sunnudagur, apríl 30, 2017

Lof og last á sterum

Í stað mánaðaruppgjörs verða hér rifjaðar upp fréttir og greinar sem birst hafa undanfarna mánuði og þeim stillt upp sem lof eða last. Sú nýbreytni verður viðhöfð að til skiptis koma lof og last en þó eru þó yfirleitt ekki efnislega tengd. Með þessu móti er reynt að koma í veg fyrir að langur þunglyndisvaldandi listi af vondum hlutum staflist upp í lokin.

LOF
Bergur Ebbi skrifaði 3. febrúar íhugunarverðan pistil sem fjallar um ferðabannið sem Trump setti á múslima og ræðir sérstaklega mál íslensk-íranska íþróttamannsins Meisam Rafiei sem var meinað að ferðast til Bandaríkjanna.
„Meisam er settur í þá aðstöðu að vera þakklátur fyrir eitthvað sem flestir aðrir íslenskir ríkisborgarar taka sem sjálfsögðum hlut … Næstu mánuði og ár munum við sífellt sjá fleiri viðtöl við fólk eins og Meisam Rafiei. Ég er að tala um fólk sem er ekki að reka neina sérstaka pólitík og er kannski ekkert sérlega að leitast eftir því að fara í viðtöl þar sem heimavarnarstefnu Bandaríkjanna ber á góma. Og oftar en ekki munum við heyra þetta fólk sýna þakklæti og auðmýkt. Og þó að tilfinningar eins og þakklæti og auðmýkt séu fyrirbæri sem mannkynið á aldrei nóg af, þá munu þau skilaboð seytlast inn í sameiginlega vitund okkar hinna, hægt og rólega, að þetta fólk sem er alltaf svona þakklátt og auðmjúkt, eigi bara að halda áfram að vera þakklátt og auðmjúkt. Múgurinn á nefnilega til að ganga á lagið þegar hópar fólks verða varnarlausir og auðmjúkir.“
Meira hér.

LAST
Í frétt á Vísi 7. mars kemur fram að dönskum hagfræðing finnst „ávinningur af sæstreng vega þyngra en hækkanir til heimila“.
„Raforkuverð innanlands mun óhjákvæmilega hækka með lagningu raforkusæstrengs milli Íslands og Skotlands. Hins vegar getur Alþingi takmarkað slíkar verðhækkanir til íslenskra heimila með lögum. Þetta er mat dansks hagfræðings sem gerði úttekt á íslenska raforkumarkaðnum fyrir Landsvirkjun.“

Það gafst ekki vel hér einu sinni að hunsa ráðleggingar að utan en ég lýsi frati á þessa skoðun hagfræðingsins.

LOF
Gerð ganga gegnum Vaðlaheiði hefur mér þótt bera (svekkjandi) kjördæmapoti vitni. En það er ekki annað hægt en verða umtalsvert jákvæðari í garð Vaðlaheiðarganga eftir að hafa lesið bloggfærslu Ástu Svavarsdóttur.

LAST
Ákveðið var við samþykkt fjárlaga ársins 2015 að gera ráð fyrir fækkun framhaldsskólanema og hætta að greiða fyrir bóknám þeirra sem eru 25 ára og eldri. Þessi stefna hefur sætt harðri gagnrýni undanfarin ár og gengið undir nafninu „25 ára reglan“ í fjölmiðlum og á vettvangi stjórnmálanna, segir í frétt Stundarinnar 28. mars. Þar segir einnig að þingkonur Sjálfstæðisflokksins þær Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir formaður allsherjar- og menntamálanefndar og Valgerður Gunnarsdóttir, hafi snúið þessum staðreyndum á hvolf og annarsvegar hafnað því að fólki eldra en 25 standi ekki lengur til boða bóknám í framhaldsskólum og hinsvegar kennt Katrínu Jakobsdóttur og ríkisstjórninni sem hún sat í um að hafa sett á 25 ára regluna.
Kostulegasta ruglið sem kom frá Áslaugu Örnu af þessu tilefni var þó þetta:
„Ég held að mikilvægt sé að hugsa til þess af hverju og hvernig viljum við mæta þörfum nemenda sem eru 25 ára og eldri. Af hverju er mest brottfall hjá þeim nemendum og hefur verið um langa hríð? Jú, af því að, virðulegi forseti, skólinn, námsefnið og kennsluaðferðirnar er miðað að fólki á aldrinum 16–20 ára og það hentar einfaldlega ekki fólki á þrítugs- eða fertugsaldri að sitja á skólabekk með börnum sem hafa nýlokið grunnskóla.“

LOF
Lof fær Einar Brynjólfsson, þingmaður Pírata „og framhaldsskólakennari til margra ára“ sem steig í pontu og rak þvæluna ofan í Áslaugu Örnu:
„Mér blöskrar ýmislegt sem hér hefur verið sagt. Mér blöskrar sú vanþekking sem háttvirtur þingmaður Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hefur sýnt að hún hefur á íslensku framhaldsskólakerfi, að það henti ekki fólki á þrítugs- eða fertugsaldri að sækja skóla með yngri nemendum. Þvílíkur þvættingur,“ sagði hann.

Einar segir að bestu nemendur sínir hafi verið þeir sem voru komnir yfir 25 ára aldur. Hann segir einnig:
„Í samtali mínu við aðstoðarskólameistara Verkmenntaskólans á Akureyri, og ég tek það fram að ég hef leyfi hans til þess að vitna í hann hér, kom fram að nemendum hafi verið vísað frá bóknámi í Verkmennaskólanum á Akureyri vegna þess að þeir voru orðnir 25 ára. Punktur. Það er óþolandi.“

LAST
Talandi um menntun og óhæfuverk núverandi ríkisstjórnar. Frétt RÚV frá 24. apríl:
„ Útlit er fyrir að ekki verði lengur hægt að bjóða fólki með þroskahömlun upp á diplómanám í myndlist. Fjárveiting hefur ekki fengist til að halda námsbrautinni áfram. Fyrsti og þá líklega eini útskriftarhópurinn lýkur námi í vor.“
„Það er auðvitað réttur fólks að læra, það eru mannréttindi,“ segir Áslaug Thorlacius, skólastjóri Myndlistarskólans í Reykjavík. Undir það tekur Elín Fanney Ólafsdóttir nemandi. „Og það skiptir líka svo miklu námi fyrir fatlaða krakka að mennta sig meira eftir menntaskóla. Það eiga allir jafn mikinn rétt á menntun,“ segir Elín. 
„Atvinnuleysi er töluvert, það er lítið framboð af öðru námi, þannig að er jafnvel verið að dæma fólk til þess að vera heima,“ segir Margrét M. Norðdahl, deildarstjóri námsins.

LOF
Guðmundur Gunnarsson fær lof fyrir að fara nánar út í 25 ára regluna í grein sem birtist 21. apríl.
„Að loka framhaldsskólum fyrir nemendur eldri en 25 ára er pólitísk ákvörðun sem skerðir tækifæri fólks og samfélags. Þetta er eitt dæmið um það hvernig arðurinn af auðlindum Íslands rennur í minnkandi mæli til samfélagsins.“
Þetta er mikilvægt málefni, lesið grein Guðmundar hér.

LAST
Uppeldi barna felst m.a. í uppeldi, en sum börn virðast ekki fá neitt uppeldi. Eða svo mætti halda af þessari ömurlegu frétt sem birtist 16. apríl.
„Þrír drengir á aldrinum fimm til átta ára spörkuðu í flamengófugla í tékkneskum dýragarði svo hann drapst. Þeir höfðu áður kastað steinum að fuglinum.

Independent segir frá því að drengirnir hafi klifrað yfir girðingu og inn á lóð dýragarðsins í Jihlava og svo ráðist að fuglunum.
Martin Maláč, talsmaður dýragarðsins, segir að drengirnir hafa ekki sýnt nein merki þess að skammast sín og kann svo að fara að foreldrum þeirra verði gert að greiða bætur.“

LOF
Ill meðferð á dýrum er alltaf óþægilegt umræðuefni en að þessu sinni er frétt frá 12. apríl um að horfi til betri vegar.
„Stjórnvöld á Taívan hafa bannað sölu og neyslu hunda- og kattakjöts. Þetta kemur fram í nýjum lögum um dýravernd. Í eldri lögum var einungis bannað að versla með hunda- og kattakjöt. 
Þá eru viðurlög hert við illri meðferð dýra. Slík brot varða allt að eins árs fangelsi og háum sektum. Þá er eigendum gæludýra bannað að viðra þau með því að festa tauminn í bíl eða mótorhjól og láta þau hlaupa með ökutækjunum.“
Fyrir fólk sem lítur á hunda og ketti sem gæludýr er þetta vægast sagt jákvæð stefna sem þarna er tekin. Vonandi linnir nú dýradrápi þessu.

LAST
Gervifeldur er valkostur þeirra sem ekki vilja að dýr séu ræktuð eða veidd til þess eins að vera drepin til að hægt sé að flá þau (eða enn verra: flegin lifandi). En nú hefur komið í ljós að í sumum tilvikum eru fatnaður og fylgihlutir, sem sagðir eru skreyttir gervifeldi, í rauninni með alvöru loðfeld. Við nánari skoðun reyndust vera feldir af mink, kanínu og ketti á flíkum sem fást í verslunum í Bretlandi, skv. frétt Sky News frá 10. apríl.

Stóra spurningin hlýtur að vera hvort vara sem hér á landi er keypt (af innlendum eða erlendum framleiðendum) í góðri trú um að engin dýr kveljist við framleiðsluna, sé einnig svikin vara — eða öllu heldur ekta loðfeldur. Vonandi á það ekki við um „gerviskinnið“ sem er á íslenskum útivistarfatnaði. Sennilega er best að forðast gerviskinn rétt eins og loðfeldi.

LOF
Guðmundur Andri skrifaði góðan pistil þann 20. apríl um hryðjuverkið í Stokkhólmi.
„Hryðjuverk á borð við það sem framið var í Stokkhólmi núna bitnar svo sannarlega á vegfarendum en um leið eru slíkar aðgerðir nánast eins og hernaður á hendur múslimum í Evrópu, til þess ætlaður að koma í veg fyrir aðlögun. Lífið á að verða óbærilegt karlmönnum með brúna húð í Evrópu – verkin beinast gegn fjölmenningu og sambúð ólíkra trúarhópa.

Markmiðið er að gera sambúð kristinna manna og múslima í Evrópu óhugsanlega, sá fræjum tortryggni og haturs milli þeirra. Að baki liggja hugsjónir um einangrun, hugmyndaþrengsli og hreinlíft kalífadæmi í anda miðalda með niðurnjörvuðum lífsháttum, stífum kynhlutverkum, karlveldi og virku eftirliti klerka með hugsunarhætti og hegðun, til dæmis kynhegðun þar sem harðbannað er að laðast að eigin kyni.

Þessi eftirlitshyggja, kynhlutverkastífnin, kvennakúgunin, rasisminn, fáránleg boð og bönn, vandlætingin í garð þeirra sem skera sig úr norminu – hatrið á fjölbreytninni og andúðin á öðrum húðlit en maður hefur sjálfur, annarri kynhegðun, annarri sjálfsmynd – allt er þetta sameiginlegt í trúarbrögðunum stóru sem við kennum við Abraham – islam, gyðingdóm og kristni – þegar þessi hugmyndakerfi eru orðin trénuð og inntakslaus og þeim fylgt af bókstafstrú. Þess vegna hljóma bókstafstrúarklerkar í Bandaríkjunum nokkurn veginn eins og múllarnir sem predika í moskum heimsins. Rasistarnir hvítu á Norðurlöndum sem kveikja í flóttamannabúðum aðhyllast ekki ólíka hugmyndafræði og þeir sem kenna sig við islam og aka trukkum inn í mannfjölda.“
Mikilvæg lokaorð pistilsins má lesa hér.

LAST
Ísland tekur ekki þátt í viðræðum Sameinuðu þjóðanna um að banna tilvist kjarnorkuvopna og hefur verið mjög þversum í því máli öllu. Steinunn Þóra Árnadóttir þingmaður Vinstri grænna bendir á þetta í grein 20. apríl og lýsir yfir vonbrigðum sínum að Ísland skuli ekki „skipa sér í sveit með meira en 130 þjóðum til að vinna að þessu brýna máli“.

Í grein Steinunnar kemur fram að níu ríki búa yfir kjarnorkusprengjum, alls um 15 þúsund talsins, og því miður er staðreyndin sú að sumum (flestum?) ríkjanna er stjórnað af brjálæðingum og vitleysingum.

LOF
Hin ágæta Úrsúla Jünemann skrifaði í fyrradag um húsnæðismál, en þau eru í klessu eins og allir vita. Hennar uppástunga er að „reisa lítil ódýr einingahús á steyptri plötu, ekki seinna en núna, til að vinna gegn þessum bráða húsnæðisvanda? Alveg eins og eftir Vestmannaeyjagosið á sínum tíma“. Þetta er ágæt ábending.
(Þess má geta að hér á blogginu var minnst á viðlagasjóðshúsin ekki alls fyrir löngu en í öðru samhengi.)

LAST
Talandi um húsnæðisvanda. IKEA á Íslandi ku vera að byggja blokk fyrir starfsmenn sína. „Tilgangurinn með byggingunni er að halda í starfsfólk og mæta vanda þess fyrir húsnæði.“

Enda þótt það megi líta það jákvæðum augum að húsgagnarisinn beri hag starfsmanna sinn þannig fyrir brjósti þá er ekki heppilegt að starfsmenn séu háðir vinnuveitanda sínum um húsnæði. Því hvað ef fólk vill hætta í vinnunni - eða er rekið? Þá stendur það á götunni ofan á allt annað. Það eru óþolandi aðstæður.

LOF
Sif Sigmarsdóttir skrifaði enn og aftur frábæran pistil 25. mars. Þar ræðir hún „endalok sögunnar“ en það er hugtak bandaríska stjórnmálafræðingsins Francis Fukuyama sem trúði því að hugmyndafræðilegri þróun mannkynsins væri lokið. Einnig koma hryðjuverk, nasismi og lýðræði við sögu hjá Sif, ásamt Theresu May, Trump og Erdogan. Lokaorð Sifjar eru þessi (lesið samt allan pistilinn):
„Helsta ógnin við lýðræðið í dag – og alla daga – er blind trú á goðsögnina um framþróun mannsins. Því lýðræði er hvorki náttúrulegt né óhjákvæmilegt ástand. Lýðræði er ekki örlög okkur sköpuð. Það er hvorki annarra náðarsamlegast að gefa okkur né annarra að taka. Það býr með okkur sjálfum og er á okkar eigin ábyrgð. Gleymum því ekki.“

LAST
Sjálfstæðiskonan Sirrý Hallgrímsdóttir fyrrverandi aðstoðarmaður Illuga Gunnarssonar og skrifar eldsúra bakþankapistla í Fréttablaðið. Hver öðrum verri.

LOF
Þorvaldur Gylfason skrifar vikulega í Fréttablaðið og hér má lesa ágætan pistil hans um uppruna okkar í Afríku, Henry Louis Gates, og rasisma í Bandaríkjunum.
„Það gerist aftur og aftur að blökkumenn vestra láta jafnvel lífið af litlu tilefni í viðureign við lögreglu sem mörgum virðist fordómafull gagnvart blökkumönnum – enn í dag, meira en 150 árum eftir að þrælahald lagðist af.“

LAST
„Íslenskar klappstýrur með metnað“, var fyrirsögn á bls. 28 í Fréttatímanum 10. mars, og segir þar frá klappstýruliði „eins og í Ameríku“ sem ætlar að sýna listir sínar í hálfleik þegar strákar keppa í amerískum fótbolta. Það er sorglegt að sjá stelpur ganga svona fúslega í hlutverk stuðningssaðila karlmanna sem alltaf eru aðal. Og með þessum líka hallærisgangi sem klappstýruhlutverkið gengur útá. Svekk svekk.

LAST
Einstaklega leiðinlegur endir varð á ritstjórnartíð Gunnars Smára hjá Fréttatímanum. Ömurlegur viðskilnaður.

LOF
Helga Vala Helgadóttir skrifaði ágætan bakþankapistil 6. mars Ríkisútvarpinu til varnar.
„Samkeppnisaðilarnir“, sem frjálshyggjufólk vill meina að geti vel sinnt því starfi sem unnið er í Efstaleiti, fjalla ekkert um sögulega hluti. Fjalla ekki ítarlega um hljómsveitir eða tónverk. Flytja ekki útvarpsleikrit, útvarpssögur eða flakka um borg og bæi með sagnfræðingi sem tjáir sig um sögu húsa og gatna.“

LAST
Lykilstjórnendur Haga eru jafnframt hluthafar. Enda þótt þeir (eða eiginkonur þeirra) hafi selt helling af hlutafé í fyrra þá eiga þeir enn helling eftir (þetta eru rúnnaðar tölur). Í því ljósi ber að lesa frétt um að verðmæti Haga geti aukist um 5,9 milljarða verði áfengi selt í búðum fyrirtækisins.

Áhugi þeirra snýst ekki bara um að auka þjónustu við neytendur.

LOF
Halldóra K. Thoroddsen rithöfundur hlýtur Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins í ár fyrir skáldsögu sína Tvöfalt gler.
Húrra fyrir því! (Nú þarf bara að ná sér í bókina og byrja að lesa.)

LAST
Óvenju margir greindust með HIV á síðasta ári, segir í frétt frá 1. febrúar. Útbreiðsla kynsjúkdóma er mikil, klamidía algengust, sárasótt (sem ég hélt að væri útdauð) sækir í sig veðrið og lekandatilfellum fjölgar jafnt og þétt. Nota smokkinn, krakkar!

En svona í alvöru:
„Það er ákveðin fræðsla sem þarf líka að fara af stað fyrir ungmenni. Hún er í gangi í skólum landsins, en það þarf að skerpa á því starfi. Þetta er þróun sem við sjáum í nálægum löndum, sem er nákvæmlega eins og hér,“ segir Þórólfur og bætir við að það sé greinilegt að kynslóðirnar sem ekki muna óttann vegna HIV-faraldursins hegði sér samkvæmt því. Eins þurfi að tryggja hreinar nálar fyrir sprautufíkla og fjölga hraðgreiningarprófum og endurskipuleggja hvernig hægt er að nálgast fólk sem er smitað.“

LOF
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir tók Björn Bjarnason fyrrverandi dómsmálaráðherra (þáði semsagt laun frá skattgreiðendum) á beinið í beittum pistli sem birtist 17. desember 2016. Björn hafði hvatt stjórnvöld „til að grípa til harðari aðgerða gegn straumi innflytjenda frá Makedóníu eða Albaníu og þeirri „ásókn í skattfé almennings sem þeim fylgir.“

Þóra Kristín segir:
„Mér finnst þessar áhyggjur af skattfé almennings annarlegar og með því að setja þær fram í þessu samhengi, er verið að reyna að særa fram smásálina í þjóðinni og læða að þeirri hugsun að allt fólk sem þurfi á okkur að halda sé að ræna Íslendinga og koma í veg fyrir að við getum haldið uppi samfélagi.

Slíkar hugmyndir eru, ásamt misskiptingunni, orðin raunveruleg ógn við friðinn og lífskjörin í Evrópu. Fólk sem telur okkur trú um að við höfum ekki efni á mannúð og okkur stafi hætta af annarlegu fólki, sem sveimi yfir og allt um kring eins og engisprettuplága, albúið að éta venjulegt fólk út á guð og gaddinn.

Og þeim fjölgar stjórnmálamönnunum sem eru tilbúnir til að klappa þennan stein og uppskera lófatak á samfélagsmiðlum, oft frá fólki sem telur sig hafa orðið útundan í samfélaginu.

Það er einhver ódýrasta og ómerkilegasta pólitík sem til er. Og ef eitthvað er annarlegt, þá er það þegar hún kemur frá skjólstæðingi íslenskra skattgreiðenda til áratuga.“

LAST
Í annars ágætri úttekt Inga F. Vilhjálmssonar (sem birtist á í Fréttatímanum 3. mars) á vafasömum viðskiptum greiðslumiðlunarfyrirtækja (sem meðal annars hafa haft milligöngu um klám og lyfseðilsskyld lyf og ekki fylgt lögum um varnir gegn peningaþvætti) er haft eftir Andra Vali Hrólfssyni fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Valitor að hvert einasta hótel á Íslandi sé með þrjár til fimm klámrásir og einnig talar hann um að Stöð 2 hafi haft (hefur?) „fjórar svæsnar klámrásir, alveg svæsnar“. Andra finnst því fíflalegt að núa Valitor því um nasir að vera milliliður um klám á netinu. Þá gerir Andri greinarmun á klámi og sóðaklámi. „Sóðaklám er ógeðslegt og það er auðvitað til á netinu. Ég á við barnaklám til dæmis.“

Það er nógu slæmt að dreifing á klámi sé réttlætt með því að allir séu að dreifa klámi, en að eingöngu barnaklám sé neikvætt og allt annað klám sé þá í lagi … nei, það er hreint ekki þannig.

LOF
Sænski fréttaskýringaþátturinn Uppdrag Granskning hlaut í byrjun apríl Gullspaðann, mikilvægustu verðlaun samtaka sænskra rannsóknarblaðamanna, fyrir þáttinn um Panamaskjölin.

Verðskulduð verðlaun!


Efnisorð: , , , , , , , , , , , ,

miðvikudagur, apríl 26, 2017

Dýraníðingar njóta mikils skilnings

*Varúð, hér eru lýsingar á dýramisþyrmingum*


Bloggfærsla um búnaðarsamninginn frá september síðastliðnum fjallaði í raun um dýravernd og viðhorf til dýraverndar. Þingmenn kusu þar gegn tillögu um að refsa bændum fyrir vonda meðferð á dýrum (refsingin yrði fólgin í því að fella niður opinberar greiðslur til bænda sem gerast uppvísir að dýraníði). Eftirlit með aðbúnaði dýra þarf að vera öflugt, en það þarf að bæta við úrræðum til að taka á dýraníðingum. Þingmennirnir 26 sem komu í veg fyrir að hægt væri að láta dýraníðinga finna til í pyngjunni, hafa þar með lagt blessun sína yfir að menn komist upp með það að fara illa með dýr. Í bloggfærslunni voru birt nöfn þingmannanna sem sátu hjá eða greiddu atkvæði gegn tillögunni.

Í þessari sömu bloggfærslu var minnst á hræðilegt dýraníð frá árinu 2015 sem svo rataði aftur í fréttirnar í dag vegna viðtals við Sindra Sigurgeirsson, formann Bændasamtakanna. Þar er um að ræða bónda fyrir norðan (enginn hefur fengið að vita á hvaða bæ) sem drap kvígu með viðbjóðslegum hætti.
„Kvígan sem drapst var að fara út í fyrsta skipti og átti að reka hana aftur inn í fjós eftir daginn en hún lét ekki ná sér.
Reynt var að reka hana áfram, fyrst af hestbaki en þegar hún lét ekki segjast ók bóndinn jeppa utan í hana til að ýta við henni en við það brotnaði hluti af stuðaranum og kvígan hlaut sýnileg meiðsl.

Í kjölfarið brá bóndinn snörunni um háls kvígunnar og batt hana aftan í jeppann. Hann ók síðan af stað og kvígan gekk á eftir stuttan spöl en lagðist síðan aftur. Við það fóru maðurinn og sambýliskona hans út úr bílunum og tóku girðingarstaura úr rafmagnsgirðingu sem lágu í öðrum jeppanum og hófu að berja skepnuna, uns hún stóð upp.

Aftur lagðist kvígan. Aftur var hún barin en í þetta sinn stóð hún ekki upp.

Í stað þess að stöðva bílinn ók bóndinn áfram og alla leið að fjósinu, með kvíguna hangandi á hálsinum aftan í bílnum. Dóttir hans var í bíl fyrir aftan, ásamt sambýliskonu föður síns. Hún þrábað hana að grípa inn í en allt kom fyrir ekki. Þegar bóndinn stöðvaði bifreiðina var kvígan dauð.“
Bóndinn „hlaut ekki aðra refsingu en áminningu fyrir brotið“. Hann var ekki sviptur opinberum greiðslum, hann var ekki dæmdur fyrir dýraníð, hann var ekki sviptur leyfi til dýrahalds, dýr voru ekki fjarlægð af bænum. Ekkert bendir til annars en að hann sé enn í búrekstri og haldi enn nautgripi.

Í útvarpinu var formaður Bændasamtakanna spurður ítarlega út í þetta mál og lagði hann — rétt eins og Matvælastofnun hefur einatt gert — áherslu á persónulega harmleiki þeirra bænda sem misþyrma dýrum. Þeir séu þunglyndir eða þvíumlíkt.* Ég sé ekki alveg persónulega harmleik bóndans sem misþyrmdi og drap veslings kúna í bræðiskasti og lét barn sitt verða vitni að óhæfuverki sínu. Formaður bændasamtakanna segir að „bóndinn viðurkennir sín mistök og alvarleika brotsins“ — en ekkert um að hann hafi leitað sér faglegrar aðstoðar við þessum persónulegu vandamálum sem ráku hann til að hegða sér svo viðbjóðslega. Að kalla slíka hegðun mistök er að auki algjör afneitun á því sem raunverulega gerðist, hvort sem það orðalag er frá bóndanum komið eða formanni Bændasamtakanna.

Það vekur líka athygli að formaðurinn svarar því í raun ekki hvort það sé tækt að „svona maður fái leyfi til að halda dýr“ en snýr útúr með því að vitna í þessa meintu játningu á mistökum og alvarleika, og segir svo að „vonandi þýðir það að menn séu að breyta rétt“. Vonandi? Er enginn að tékka á mannininum?

Bændasamtökin fordæma mál bóndans. Núna. Tveimur árum síðar.


___
* [Viðbót 28. apríl] Hrannar Jónsson, formaður Geðhjálpar tekur ekki undir þetta og segir „ábyrgðina liggja hjá bændum og eftirlitsaðilum en ekki þunglyndum“. Hann segir jafnramt:
„Það er særandi fyrir fólk, sem glímir við þessi vandamál, að heyra þetta í umræðunni. Hjá þessum hópi fólks, og ég hef umgengst hundruð manna sem eru að kljást við þennan sjúkdóm, er eitt sterkasta einkenni þeirra að vilja ekki gera öðrum mein. Þetta er bara ekki sanngjarnt að tengja dýraníð við þennan sjúkdóm og hreinlega meiðandi.“

Efnisorð:

laugardagur, apríl 22, 2017

Iss, þessi ríkisstjórn!

Ríkisstjórnin á voða bágt. Almenningur lýsir frati á hana í skoðanakönnunum, hver höndin er uppá móti annarri í ríkisstjórnarflokkunum, og stjórnarþingmenn hafa ekki bara lýst því yfir að þeir styðji ekki meginstefnumál einstakra ríkisstjórnarflokka (jafnlaunavottunarfrumvarp Viðreisnar) heldur lýsa fjórir af sex nefndarformönnum Sjálfstæðisflokks frati á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, þar af formaður fjárlaganefndar.

Þórður Snær Júlíusson tekur saman nokkur helstu málin sem valda óánægju:
„Sú endurreisn heilbrigðiskerfisins sem var lofað er ekki sýnileg með neinum hætti, neyðarköll berast frá háskólum landsins vegna undirfjármögnunar og megn óánægja er með skort á fjármagni í samgöngumál. Eini maðurinn sem virðist virkilega ánægður með nýframlagða fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er Benedikt Jóhannesson, sem lagði hana fram.“
Torfi H. Tulinius skrifaði mjög fínan pistil um það sem hann kallar „ríkisstjórn Bjartrar framtíðar og ríku frændanna“, og sagði þá meðal annars þetta:
„Mikill hagvöxtur sem nú setur svip á þjóðlífið fer því mest í að efla sjóði auðmanna fremur en hlúa að ungu kynslóðinni, öldruðum og öryrkjum um leið og búið er í haginn fyrir framtíðina með menntun, rannsóknum og nýsköpun. Ríka fólkið skapaði ekki þennan auð en hirðir stærstan hluta hans.

Úrelt hagfræði og hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar réttlæta ránið. Svo er talað um aðhald gegn þenslu. Gegn ofhitnun hagkerfisins væri nær að beita skattkerfinu fremur en að skera niður til velferðar-, heilbrigðis- og menntamála.

Fjármálaáætlun ríku frændanna er fyrirætlun um arðrán og misskiptingu. Auðmenn geta vel við unað, því þeir eiga sér trygga framtíð í þjóðarauðnum sem þeir hafa sölsað undir sig; og ef hann bregst, í leynireikningum erlendis.“ 
Það er von að almenningur sé ósáttur. Samgönguáætlun bregst vonum fólks um allt land. Eftir mótmæli í Berufirði verður meira gert fyrir veginn þar (hefði aldrei gerst ef engin hefðu verið mótmælin og fjölmiðlar ekki sýnt frá þeim). Jón Gunnarsson samgönguráðherra segir að verið sé að kanna „hvort hægt sé að fjármagna nokkrar stórar og fjárfrekar framkvæmdir með sérfjármögnun“; einkavæðing vegakerfisins er semsagt á dagskrá hjá Sjálfstæðisflokknum. Þessu fagnar Teitur Björn Einarsson samflokksmaður Jóns og ræðir fjálglega um allskyns einkavæðingarhugmyndir, allt frá uppbyggingu vegakerfis til sölu ÁTVR.

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fær jafnvel enn verri undirtektir utan þings en innan.

Lífeyrissjóður bænda hefur varað við því að lífeyrisréttindi á þriðja þúsund kvenna eru í hættu því Benedikt hyggst fella úr gildi sérlög um sjóðinn.

Hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu fer sérstaklega illa í þá þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem stunda sjálfir ferðaþjónustu (Bjarni Ben virðist þarna vera að reyna að sýna fram á að hann hygli ekki lengur ættingjum sínum sem eiga ferðaþjónustufyrirtæki; fólksflutningar voru allt til 2016 undanþegnir virðisaukaskatti en því breytti Bj.Ben semsagt) en á móti þessari löngu tímabæru skattahækkun á ferðaþjónustuna kemur sú ráðstöfun Bjarna að lækka efra þrep virðisaukaskatts úr 24% í 22,5 %. Öðrum þykir það fáránlegt að ætla að lækka virðisaukaskattinn, sérstaklega núna í „góðærinu“. En skattalækkanir eru auðvitað sérstakt áhugamál þeirra sem yst eru til hægri: þannig hefur Trump boðað miklar og víðtækar skattalækkanir í Bandaríkjunum. Ekki leiðum að líkjast?
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans segir að í ríkisfjármálaáætlun sé gert ráð fyrir of litlu fé til reksturs spítalans og það komi of seint. Við blasi milljarða gat í rekstri Landspítalans og að óbreyttu verði 2018 mjög erfitt ár hjá spítalanum.“
Segir í frétt á RÚV, og einnig að 36 milljarðar af upphæðinni fari til uppbyggingar nýs Landspítala við Hringbraut og að „nær allt það umtalsvert mikla nýja fjármagn sem ætlað sé í heilbrigðisþjónustu á tímabilinu muni koma til á seinni hluta þess“; semsé rétt fyrir kosningar. Snjallt að hugsa svo langt fram í tímann, verst að hvað sjúklingunum á eftir að finnast það löng bið.

Þegar febrúarsamantekt bloggsins var skrifuð virtist sem Óttarr heilbrigðisráðherra Proppé væri annaðhvort ekki búinn að ákveða hvað hann ætlaði að gera varðandi Klíníkina eða ætlaði að synja henni leyfis um „að leyfa Klíníkinni að reka heilbrigðisstofnun á reikning skattborgara með hagnað eigenda að leiðarljósi“. Landlæknir hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að í raun sé Óttarr með aðgerðarleysi sínu að láta allt eftir Klínikinni. Það verður semsé tvöfalt heilbrigðiskerfi í boði: skattgreiðendur borga fyrir bæði kerfin en annað mun bera eigendum sínum arð. Óttarr hafnar viðtölum við fjölmiðlaog fást því engin svör frá honum um ásakanir landlæknis. (Það mætti reyndar ræða meira um stefnu Sjúkratrygginga í máli Klíníkurinnar; það virðist sem hún sé sérstakt óskabarn forstjóra Sjúkratrygginga. Hefur svona stofnun yfirhöfuð rétt á að reka sérstaka stefnu?)

Það er svo auðvitað algjör tilviljun að Klíníkin er í eigu þekktra Sjálfstæðismanna á borð við Ásdísi Höllu — og jafnframt Hrólfs Einarssonar náfrænda Bjarna Ben, en þeir eru nágrannar og bræðrasynir.* Hrólfur á einnig hlut í Kynnisferðum með pabba sínum og pabba Bjarna (en eins og kunnugt er dró Bjarni sig að nafninu til úr öllum viðskiptum og fylgist bara með ættarauðnum vaxa af hliðarlínunni).

„Eignarhald fjölskyldunnar í þeirri klíník í Ármúla sem langar til þess að verða sjúkrahús er líka óheppilegt þegar menn velta fyrir sér tregðu ríkisins til þess að fjármagna almennilega Landspítalann og aðra þætti hins ríkisrekna heilbrigðiskerfis,“ sagði Kári Stefánsson í fyrra bréfi sínu til Benedikts Sveinssonar bróður Hrólfs.

Eflaust finnst einhverjum ósanngjarnt að ræða sífellt Engeyjarættina þegar ríkisstjórnina ber á góma, en með Bjarna Benediktsson þar í forsæti og Benedikt frænda hans í hlutverki fjármálaráðherra (sem Bjarni gegndi áður) þá hreinlega verður að ræða þau tengsl, enda eru náskyldir ættingjar Bjarna sífellt að stunda viðskipti langt innan lögsögu Bjarna. Eftir að hann varð fjármálaráðherra var föðurbróðir hans einn þeirra sem keypti Borgun útúr Landsbankanum. (Það er þó við hæfi úr því verið er að ræða þessa fjölskyldu að minna enn einu sinni á Vafningsmálið þar sem Bjarni, faðir hans og föðurbróðir koma allir við sögu.)

Nú eru þeir — þar á meðal Benedikt Sveinsson faðir forsætisráðherrans — að kaupa ræstingafyrirtækið (Iss!**) sem ræstir heilbrigðisstofnanir og ráðuneyti, en samningurinn um ráðuneytisskúringarnar var gerður í tíð Bjarna í fjármálaráðuneytinu; og eiga því hér viðskipti við hinn frændann í ríkisstjórninni. Á þetta ríkisskúringamál benti Kári Stefánsson í síðara svarbréfi sínu til Benedikts Einarssonar sem eins og bróðir hans Klíníkureigandinn er sonur Einars Sveinssonar sem er að kaupa Iss** með Benedikt bróður sínum, föður Bjarna, og Kári spyr í leiðinni:
„Haldið þið virkilega að þegar Bjarni þurfi að gera hreint fyrir sínum pólitísku dyrum sé aðferðin sú að fjölskyldan kaupi ræstingarfyrirtæki?“
Þórður Snær segir, í pistlinum sem vísað var til hér að ofan, að þótt mörgum Sjálfstæðismönnum þyki greinar Kára Stefánssonar, um viðskiptaumsvif fjölskyldu Bjarna „ekki svaraverðar þá vekja þær verulega athygli og skapa umræðu í samfélaginu. Sú umræða verður ekki stöðvuð með þögninni.“

Það skiptir nefnilega máli að fjölskylda forsætisráðherra er með krumlurnar á kafi í kökukrúsinni. En hitt skiptir ekki síður máli að ríkisstjórnin skuli almennt og yfirleitt ætla að svelta heilbrigðis- og menntastofnanir enn meir en orðið er. Svik flokkanna sem eru í ríkisstjórninni við kjósendur sína eru mikil. Lofað var styrkingu innviða. Látið var í veðri vaka að kröfu ríflega 86 þúsund Íslendinga um að framlög til heilbrigðismála verði 11% af vergri landsframleiðslu (undirskriftarsöfnun Kára Stefáns) yrði mætt en í raun verður hlutur heilbrigðiskerfisins minni og inni í tölunni er uppbygging Landspítalans. Háskólarnir svelta, Háskóli Íslands þarf að hætta við að halda 50 námskeið. Það eru svik við nemendur og skaðar samfélagið þegar fram líða stundir. Auk alls annars sem menntun nýtist einstaklingum og samfélaginu þá þurfum við „vel menntað fólk til að byggja hús og vegi“. Það vantar hjúkrunarheimili fyrir aldraða.

Eftirfarandi er úr pistli eftir Halldór Gunnarsson varaformann Flokks fólksins.
„Formaður Sjálfstæðisflokksins sagði rétt fyrir kosningar þann 19.10. 2016 í myndbandsupptöku Sjálfstæðisflokksins: „Ég er mjög hreykinn af þeim árangri sem Sjálfsstæðisflokkurinn hefur náð á þessu kjörtímabili. Það sem ég er þó einna stoltastur af, eru mestu kjarabætur fyrir aldraða í áratugi. Við höfum tryggt öldruðum og öryrkjum 300 þúsund króna lágmarksframfærslu, og með frítekjumarkið, óháð því hvaðan tekjurnar koma, þá verður kerfið réttlátara, betra í alla staði og skiljanlegra. Við höfum náð mjög miklum árangri, við viljum gera enn betur fyrir alla Íslendinga. Það verða nefnilega allir að vera með.“

Þessi lágmarksframfærsla finnst hvergi og frítekjumarkið sem áður var 109 þúsund kr. á mánuði var lækkað af sömu ríkisstjórn eftir kosningar, fyrst í lagafrumvarpi í 0 kr og síðan hækkað í 25 þúsund kr. á mánuði frá og með 1. janúar sl.!“
Stjórn Flokks fólksins vinnur að hópmálsókn á hendur ríkinu vegna brota Tryggingastofnunar á lögum um almannatryggingar.

Það standa í stuttu máli öll spjót á ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Og skyldi engan undra.

___
* [Viðbót, síðar] Kári Stefánsson segir í grein í Fréttablaðinu 9. maí 2017: „Hverjir standa svo að þessari klíník í Ármúlanum? Svar við þeirri spurningu færir okkur aftur að hagsmunaárekstrunum sem ég drap á í byrjun. Yfirlæknir og stærsti eigandi er Hrólfur Einarsson Sveinssonar. Forsætisráðherra og hann eru bræðrasynir. Stjórnarformaður er eiginkona Gunnars Viðar sem er besti vinur Jóns Benediktssonar, bróður forsætisráðherra. Hugmyndasmiður og stofnandi er dugnaðarforkurinn og eldhuginn Ásdís Halla sem ólst upp við fótskör Engeyinganna. Er nema von að samfélagið spyrji hvort þarna sé komin ástæða þess að Bjarna finnist eðlilegt að eigendur einkafyrirtækja á heilbrigðissviði geti tekið út arð og þess að hann fyrst sem fjármálaráðherra og nú sem forsætisráðherra vill ekki fjármagna Landspítalann að þörfum?“

** Árið 2018 fékk ræstingafyrirtækið Iss nýtt nafn og heitir nú Dagar.

Efnisorð: , , , , , , , , , ,

fimmtudagur, apríl 20, 2017

Frosti síðvetrar, Frosti sumarsins og Frosti allra árstíða

Sumardagurinn fyrsti og honum fylgir sú trú að sumarið verði gott ef frýs saman vetur og sumar. Ekki veit ég um frostið en mér sýnist vera sami éljagangurinn og í gær.

Frosti Logason skrifar bakþankapistil í Fréttablað dagsins og hefur sumardaginn fyrsta í fyrirsögn. Hann viðrar þar gamalkunnug viðhorf sín en fyrir þá sem ekki þekkja til þá hefur Frosti um árabil stundað að pönkast á öllum þeim sem honum finnst rétt að líta niður á; ekki síst fólk í hverskonar mannréttindabaráttu og þá sérstaklega feministar. Pistill Frosta er í dag í hefðbundnum stíl þar sem hann talar niðrandi fólk sem berjst í ræðu og riti fyrir réttindum annarra. Þessi setning var sérstaklega áhugaverð: „Fólk hneykslast fyrir hönd annarra og talar um réttindi hinna jaðarsettu.“

Fyrir mánuði skrifaði Frosti nefnilega til tilbreytingar ágæta hugvekju um framkomu í garð fólks með Downs heilkenni. Vinur hans á fjögurra ára gamlan son með Downs og faðirinn hafði í enn eitt skiptið orðið vitni að fordómum samfélagsins.

„Þetta kvöld þurfti hann í enn eitt skiptið að heyra, í sömu vikunni, orðin mongó og mongólíti þegar starfsmenn veitingastaðarins voru að fíflast sín á milli hinum megin við afgreiðsluborðið. ... En ég veit að fordómar okkar hinna gera þeim ekki auðvelt fyrir. Hugsum áður en við tölum.“ 
Þegar ég las þessa hugvekju Frosta fannst mér ég sjá glitta í nýjan mann. Mann sem gerði sér grein fyrir að fordómar bitna á fólki, og að fólk sem berst gegn fordómum og niðrandi orðalagi hafi rétt fyrir sér. Hugsanlega sæi hann það sem samfélagslega ábyrgð sína að skrúfa niður fordómafullt orðalag sitt (Frosti er frjálshyggjumaður og þeir trúa ekki að til sé samfélag, svo sú von var veik). Ég bjóst jafnvel við að í kjölfarið birtust fleiri pistlar þar sem Frosti lýsti viðhorfsbreytingu sinni. En nei.

Því í dag heldur hann áfram eins og hann hafi aldrei skrifað pistil um að hann hafi ekki gert sér grein fyrir sárindum sem fylgja því að tala niðrandi um aðra, og sagt ábyrgðarfullur: „Hugsum áður en við tölum“. Í dag segir hann:
„Í hverri viku springur réttlætiskór upp í heilagri reiði á samskiptamiðlum. Fólk hneykslast fyrir hönd annarra og talar um réttindi hinna jaðarsettu. Hinir kúguðu gegn kúgaranum ... Málfrelsið er úrelt afsprengi feðraveldis. Við afnemum það fyrir fólk sem við höfum ákveðið að þarfnist sérstakrar verndar.“
Hvaða fólk þarfnast sérstakrar verndar, Frosti? Finnst þér sú vernd eigi bara að ná yfir vin þinn og son hans, enga aðra? Eða eru hinir jaðarsettu bara 'hinir'?

___
* [Viðbót, síðar] Tengli á pistil Frosta var bætt við eftirá. Blogghöfundur mun reyna að stilla sig um að tengja á allt það sem frá Frosta hefur komið í þessa veruna. Þessi hrútskýringapistill hans er þó eftirtektarverður fyrir það hve mjög honum svipar til skrifa Óttars Guðmundssonar geðlæknis.

Efnisorð: ,

laugardagur, apríl 15, 2017

Hefðu betur varað við Þröstum

Ekki er ég hissa á að fjaðrafok verði yfir því að Þrestir hafi verið sýndir í Ríkissjónvarpinu án þess að gefa neina viðvörun um að myndin innihaldi atriði sem ekki eru við hæfi barna. Reyndar finnst mér að hún hefði átt að vera bönnuð innan sextán og fá rauða merkingu. Eftir að hafa séð myndina í bíó á sínum tíma skrifaði ég einmitt um að það hefði algjörlega vantað að fólk væri varað við þessari mynd. Og var ég þó eingöngu að tala um fullorðna áhorfendur.

En sínum augum lítur hver á silfrið. Í athugasemdahala við frétt Vísis um klúður Ríkissjónvarpsins tjáðu sig m.a. foreldrar barna sem sáu myndina.
Foreldri A:
„Ég horfi lítið á sjónvarp en skyldi 11 ára barn eftir í stofunni að horfa á myndina, enda hvorki gul né rauð merking. Þegar ég kom úr geymslunni hélt stúlkan fýrir augun enda ljótt nauðgunaratriði í gangi. Ég slökkti auðvitað á sjónvarpinu strax þótt það væri of seint. Framvegis treysti ég ekki dagskrármerkingum RUV.“
Foreldri B:
„Ég er alveg miður mín að hafa treyst RUV og leyft börnunum mínum að horfa á Þresti þar sem þau sáu hópnauðgun og misnotkun, yngsta barnið 11 ára og leið mjög illa eftir myndina. Ég hefði viljað fá viðvörun. Mér er ekki skemmt.“
Meðan foreldrar voru miður sín hæddust nokkrir karlar að uppnáminu – svo vel maríneraðir í nauðgunarmenningu að þeir litu á nauðgunaratriðið sem hverja aðra kynlífs- eða nektarsenu.
Hallgeir Ellýjarson
„Ó nei nakið fólk í kynlífsstellingum.“

Jón Már
„Þetta eru frekar dramatísk viðbrögð. Þetta er mjög falleg mynd sem á erindi við alla sem eru vakandi á þessum tíma. Umrætt atriði gerist í lok myndar sem er þá væntanlega um kl 23.“

Víðir Már Hermannsson
„Sé að það er nóg að gera hjá vælubílnum,,,, miklu betra að horfa á sveltandi börn deyja í fréttunum en "LEIKIÐ" nektaratriði í bíomynd...“

Axel Jóhann Hallgrímsson „Þessi manía er farin að minna á USA. Þar má ekki sjást bert brjóst í sjónvarpi eða nakinn líkami. En þessi sami líkami má sjást sundurskotinn eða sundursprengdur. Er lífið ekki dásamlegt.“

Hallgeir Ellýjarson
„Svona án djóks, trúir fólk því virkilegt að nekt geti skaðað börn? Í versta falli fara þau aðeins hjá sér en þetta er ekki eitthvað sem fer að skaða þau.“
Þegar maður sér nauðgunaratriði — þegar maður sér nauðgunaratriði í fyrsta sinn á ævinni og er bara barn að aldri — þá fer maður auðvitað bara aðeins hjá sér. Enginn skaði skeður. Heimsmyndin kannski örlítið hrunin.

En hey, nekt skaðar engan, alveg sama hvert samhengið er. Sú er skoðun karla.

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, apríl 11, 2017

Fortíðar-Finnur horfði til framtíðar

Það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég sá Finn Vilhjálmsson á skjánum að kynna rannsóknarskýrsluna um kaupin á Búnaðarbankanum að hann skrifaði assgoti góðan pistil í mars 2009 á bloggið sitt þáverandi. Pistillinn byrjar svona: „Það er sagt að siðrof hafi orðið á Íslandi í aðdraganda Hrunsins. Siðbótar er þörf. Við þurfum að taka upp góða trú.“

Í ljósi þess verkefnis sem Finnur tók síðar að sér, og birtist okkur sem skýrslan sem afhjúpaði blekkingarleik Ólafs Ólafssonar, er áhugavert að lesa pistillinn nú.
„Þegar fólkið sem olli Hruninu hefur sagt satt – sannleikann, allan sannleikann og ekkert nema sannleikann – og góð trú hefur verið tekin upp þarf að gera upp við fortíðina svo við getum haldið áfram á sæmilega traustum grunni. Til þess þurfum við að bíða eftir niðurstöðum þeirra stofnana sem nú rannsaka Hrunið og mjög líklega á endanum úrlausnum dómskerfisins.

Þegar við höfum fengið bestu mögulegu vitneskju um það hvað gerðist og hver gerði hvað er auðvitað æskilegast að hinir ábyrgu bæti sjálfviljugir fyrir það eftir fremsta megni og sæti eðlilegum og réttlátum viðurlögum.“



Efnisorð:

sunnudagur, apríl 09, 2017

Skál fyrir fermingarbarninu!

Þetta mun vera dagur sem þjóðkirkjan notar til ferminga. 13-14 ára börn eru látin 'staðfesta skírnina' (sáttmáli sem var gerður fyrir þeirra hönd þegar þau voru ómálga börn) og þeim lofað gjöfum og veislu í staðinn. Eða sko, foreldrarnir lofa og uppfylla. Kirkjan lofar hinsvegar eilífu lífi í stuði með guði. Allsendis óvíst um efndir.

Aldrei slíku vant ætla ég samt ekki að gagnrýna kirkjuna (það er samt alltaf ástæða til að gagnrýna kirkjuna) heldur aðeins ræða þetta með veisluna.

Sem barn las ég í Æskunni (sem Stórstúka Íslands gaf út) að áfengi hefði verið haft um hönd í fermingarveislum sem vakti mér nokkra furðu og spurði foreldra mína sem sögðu mér að áður fyrr hefði þetta verið algengt en það hefði verið barist gegn þessum ósið (í dag yrði það kallað vitundarvakning) og nú heyrði áfengisdrykkja í veislum til heiðurs óhörðuðum unglingum sögunni til.

Rannveig Guðmundsdóttir þáverandi þingmaður Samfylkingarinnar ræddi þetta í grein í Mogganum árið 2000.
„Fyrir nokkrum árum var skorin upp herör gegn áfengi í fermingarveislum.
Mörgum kom á óvart að það þætti ástæða til að hafa uppi slík varnaðarorð, aðrir þekktu til þess að áfengi væri haft um hönd bæði við fermingu og skírn. Það virðist sem sú herferð hafi borið árangur hvað fermingarveislurnar varðar því það varð talsverð umræða í þjóðfélaginu um þessi mál. Fullorðin kona sagði frá því að hún hefði endað grátandi úti í skúr á fermingardaginn sinn meðan gleði annarra var í algleymingi inni. Síst hefur þetta fólk ætlað að særa fermingarbarnið á stóra deginum hennar. Þeir sem búnir eru að missa stjórn á neyslu sinni þola ekki einu sinni kampavínsglas hversu góð sem áformin eru“

En fyrir fáeinum vikum las ég umfjöllun á rúv.is um fermingar, og þar kom þetta fram.
„Marentza Poulsen veitingamaður, sem annast veisluþjónustu fyrir fermingar, segir að margt hafi þó breyst. „Ég held að fólk sé farið að einfalda þetta og það hefur ekki eins mikið fyrir þessu og ekki eins mikið stress í kringum þetta þannig að það er ekki eins mikið fyrir þessu haft.“

Fermingarveislurnar séu orðnar stærri og fjölmennari, en minni áhersla lögð á umgjörðina. Veislan sé meira eins og ættarmót.

Æ fleiri bjóða upp á áfengi í veislunni. Þá er kökuhlaðborðið á hröðu undanhaldi og margir kjósa að hafa standandi veislu. „Þar sem er boðið þá upp á fordrykk - nú erum við ekkert endilega að tala um áfengi, en það er líka farið að veita áfengi meira en var gert fyrir 10 árum síðan.“

Er þetta í rauninni orðið algengt eða eru svona yfirlýsingar hluti af sókn áfengisiðnaðarins? Eða hverjum öðrum en því batteríi datt í hug að endurvekja þennan gamla ósið?

Það væri líka áhugavert að vita hvaða fólk er það sem býður vín í fermingarveislum. Alkóhólseraðir foreldrar, frjálshyggjumenn? Eða er það fólk sem trúir áróðrinum sem dynur úr öllum áttum að áfengi sé eðlileg neysluvara (sem veitingamaðurinn tekur þátt í: hún er að boða að þetta sé mikið tekið) og vill tolla í tískunni og hafa áfengi við hvert tækifæri?

Er þetta fólk meðvitað eða ómeðvitað að taka þátt í einhverri herferð til að efla „áfengismenningu“ og normalísera áfengi? Það þarf auðvitað að koma unglingunum í skilning um að alltaf þurfi að hafa áfengi um hönd; þeir eru neytendur framtíðarinnar.

Fyrri kynslóðir fólks (sem í stórum stíl hafði hætt skólagöngu um fermingu og farið að vinna fyrir sér, jafnvel í erfiðisvinnu) litu svo á að með fermingunni væri unglingurinn kominn í fullorðinna manna tölu. Áfengisneysla þá eðlilegt framhald og um að gera að bjóða fermingarbarninu áfengi til að vígja það í heim fullorðinna. En þessum fyrri kynslóðum tókst þó að hætta að detta í það í fermingarveislum og bara yfirleitt að drekka áfengi í návist fermingarbarnsins á þessum degi hið minnsta. Og í áratugi hafa fermingarveislur verið lausar við áfengi.

Þeir foreldrar sem núna ferma börnin sín, og finnst eins og það gæti verið góð hugmynd að veita áfengi í fermingarveislu barnsins síns, ættu að hugsa sig vandlega um. Og hætta snarlega við.


Efnisorð: , , , ,

miðvikudagur, apríl 05, 2017

Með rauðum penna

Kári Stefánsson birtir í dag bréf til Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra þar sem hann „dregur hann yfir naglabretti“ með skrifum sínum. Það er óþarfi að rekja bréfið, engin endursögn nær naglföstum skotum Kára, þannig að blogglesendur lesa það bara hér, og verða ekki sviknir af lestrinum.

Þegar ég hafði lokið við að lesa bréfið varð mér aftur litið á yfirskrift þess sem er „Með rauðum penna“. Rifjaðist þá upp fyrir mér blaðaúrklippa úr Stundinni (15.12.2016-4.1.2017) sem ég rakst á í fórum mínum.
Enda þótt textinn við myndina eigi við um allt önnur mál, en ekki síður mikilvæg, en þau sem Kári fjallar um, á hún hér vel við. Þó má segja að úrklippan sýni fyrst og fremst barnalegt viðhorf blogghöfundar.




mánudagur, apríl 03, 2017

Eftirlitið

Eitt af því sem fer hvað mest fyrir brjóstið á frjálshyggjumönnum eru eftirlitsstofnanir. Talað er um eftirlitsiðnaðinn* og litið svo á að eftirlit sé atvinnubótavinna fyrir vinstrimenn sem hati frjálsan markað.

Eftirlit og eftirlitsstofnanir eru nauðsynlegar en það er ekki síður mikilvægt að mark sé tekið á þeim sem sinna eftirliti ýmiskonar. Einnig að eftirlitsstofnanirnar séu ekki svo hrjáðar af innanmeinum að þær sinni ekki eftirlitsskyldu sinni eða fari með tóman þvætting.

Óumdeilt er að fjármálaeftirlitið brást í aðdraganda hruns bankanna. Það er þó enn markmið frjálshyggjumanna að draga úr því tennurnar. Meðan Guðlaugur Þór Þórðarson var þingmaður í hagræðingarnefnd vildi hann auðvitað ólmur „draga úr fjárstreymi til eftirlitsstofnana.“ Og Viðskiptaráð lagðist gegn því við afgreiðslu síðustu fjárlaga að tryggja fjármálaeftirlitinu almennilegt rekstrarfé, enda ekki hrifið af því að hlaða undir eftirlitsiðnaðinn.

Matvælastofnun er ein þeirra stofnana sem hafa algerlega brugðist hlutverki sínu. Margsinnis hafa bændur komist upp með að fara illa með dýr í lengri tíma án þess að til vörslusviptingar hafi komist. Nýlegasta og versta dæmið er auðvitað Brúneggjamálið.
„Að Brúnegg hafi ekki verið svipt rekstrarleyfi og öll dýrin tekin frá þessum dýraníðingum er auðvitað hneyksli. Að MAST hafi ekki upplýst neytendur um að verið væri að svindla á þeim er hneyksli.“
Þessi vinnubrögð og þetta aðgerðarleysi MAST er svo óskiljanlegt að maður fer að velta fyrir sér öllum mögulegum orsökum. Það hvarflar sannarlega að manni að einhverskonar spilling ríki innan MAST, og menn þiggi hreinlega mútur. Eða nægir að vera í sama stjórnmálaflokki og dýraníðingarnir til að leyfa þeim að komast upp með athæfi sitt? En kannski eru starfsmenn MAST bara meðvirkir og trúgjarnir sem lýsir sér í því að dýraníðingar eru látnir „njóta vafans“ þegar þeir lofa öllu fögru varðandi aðbúnað dýranna sem eru í þeirra umsjá.

Það eru fleiri stofnanir en Matvælastofnun sem standa sig ekki í stykkinu. Nú er ítrekað að koma í ljós að Ríkisendurskoðun er í tómu tjóni.
„Svo fara menn að skoða skýrslu frá 2006 um hlut þýska fjármálafyrirtækisins Hauck & Aufhäuser við kaup Búnaðarbankans. Ríkisendurskoðun var fengin til þess af þáverandi stjórnvöldum að skoða málið og gaf út heilbrigðisvottorð vegna kaupanna. Fann ekkert athugavert við það. Þetta er alveg þvert á niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis sem var kynnt í dag. Þar kemur skýrt í ljós blekkingarleikur sem var beitt í þessum viðskiptum. Reyndar var um það talað á sínum tíma að skýrslan væri sérstaklega pöntuð – og að hún væri kattaþvottur.“ (Egill Helgason)
Hafi ríkisendurskoðandi þess tíma ekki beinlínis verið að ganga erinda þeirra sem vildu ólmir selja framsóknarvinsamlegum mönnum** á borð við Ólaf Ólafsson og Finn Ingólfsson banka, þá var hann óhemjulega latur, því ekki nennti hann að skoða rökstuddar ábendingar Vilhjálms Bjarnasonar um að ekki væri allt með felldu með aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupunum á Búnaðarbankanum.

Frá Ríkisendurskoðun (undir stjórn annars ríkisendurskoðanda) kom önnur dæmalaus skýrsla árið 2013. Sú fullyrti að miðað við stöðu mála í Danmörku væru bótasvik hér á landi mikil og útbreidd og kostuðu þjóðfélagið 3,4 milljarða árlega. Nú semsagt er loksins búið að hrekja þessa niðurstöðu skýrsluómyndarinnar en aldraðir og öryrkjar hafa í millitíðinni mátt sæta persónunjósnum stofnana sem reyndu að koma upp um meint bótasvik þeirra. Svo ekki sé talað um illmælgina í þeirra garð, sérstaklega öryrkja, ekki síst frá þeim skötuhjúum Guðlaugi Þór og Vigdísi Hauks fyrrverandi formanni fjárlaganefndar, og frá skattgreiðendum sem sumir hverjir hafa lengi hatast útí bótaþega og séð eftir hverri krónu sem rennur til „aumingja sem nenna ekki að vinna“. Á þessu ber Ríkisendurskoðun ábyrgð.

Úr því að Ríkisendurskoðun hefur viðurkennt að hafa trommað upp með rangar upplýsingar um bótaþega og (með hálfum hug) beðist afsökunar á því — væri skemmtilegt af allt það fólk sem fór hamförum í kommentakerfum í kjölfarið og hefur farið hamförum alla tíð síðan með gífuryrði um bótasvindl (sérstaklega öryrkja) (svo ekki sé talað um allar upphrópanir Vigdísar Hauksdóttur, sem bæði talaði um hærri upphæðir en ríkisendurskoðun hafði spunnið upp, og laug til um fjölda öryrkja) — bæðist afsökunar. Það gæti auðvitað borið fyrir sig að hafa tjáð skoðanir sínar og gífuryrði útfrá röngum forsendum sem virt stofnun hafi borið á borð, en beðið samt afsökunar. Enn betra væri auðvitað ef viðkomandi athugasemdarar segðust hafa endurskoðað skoðanir sínar og álíti nú ekki bótaþega almennt stórtæka þjófa sem láti greipar sópa um skattfé almennings.

En nú er ég komin út fyrir efnið.

Málið er semsagt þetta. Það þarf að halda úti öflugu eftirliti sem fær nægilegt fjármagn og mannskap til að sinna eftirlitshlutverki sínu. Því það þarf eftirlit: eftirlit með fjármálastofnunum, matvælaframleiðslu, velferð dýra, og á mörgum öðrum sviðum. Þær stofnanir sem sinna eftirliti eiga hvorki að þegja yfir því sem miður fer né hlífa þeim sem gerast brotlegir við lög, heldur stöðva lögbrot og taka t.a.m. dýr af mönnum sem fara illa með þau. Verði eftirlitsstofnanir uppvísar að því að gera mistök eða sinna starfi sínu illa, tildæmis með því að valda öldruðum og öryrkjum skaða, eiga æðstu yfirmenn að taka pokann sinn.

Eða með öðrum orðum: Yfirmenn Matvælastofnunar og Ríkisendurskoðunar ættu að sjá sóma sinn í að segja af sér. Hafi þeir einhvern sóma.


___
* Meinleg (eða viljandi?) villa var í Morgunblaðinu þegar stóð í yfirskrift pistils um „eftirlitsiðnaðinn“ að: „Oft er eftirlit í raun ótrúlega dýrt fyrir borgarana,“ en í texta greinarinnar er alveg skýrt hvað höfundurinn, framkvæmdastjóri Hollustuverndar ríkisins, ætlar sér að segja: „Oft er eftirlit í raun ótrúlega ódýrt fyrir borgarana miðað við hvað er í húfi“ (leturbreyting mín). Pistillinn birtist árið 1998, þá var Davíð Oddsson forsætisráðherra, og árið 2004 fékk forsætisráðuneytið Hagfræðistofnun Háskóla Íslands til að gera skýrslu „um stöðu eftirlitsiðnaðarins á Íslandi út frá hagrænu sjónarmiði og reynt að varpa ljósi á kostnað og ábata hans fyrir samfélagið í heild“. Í skýrslunni „var ekki lagt mat á ábata samfélagsins af opinberum eftirlitsreglum“ enda var skýrslunni vafalaust aðallega ætlað að vera einn liður í því að draga úr eftirliti með frjálsa markaðinum sem Davíð var svo hugleikinn.

** Framsóknarmenn sverja Ólaf af sér (ekki hægt með Finn, hann var ráðherra flokksins) en þó var hann nýbúinn að gefa þeim húsið við Hverfisgötu þegar hann keypti bankann. Og S-hópurinn var samsettur af framsóknarmönnum.

Efnisorð: , , , , , ,

laugardagur, apríl 01, 2017

Vikan með vinum Gísla Marteins

Það olli mér miklum vonbrigðum að Vikan með Gísla Marteini var ekki á dagskrá í síðustu viku (útaf einhverjum boltaleik). Ég beið nefnilega spennt eftir að sjá hverjir yrðu gestir þáttarins. Miðað við fyrri þætti átti ég allt eins von á að Nichole Mosty og Pawel Bartoszek myndu mæta.

Í vikunni á undan var nefnilega Illugi Gunnarsson í sófanum hjá Gísla Marteini, þið munið Illuga, þennan sem hrökklaðist úr stjórnmálum eftir að upp komst að meðan hann var ráðherra tók hann leigusalann sinn (sem hafði svo heppilega keypt húsnæðið af Illuga þegar hann var illa staddur fjárhagslega) með sér til Kína til að liðka fyrir viðskiptum hans. Hann sagði auðvitað ekkert af sér en lagði greinilega ekki í að bjóða sig fram aftur. En þarna var hann kominn og fékk ekki eina gagnrýna spurningu heldur fékk að vera léttur og kátur og koma sér í mjúkinn hjá þjóðinni aftur.

Fyrir ekki alllöngu síðan var Ásdís Halla Bragadóttir sparigestur hjá Gísla Marteini, mætt til að kynna bók sem hún gaf út fyrir jólin. Enda þótt Ásdís Halla reki Klíníkina sem er vægast sagt afar umdeildur rekstur sem Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra er látinn sverja af sér í pontu (og er þó enn grunaður um að ætla að hleypa Klíníkur-arðgreiðslufólki að ríkisjötunni) þá var hún þarna komin í köflóttri vinnuskyrtu eins og almúginn að kynna fjölskyldusögubókina sína. (Bókin kom líka alveg óvart út þegar öll spjót voru farin að standa á Ásdísi Höllu en allsekki til að sýna fram á hvað hún væri ein af okkur og ætlaði allsekki að græða á sjúklingum og auka misskiptingu í samfélaginu á kostnað skattgreiðenda.)

Bjarni Benediktsson mætti líka í þáttinn meðan stjórnarmyndunarviðræður stóðu yfir (fékk engar vesenisspurningar), og Svanhildur Hólm aðstoðarkona hans og Logi Bergmann hafa einnig verið gestir þáttarins í sitthvort skiptið. Vera Svanhildar í þættinum bar þess merki að hún væri komin til að milda andrúmsloftið gagnvart Bjarna, og sama átti við þegar eiginmaður hennar mætti, en Logi hafði einmitt haft Bjarna hjá sér í sínum þætti og farið einstaklega mildum höndum um hið viðkvæma Ashley Madison mál.

Vitaskuld hafa ekki allir gestir þáttarins verið einkavinir og samherjar Gísla Marteins í pólitík. Það er samt spurning hvort það er sérstakt markmið þáttarins að vera hvítþvottastöð fyrir betri borgara sem hafa fallið í ónáð hjá almenningi. Því þessi tilhneiging að bjóða þeim sem þurfa á vettvangi að halda til að sýna á sér sparihliðina, á meðan eða eftir að öll spjót hafa staðið á þeim vegna ýmiskonar svindlibrasks og andstyggilegra tilrauna til að frjálshyggjuvæða þjóðfélagið enn meir, er virkilega ósmekkleg.

Þessvegna átti ég allt eins von á því að Ólafur Ólafsson birtist á skjánum í gær, og þyrfti ekki einu sinni að segja bara sorry. En honum eða eiginkonunni staðföstu verður kannski boðið síðar.


Efnisorð: , , ,