fimmtudagur, júní 30, 2011

Í umdæmi Þvagleggs sýslumanns

Þrátt fyrir að allir fjölmiðlar hafi skýrt frá því að myndbandsupptökur séu til af barnaníðingnum í Vestmannaeyjum þar sem hann sést nauðga átta ára barni, þá heldur Fréttablaðið sig við rótgróna karlahefð og kallar hann „meintan“ barnaníðing. Það er ótrúlegt hve nauðsynlegt það þykir alltaf að halda hlífiskildi yfir kynferðisbrotamönnum.

Þessi heimskulega hefð sem Fréttablaðið hangir í er skaðleg, en þó auðvitað ekki eins skaðleg og sú afstaða Þvagleggs sýslumanns að barnaníðingurinn þurfi ekki að sæta gæsluvarðhaldi því frjáls för hans varði ekki almannahagsmuni. Hagsmunir kvenfólks á barnsaldri þykja auðvitað ekki almannahagsmunir enda eru þær auðvitað ekki almenningur. Það voru þá líklega almannahagsmunir þegar þvagleggnum var þröngvað uppí þvagrás konunnar sem ók drukkin hér um árið í umdæmi sýslumanns, en hennar kynfrelsi og hagsmunir höfðu auðvitað þá ekkert að segja. Kvenfólk á öllum aldri virðist reyndar vera fremur lítils virði í umdæmi sýslumanns.

Í umdæmi þessa sama [sýslumanns*] lögreglustjóra kenndum við Þvaglegg verður svo haldin Þjóðhátíð eftir rúman mánuð. Þá verður sýsli auðvitað enn að störfum (enda á hann hvorki eftir að segja upp sjálfur né verða rekinn þótt öllu venjulegu fólki þyki hann óhæfur til starfa vegna kvenhaturs) og verður fróðlegt að sjá hvernig tekið verður á „meintum“ kynferðisbrotum á Þjóðhátíð — ef þá þjóðhátíð þaggar þau ekki öll niður eins og hvertannað kellínganöldur.

Talandi um Þjóðhátíð, bleikt.is er með „sumarvinkonuleik“ þar sem í vinning eru miðar á Þjóðhátíð. Við hinir feministarnir hefðum nú frekar viljað sniðganga Þjóðhátíð svona vegna ummæla formanns þjóðhátíðarnefndar um Stígamót, en bleikt.is auglýsir hvað sem er, meira segja nauðgarahátíðina.

___

* Viðbót: Það mun vera rangt hjá mér að Þvagleggur sé sýslumaður Vestmannaeyja. Hann er sýslumaður og lögreglustjóri á Selfossi en það er lögregluembætti hans sem fer með rannsókn mála í Eyjum.

Efnisorð: , , ,

sunnudagur, júní 26, 2011

Prinsessupönkið

Þegar ég sá auglýsinguna frá prinsessuskólanum fletti ég samstundis upp á skólanum á netinu til þess að sjá hver stæði fyrir þessum ósköpum (svar: Anna og útlitið). Meira gerði ég ekki þann daginn en hugsaði mitt.

Meðan ég var að hugsa um þetta fjarstæðukennda fyrirbæri (að kenna átta ára börnum annað göngulag en þeim er eiginlegt) þá hæddust ýmsir feministar að prinsessuskólanum og þó ég sé alltaf höll undir kaldhæðni, verandi nú sjálf svona þungbúin, þunglynd, svartsýn og stúrin, þá finn ég löngun til að vera bjartsýn í þetta sinn.

Þessvegna ætla ég að draga upp bjartsýna spá (og mættu veðurfræðingar fylgja fordæmi mínu), sem er þessi.

Eins og alkunna er þá ganga flestir unglingar í gegnum skeið þar sem foreldrar þeirra eru það al-hallærislegasta sem til er og allt sem þeir segja og gera — allt það sem þeir eru og vilja að börnin þeirra verði — er álitið síðasta sort. Þetta er kallað gelgjuskeið, uppreisn unglingsáranna og ég veit ekki hvað og hvað.

Það sem ég afturámóti (vona og) þykist vita, er að þessar stelpur sem nauðugar eða viljugar verða sendar á prinsessunámskeið fari fyrr eða síðar í massífa uppreisn gegn þessum kvenlegu gildum sem þeim hafi verið innrætt, gefi skít í alla borðsiði, stiki stórum í Dr. Martens skóm, klæði sig í ósamstæðan fatnað, greiði sér sjaldan (eða taki upp fleiri siði pönkara eins og að raka hárið af að hluta og greiða rest upp í stífaðan hanakamb) og geri í stuttu máli sagt foreldrum sínum — þessum sem ætluðu að rækta upp prinsessu eins og hverja aðra hlýðna hundategund — lífið verulega leitt.

Í kjölfar allra „gvuðminngóðurhvaðertuaðgeramérbarn“ rifrildanna spretti svo upp beittari gagnrýni, sterkari sjálfsmynd, flottari feministar.

Þetta er bjartsýn spá, ég veit það, því einhverjar þeirra stelpna sem fara gegnum heilaþvottanámskeiðin munu verða móttækilegri en aðrar fyrir prinsessustemningunni (og dreymir jafnvel um að verða drottningar). En ég bind miklar vonir við hinar.

Efnisorð:

þriðjudagur, júní 21, 2011

Tíu pistlar í tilefni (gær)dagsins

Það ætlar að verða árviss viðburður að ég gleymi bloggafmælinu. Í gær voru semsagt fimm ár síðan ég byrjaði að skrifa hér.

Fyrr í mánuðinum rifjaðist þó upp fyrir mér að það liði að þessum tímamótum. Ég ákvað að minnast afmælisins með því að birta pistil um bleikt.is en þegar ég til kom þá gat ég ekki beðið og birti pistilinn um leið og hann var tilbúinn. Hann varð reyndar lengri en til stóð og var því birtur í nokkrum pörtum. Og svo gleymdi ég afmælinu þar til núna áðan.

Ég hef áður byrjað að skrifa pistil sem varð að pistlaröð. Ég held reyndar að það hafi verið tilviljun að birtinguna bar upp á árs afmæli bloggsins, ég hafi fyrst og fremst verið að einblína á kvenréttindadaginn annarsvegar og bregðast við umræðu í samfélaginu hinsvegar. Þá leysti ég málið reyndar öðruvísi en með bleikt.is röðina því að fyrsti pistillinn var birtur á 19. júní en allir pistlarnir níu sem fylgdu í kjölfarið voru birtir daginn eftir. Þar sem ég á afmæli og má gera það sem ég vil ætla ég að setja tengla á þá hér, hvern fyrir sig.

Öfugt við bleikt.is pistlana þá sýnist mér engu skipta í hvaða röð þessir eru lesnir að undanskildum þeim fyrsta sem ég setti hér efst, hann er einskonar formáli að hinum.

Réttur kvenna til að eyða fóstri

Helstu „röksemdir“ gegn fóstureyðingum

Fóstureyðingar verða að vera löglegar

Takmarkanir á réttindum kvenna í Bandaríkjunum (þarna var Bush yngri enn forseti)

Fóstureyðing eða ættleiðing

Helstu andstæðingar fóstureyðinga — karlmenn

Helstu andstæðingar fóstureyðinga — kaþólikkar

Fóstureyðingar valda (ekki) ævilangri sektarkennd

Fóstureyðing — þegar guð drepur saklaus börn í móðurkviði

Eru fóstureyðingar réttlætanlegri þegar barnið gæti orðið fatlað?

Þetta var ég semsagt að dunda mér við í júní 2007, á hápunkti góðærisins.

Efnisorð: , ,

sunnudagur, júní 19, 2011

Sagan öll

Undanfarið hef ég skrifað og birt nokkra pistla þar sem ég fjalla um bleikt.is. Til hagræðis set ég þá hér í rétta röð.

Formáli (þar sem fjallað er um áhugamál og umræðuefni kvenna)

1. hluti

2. hluti

3. hluti


Til hamingju með kvenréttindadaginn!

Efnisorð: , , , , , , ,

laugardagur, júní 18, 2011

Styðjandi bleikur kvenleiki 3. hluti

Eignarhald
Eins og áður segir þá er það Björn Ingi Hrafnsson í félagi við aðra sem á og rekur bleikt.is, menn.is, mona.is, butik.is, ferðabókunarvef, Pressuna og Eyjuna. Vefpressan ehf er í eigu Björns Inga Hrafnssonar, Arnars Ægissonar, Salt Investment (þ.e.a.s. Róbert Wessman), Vátryggingafélags Íslands (VÍS), Ólafs Más Svavarssonar, Steingríms S. Ólafssonar (ritstjóra og framsóknarmanns), Guðjóns Elmars Guðjónssonar og Verksmiðjunnar Norðurpólsins (sem ku vera vefhönnunarfyrirtæki).

Eitt af því sem gert var athugasemd við í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um siðferði og starfshætti, var einmitt samþjöppun á fjölmiðlamarkaði þar sem fáir ráða yfir miklu og hafa þarafleiðandi gríðarleg áhrif á skoðanamyndun í samfélaginu og geta ráðið því hvað er fjallað um og hvað ekki.

Ályktanir og lærdómar sem rannsóknarnefndin telur að verði að draga af niðurstöðum sínum eru meðal annars þessar: „Flestir miðlarnir voru í eigu sömu aðila og áttu helstu fjármálafyrirtækin“ (8. bindi, bls. 210). Nú eiga fyrrverandi stjórnmálamenn og útrásarvíkingar saman fjölmiðla, sbr. Björn Ingi Hrafnsson og Róbert Wessman.

Pressan
Margir blogga á Eyjunni og Pressunni. Þar fá ýmsar skoðanir að heyrast enda þótt auðveldlega megi gagnrýna að þeir sem blogga eru handvaldir þar inn. Eyjan var lengst af með mun fjölbreyttari hóp einstaklinga sem blogga en Pressan. Á Pressunni er afturámóti augljósara að bloggarar eru með pólitískar skoðanir sem meira og minna eru keimlíkar. Gagnrýni á útrásartímann ekki mjög áberandi enda þótt einstaklingar og einstakir bankar hafi verið skammaðir, hugmyndafræði frjálshyggjunnar minna. Hannes Hólmsteinn skrifar að sögn Guðmundar Andra bara þrjá pistla sem hann birtir aftur og aftur (hér er einn þeirra, heldur kostulegur) og enginn getur sakað Hannes Hólmstein um að gagnrýna neitt sem tengist frjálshyggju eða góðæri nema auðvitað Jón Ásgeir sem helsta sökudólg hrunsins. Bubbi Morthens ver svo aftur Jón Ásgeir en Ólafur Arnarson Kaupþingsmenn og skylda aðila. Sölvi Tryggvason ver alla þá sem á er hallað svo framarlega sem þeir eru fallegir, frægir eða ríkir (eða hafa einhverntímann verið það). Brynjar Níelsson tekur svo að sér að verja karlveldið í heild, til og með nauðgurum.

Frá upphafi hefur fólk séð gegnum þessa tilburði Pressunnar til að endurskoða söguna og fegra fjárglæframenn og pólitíkusa sem eiga sök á bankahruninu. Egill Helgason talaði um að Pressuvefurinn væri
„stofnaður sérstaklega til að verja skuldakónga og hirðmenn þeirra, en úr þeim hópi er sjálfur ritstjóri Pressunnar, og gengur einarðlega fram í að gera alla alvöru tilburði til að rannsaka mál tortryggilega. Þar birtist nú grein eftir grein sem hafa þetta að leiðarljósi.“

Jónas Kristjánsson skóf heldur ekki af því frekar en vanalega:
„Pressan.is er frétta- og slúðurvefur, sem ævintýramaðurinn Björn Ingi Hrafnsson ritstýrir til stuðnings útrásarvíkingum, öðrum skuldakóngum og fylgiliði þeirra. Þar birtast árásir lögmanna og Jónasar Fr. Jónssonar á Evu Joly. Pressan.is reynir að breiða út róg um þá, sem moka skítinn eftir útrásarvíkinga, útrásarbanka, skuldakónga og sofandi embættismenn. Sjálfur var Björn Ingi gerandi í Orkuveitumálinu, þegar Reykjavíkurborg ætlaði að gefa Hannesi Smárasyni mannauð stofnunarinnar.“

Í athugasemd við frétt um kaup Björns Inga á Eyjunni kom þetta fram:
„Pressan hefur aðallega verið málgagn útrásarvíkinga með t.d. Pressupennan Ólaf Arnarson í broddi fylkingar sem starfsmann en sá maður hefur verið óþreyttur að verja útrásarvíkingana og bankamafíuna enda náskyldur mönnum sem stjórnuðu Kaupþing og Exista.
Fjölmiðill sem rekinn er af Birni Inga Hrafnssyni fyrir peninga Ólafs í Samskipum, Róberts Wessman og Existabræðra er gagnslaus fjölmiðill sem ekkert mark er á takandi.“

Svo er það sem ekki er skrifað um á Pressunni. Ég hef ekki tekið eftir að á Pressunni hafi verið mikil gagnrýni á málefni Reykjavíkurborgar á þeim tíma sem Björn Ingi gekk í fararbroddi þeirra sem leyfðu grenjavæðingu miðborgarinnar og gegndarlaust byggingarmagn í t.d. Borgartúni þangað sem svo skrifstofur Reykjavíkurborgar voru fluttar.

Eða er mikið um gagnrýni á virkjanagleði Framsóknarflokksins á Pressunni? Viðskipti Róberts Wessman og yfirlýsingar hans um að gefa Háskóla Reykjavíkur milljarð? Minna má á orð rannsóknarnefndarinnar: „Fjölmiðlarnir stjórna líka samfélagsumræðunni með því að setja málefnin á dagskrá eða ákveða að ræða þau ekki“(8. bindi, bls. 210).

Slík gagnrýni heyrðist þó allavega á Eyjunni áður en Bingi & co keyptu hana (og hefur svosem ekkert verið þaggað niður í henni; það stóð þó til að loka fyrir athugasemdakerfið en hætt var við það vegna háværra mótmæla), en svæsnustu virkjanaandstæðingum (lesist: Lára Hanna) hefur þó verið þokað niður fyrir bestu sæti í húsinu svo að ekki beri eins mikið á þeim. Það væri fulláberandi að úthýsa allri gagnrýni þar sem hún þegar tíðkast en þess í stað er látið meira bera á auglýsingum og slúðri ('fréttir' Jakobs Bjarnar af facebook). Svo er auðvitað vísað mikið af Eyjunni yfir á Pressuna og Bleikt.is og þá helst upphrópanirnar sem líklegastar eru til að trekkja (lesist: selja auglýsingar og dót).

Þegar Björn Ingi og co. keyptu Eyjuna varð þar uppi fótur og fit og margir bloggarar flúðu vettvanginn. Þeir og ýmsir þeirra sem skrifa í athugasemdakerfi Eyjunnar gagnrýndu mjög hina nýju eigendur — þó aðallega Björn Inga — og bentu á fortíð hans og hve óheppilegt að hann ætti marga fjölmiðla.

Einn bloggarinn á Eyjunni gerði þessar athugasemdir við eigendaskiptin:
„Björn hefur ekki verið stikkfrí varðandi hrunið og álitamál sem upp hafa komið í tengslum við það. Hann lék talsvert hlutverk í stjórnmálum Reykjavíkurborgar skömmu fyrir hrun, þar sem afdrifaríkar ákvarðanir voru teknar um Orkuveitu Reykjavíkur, og einnig hafa verið fréttir í fjölmiðlum um óeðlileg kúlulán sem Björn á að hafa þegið. Það er óþægilegt, svo ekki sé kveðið fastar að orði, þegar fólk með fortíð í forystu stjórnmálanna, og tengsl við umdeilda fjármálafyrirgreiðslu í darraðadansinum fyrir hrun, leggur undir sig fjölmiðla.“

Og sumir bloggarar kvöddu Eyjuna endanlega, og vönduðu nýjum eigendum ekki kveðjurnar, einn þeirra sagði meðal annars þetta að skilnaði:
„Í síðustu viku festi vefmiðillinn Pressan kaup á Eyjunni eða keypti upp samkeppnina eins og íslenskir viðskiptamenn hafa oft þurft að gera því þeir geta í raun ekki starfað í samkeppnisumhverfi heldur kjósa fákeppni og einokun sé þess nokkur kostur.
Í eigendahópi Pressunnar/Eyjunnar má nú kenna fríðan flokk. Þar er fremstur Björn Ingi Hrafnsson fyrrum stjórnmálamaður sem starfaði ötullega að eigin hag um árabil á kostnað Reykvíkinga … Aftar í fylkingunni glittir svo í kámug trýnin á fyrrum útrásarvíkingum … nýr og stærri vettvangur gerir þeim kompánum kleift að verja þá sem lögðu Ísland í rúst, af meiri atorku en áður og ná til enn fleiri auðsveipra sálna… Menn vilja eiga fjölmiðla til þess að hafa áhrif, ljúga skipulega og verja hendur sínar.“

(Pjattrófurnar voru lengi vel á Eyjunni en fluttu sig við eigendaskiptin, þ.e. þegar Vefpressan keypti hana. Miðað við orð Karls Th ritstjóra Eyjunnar þá vildi hann þær ekki (en tók í staðinn Jakob Bjarnar og lyfti honum í hæstu hæðir) þannig að ekki var það Björn Ingi sem vildi losna við þær.)

Fortíðin og feluleikurinn
Björn Ingi Hrafnsson hefur verið mjög umdeildur en hann var mjög áberandi sem borgarfulltrúi Framsóknarflokksins. Hann hætti ekki löngu eftir að REI-málið setti allt á hliðina í borgarstjórn með tilheyrandi meirihlutasviptingum. Þessi pistill er orðinn nógu langur þó ekki allt REI-málið sé rakið í ofanálag en þó má nefna að meðan Björn Ingi var formaður borgarráðs og varaformaður Orkuveitunnar fór hann í fræga laxveiðiferð þar sem vélað var um samruna Geysi Green Energy (í eigu FL Group) og REI, sem var hlutafélag um útrásarstarfsemi Orkuveitunnar.

Þá fékk Björn Ingi, meðan hann var aðstoðarmaður Halldórs Ásgrímssonar þáverandi forsætisráðherra, kúlulán hjá KB-banka , keypti fyrir það hlutabréf í bankanum og seldi svo með gróða. Þetta kallaði Egill Helgason „óhreint fé frá einum af útrásarbankanum“ og sumir hafa spurt hvort „ þetta hafi verið leiðin sem almennt var notuð til þess að fjármagna prófkjör “. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingi um lán til fjölmiðlamanna kemur fram að Björn Ingi Hrafnsson skuldaði á tímabili 563 milljónir kr. í Kaupþingi. Fram kemur að rannsóknarnefnd vill að lánveitingum til eignarhaldsfélags Björns Inga verði vísað til sérstaks saksóknara.

Eftir að Björn Ingi forðaði sér á hlaupum úr pólitík í janúar 2008 réði hann sig til 365 miðla og varð ritstjóri Markaðarins, viðskiptablaðs Fréttablaðsins í apríl sama ár jafnframt því sem hann var með samnefndan þátt á Stöð 2. Mér segir svo hugur að Björn Ingi hafi ekki notað Markaðinn til að vara fólk við að kaupa hlutabréf í Kaupþingi eða sagt frá því að Jón Ásgeir vinnuveitandi hans hjá 365 væri að skafa Glitni að innan. Reyndar sagði Jónína Ben á bloggi sínu um þær mundir að Björn Ingi hefði fundið í Markaðnum „auðveldan vettvang til þess að leiðrétta "misskilninginn" um aðkomu hans sjálfs að REI!“ og segir að Markaðurinn sé „ allsherjaráróðursblað fyrir þá sem eiga allt sitt undir sjálftökuliðinu í viðskiptalífinu og auðvitað fyrir sjálftökulið sjálft“.

Aftur hrökklaðist Björn Ingi úr starfi eftir að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom út. Þá stofnaði hann eigin fjölmiðil, Pressuna. Þangað var safnað fólki sem gagnrýndi ekki aðild Framsóknarflokksins að einkavæðingu bankanna, þenslunni eða virkjanabrjálæðinu og hnýtti ekki í hann fyrir spillingarferil hans í pólitík. Þegar Eyjan var keypt stóð til að slökkva á athugasemdakerfinu þar sem uppljóstranir hafa verið of tíðar en frá því var reyndar horfið eftir hávær mótmæli. Afþreyingarvefir á borð við bleikt.is og menn.is sjá svo um að hala inn auglýsingatekjur (svo ekki sé minnst á kynlífsdótabúðina) og halda lýðnum uppteknum við að horfa í ranga átt.

Bleikt brauð og leikar
Oft er sagt að fjölmiðlar eigi bara að endurspegla veruleikann en ekki reyna að fegra hann. Miðlar eins og bleikt.is afskræma veruleikann, sýna hann í spéspegli sem þjónar þeim tilgangi að ríghalda í gamaldags hugmyndir um konur, áhugamál þeirra og umræðuefni (sama má segja um Pjattrófurnar). Það sem einkennir bleikt.is er metnaðarleysi, gagnrýnisleysi, meðvitundarleysi, neysluhyggja og hreinlega kvenfyrirlitning sem þar veður uppi.

Enda þótt bleikt.is sé bara afþreyingarmiðill og sumir myndu eftilvill segja að ekki sé hægt að gera sömu kröfur til afþreyingarmiðla og annarra fjölmiðla þá má benda á að þeir fá fólk til að gleyma um stund samfélaginu sem það býr í og kæra sig kollótt um það sem fram fer — og því sem hefur áður gerst. Það hentar mjög þeim sem hafa ástundað gagnrýnisverða verknaði og vilja beina athyglinni annað.

Í greiningu á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis frá kynjafræðilegu sjónarhorni má lesa um svokallaðan „styðjandi kvenleika.“ Hann er útskýrður eitthvað á þá leið að hlutverk kvenna felist í að styðja við og staðfesta yfirráð karla. Konur styðji við völd karla „vegna þess að samfélagsleg og fjárhagsleg völd þeirra eru mun minni en karlanna. Hlutverki kvenna sem stuðningsaðila er komið á framfæri og viðhaldið í gegnum menningu okkar, hugmyndafræðilega, í fjölmiðlum og í gegnum ýmiss konar markaðssetningu.“

Eflaust telja flestar konurnar sem skrifa á bleikt.is að þær séu eingöngu að skrifa skemmtilega og meinlausa pistla. Einhverjum þeirra kann jafnvel að þykja jákvætt að styðja völd karla, meira segja karla sem hafa farið ránshendi um samfélagið og vilja ekkert frekar en breiða yfir fortíð sína og beina athygli almennings frá því sem þeir athöfðust, en ég vil þó trúa því að flestar kvennanna séu ómeðvitaðar um sitt hlutverk í feluleiknum. En þó þær væru ekki í vinnu hjá Vefpressunni við að gera Birni Inga og félögum gagn, heldur væru 'bara' að styðja við yfirráð karla almennt, er skaðinn sem þær gera kvennabaráttu og hreinlega öllum hugsandi konum nógu mikill fyrir því.

Efnisorð: , , , , , ,

föstudagur, júní 17, 2011

Styðjandi bleikur kvenleiki 2. hluti

Andfeminisminn
Það er margt sorglegt við bleikt.is og eitt af því er að sjá að hve konurnar sem þar skrifa hafa hafnað feminismanum (nýjustu fregnir herma þó að þær séu í fullu stafi við að vera feministar!). Eins og aðrar konur á Íslandi njóta þær ávaxta feminismans, þær eiga kost á fæðingarorlofi og barnabótum, niðurgreiddri dagvist börn sín, geta menntað sig á hvaða sviði sem þær vilja, hafa full réttindi á við karlmenn og svo mætti lengi telja. Og það má kannski þakka fyrir að þeim þyki þetta svona sjálfsagt en það er verra að þær skuli ekki bera virðingu fyrir þeim konum sem börðust fyrir réttindum kvenna eða þeim málefnum sem enn er verið að berjast fyrir eða gegn.

Feministar hafa lengi reynt að benda á að konur hafi samfélagslega vitund (út fyrir veggi heimilisins) og pólitískan áhuga (og eigi því að taka þátt í ákvörðunum í samfélaginu) og hæfileika sem snúa að fleiru en færni í að bera á sig snyrtivörur, ala upp börn, skúra gólf – eða bólfimi.

Þeim staðalímyndum sem feministar hafa reynt að kveða niður er hampað mjög á bleikt.is og ýtt undir þær. Á bleikt.is varðar mestu að viðra skoðanir, sýna hegðun og hafa vald á því sviði sem ekki ógnar karlmönnum: á kynferðissviðinu. Konur eigi að hafa það vald yfir karlmönnum að þeir standist þær ekki og aðrar konur eiga að vera í samkeppni við þær um karlmenninna og kynþokkann og þar leikur öfund lykilhlutverk. Til þess eru öll meðul notuð og þau meðul eru alltaf aðkeypt: snyrtivörur, fatnaður og þess háttar. Allt snýst um neyslu til að vera samkeppnisfær og neyslan hefur gildi í sjálfri sér (innkaupaferðir sem uppspretta ánægju) því hún styður við ímyndina; hina verðmætu konu.

Konur mega gera allt sem þær vilja, sannarlega, en í hugmyndaheiminum sem bleikt.is heldur á lofti er það algerlega háð því að koma ekki karlmönnum úr jafnvægi og ógna þeim ekki. Þvert á móti verði að ýta undir karlmennskuna, leyfa karlmanninum að borga og opna dyrnar og 'eltast við bráðina' til að festa í sessi þá hugmynd að kynin séu ólík og karlar séu sterkari, ríkari og voldugri.

Konum á að þykja það léttir að geta aftur orðið kvenlegar, eins og kvenleiki sé fólginn í að vera hjálpar þurfi eða nota snyrtivörur. Konur kjósa kynfrelsið, og jafn ágætt og það nú er þá vill nú svo til að það er sá partur af frelsi kvenna sem karlar almennt eru jákvæðastir gagnvart og þeir hvetja þær því mjög til að nýta það frelsi sitt. Karlmönnum stendur ekki stuggur af konum sem vilja ekkert fremur en þóknast þeim kynferðislega. Það eru þær sem gagnrýna þá sem eru óvinsælar, þessar þarna feministarnir. Og konur sem skrifa á bleikt.is passa sig þessvegna að gagnrýna karlmenn ekki nema örlítið og þá eingöngu fyrir atriði eins og pissa útfyrir eða hringja ekki nógu oft.

Fyrst og fremst er bleikt.is dapurleg lesning. Sú ímynd sem er gefin af konum þar er sú að konur séu grunnhyggnar með afbrigðum og hugsi ekki um annað en að ná sér í karlmann með öllum ráðum.

Pistlahöfundarnir á bleikt.is eru auðvitað ekki ósnertar af feminisma og telja sig eflaust allar mjög sjálfstæðar og þurfi engan mann og telji sig ekkert óæðri þeim á neinn hátt enda standi þeim allar dyr opnar en þær bara kjósi sjálfar að hafa mestan áhuga á útliti sínu og því að vera kynþokkafullar (þær virðast líka hafa haft Spice Girls sem fyrirmyndir sínar en hið innihaldsrýra Girl Power heróp þeirra gekk aðallega útá markaðssetningu barnslegs kynþokka) og það sé bara alveg óvart að karlmönnum falli það vel í geð.

Pistlahöfundar á bleikt.is hafa sumir hverjir áður skrifað á Pressuna og getið sér gott orð þar fyrir t.a.m. að tala vel um nektardans og illa um feminisma og kallað konur í jafnréttisbaráttu feminasista. Það er ávísun á að vera ráðin sem pistlahöfundur.

Konur sem skrifa gegn feminisma og hampa snyrtivörunotkun, karlmönnum sem bjargvættum sínum, og lýsa yfir hve áhugasamar þær eru um kynlíf, eru líklegri til að fá greitt hjá vefmiðlum fyrir að skrifa um þessi áhugamál sín. Þær sem lýsa yfir feminískum skoðunum og tala gegn neysluhyggju og ofdekrun karlmanna eiga ekki upp á pallborð þeirra sem ráða konur til fjölmiðla.

Söluvettvangur
Eitt af því sem sumt fólk telur nauðsynlegan fylgifisk kynfrelsis kvenna er að allar konur verði að eiga 'dótakassa'. Á bleikt.is eru pistlahöfundar sem hafa fjallað um 'hjálpartæki ástarlífsins' (dótið í kassanum) á mjög jákvæðan hátt.

Ekki skal ég efa það að sumar konur eigi auðveldara að fá fullnægingu með þartil gerðum tækjum en er þess þó nokkuð fullviss um að þær konur sem almennt gátu fengið fullnægingar tókst það ágætlega áður en slík tæki og tól voru sett á markað. Ég hef meira segja heyrt um konur sem enn í dag þurfa engin kynlífshjálpartæki enda þótt yfirleitt sé talað um þau eins og skyldueign allra kvenna.

Það er reyndar ein af snjallari markaðssetningum kapítalismans að láta þær stöllurnar í Sex and the City þáttunum (Beðmál í borginni) tala fjálglega um notkun slíkra tækja, sem varð til þess að sala stórjókst. Pistlahöfundar á bleikt.is hafa örugglega hag lesenda sinna fyrst og fremst fyrir brjósti þegar hjálpartæki kynlífsins eru dásömuð en það er samt sem áður liður í markaðssetningu slíkra tækja. Og það vill svo til að sömu eigendur og eiga bleikt.is reka líka vefverslun sem kallast mona.is og er vefverslun með 'hjálpartæki ástarlífsins'. Þessvegna má finna pistla á bleikt.is þar sem lagt er upp með að kynna fyrir konum aðferðir til að stuðla að „kynheilbrigði“ eða finna g-blettinn en sem enda í að mæla með vörum frá mona.is. Auk þess eru líka beinar auglýsingar fyrir kynlífsbúðina. (Einnig er hin vefverslunin, butik.is komin með beinar og eflaust líka óbeinar auglýsingar inná bleikt.is).

Bleikt.is er semsagt í sömu eigu og tvær vefverslanir, butik.is og mona.is, fyrirtækis sem kallast Vefpressan. Eða eins og þar segir:
„Björn Ingi Hrafnsson, stjórnarformaður Vefpressunnar, hefur haslað sér völl í kynlífsbransanum . Björn Ingi hefur ásamt viðskiptafélögum sínum sett á fót vefverslunina mona.is, þar sem hægt er að kaupa vatnsheldar unaðsperlur, ögrandi undirföt, unaðskrem og það sem kynnt er sem „flottasta unaðstækið fyrir konur“, svo fátt eitt sé nefnt. Þá býður verslun Björns Inga og félaga upp á reðurpumpur og margs konar hjálpartæki ástarlífsins ásamt bókum og DVD-diskum um kynlíf.“

Meðan svo lesendur bleikt.is eru uppteknir af því hvaða dót á að kaupa næst, í hvaða stellingum og með hvaða tólum er best að fá fullnægingu og hvaða viðreynsluaðferðir duga (alltaf! við allar manneskjur!) þá fara eigendurnir sínu fram í viðskiptalífi og/ eða hylja slóð vafasamra gerninga sinna frá góðæristímanum sem gerði þá svo ríka.

Efnisorð: , , ,

miðvikudagur, júní 15, 2011

Styðjandi bleikur kvenleiki 1. hluti

Lengi hef ég stillt mig um að skrifa um bleikt.is og Pjattrófurnar því mér fannst þessi fyrirbæri of ómerkileg til að nenna að eyða á þau púðri. Á þessum vefsíðum ræður lágkúran ríkjum, staðalmyndum um konum er hampað og látið sem konur hafi mjög takmarkaða sýn á lífið. Yfir þessu get ég þó ekki lengur orða bundist. Síðasta bloggfærsla var einskonar inngangur að pistlaröð sem ég hyggst nú skrifa og verða helgaðir bleikt.is að mestu en margt sem þar kemur fram á líka við um Pjattrófurnar.

Ég gæti reyndar stytt mál mitt verulega með því að láta duga að afrita bakþankapistil Sifjar Sigmarsdóttur frá 8. júní síðastliðnum. Hún segir allt það sem segja þarf um bleikt.is og Pjattrófurnar. En úr því að ég er nú einu sinni byrjuð þá er best að láta slag standa.

Allt frá því að bleikt.is var hleypt af stokkunum hef ég verið meira og minna orðlaus yfir því sem lesendum vefmiðilsins er boðið uppá. Eftir nokkra mánuði hætti ég að nenna að svekkja mig og las ekki nema einstaka greinar sem ég frétti af frá öðrum bloggurum. Það sem mér sýnist helst hafa breyst frá því að vefurinn byrjaði er, auk umfjöllunar um bíla (dulbúnar auglýsingar) sem hefur bæst við, helsta breytingin sú að karlmennirnir sem áður skrifuðu þar eru nú komnir á menn.is (sem ég hef ennþá minna geð á að lesa) og virðist nú sem eingöngu konur skrifi á bleikt.is en alveg á sömu nótum og áður.

bleikt.is snýst um:

Stefnumót (stefnumót eru alltaf kölluð deit á bleikt.is)

Hvað karlmenn hugsa og hvað þeim finnst um konur, hegðun þeirra og útlit

Hvað konum finnst um hegðun karla (pissa útfyrir, hringja ekki)

Hvernig á að ná í eftirsóknarverðan mann

Að karlar og konur geta ekki verið vinir (jú, víst, nei)

Megrun

Kynlíf (áberandi áhersla á kynlíf sem keppnisgrein)

Rétt er að geta þess að á bleikt.is eru notuð dulefni fyrir megrun: „átak“ og „komast í form“. Bleikt.is þykist þannig ekki mæla með megrun en valdi úr lesendum nokkrar konur til að „koma sér í form“ og verðlaunaði þær sem misstu flesta sentímetrana (og kílóin) á sem skemmstum tíma. Þetta er kallað lífsstílsbreyting og er auðvitað miðað við konur í „ofþyngd“. Á sama tíma er bleikt.is með talsverðan áróður gegn anorexíu. Sami tvískinnungur hefur lengi tíðkast í ýmsum kvennablöðum, s.s. Vikunni þar er sífellt verið að hampa konum sem hafa lést mikið á skömmum tíma („40 kg af!“) — og á næstu síðu er uppskrift af gómsætri döðlutertu fyrir saumaklúbbinn. Bleikt.is gerir þetta líka, birtir kaloríuhlaðnar uppskriftir og þrátt fyrir að ritstjórinn hreyki sér af því að fjalla aldrei um megrunarkúra“ eru konur hvattar til að léttast og það mikið.

Áherslan á kynlíf er mikil á bleikt.is og þar er viðrað einstaklega ömurlegt og lágkúrulegt viðhorf til kynlífs. Talað er um að „fá sér í hana“ og að lítið tippi sé stórkostlegur galli sem eigi að vara við og konur hvattar til að grípa í klofið á karlmanni til að athuga hvað er í boði. Lágkúran á bleikt.is birtist auk þess í því að fjalla um hvar í heiminum karlmenn séu „best vaxnir niður“. Ég hef áður talað um þá birtingarmynd rasisma að telja ákveðna hópa fólks bólfimari en aðra og get ég ekki betur séð en þetta sé angi af sama meiði.

Karlmenn sem skaffarar
Á bleikt.is, rétt eins og hjá Pjattrófum, er skrifað um líf einhleypu konunnar sem hefur það helst að markmiði sínu að vera ekki lengur einhleyp. Karlmaður er alltaf æðsta markmiðið, lágmark til styttri tíma en helst til langframa. Til þess að eiga kost á karlmanni þarf að kunna réttu klækina, líta rétt út og stunda réttu staðina (fleira þarf að koma til en þetta gefur einhverja hugmynd um útá hvað skrifin ganga). Flest öll ráð sem eru gefin miðast við að konan sýni þolinmæði og bíði eftir að karlmaðurinn veiti henni athygli, því hann er nefnilega veiðmaður og þá þurfa konur að leika bráð (ef þetta á allt að vera svona náttúrulegt ætti bráðin auðvitað að forða sér á hlaupum en svo langt gengur nú samlíkingin við veiðimennskuna ekki). Einstaka sinnum er ráðlagt að konur eigi einmitt að hafa frumkvæðið en þá er það yfirleitt í samhengi við einhverja rosalega uppreisnarhugmynd og girl power fengna úr smiðju Spice Girls, eins og síðar verður komið að.

Karlmenn eiga að skaffa. Þeir eiga ekki að vera í einhverju hugsjónagaufi heldur vera færir um að taka upp veskið til að borga fyrir hvað það nú er sem hin bleika kona kaupir eða neytir hverju sinni: „Ekki annað hægt en að vona að hann sé nægilega markaðssinnaður til að taka laun fyrir störf sín og vona til Guðs að hann starfi ekki fyrir Rauða Krossinn í ólaunuðum sjálfboðahópum. Einhver verður að greiða reikninginn ef ske kynni að hann byði mér á Hereford.“ Ef til vill er þetta skrifað í hálfkæringi en miðað við viðhorfið til samskipta og stöðu kynjanna á bleikt.is þá er það sorglega ólíklegt.

Þýðingar í stað frumsamins efnis
Það vakti athygli mína strax í upphafi að svo virtist sem flestir textanna á bleikt.is væru þýddir því orðaröð, orðalag og ýmsir frasar eru augljóslega teknir beint úr ensku og þýtt af mikilli vankunnáttu á íslensku máli. Svo virðist sem google translate hafi verið beitt á pistla úr erlendum tímaritum eða vefsíðum án þess þó að láta heimilda getið eða að um þýðingu sé að ræða. Varpar slíkt grun á alla þá sem skrifa á vefmiðilinn. Eftir að hafa sannreynt nokkrum sinnum að um (lélegar) þýðingar er að ræða hef ég ekki nennt að gá hvort það eigi við um alla pistlahöfunda eða hvort þetta einkenni enn textana. Alltént eru þeir ennþá á svo lélegri íslensku að það er eiginlega óskandi að aðeins sé um lélegar þýðingar að ræða en ekki að fólk leggi sig niður við að semja svo vondan texta.

Kannski er það meðvituð ritstjórnarstefna að birta fjölda pistla sem eru þýðingar á efni sem fundið er í tímaritum og á netinu. Líklegt þykir mér miðað við hvað sumir pistlahöfundar birta oft efni á síðunni að a.m.k. sumir þeirra fái greitt fyrir vinnu sína, sem er þá þýðingarvinna en ekki höfundarvinna. Kannski er kaupið svo lágt að til þess bragðs er tekið að skrifa ekki frumsamið efni heldur þýða í snarhasti efni sem einhver annar hefur haft fyrir að semja og skrifa. Með því að gefa til kynna við lesendur að pistlarnir séu hugverk þeirra, skrifaðir útfrá eigin brjóstviti og reynslu, er hinsvegar verið að ræna upprunalegu höfundana heiðrinum (burtséð frá því að mér þykir ekki mikill heiður í efninu sem pistlarnir fjalla um).

Mig langar í raun ekkert að gagnrýna nafngreinda pistlahöfunda á bleikt.is þó það verði varla hjá því komist að vitna í einstaka skrif. Ég man fæst nafnanna og er því ekki sérfræðingur í stílbrögðum hverrar og einnar en það verður þó samt að segjast að það vantar sorglega mikið uppá að hægt sé að kalla það fólk pennafært sem virðist þó fá greitt fyrir að skrifa í fjölmiðil.

Það er lítil afsökun fyrir því að vefur sem fær auglýsingar og greiðir pistlahöfundum laun skuli ekki upplýsa lesendur sína um að efni sé fengið héðan og þaðan í stað þess að vera frumsamið efni.

Greinin „Hvernig kynlífi lifir þú eftir 5, 10 eða 20 ár? “ er gott dæmi um illa þýdda grein. Þar varð Neena 32 ára að Kolbrúnu 32 ára og Jodi 42 ára varð að Söndru 42 ára, Beverly 57 ára varð að Örnu 57 ára, Golda 68 ára varð að Öglu 66 ára (yngdist við nafnbreytinguna), Lynn 73 ára varð að Lísu og Francesca að Friðriku. Með því að breyta nöfnunum yfir í íslensk nöfn er reynt að fela þá staðreynd að greinin er þýdd en ekki frumsamin. Það sem klikkaði samt helst hjá þýðandanum var að þýða 30's sem þrítugsaldur (á íslensku tölum við um fertugsaldur), 40's sem fertugsaldur og svo framvegis, samt er vitnað í ofangreindar konur og er þá Sandra 42 ára farin að tala fyrir konur á fertugsaldri. Með einföldu gúggli fann ég greinina sem þetta var þýtt úr á vefsíðu Marie Claire tímaritsins (spurning hvort bleikt.is hafi fengið leyfi til að nota efni þaðan).

Einhver afkimi bleikt.is er tileinkaður kama sutra — það sama má sjá hjá Marie Claire — vægast sagt allar líkur eru á að hugmyndin sé stolin þaðan og greinar þýddar beint (ég nenni ekki fyrir mitt litla líf að lesa mér til um kynlífsstellingar hvorki þar né hjá bleikt.is til að sannreyna það).

Þessi grein er annaðhvort fáránlega illa skrifuð eða einfaldlega hráþýdd úr ensku. Hún er hinsvegar ekki eins auð-gúggluð og ýmsar aðrar, a.m.k. hefur mér ekki tekist að finna uppruna hennar.

Á menn.is má sjá samskonar vinnubrögð, illa skrifaða texta sem að öllum líkindum eru hráþýddir, sbr. þetta.

Ég er ekki ein um að gagnrýna lélega texta og hörmulegar þýðingar, það er fyrir lifandis löngu búið að kjöldraga bleikt.is fyrir þessi vinnubrögð. Reyndar hefur bleikt.is fengið á sig mikla gagnrýni fyrir viðhorf til kynhlutverka og ýmsan þann ósóma sem ég er hér að reyna að tæpa á. Pjattrófurnar hafa verið mjög gagnrýndar líka og hafa nokkrir öflugir bloggarar farið þar fremst í flokki gegn þeim og bleikt.is. Sigurbjörn hefur gagnrýnt og svo Tískubloggið þar sem Hildur beitir háði sem stílvopni á alveg hreint frábæran hátt. Jenný Anna, Þórunn Hrefna og Berglaug Petra hafa líka lagt skynsamleg orð í belg. Hrósa verður bleikt.is fyrir að hafa birt gagnrýni Þórhildar Eddu.

Hugmyndafræði afþreyingariðnaðarins
Þó ofangreind dæmi séu ein og sér sönnun þess að bleikt.is er samansafn vondra texta þá er það smáatriði miðað við hverskonar mynd gefin er af konum, áhugamálum þeirra og lífsviðhorfum. Kannski er einfaldast að líkja bleikt.is við sjónvarpsþættina Sex and the City (Beðmál í borginni) sem framleiddir voru á árunum 1998-2004 og sem mér þykir mjög líklegt að sumir pistlahöfundanna hafi horft á á viðkvæmum mótunarárum (jafnframt því að hafa hlustað á Spice Girls). En í þeim þáttum eru konur fyrst og fremst í leit að karlmönnum til að bindast eða til skemmri afnota. (Karlmenn virðast þá ýmist vera álitnir skaffarar sem eigi að standa undir neyslu kvenna, eða eru sjálf neysluvaran.) Leitin er mjög mikilvæg og um hana gilda ýmsar reglur (sem hafa verið settar fram á bók sem heitir The Rules sem kom út árið 1995 en hér á landi 1997 undir heitinu Reglurnar: margreyndar aðferðir við að vinna hjarta draumaprinsins) en gengur aðallega útá það að láta karlmanninn um að eltast við konuna en það ku vera merki þess að hún sé eftirsóknarverð.

Auk leitarinnar að hinum eina rétta er gert ráð fyrir að sumar konur hafi kynhvöt og er Samantha í Sex and the City skrípamynd af slíkri konu en hún neytir karlmanna af mikilli græðgi. Svoleiðis konur mega hafa frumkvæði að kynnum við karla. Önnur og skýrari birtingarmynd neysluhyggjunnar er mikilvægi þess að kaupa hluti. Föt, skó, töskur, snyrtivörur, sælgæti, drykki — og síðast en ekki síst: hjálpartæki ástarlífsins.

Aftur vil ég taka fram að mig langar ekkert til að gagnrýna einstaklinga sem skrifa á bleikt.is. Þær eru fengnar til að selja ákveðna ímynd af konum, ímynd sem reynt hefur verið að kveða niður með ýmsum hætti í nokkra áratugi af feministum. Það er annarsvegar hin hjálparlausa kona sem bíður eftir að karlmaður komi og bjargi lífi hennar (hér: bjargi henni frá einstæðingsskap og örbirgð) og hinsvegar tálkvendið sem karlmenn þurfa að vara sig á, óhamin af kynhvötinni og svífst einskis.

En hversvegna er sérstakur vefur lagður undir þennan áróður?

Efnisorð: , , ,

laugardagur, júní 11, 2011

Áhugamál og umræðuefni kvenna

Ég hef talað við fjölmargar konur um ævina og um allskonar hluti. Þetta hafa verið vinkonur mínar, ættingjar, vinnufélagar, konur sem ég hitti einu sinni og aldrei aftur, vinkonur vinkvenna minna, kunningjar eða nágrannar, konur sem eru eldri en ég, konur sem eru yngri en ég og jafnöldrur mínar. Þær hafa verið skemmtilegar, klárar, áhugaverðar, reiðar, jákvæðar, neikvæðar, upplífgandi, fróðar, beinskeyttar og mælskar, allt þar á milli og meira til.

Sumt af því sem við höfum talað um hefur verið fróðlegt, sniðugt og áhugavert, sumt hefur gert okkur reiðar, sorgmæddar eða kátar. Við höfum ekki alltaf verið sammála, enda eru ekki allar konur eins og hugsa ekki eins.

Við höfum talað um:
aðbúnað aldraðra, aðbúnað fatlaðra, alþjóðavæðinguna, andfeminista, auglýsingar, áhugamál, álfatrú, álver, ballett, bankahrunið, barnadauða fyrr á öldum, barnauppeldi, barnsmeðlög, bensínverð, blæðingar, bókmenntir, bráðnun jökla, dagvistun, dauðarefsingu, djammið, dómstóla og hvernig þeir dæma, dýravernd, einkavæðingu, einkavinavæðingu, eldamennsku, eldgos, elli, ESB, facebook, fasteignaverð, fátækt, fegurðarsamkeppnir, feminisma, ferðalög, fjármál, fjölmiðla, flugelda, fóbíur, fólk sem við þekkjum (vini, nágranna, vinnufélaga, ættingja, kunningja), fólk sem við þekkjum ekki neitt (fræga fólkið, kóngafólk, fólk sem við þekkjum af afspurn), fólk sem við þolum ekki, fóstureyðingar, frjálshyggju, frumvörp, fyrstu ástina, gagnsemi og skaðsemi fangelsisvistar og gæsluvarðhalds, glötuð tækifæri, góðærið (meðan á því stóð og eftir að því lauk), gróðurhúsaáhrifin, grenjavæðingu, græðgisvæðinguna, gæludýrahald í þéttbýli, hárgreiðslur og klippingar, heilbrigðiskerfið, heimildarmyndir, heimstyrjöldina síðari og helförina, hluti sem við höfum séð auglýsta eða höfum keypt eða erum að velta fyrir okkur að kaupa (bíla, bækur, eldhúsáhöld, farsíma, föt, heimilistæki, húsgögn, prentara, sjónvörp, snyrtivörur, tölvur, verkfæri), hluti sem við þolum ekki, hvernig við sjáum fyrir okkur elliárin, innflytjendur, ísbirni og önnur dýr í útrýmingarhættu, Íslendingasögurnar, íslenskt mál, Ísrael/Palestínu, íþróttir (gildi þeirra almennt, viðhorf okkar og annarra til þeirra, eigin íþróttaiðkun og annarra), jarðarfarir (eigin og annarra), jákvæðar og neikvæðar upplifanir, jeppakalla, jólin, kapítalisma, karlmenn sem hata konur, karlmenn sem við þekkjum og vitum að eru nauðgarar, karlmenn almennt, klám, klámvæðingu, konur í þróunarlöndum, kosti og galla við að búa í /einbýli/fjölbýli/borg/smábæ/sveit/ á Íslandi eða í útlöndum, kostnað við að halda heimili, kórsöng, kreppuna, kristni, kvensjúkdóma, kvikmyndir, kvótamálið, kynlíf, laun, launaleynd, leikhæfileika, leiklist, líf kvenna fyrr á tímum, líkamsrækt, lýtaaðgerðir, lækniskostnað, lögguna, mannréttindi, mataræði, menn sem berja eiginkonur sínar, menningu, menntun, múmínálfana, myndlist, NATO, nauðganir, nauðgara, nektardansstaði, nýaldarpælingar, olíuhreinsistöðvar, ólöglegt niðurhal, óperur, persónuleg vandamál, pólitík, rasisma, reykingar, sjónvarpsþætti, sjúkdóma, skatta, skipulagðar nauðganir í stríði, skipulagsmál, skjalavörslu, slæmar og góðar minningar, smábátaveiðar, spennubækur, spillta pólitíkusa, staðgöngumæðrun, stjórnmálaskoðanir, stóriðju, stríð, stöðu kvenna í þriðja heiminum, störf sem við höfum unnið eða vildum prófa, sumarfrí (sem við höfum farið í eða dreymir um), sveitarstjórnarmál, sönghæfileika, teiknihæfileika, tilgang lífsins, tísku, tjaldútilegur, tónleika, tónlist sem við ekki þolum, trú/trúleysi, umhverfisvernd, unglingsárin, uppáhalds hljómsveitir, útivist, veðrið, veikindi, verkalýðsfélög, vini okkar (vel eða illa), vinnuna, virkjanir, vændi, þingsályktunartillögur, þjóðkirkjuna, þjóðsögur, þróunarkenninguna, æskuminningar, ættingja okkar (ýmist vel eða illa), ævisögur okkar og hver komi til með að leika í bíómyndinni sem verður gerð um okkur þegar sagan er öll.

Þessi listi yfir umræðuefni er alls ekki tæmandi en í stuttu máli sagt þá tala konur um margt fleira en föt, karlmenn, kynlíf, stefnumót og snyrtivörur.

Efnisorð:

fimmtudagur, júní 09, 2011

Fólk sem sér um fólk

Það er ekki öfundsvert að halda úti kerfi menntamála, heilbrigðismála og félagsmála fyrir ríkið eða sveitastjórnir eftir að frjálshyggjutilraun Sjálfstæðisflokksins fór svo eftirminnilega út um þúfur. Það er líka alltaf jafn blóðugt að heyra að það eru alltaf sömu láglaunahóparnir sem halda áfram að vera láglaunahópar meðan þeir sem voru og eru í bankakerfinu geta enn makað krókinn. Bankastjórnir föllnu bankanna, slitastjórnir gömlu bankanna og meira segja nýja stjórn Landsbankans; það má ekki á milli sjá hvar firringin er mest í kaupinu sem menn telja sig eiga skilið, allt á þeim forsendum að þeir séu svo ægilega eftirsóttir starfskraftar í útlöndum og bankastarfsemi geti ekki farið fram nema á afar 'hvetjandi' launum. Þetta viðhorf gilti í 'góðærinu' og það gildir enn í þeirra huga.

Meðan á góðærinu stóð var fólk sem starfaði í menntageiranum, heilbrigðisgeiranum og félagsmálageiranum hinsvegar ekki ofsælt af sínum launum. Jú, kannski læknarnir en annað starfsfólk, mismikið menntað en með gríðarlega mikla ábyrgð á mannslífum á sínum herðum, það var og er enn á skítalaunum. Aftur segi ég: það er ekki öfundsvert að hafa tekið við þrotabúinu eftir Sjálfstæðisflokkinn. Síst er þægilegt fyrir félagshyggjustjórn að horfast í augu við að hafa ekki efni á að geta veitt stéttum láglaunafólks mannsæmandi laun. Ég trúi því þó — verð að trúa því — að verði þessi stjórn enn við lýði þegar fer að birta til, þá verði ráðin bragarbót á þeirri skömm sem er fólgin í því að láta það fólk sem vinnur mikilvægustu störfin sæta verstu kjörunum.

Sú tillaga Ögmundar Jónassonar að lægstu laun verði þriðjungur af hæstu launum væri þá kærkomin (ég setti eitt sinn fram svipaða hugmynd), en gæta verður þess að það verði ekki til þess að allir aðrir launamenn fái einhverjar súrar prósentuhækkanir, eins og tíðkast hefur, þannig að launaskriðið verði upp allan stigann og þær stéttir (kvennastéttir) launafólks sem lægst hafa nú launin sitji eftir með sárt ennið.

Þetta var bara formáli. Lesið þessa hugvegkju leikskólakennarans:

„Ég er leikskólakennari í Kópavogi og ég er með tveggja ára gömul börn á deild.

Í vinnunni minni eru verðandi verkfræðingar, augnlæknar, sjómenn, matráðar, prófessorar, einkaþjálfarar, snyrtifræðingar og svo mætti lengi telja. Í vinnunni minni fá þau umönnun, umhyggju, fræðslu og þann fróðleik sem þau nýta sér svo til að taka þátt í lífinu. Þau eru nú þegar byrjuð að taka þátt í þjóðfélaginu sem yngstu þegnar þess og við leikskólakennarar stöndum vörð um þessi börn, þeirra þátttöku og þeirra rétt.

Ég er sérfræðingur í því að vinna með börn, ég vinn með félagsþroska, félagsfærni, greiningar á þroska og hegðun, hreyfigetu og síðast en ekki síst almenna vellíðan, siðferðisvit og kærleika. Ég er tengiliður við aðra sérfræðinga svo sem sálfræðinga, talmeinafræðinga, þroskaþjálfa og iðjuþjálfa. Ég vinn með helstu sérfræðingum barnanna sem eru foreldrar þeirra og í sameiningu vinnum við með lítinn einstakling sem er að læra á lífið.

Fyrir 8 tíma vinnu fæ ég 190.000 krónur útborgaðar á mánuði. Eftir 3 ár í háskólanámi, 4 ár í vinnu og 29 ára lífaldur. Ég get ekki unnið mér inn yfirvinnu því það er verið að spara. Ég sit alla fundi í vinnutímanum og vinn undirbúninginn minn stundum heima því það er ekki alltaf nægur tími eða aðstæður til að gera allt sem þarf að gera.

Deildarstjórinn minn er orðin fertug og hækkar ekki meira í launum því í okkar kjarasamningum eru engar launahækkanir eftir fertugt. Þar sem hún er deildarstjóri nú þegar er því enginn möguleiki fyrir hana að fá nokkur hlunnindi eða hækka í launum – hún er bara fertug!

Samstarfskona mín sem er leiðbeinandi fær 140.000 krónur útborgaðar fyrir 80% vinnu og öll þau námskeið sem hún getur mögulega tekið. Þar sem hún er einstæð með tvö börn þá borgar það sig ekki fyrir hana að vinna meira því þá fer það allt í skattinn og hún þarf að borga meira í vistun fyrir börnin. Hún er næstum því að borga með sér því það væri hagstæðara fyrir hana að vera á atvinnuleysisbótum og vera heima þegar börnin eru búin í skólanum.

Ég er leikskólakennari og er stolt af því en mikið væri ég til í að vera metin að verðleikum og fá borgað í samræmi við þá vinnu sem ég vinn. Kjarasamningar við leikskólakennara eru lausir og búnir að vera það síðan 2009, kosið verður um verkfall á næstu vikum.“

Efnisorð:

þriðjudagur, júní 07, 2011

Harmræn hetja

Þær eru dramatískar lýsingarnar á hinum ofsótta en hugumprúða Geir sem óhræddur gekk rakleitt að Sigríði Friðjónsdóttur saksóknara og heilsaði henni með handabandi. Ég kikna í hnjánum af karlmennsku hans!

Sú málsvörn að landsdómur sé pólitískt skipaður og þetta séu þarafleiðandi pólitískar ofsóknir er líka svo snjall að mig sundlar; ef skipaður hefði verið annar landsdómur þá hefði það auðvitað líka verið pólitísk skipun og pólitísk aðför, hvernig sem dæminu hefði verið snúið hefði það verið af illgjörnum pólitískum hvötum. Allt sem Steingrímur Joð hefur sagt eru líka pólitískar ofsóknir og aftökur; það að segja almenningi að menn verði látnir svara til saka er nánast pólitísk aftaka, hvorki meira né minna. Og Geir svona líka ofboðslega ofsóttur, þessi efnilegi og saklausi drengur.

Ó, hvað þetta er allt harmrænt!

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, júní 02, 2011

Hinar myrku miðaldir tóbaksfíklanna

Á reyklausa daginn fóru reykingamenn hamförum á fréttamiðlum og bloggsíðum vegna þingsályktunartillögu um tóbakssölu. Mér finnst ekki líklegt að þingsályktunartillagan verði samþykkt* en held samt að fyrr eða síðar muni eingöngu fólk með þekkingu á eiturefnum selja tóbak. En tóbaksfíklarnir — sem eru líka æfir yfir því að vera kallaðir fíklar — líkja þeirri hugmynd við fasisma, kalla hana forræðishyggju (það var nú viðbúið) og átelja ríkisstjórnina fyrir að gera aldrei neitt af viti og sinna smámálum þegar nær væri að aflétta öllum skuldum af þeim sem fóru offari í græðgi góðærisins.** Smáatriði eins og að enginn ráðherra ríkisstjórnarinnar stendur að þingsályktunartillögunni um tóbakssölu fer framhjá æstum reykingamönnum og litið er framhjá því að þingmaður í stjórnarandstöðu er fyrsti flutningsmaður hennar.

Það er skemmtilegt að fylgjast með ofsahræðslu tóbaksfíklanna sem segja í einu orðinu að það eigi að láta forvarnir duga og hinu að fullorðna fólkið eigi að vera börnum fyrirmynd en það megi ekki banna tóbakssölu í matvörubúðum, sjoppum og bensínstöðvum; þetta er fólkið sem lét forvarnir sem vind um eyru þjóta og er börnum vond fyrirmynd. Besti pistillinn var samt leiðari skrifaður af ritstjóra DV þar sem hann fer mikinn gegn skerðingu tóbakssölu og kallar hana afturför til miðalda.
„Þetta fólk vill fara aftur til svörtustu miðalda og banna sölu á tóbaki í verslunum og færa í lyfjaverslanir auk þess að þrengja að reykingamönnum umfram það sem orðið er.“

Enda þótt tóbakssölubann hafi ekki gilt í hinum vestræna heimi á miðöldum þá kynntist Evrópa ekki tóbaki fyrr en Kristófer Kólumbus kom heim frá Ameríku og breiddist þá siðurinn frá Spáni og Portúgal og síðan til Frakklands. Tóbaksreykurinn barst svo til Englands um 1600 þegar Sir Walter Raleigh kom frá Ameríku með tóbak í farteskinu og kynnti fyrir Elísabetu fyrstu.*** Píputóbak er enn framleitt í hans nafni en Bretar stunduðu framanaf aðallega pípureykingar enda þótt reyktóbak hafi verið í einhverskonar vindlaformi á meginlandi Ameríku meðal innfæddra. Sígarettur tóku ekki við af vindlum sem vinsælasta aðferðin til að reykja tóbak fyrr en á 20. öldinni en komu þó til sögunnar snemma á 19. öld.

Þessari sögulegu upprifjun er ágætt að ljúka með að benda á enn eina sögulega staðreynd; miðöldum er ýmist talið ljúka þegar Kristófer Kólumbus steig á land í Ameríku 1492 eða nokkru fyrr þegar endurreisnin hefst á Ítalíu. Reyndar segir á Vísindavefnum að miðöldum hafi lokið „ýmist á 14., 15. eða 16. öld eftir svæðum.“ Miðaldir einkenndust ekki af tóbakssölubanni né heldur er nýöld miðuð við þá staðreynd að tóbaksneysla hafi hafist um svipað leyti á Vesturlöndum. Öll samlíking reykingamanna skerðingu á aðgengi tóbaks við myrkar miðaldir**** er afar langsótt ef ekki fáránleg. Ef tóbak væri kynnt fyrir okkur fyrst nú, þegar við vitum hverskonar eiturefni eru í því, þá yrði það aldrei leyft til sölu nema e.t.v. til garðaúðunar og þá í meðförum þeirra sem kunna með eitur að fara.

Reykingamenn hafa tryllst í hvert sinn sem aðgengi þeirra að tóbaki hefur verið heftur og þeir neyddir til að taka tillit til annarra. Enda þótt þeim sé vorkunn í fíkn sinni þá er fullkominn óþarfi að leyfa þeim að stjórna því hvar og hvernig tóbak er selt, rétt eins og það var ekki góð hugmynd að láta þá sjálfa um hvort þeir sýndu þá tillitsemi að reykja ekki ofan í aðra. Með því að þrengja sífellt að þeim hefur tekist að gera reykingar að æ sjaldgæfara fyrirbæri. Fengju þeir að vera óáreittir þættu reykingar sjálfsagðar og börnum þætti ekkert eðlilegra en taka upp reykingar hið fyrsta. Þannig var það lengi vel en þeirri þróun tókst að snúa við. Þingsályktunartillaga Sivjar Friðleifsdóttur er enn eitt skrefið í þá átt að forða fólki frá böli tóbaksfíknar.

___
* Sú klásúla að ekki eigi að veita styrki til íslenskra kvikmynda sem sýna notkun tóbaks er ein ástæða þess að mig grunar að Siv og félagar búist allsekki við að þingsályktunartillagan verði samþykkt. Málinu sé fyrst og fremst ætlað að koma af stað umræðu (tókst!) og fái fólk til að hugsa um hvort okkur þyki í alvöru eðlilegt að annarhver maður í bíómyndum reyki, þegar staðreyndin er sú að æ færri reykja. Eigi nú bíómyndir að vera raunsæislegar þá væru reykingar sjaldgæfar og litnar hornauga, ekki algengar eða smart, eins og oft er látið líta út fyrir í bíómyndum. (Hvernig skildi annars standa á því að í fantasíubíómyndum reykja ekki allir? Hobbitinn reykir pípu í sögu Tolkiens, ætli hann verði veifandi pípunni í bíómyndinni?) Nýliðun í hópi reykingamanna fer ekki síst fram í gegnum afþreyingarmenningu þar sem börn og unglingar sjá fyrirmyndir sínar mökkreykjandi öllum stundum.

** Svo er líka frábært þegar tóbaksfíklarnir bera tóbaksnotkun saman við áfengisneyslu og benda á skaðsemi hins síðarnefnda og að það væri þá nær að banna áfengi. Það vill svo til að það væri frábær hugmynd og ég fyrir mitt leyti mæli með að áfengi verði bara selt eins og það eitur sem það er, af sérhæfðu starfsfólki og með miðlægan gagnagrunn til hliðsjónar. Smám saman myndi e.t.v. komast á sú hugmynd — sem tóbaksfíklum og drykkjufólki virðist framandi — að drykkja, reykingar, munntóbaks- og neftóbaksnotkun séu ekki eðlilegur fylgifiskur daglegs lífs heldur fyrirbæri sem á að meðhöndla eins og hvert annað vandamál sem þarf að takast á við með heimsókn í apótekið.

*** Í kvikmyndinni Elizabeth, the Golden Age kennir Clive Owen í hlutverki Sir Walter Raleigh Elísabetu (sem leikin er af Cate Blanchett) að reykja en í eldri mynd um þau skötuhjú fóru Errol Flynn og Bette Davis með sömu hlutverk. Ekki man ég hvort mikið var gert úr reykingakennslunni þar.

**** Hugtakinu myrkar miðaldir hefur reyndar verið úthýst af flestum — samanber niðurlagsorð Vísindavefsgreinarinnar („Í dag þykir ekki við hæfi í fræðiritum að kenna miðaldir við myrkur“) — enda voru miðaldir að mörgu leyti tími mikilla framfara í hugsun og framkvæmd. Hinar glæstu dómkirkjur miðalda voru reistar (hér er óþarfi að setja myndir en lesendur geta séð fyrir sér Notre-Dame kirkjuna í París). Háskólar urðu til á miðöldum, háskólinn í Bologna á Ítalíu hefur tildæmis verið starfræktur frá árinu 1088, Parísarháskóli (Sorbonne) með hléum frá 1150 og Oxford sleitulaust frá 1167 (auk nóbelsverðlaunahafana 47 sem hafa kennt eða numið við skólann var Walter Raleigh meðal nemenda en lauk ekki námi).
Það er von að ritstjóri DV muni ekki eftir slíkum stofnunum sem háskólum þegar hann talar um miðaldir, hann mun þeim algerlega ókunnur. Rétt er að geta þess að því meira sem fólk er menntað því ólíklegra er að það sé ánetjað tóbaki, upplýst fólk kærir sig ekki um að vera þrælar fíkna sinna eða stórfyrirtækja á borð við Philip Morris og R.J. Reynolds sem hafa logið að almenningi áratugum saman um skaðsemi reykinga. En þar sem ritstjóri DV er þrátt fyrir allt maður hins skrifaða orðs þá má ekki gleyma því að gullöld íslenskra bókmennta fór fram á þessum sömu miðöldum. Varla telur ritstjórinn það vera myrkan tíma í sögunni, jafnvel þótt aðgengi landsmanna að tóbaki hafi verið núll komma ekki neitt.

Efnisorð: , ,