sunnudagur, september 27, 2009

Polanski loksins á leið í fangelsi

Það vekur mér ógleði að lesa það sem nú er sagt Roman Polanski til varnar, loksins þegar hann hefur verið handtekinn og verður vonandi framseldur og látinn sæta fangavist. Nú á hann að hafa „stundað kynlíf með stúlku undir lögaldri“ eða „hafi sængað hjá“ henni og talað er um „brot sem hann á að hafa framið“.

Hann nauðgaði 13 ára barni.

Hann var 44 ára.

Það má vel vera að fjölmargir aðdáendur mynda hans hafi upplifað stórkostlega kynlífsreynslu þrettán ára gamlir og þá með karli sér 30 árum eldri. Og það hafi ekki verið karlinn sem hafi átt upptökin og þaðanafsíður að því að stunda endaþarmsmök — því eins og allir vita eru þau í sérlegu uppáhaldi hjá þrettán ára börnum sem eru ein með ókunnugum körlum sem gefa þeim dóp og áfengi til að þau verði meðfærilegri.**

Það gildir engu að Polanski hafði ekki átt góða ævi. Það gildir engu að stúlkan sem hann nauðgaði vill ekki að hann verði framseldur.*** Það á enginn að nauðga börnum (eða unglingum eða fullorðnum). Það á enginn að telja sér eða öðrum trú um — og það á enginn að trúa því — að það sé eðlilegt að fullorðnir karlmenn líti á 13 ára börn sem kynlífsviðföng og réttlætanlegt að nota þau til að fullnægja eigin hvötum, þörfum og kynórum.
___
* Ég hef áður skrifað um Polanski og er jafn lítið hrifin af honum nú.

** Hægt er að lesa (á ensku) skýrslu barnsins hér. Viðvörun: þetta eru nákvæmar lýsingar og geta valdið því að fólk komist í uppnám við lesturinn.

*** Hún hefur ekki dregið til baka sögu sína, enda hefur Polanski fyrir löngu játað. Fyrir henni er fjölmiðlaumfjöllunin aðallega óþægileg og þessvegna er framsalið og fárið í kringum það óþægilegt. Í Guardian kemur fram að þetta fórnarlamb Polanskis hefur sagt að saksóknari sé að velta upp hryllilegum smáatriðum árásarinnar til að draga athyglina frá því sem embættið klúðraði í upphafi. Hún segir að smáatriðin séu sannleikurinn í málinu en það sé meiðandi að endalaust sé verið að birta þau opinberlega. Hún hafi sigrast á þeim hverjum þeim skaða sem Polanski hafi hugsanlega valdið henni. En þar með er ekki sagt að jafni þolendur nauðgana sig þá eigi nauðgarinn að sleppa við dóm og refsingu.

Viðbót: Sjaldgæf og hrósverð fjölmiðlaumfjöllun um Polanski í Fréttablaðinu 1.október: Þar er tvítekið fram að Polanski hafi nauðgað þrettán ára stúlku, og ekkert dregið úr því á neinn hátt.

Viðbót: Grein um Polanski eftir franska rithöfundinn og blaðamanninn Mona Chollet birtist á Smugunni í þýðingu Kristínar Jónsdóttur í mars 2010. Þar kemur hún m.a. inná fyrirsætubransann (en Polanski lokkaði stelpuna sem hann nauðgaði til sín undir því yfirskini að taka af henni myndir fyrir tímarit), Lólítur, og karlmenn sem beita valdi sínu til að níðast kynferðislega á unglingum. Vel þess virði að lesa.

Efnisorð:

fimmtudagur, september 24, 2009

Ekki alltaf til fyrirmyndar

Á laugardaginn var þátturinn Flakk í Ríkisútvarpinu, að þessu sinni tileinkaður fyrirmyndum karla. Til dæmis bar á góma sjónvarpsþætti þar sem karlmenn eru feitlagnir kjánar* og karla sem uppalendur. Talað var við ýmsa karlmenn** og þeir virtust frekar skynsamir í orðavali. Þátturinn var semsagt barasta jákvæður fyrir karlkynið. Sko til.

Ég hlustaði á þáttinn að mestu leyti í bílnum*** en slökkti vegna þess að ég þurfti að yfirgefa bílinn til að fara í bókabúðina. Ég var rétt nýkomin þar inn þegar ég heyrði bílflautu þeytta af miklum móð og leit út. Bíll ók eftir Lækjargötunni og var karlkyns farþegi frammí með endann úti**** og þóttist líklega fyndinn. Ég glotti við tönn og hugsaði um karla sem fyrirmyndir.

__
* Yfirskrift útvarpsþáttarins Flakks var semsé „Uppburðalausir kjánar?“
** Einn viðmælenda Lísu Páls í þættinum var fyrrverandi formaður Félags ábyrgra feðra (sem nú heitir Félag um foreldrajafnrétti) og meira segja hann hljómaði nokkuð skynsamlega, en að öllu jöfnu froðufelli ég þegar ég heyri á þann félagsskap minnst.
*** Restina heyrði ég í upptöku í tölvunni heima.
**** Við Guðrún Þuríður urðum sammála um að það hefði verið ljótari endinn.

Efnisorð:

sunnudagur, september 20, 2009

Klám er kynheilsufarsvandamál

Kynfræði eru eflaust nauðsynleg til að kortleggja kynhegðun manna, rétt eins og önnur fræði sem rannsaka mannlegt atferli hvort sem það er hóphegðun eða einstaklingshegðun. Það sem ég botna hinsvegar ekki er kynfræði sem meðferðarúrræði. Mannfræðingar kenna okkur ekki að hegða okkur eins og menn, því ættu kynfræðingar að kenna okkur rétta kynhegðun?* Það sem ég er í rauninni að láta fara í taugarnar á mér er viðtalið við kynfræðinginn í helgarblaði Fréttablaðsins. Þar verður henni tíðrætt um kynheilsu en fer svo í vörn fyrir klám - og ekki í fyrsta skipti. Ég man aldrei eftir viðtali við hana þar sem hún segir styggðaryrði um klám.

Þegar ég las dönsku blöðin hér í eina tíð þá voru þar bréfakassasvör sérfræðinga, þ.e. fólk gat skrifað bréf um allskyns vandamál og sérfræðingar á ýmsum sviðum sátu fyrir svörum. Það var viðbúið, fengi kynfræðingurinn (sexolog) bréf þar sem kona kvartaði yfir kyndeyfð (eða öllu heldur kallinn kvartaði og konan leitaði sér „hjálpar við vandamálinu“) eða jafnvel sagði að eiginmaðurinn væri forfallinn klámfíkill, að svar kynfræðingsins var á eina leið: „Þið ættuð nú bara að horfa á klám saman.“ Þvílíkt skilningsleysi! Allatíð síðan hef ég haft horn í síðu kynfræðinga og sú íslenska er þar ekki undanskilin.**

Í viðtalinu við Fréttablaðið er hún svosem ekkert að mæra klám eða mæla með því. En vill greinilega árétta að hún sé ekki á sama máli og kynjafræðingar (lesist: feministar) um klám og finnst það greinilega alger firra að „margir halda að flestar konur þoli ekki klám.“ Og í umræðunni um netnotkun unglinga imprar hún ekki svo mikið sem á því að klám sé unglingum skaðlegt.

Það getur velverið að þessi tiltekni kynfræðingur mæli ekki með klámi við viðskiptavini sína. Ég held samt að mér sé óhætt að álykta að hún geri það.*** Hún vill ekki að klám sé bendlað við barnaklám. Henni finnst náttúrulega fínt að mæla með klámi - eða horfa sjálf á klám - þar sem BÚIÐ er að nauðga börnum og brjóta þau niður, sjálfsmynd þeirra og þau mörk sem venjulegt fólk hefur á hvað eru eðlileg mörk í kynlífi. Hún vill ekki þurfa að horfa á það gert (í barnaklámi) heldur njóta afrakstursins: konur í klámmyndum eru í 95% tilvika þolendur kynferðisofbeldis í æsku.****

Klámmyndir - þessar þar sem fullorðið fólk "leikur" - þrífast á nauðgunum á börnum.

Hvernig er þá hægt að tala um kynheilsu og klám í sömu andránni?

___
* Þarna passa ég mig auðvitað á að nefna ekki sálfræði, sem bæði rannsakar og veitir meðferð. En dæmi um mannfræði hentar mér betur. Reyndar eru mannfræðirannsóknir á öpum miskunnarlaust misnotaðar með því að yfirfæra þær á mannlega hegðun; rétt eins og vegna þess að við erum skyld simpönsum og górillum sé hægt að álykta um hegðun fólks sem búið hefur í borgum í árþúsundir sé ekkert ólíkt litlum hópum sem búa útí náttúrunni og eiga engin samskipti við aðra hópa dýra nema til að berjast við þá um fæðu.

** Ég skrifaði neðanmálsgrein um kynfræðinga við þessa færslu og um „klám fyrir konur“ sem kynfræðingar halda fram að sé skárra en annað klám hér og um „muninn“ á erótík og klámi hér og um klám og barnaklám hér. Lesendur sem vilja lesa meira um það sem ég hef skrifað um klám, er bent á að neðst við hverja færslu um það efni er merkingin „klám“ og með því að klikka á reitinn koma upp allar færslur mínar gegn klámi.

*** Ég man ekki betur en það hafi komið fram í einhverju viðtali við hana hér á árum áður, en þó getur verið að hún sé hætt því. Hinar dönsku starfssystur hennar — en hún lærði einmitt kynfræðimeðferðina þar — eru sannarlega meðmæltar því. Og útfrá því dreg ég þessa ályktun.

**** Til eru rannsóknir um fólk í kynlífsiðnaðinum (klámi, strippi, vændi) og niðurstöðurnar eru allar þær sömu: að nánast allar konur sem starfa sem vændiskonur, strippa eða sitja fyrir í klámi og leika í klámmyndum eru þolendur kynferðisofbeldis í barnæsku eða á unglingsárum. Ég vísa í rannsókn sem var gerð á fólki í vændi hér og hér. Svo má bæta því við að konur sem frægar eru fyrir að sýna silikonbættan líkama sinn í „ögrandi stellingum,“ svo sem Pamela Anderson hafa sagt frá því að þeim hafi verið nauðgað í æsku (eins og segir frá í bók Þórdísar Elvu Á mannamáli).

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, september 16, 2009

Ráð til að koma í veg fyrir nauðganir

Nokkrir punktar til að koma í veg fyrir kynferðislegt ofbeldi -Klikkar ekki!

1. Ekki setja lyf í drykki fólks til að ná stjórn á hegðun þess.

2. Þegar þú sérð einhverja sem eru einir á ferð, láttu þá vera!

3. Ef þú ætlar að koma einhverjum til hjálpar sem er í vandræðum með bílinn sinn, mundu; ekki ráðast á þá!

4. ALDREI opna ólæsta hurð eða glugga óboðinn.

5. Ef þú ert í lyftu og einhver annar kemur inn, EKKI RÁÐAST Á VIÐKOMANDI!

6. Mundu að fólk fer í þvottahúsið til að þvo þvott, ekki reyna að nauðga einhverjum sem er einn í þvottahúsinu.

7. NOTAÐU VINAKERFIÐ! Ef þú getur ekki neitaði þér um að ráðast á fólk, biddu vin um að vera hjá þér þegar þú ert meðal fólks.

8. Vertu alltaf heiðarlegur við fólk! Ekki þykjast vera umhyggjusamur vinur til að byggja upp traust við einhvern sem þig langar til að nauðga. Íhugaðu að segja viðkomandi frá því að þú sért að undirbúa að nauðga þeim. Ef þú deilir ekki ætlunum þínum, gæti hin manneskjan tekið því þannig að þú ætlir ekki á nauðga henni.

9. Mundu: þú getur ekki átt kynlíf með manneskju nema hún sé vakandi!

10. Hafðu flautu á þér! Ef þú hefur áhyggjur af því að þú gætir ráðist á einhverja "af slysni" getur þú rétt viðkomandi flautuna, þá getur hún blásið í hana ef þú gerir það.

Og, MUNDU ALLTAF: ef þú baðst manneskjuna ekki um leyfi og virtir síðan ekki fyrsta svarið þá ert þú að fremja glæp - skiptir engu máli hvort hún virtist hafa áhuga í fyrstu.

___
Stolið frá Matthildi.
Minnir örlítið á annan lista sem ég stal einhverstaðar fyrir löngu, ég þýddi hann og meðfylgjandi texta án þess sérstaklega að geta þess þá (ég tók reyndar fram í upphafspistli — stefnuyfirlýsingu minni — að ég myndi stela efni frá öðrum).

Efnisorð:

þriðjudagur, september 15, 2009

Á mannamáli - bók um kynferðisbrotamál

Í dag stökk ég útí uppáhaldsbókabúðina mína og keypti nýútkomna bók eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur, Á mannamáli. Bókin fjallar um kynferðisofbeldi: brotin, dómana, aðgerðirnar og umræðuna.

Ég er ekki búin að lesa bókina, þó hraðlæs sé, en fletta gegnum hana og held að þetta sé stórmerkileg bók. Hún er sett upp á svipaðan hátt og Draumaland Andra Snæs Magnasonar (allar heimildir útá spássíu) og á það að auki sameiginlegt með því verki að höfundurinn er ekki sérmenntuð í umfjöllunarefninu, heldur hefur þrælað sér gegnum allar fáanlegar upplýsingar um það og komið því á mannamál.

Bókin ætti að gagnast öllum sem fjalla um kynferðisbrot, hvort sem er í kerfinu, fjölmiðlum eða á litlu afkimabloggi.

Nú þegar hefur bókin komið mér að gagni, því ég fann tölulegar upplýsingar um hve margar kærur eru ekki á rökum reistar; hef bætt þeim upplýsingum við og breytt síðustu bloggfærslu í samræmi við þær.
___
Viðbót: Steinunn Stefánsdóttir fagnar útkomu bókarinnar í leiðara Fréttablaðsins og segir meðal annars: „Þar er ekki bara safnað saman miklum upplýsingum sem snerta kynbundið ofbeldi og raðað saman í mynd heldur eru þessar upplýsingar settar í samhengi, samhengi sem stundum kemur á óvart.“

Efnisorð: ,

mánudagur, september 14, 2009

Tilefnislausar kærur ... karla

Ef ég drægi nú þá ályktun — eftir að hafa lesið frétt sem hljómar svona: „Karlmaður á tvítugsaldri laug að lögreglu þegar hann sagði tvo menn hafa ráðist á sig“ — að allt þetta meinta ofbeldi sem karlmenn segjast verða fyrir, það er bara lygi og uppspuni. Þeir veita sér alltaf áverkana sjálfir og ljúga svo uppá blásaklausa karlmenn. Þætti það þá ekki sérkennileg staðhæfing? Samt virðist sem margir álykti um leið og þeir heyra um konu sem tilkynnir nauðgun til lögreglu (hvað þá ef hún kærir ekki heldur bara segir vinum og ættingjum) að hún hafi verið að ljúga. En það má auðvitað ekkert alhæfa svona um karlmenn, bara um konur.

Konur ljúga alltaf að þeim hafi verið nauðgað, yfirleitt bara vegna þess að þær eru með móral eða vilja hefna sín á góðum piltum en karlmenn ljúga auðvitað aldrei neinu þegar þeir segjast hafa orðið fórnarlömb glæpa.

Sannleikurinn er sá að í örfáum tilvikum bera konur fram kæru um nauðgun að ástæðulausu.* Sama prósentutala (1-2%) á við um tryggingasvik, aðrar ofbeldiskærur og flesta þá glæpi sem hægt er að ljúga til um. Og í þeim efnum eru karlmenn engir eftirbátar kvenna, nema síður sé. Það virðist skipta miklu af hvaða kyni einstaklingar eru — ef það eru konur — sé eitthvað ekki í lagi. Ef karlmenn gera það sama þá eru það einstaklingar sem bregðast eða eru eitthvað bilaðir.

Þannig ályktar fólk að:
- Kona sem keyrir illa = allar konur eru lélegir bílstjórar
- Kona sem ber rangar sakir á karlmann = allar konur ljúga til um nauðganir
- Kona sem er ekki sérlega vel gefin, eða er skeytingarlaus um tilfinningar annarra = allar konur eru heimskar tíkur

- Karlmaður sem keyrir illa = lélegur bílstjóri
- Karlmaður sem segir að ráðist hafi verið á hann = undantekning
- Karlmaður (margir karlmenn) sem einn aðal gerandi í bankahruni = kemur kyni hans ekkert við
- Karlmenn eru gerendur í ofbeldismálum og nauðgunum í 98% tilvika = djöfuls áróður er þetta á karlmenn alla tíð hjá þessum helvítis feministum!

Sumir karlmenn bera fram tilefnislausar kærur, en það er sjaldgæft. Sumar konur bera fram tilefnislausar kærur, en það er sjaldgæft. Reglan ætti því að vera að reikna alltaf með að rétt sé sagt frá.

___
* Í bók Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur, Á mannamáli, kemur fram að 1-2% mála sem berast til Neyðarmóttöku vegna nauðgana eru byggð á fölskum grunni. Skv. erlendum heimildum er innan við tvö prósent allra nauðganakæra á röngum rökum reistar, eða sama hlutfall og í öðrum glæpaflokkum.

Efnisorð: , ,

sunnudagur, september 13, 2009

Nafnleysi af nauðsyn

Ég er búin að skemmta mér talsvert yfir þessari umræðu um nafnlaus blogg, sem enn einu sinni er orðið að stórkostlegu vandamáli að sumra mati. Mest auðvitað í augum þeirra sem er verið að gagnrýna.* Þarf varla að taka það fram að ég er hlynnt nafnleysisbloggum og finnst þau ekkert síðri en þar sem fólk merkir sig með nafni og mynd; stundum segir það mér ekkert hvorteðer og stundum fælir það mig bara frá og ég myndi e.t.v. missa af frábærum lestri ef ég vissi hver stæði á bak við skrifin.

Sjálf kaus ég strax að skrifa nafnlaust því að ég vissi að helstu umfjöllunarefni mín væru ekki vinsæl meðal ákveðins hóps og hef aðeins styrkst í þeirri skoðun minni. Meginuppistaðan í bloggskrifum mínum hefur verið feminismi og veit ég vel að „þvílíkur öfgafeminismi“ kallar fram ógeðið í sumum karlmönnum og nafngreindir bloggarar eins og Sóley Tómasdóttir hafa fengið að kenna á því. Þegar allt það fár í kringum Sóleyju stóð sem hæst þakkaði ég mínum sæla** fyrir að hvergi væri hægt að tengja nafn mitt við skrifin hérna. Eins og dæmin sanna*** hefur beinlínis verið ráðist á bloggara og eigur þeirra og ég fyrir mitt leyti er of lífhrædd til að vilja lifa við slíkar ógnir.

Og nú, í kjölfar bankahrunsins, hefur nafnleysið komið sér vel fyrir margt fólk sem hefur getað ljóstrað upp um ýmislegt sem það hefur ekki stöðu sinnar vegna getað sagt undir nafni, hvort það er á eigin bloggi eða með athugasemdum við annarra blogg. Sjálf hef ég getað fengið útrás fyrir hatur mitt á auðjöfrum, Sjálfstæðismönnum, Frjálshyggjupakki og öðrum gróðapungum, án þess að eiga á hættu að fólk sem ég kannast við innan þessara hópa — eða sem ég gæti þurft að eiga samskipti við í framtíðinni — geti notað það gegn mér á nokkurn hátt.**** Og það er auðvitað stór partur af þessu; í svo litlu samfélagi erum við ekki bara skyld og tengd og þekkjumst fyrir, heldur getum við átt á hættu að einhver þeirra sem hefur ömurlegar stjórnmálaskoðanir, fortíð í fjármálum eða andstyggilegar skoðanir á konum, verði ákkúrat sá aðili sem situr við næsta borð í kaffitímanum á nýja vinnustaðnum, sé í nefnd sem eigi að meta störf okkar, flytji í næsta hús eða afgreiði okkur í verslun.

Þá er ekki betra að hafa alltaf haldið kjafti, heldur að geta — í skjóli nafnleysis netsins — umgengist viðkomandi upp að því marki sem nauðsynlegt er til að lifa af í þessu samfélagi.

___
* Svo eru sumir — útrásarvíkingar og Sjálfstæðismenn fremstir í flokki frjálshyggjusnúða og annarra gróðapunga — líka að kvarta undan gagnrýni sem sett er fram undir nafni. Ekkert má nú. Reyndar myndi ég líka líta á það sem meiðyrði ef einhver kallaði mig Sjálfstæðismann.
** Það er auðvitað enginn minn sæli sem ég þakka heldur mín sæla Salander.
*** Ég veit ekki hversu langt var gengið gagnvart Sóleyju, utan þess að ég veit að henni var hótað á netinu. Ég hef ekki einu sinni athugasemdakerfið opið og slepp því alveg við að heyra skoðanir kvenhatara á mér.
**** Ég hafði gagnrýnt þetta hyski fyrir fall bankanna, sannarlega var ég ekki í klappliðinu fram að því, En eins og bloggarinn AK-72 skrifar (og Lára Hanna birtir) þá ríkti hér þannig andrúmsloft að það var varla óhætt að láta andúð sína á gróðaöflunum í ljós. Þetta rekur hinn fyrrum nafnlausi bloggari ágætlega, en minnist þó hvergi á feminista.

Efnisorð: , , ,

sunnudagur, september 06, 2009

Ótti jafnt í svefni sem vöku

Fátt þykir mér leiðinlegra en lesa frásagnir af draumum. Mér nægir ruglið sem mig sjálfa dreymir og varðar ekkert um hugaróra annarra. Skoðun mín á draumum er einmitt sú að þeir séu framhald á hugsun þeirri sem fram fer í vöku. Síst dettur mér í hug að hægt sé að lesa úr þeim að hætti Freuds eða að til sé eitthvað sem fólk kallar berdreymi.

Og skal nú gert grein fyrir martröðinni sem ég fékk í nótt.

Draumurinn var auðvitað ruglingslegur og samhengislaus og birtust og hurfu persónur í ýmsum erindagjörðum. Það sem uppúr stendur er stuttur bútur úr draumnum sem var einhvernvegin á þá leið að ég var í eða uppá hárri byggingu í Reykjavík og sé Úlfarsfell springa í loft upp. Sprengingin líktist auðvitað bara einhverju sem ég hef séð í sjónvarpi en þó vissi ég í draumnum að þetta væri upphafið á eldgosi.* Upphófst nú mikil örvænting meðal borgarbúa og allir vildu burt úr borginni. Byggingin sem ég var í tæmdist fljótt af fólki en ég þvældist að mestu leyti utaná henni (!) á leið minni niður, enda hver að olnboga sig sem betur gat útúr byggingunni. Svo heyri ég að fólk er eitthvað að hrópa og ég stoppa til að leggja við hlustir. Þá eru borgarbúar einum rómi ákalla þann sem þeir telja að muni bjarga þeim úr lífsháskanum: Davíð, Davíð, Davíð!

Mín viðbrögð voru þau að sveifla ég mér útá handrið/syllu og hugðist ég stökkva niður af byggingunni. Hékk þar drjúga stund og velti fyrir mér hvort einhver tæki nú ekki örugglega eftir mér (því að hluta til var ég að þessu í mótmælaskyni) og þessi geðveiki samborgara minna myndi hætta — eða hvort ég væri virkilega til í að drepast frekar en þola það að Davíð stjórnaði hér aftur öllu. (Draumurinn rann svo aftur útí aðra sálma sem ég hirði ekki um að rekja hér).

Það er einsgott að ég stend ekki í þeirri trú að ég sé berdreymin. Mér finnst hinsvegar augljóst að jafnt í svefni sem vöku óttist ég heimsku samborgara minna og mest af öllu óttast ég að Sjálfstæðisflokkurinn komist aftur til valda. Það væri nú meiri martröðin.

___
* Þegar ég gekk á Úlfarsfellið í morgun sagði ég ferðafélögum mínum frá þessum hluta draumsins, þ.e. eldgosinu, og tók um leið fram samkvæmt minni bestu vitund væri Úlfarsfell ekki virk eldstöð. Ég held reyndar að það hafi aldrei verið eldstöð en jarðfræðikunnátta mín er afar takmörkuð og mér er í raun slétt sama. Vildi bara taka þetta fram svo ljóst væri að ég hef aldrei óttast að færi að gjósa þarna. Hvað þá að þetta bendi til að ég sé berdreymin og hefja eigi brottflutning þessara örfáu hræða sem búa í eyðihverfinu undir hlíðum þess.

Efnisorð: