á listanum var margt efnislega ágætt, upplýsandi og vel meint — og eflaust er það einstaklingum hollt að velta því stundum fyrir sér í þakklæti ef lífið hefur af einskærri heppni veitt þeim góð tækifæri til þess að blómstra. En svona listi getur líka haft þau áhrif að kynda undir óverðskuldaða skömm meðal þeirra sem falla af einskærri heppni í þessa svokölluðu forréttindahópa. Ekkert er unnið með því, því það hjálpar ekki þeim sem áður voru að ástæðulausu látnir skammast sín að nú þurfi einhverjir aðrir að bera skömm sem þeir eiga sjálfir enga sök á.“
Umræddan lista má lesa hér. Mér finnst þetta mjög góður listi, ótalmargt þarna sem karlmenn, hvítt fólk, gagnkynhneigðir, sískynhneigðir, ófatlaðir og Íslendingar átta sig ekki á. Að lesa öll atriðin á listanum er mjög upplýsandi fyrir það fólk sem er sér ómeðvitað um forréttindi sín.

Ég á erfitt með að sjá að listinn vekji upp „óverðskuldaða skömm“ hjá meirihlutahópum. Listinn vekur vonandi til umhugsunar, og verður til þess að framkoma við fólk í minnihlutahópum batnar. Það er beinlínis hallærislegt (og hægt væri að nota enn gildishlaðnara orð) að leggja sig jafn mikið fram og Þórlindur gerir til að gagnrýna þennan lista.

Það er ekkert að því að fólk í forréttindahópum horfi í eigin barm, og þótt listinn sé varla til þess gerður að fólk skammist sín, þá er ekkert að því að skammast sín ef maður áttar sig á hafa sýnt fólki í minnihlutahópum óvirðingu með einhverjum hætti. Þórlindur veit þetta vel, enda skrifaði hann fyrr í pistlinum um þetta:
„Félagsfræðingar telja meira að segja að skömmin sé einhver mikilvægasta tilfinningin sem mannfólkið hefur þróað með sér. Innbyggðir áttavitar um hvað sé rétt og rangt eru nauðsynlegir til þess að samfélög gangi sæmilega án stöðugs eftirlits og ógnunar um refsingar. Þegar maður gerir eitthvað af sér þá er gott að maður skammist sín, líði illa — og lofi sjálfum sér og öðrum að gera aldrei svona aftur.“
En þó er það Þórlindi mikill þyrnir í augum ef fólk í forréttindastöðu færi að skammast sín fyrir nokkurn hlut. Þetta heitir að standa með sínu fólki.

Efnisorð: , , , , , , , , , , , , ,

föstudagur, ágúst 24, 2018

Upp kemst um Kjartan um síðir

Ein af ástæðum þess að ég byrjaði að skrifa þetta blogg og hafði það nafnlaust, var að ég ætlaði að birta nöfn manna sem ég vissi að væru ofbeldismenn og nauðgarar. Það hef ég þó ekki gert nema þegar nöfn þeirra hafa verið komin í fjölmiðla eða ég getað bent á dóma yfir þeim. Þessvegna hef ég ekki fram til þessa dags nefnt Kjartan Guðjónsson með nafni, enda þótt ég hafi lengi vitað hvað hann gerði. En nú hefur DV tekið málið í sínar hendur og segir í dag frá því að Kjartan nauðgaði og misþyrmdi konu fyrir þrjátíu árum, og var dæmdur í Hæstarétti til fimmtán mánaða fangelsisvistar. Það er ekki fyrr en nú sem það kemst í hámæli (dómurinn hefur ekki verið á netinu), og DV segir að SS hafi tekið auglýsingar með honum úr umferð en hann hefur leikið í auglýsingum fyrirtækisins um árabil, og smettið á honum meirasegja verið á pylsupökkunum. Kjartan hefur einnig leikið fjölmörg hlutverk á sviði (aðallega í Þjóðleikhúsinu), í kvikmyndum og í sjónvarpi, og DV telur upp þætti á Stöð 2: Stelpurnar, Pressa og Ástríður, „og einnig hefur hann komið fram í Áramótaskaupi Sjónvarpsins“.

Ég veit ekki hvað oft ég hætti að horfa á Skaupið vegna þess að Kjartan var í því en það var alltof oft sem hann náði að eyðileggja þá skemmtun. Ég hef markvisst forðast að fara á leiksýningar sem hann hefur verið í, og hef séð örfáar mínútur af Stelpunum (eða var það Ástríður) en þá birtist Kjartan og ég slökkti. Hefði almenningur vitað undanfarin þrjátíu ár hverskonar maður Kjartan er, þá er ólíklegt að hann hefði fengið neitt af þessum hlutverkum (og þá hefði ég getað skemmt mér yfir eflaust ágætum leikritum, sjónvarpsþáttum og áramótaskaupi). Eða hefði hann þá fengið hlutverkin í Stelpunum og þáttunum um Ástríði?

En kannski hefði það ekki haft neinn áhrif á ferilinn að allir vissu að hann væri ofbeldismaður og nauðgari, það er ekki eins og það sé sjaldgæft að verstu skúnkum sé hampað og menn greiði götu þeirra. En áhorfendur/samstarfsfólk/vinnuveitendur hefðu allavega haft val um að sniðganga hann. Auðvitað eru svo alltaf einhverjir sem standa með honum, það má nú þegar sjá í athugasemdum við frétt DV þar sem (aðallega) karlmenn býsnast yfir að verið sé að rifja upp svona gamalt mál og jesúsa sig yfir dómstól götunnar.

Ég hef meiri samúð með þeim sem hafa haft álit eða dálæti á Kjartani, hvað þá leiklistarfólkið sem hefur unnið með honum, og þarf nú að endurskoða allt sitt viðhorf til hans.

Mesta samúð hef ég þó auðvitað með veslings konunni sem hann beitti þessu hræðilega ofbeldi. Vonandi mislíkar henni ekki þessi umfjöllun um of. Ég ímynda mér að henni hljóti að hafa þótt erfiðara að sjá honum hampað og hafa hann fyrir augunum í allan þennan tíma, og eflaust hefur hún ekki einusinni getað horft á Áramótaskaupið án þess að þessi skelfingaratburður rifjist upp.

Það er gott að DV skuli fjalla um þetta. Það má ekki þagga svona mál endalaust.


___

[Viðbót] Athugasemdakerfi DV logar af fólki sem ber blak af Kjartani. En þessi athugasemd, þótt hún sé allsekki úr þeirri átt, er einhver sú óþægilegasta af öllum.

Gunnar B. Svavarsson skrifar:
„Alltaf jafn merkilegt hvað menn koma af fjöllum þegar svona mál koma upp. Þau ár sem ég vann í Þjóðleikhúsinu var enginn stærri fíll í húsinu en Kjartan og þetta brot hans. Allir vissu af þessu og eftir því sem ég best veit var krísufundur með Stefáni Baldurssyni, þáverandi þjóðleikhússtjóra, þar sem einhverjar leikkonur neituðu að vinna með honum. Stuttu seinna var Daddi fenginn til að leysa af í hlutverki þar sem hann lék drykkfelldan ofbeldismann.

Af íslenskum sið sýndi yfirstjórn Þjóðleikhússins þessu máli lítinn sem engan áhuga og eitthvað segir mér að SS hafi verið nokk sama þar til þetta varð viral.“
— Þetta er ákkúrat það sem er að í samfélagi þöggunar, nauðgunarmenningar og karlveldis.

Efnisorð: , , , , , , , ,

miðvikudagur, ágúst 22, 2018

Fársjúkir sjúklingar og fæðingarhjálp við undirleik byggingaframkvæmda

Já getur það verið að það sé óþægilegt fyrir starfsfólk og sjúklinga á Landspítalanum að hlusta á byggingaframkvæmdir allan liðlangan daginn? Það hefði mátt forða því ástandi með því að byggja splúnkunýjan spítala í heilu lagi annarstaðar.

Í fréttum RÚV og síðan Vísis má hlusta á hávaðann sem berst inn til sjúklinganna. Þar segir einnig í frétt RÚV:
„Starfsfólk spítalans, sem fréttastofa hefur rætt við, kvíðir hávaða og öðru raski sem kemur til með að fylgja framkvæmdunum. Ljósmæður á kvennadeild spítalans segja miklar truflanir hafa verið vegna byggingar nýs sjúkrahótels undanfarin ár. Hávaði vegna framkvæmdanna hafi meðal annars ítrekað haft þau áhrif að ljósmæður gátu ekki hlustað á hjartslátt fósturs við fæðingu.“
Og ballið er rétt að byrja.

Efnisorð: ,

mánudagur, ágúst 20, 2018

Kálfafull langreyður drepin fyrir Kristján

Drógu kálfafulla langreyði í land. Bara í alvöru. Frétt Vísis sýnir hvar fóstrið er dregið úr augsýn, enda stóðu yfir mótmæli hvalveiðiandstæðinga og ekki heppilegt að hafa vitni yfirleitt að þessu óhæfuverki.

Vonandi er Kristján Júl sjávarútvegsráðherra ánægður með sig núna. Vonandi er Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ánægð með sig núna.

Kristján Loftsson mun auðvitað sofa vel í nótt sem endranær.


———
[Viðbót] Fram hefur komið að „Algengt er að langreyðarkýr sem skotnar eru hér við land á sumrin séu kelfdar og eigi nokkra mánuði eftir af meðgöngu.“


Efnisorð: ,

þriðjudagur, ágúst 14, 2018

Moggalygin

Það er gott að HIV-Ísland og Samtökin '78 skuli fara fram á afsökunarbeiðni frá ritstjórn Morgunblaðsins og Víkverja 'sjálfum' vegna þvælunnar sem birt var undir hatti Víkverja. Það á auðvitað ekki að láta það óátalið að birta svona rakalausa vitleysu um hvortveggja hlýnun jarðar og alnæmisfaraldurinn — sem þaraðauki gerir lítið úr þjáningu og dauða ótal manns.

Mest er ég þó hissa á að fólk skuli yfirleitt vita hvað birt er í Mogganum. Les einhver þennan snepil?

Efnisorð: , ,

laugardagur, ágúst 11, 2018

Efnishyggja fjölmiðla minnkar samkennd

Í Fréttablaðinu í dag var heilsíðu umfjöllun um áhugaverða rannsókn. Umfjöllunin var grafin djúpt inni í 'kynningarblaðinu Fólk' sem ég er ekkert viss um að allir lesi. Þessvegna vil ég vekja athygli á henni hér, jafnfrat því að setja tengil á umfjöllunina þar sem hún birtist á Fréttablaðið.is. Yfirskrift umfjöllunarinnar vísar í niðurstöðu rannsóknarinnar sem er sú að efnishyggja fjölmiðla minnkar samkennd. „Þessi niðurstaða hefur vakið athygli og verður án efa umdeild“, segir í umfjölluninni, sem er eflaust rétt og þá verður líklega bent á að fjöldi þátttakenda var aðeins 487 manns (þykir það nóg?), og að um vefkönnun var að ræða. Hinsvegar eru þetta að minnsta kosti áhugaverðar vísbendingar.

Oddur Freyr Þorsteinsson blaðamaður kynnir rannsóknina svona:
„Rannsókn sem var unnin við London School of Economics gefur til kynna að sjónvarpsþættir og annað fjölmiðlaefni sem hampar frægð, lúxus og uppsöfnun auðs geti gert fólk líklegra til að vera á móti velferðargreiðslum og minnkað samkennd þeirra með fátækum. Rannsóknin birtist í ritrýnda sálfræðitímaritinu Journal of Media Psychology.“
Eftir að rannsókninni hefur verið lýst að mestu leyti er sagt frá þessum hluta hennar:
„Þátttakendur voru líka spurðir um hversu oft þeir horfðu á níu sjónvarpsþætti, þar á meðal The Apprentice, X-Factor, Keeping Up With the Kardashians og Made in Chelsea. Þeir voru einnig spurðir um lestrarvenjur sínar varðandi fimm slúðurblöð sem koma út daglega og flytja reglulega fréttir af ríku frægu fólki og tíu tímarit sem auglýsa lúxusvörur, eins og Vogue, Cosmopolitan, GQ og Esquire.

Rannsakendur segja að niðurstöðurnar hafi sýnt að þeir sem horfðu reglulega á þætti eins og The Apprentice og X-Factor væru mun líklegri til að vera mjög á móti velferðargreiðslum og leggja meiri áherslu á efnishyggju en þeir sem horfðu bara á þá af og til.

Það sýnir auðvitað bara fylgni, sem getur skýrst af því að fólk sem er á móti velferðargreiðslum og hrifið af efnishyggju hafi almennt svipaðan smekk, en niðurstöðurnar sýndu líka að þeir, sem var sýnt fjölmiðlaefni sem hampaði efnishyggju, voru greinilega meira á móti velferðarkerfi og velferðaraðgerðum en þeir sem sáu hlutlaust fjölmiðlaefni.“
Verst að ekki skuli hafa verið rannsakað hvaða áhrif The Apprentice hafi á fólk sem er í þáttunum, en kannski er óþarfi að rannsaka það sem blasir við. En sannarlega má þar líka segja að fólk sem haldið er efnishyggju hafi sóst eftir þátttöku.

En burtséð frá appelsínugula viðrininu þá er þetta áhugaverð rannsókn sem á athygli skilið. Kannski var hún líka birt á besta stað í blaðinu: þar sem útlit og tíska eru allsráðandi.

Efnisorð: ,

miðvikudagur, ágúst 08, 2018

Afrekaskrá Fangelsismálastofnunar og fangelsismálastjóra

Það var ekki fyrr en klukkan að verða ellefu í gærkvöld, þriðjudag, sem fréttir bárust af því að fangi hefði strokið af Vernd á laugardagskvöld. RÚV birti fréttina að ganga tvö síðastliðna nótt, aðfararnótt miðvikudags. Í hádeginu í dag staðfesti svo Páll Winkel fangelsismálastjóri að fanginn væri enn ófundinn. Hálfsjö í kvöld var svo loks nafn strokufangans birt sem og lýsing á honum. Hann heitir semsagt Björn Daníel Sigurðsson og myndir af honum fylgja fréttum RÚV og Vísis.

Björn Daníel var dæmdur í febrúar í fyrra fyrir frelsissviptingu, líkamsárásir, hótanir og kynferðisbrot gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni. Hann fékk fjögurra ára dóm, en er þegar kominn á Vernd. (Á það hefur verið bent í athugasemdakerfum fjölmiðla að líklega hafi hann setið lengi í gæsluvarðhaldi fram að dómi og komi sá tími til frádráttar hinni eiginlegu fangelsisvist.) Það er alveg galið að það sé enginn greinarmunur gerður á alvarleika brota, og hvort þau beinast gegn lífi og heilsu annarra, þegar menn fá að fara á Vernd.

Konan sem Björn Daníel misþyrmdi segir í viðtali við DV að áður en hann var á Vernd hafi hann farið í meðferð á Hlaðgerðarkot, og af orðum hennar má skilja að hann hafi stungið af frá Hlaðgerðarkoti því hún rakst á hann í Smáralind. Hún hafi látið Fangelsismálastofnun vita af veru hans þar en samt hafi hann fengið að fara á Vernd. Aftur á móti lét Fangelsismálastofnun hana ekki vita af stroki hans frá Vernd um helgina. Hún var því algerlega grunlaus um að Björn Daníel gengi laus (eða þar til vinir hennar sögðu henni frá stroki hans) og gat því ekki forðað sér.

Hvenær verður eiginlega Páli Winkel vikið úr starfi? Syndaregistur hans er að verða ansi langt. Bankabófarnir fengu að velja sér hvenær og hvert þeir fóru í sína afplánun, og eftir Kvíabryggjuvistina fengu fljótlega að fara á Vernd. Páll horfði á klám með löggu sem einnig er barnaníðingur, að börnum viðstöddum, rétt áður en barnaníðingurinn braut á barni, og Páll fær að komast upp með að segjast vera of fullur til að bera vitni um málsatvik, sem átti sinn þátt í því að málið var fellt niður. Núna strýkur hættulegur fangi (sem hefði sennilega ekkert átt að vera á Vernd) og það líða heilu dagarnir þar til fjölmiðlum berst vitneskja um málið, og þá er tregðast við að nafngreina fangann, næstum eins og almenningi eigi ekki að gefast kostur á að vísa á hann — eða forðast hann.

Ef Björn Daníel Sigurðsson brýtur af sér áður en hann finnst, þá er það á ábyrgð Páls Winkel.

Efnisorð: , , , ,

þriðjudagur, ágúst 07, 2018

Lestur fjölmiðla um verslunarmannahelgi

Stundin er í nýjasta tölublaði sínu með áhugaverða og ítarlega (og á köflum dapurlega) úttekt á störfum ræstingafólks. Diljá Sigurðardóttir tók viðtöl ásamt því að fara í vettvangsrannsókn
„hjá stærsta ræstingafyrirtæki landsins, ISS sem nú heitir Dagar, en þar starfa um 800 manns. Fyrirtækið er að mestu í eigu fjölskyldu fjármálaráðherra, sem var fyrir mistök skráður sem stjórnarmaður um tíma, bræðranna Benedikts og Einars Sveinssona og hefur vakið athygli fyrir að skila gríðarlegum arði á sama tíma og þeir ástunda undirboð á ræstingum. Í fyrr bauð fyrirtækið lægsta tilboð í 76 prósenta tilvika, og þótt hagnaður hafi dregist saman á milli ára fengu hluthafar engu að síður 759,7 milljarða arð“.[?]
Á árum áður hafði Dilja unnið við ræstingar og þekkir því vel til í þessum heimi þar sem erlent vinnuafl er í miklum meirihluta, illa borgað, vinnuþrælkað og ósýnilegt. Titill úttektarinnar er enda „Úrvinda í minnst metna starfi samfélagsins“.

Illugi Jökulsson skrifaði einnig í Stundina pistil um sýknudóm yfir stuðningsfulltrúa Barnaverndar sem ákærður var fyrir að misnota fimm einstaklinga á barnsaldri. Maðurinn neitaði öllum sakargiftum staðfastlega og það var nóg til að hann var sýknaður, enda þótt vitnisburður hvers og eins þeirra sem hann braut á væri trúverðugur. Þessi dómur er hneyksli og ég tek undir með Illuga sem er því feginn að honum verður áfrýjað.

Leiðari Stundarinnar er að þessu sinni skrifaður af Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur og fjallar hún þar um „sjálfsmynd þjóðar sem lætur selja sér hugmyndina um að Ísland sé best í heimi“. Frábærlega vel skrifað og snjallt.

Ole Anton Bieltvedt skrifaði pistil í Fréttablaðið um ímynd Íslands og segir merki þess dregið niður í svaðið vegna þess hve dýra-, náttúru-, og umhverfisvernd er á lágu plani. „Ný og góð lög hafa reyndar verið sett, en lítið eða ekkert er eftir þeim farið.“ Þarfur pistill þar sem hvalveiðar koma allmikið við sögu.
„Af 50 langreyðum, sem vorum veiddar 2014, þurftu 8 að heyja lífsbaráttu í allt að 15 mínútur, þar sem stálkló skutuls reif og tætti innyfli, líffæri og hold dýranna, í heiftarlegum átökum og kvalræði, þar til yfir lauk.“
Það er von að Ole Anton spyrji: „Er einhver glóra í því, að við látum „einn mann“ draga ímynd og orðspor landsins – merkið okkar allra; Ísland - niður í svaðið?“

Efnisorð: , , , , , , ,