föstudagur, ágúst 31, 2007

Lögleg sala á nauðgunarlyfi

Auðvitað styð ég baráttu Heiðu á skessa.blogg.is * fyrir því að hætt sé að selja lyf (Flunitrazipam sem áður hét Rohypnol) sem auðvelda nauðgurum að undirbúa verknað sinn. Ég þekki konu sem var nauðgað með aðstoð slíkra lyfja. Hef líka heyrt sögur um naumlegar bjarganir þar sem einhver viðstaddur náði að grípa inní áður en konan drakk úr glasinu. Sjálf myndi ég ekki þora að skilja glas mitt við mig á skemmtistað eða í partýi, né heldur myndi ég þiggja drykk frá karlmanni. Auðvitað væri best að þurfa aldrei að vara sig, en það er lágmark að læknar og lyfsalar á Íslandi séu ekki að hjálpa helvítis nauðgurunum, nóg er nú samt.

___
*Ég vara fólk við að lesa athugasemdahalann sem fylgir bloggfærslum um þetta mál hjá Heiðu, því þar sjá karlmenn ástæðu til að verja aðgerðir nauðgara með einum eða öðrum hætti.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, ágúst 30, 2007

Olíuhreinsistöð í Dýrafirði - nei, takk

Í hvert sinn sem ég las greinar sem skrifaðar voru til að gagnrýna Kárahnjúkavirkjun eða álverið á Reyðarfirði – og öll hin álverin sem til stendur að reisa eða stækka – þá jókst sú tilfinning mín að ég hefði á réttu að standa að vera á móti stóriðju- og virkjun áa í þágu stóriðju. Mér óx ásmegin að lesa rök þeirra sem voru sammála mér og hámarki náði sælan þegar ég las Draumaland Andra Snæs Magnasonar, en honum tókst öðrum betur að setja mál sitt fram á skiljanlegan hátt (hann las allar óskiljanlegu skýrslurnar, sem enginn hafði nennt að þræla sér í gegnum, og þýddi þær yfir á mannamál) auk þess að vera meinfyndinn á köflum. Mér leið soldið eins og þegar ég fór að lesa bækur og greinar eftir feminista: hér var búið að setja á blað það sem ég hafði lengi haft á tilfinningunni en ekki haft kunnáttu til að koma orðum að.

Nú var ég að lesa grein Stefáns Gíslasonar umhverfisstjórnunarfræðings á vefriti Strandamanna (strandir.is) um fyrirhugaða olíuhreinsistöð í Dýrafirði sem vekur með mér þessa tilfinningu. Hún er full tæknileg á köflum en mér finnst hún samt góð og að flestir fletir málsins séu reyfaðir. Höfundur er ekki með stórar yfirlýsingar – né reynir hann að vera hnyttinn – og segir t.d. ekkert um hve mikið óráð og rugl sé að ætla að halda áfram að níðast á náttúrunni, menga og spilla, þrátt fyrir eindreginn vilja stórs hluta landsmanna til að hætta að mylja undir erlend stórgróðafyrirtæki og innlendar starfsmannaleigur og aðra þá sem sjá sér hag í að selja náttúru Íslands og skerða lífsgæði allra íbúanna (manna og dýra) í kjölfarið. - Hvaða snillingar eru það sem hafa komist að þeirri niðurstöðu að það að stór hluti þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu (þ.e.a.s. þeir sem máttu kjósa, en það máttu t.d. Garðbæingar, Kópavogsbúar og Reykvíkingar ekki) hafi hafnað stækkun álversins í Straumsvík en þá sé bara allt í lagi að byggja nýtt á Keilisnesi eða við Þorlákshöfn? Eða að öll mótmælin gegn Kárahnjúkavirkjun tákni að það sé í lagi að virkja Þjórsá allt niður að ósum? Og þetta með olíuhreinsistöðina hljómar eins og hverjir aðrir olíufurstaórar. Hvað höfum við ekki oft heyrt um skip, drekkhlaðin olíu, sem hlekkist á og olían flæðir um allt og mengar (og drepur sjófugl) allar strendur á stóru svæði? Eins og kemur fram í greininni, sem ég birti valda kafla, þá fara fram mikið af olíuflutningum allt í kringum Ísland, en munurinn á þeim og því að sigla með olíu inn Dýrafjörðinn er sá að annað er stórt hafsvæði (olíumengunin myndi dreifast meira og hafa vonandi minni áhrif en ef hún væri staðbundin) en hitt er lokaður, afmarkaður staður þar sem allt yrði undirlagt ef slys yrði.

En hér eru semsagt meginatriði greinarinnar, sem annars má lesa í heild hér. Ég hef fellt út vísanir í myndir umyrðalaust en reyni að gefa til kynna hvenær ég hef klippt annað efni burt.


Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva – samantekt vegna hugmynda um olíuhreinsistöð í Dýrafirði

Hafa ber í huga að olíuhreinsistöðvar eru iðnaðarsvæði þar sem gríðarlegt magn hráefna og framleiðsluvöru er meðhöndlað. Ferlið sjálft er mjög orkufrekt og nýtir mikið af vatni. Starfseminni fylgir óhjákvæmilega losun úrgangsefna í andrúmsloft, vatn og jarðveg. […]
Olíuhreinsistöðvar eru að sjálfsögðu mismunandi hvað varðar framleiðslumagn og tegundir framleiðsluvöru. Í grófum dráttum er þó alltaf um svipað ferli að ræða. Þess vegna eru flestar stærðir varðandi mengun frá venjulegum rekstri slíkrar stöðvar vel þekktar. Stærstu frávikin verða í upphafi nýrrar framleiðslu, eða þegar hafist er handa við vinnslu úr nýju hráefni, þ.e.a.s. áður en reynsla er fengin af viðkomandi hráefni eða ferli.
[…]
Náttúrurverndarsamtök Íslands hafa áætlað að losun frá umræddri stöð í Dýrafirði gæti numið um 1 Mtonni af koltvísýringsígildum árlega. Þetta má teljast líkleg áætlun miðað við tölurnar hér að framan, þótt auðvitað séu skekkjumörkin víð á þessu stigi. Þetta myndi þýða að með tilkomu olíuhreinsistöðvarinnar myndi losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis aukast um 30% til viðbótar við þá 10% aukningu frá árinu 1990, sem Íslendingar hafa heimild fyrir fram til 2012 skv. Kyotobókuninni. Til samanburðar má nefna að losun frá vegasamgöngum á Íslandi var 0,667 Mtonn á árinu 2004. Losunin frá hreinsistöðinni gæti því orðið allt að 50% meiri en öll losun frá vegasamgöngum. Þessi losun rúmast ekki innan þeirra losunarheimilda sem Ísland hefur skv. Kyotobókuninni […]
[…]
Svifryk (Particulate matter (PM)) frá umræddri stöð gæti orðið á bilinu 85-25.500 tonn á ári. […] Svifryk getur haft skaðleg áhrif á heilsu manna og nægir í því sambandi að vísa til umræðu síðustu mánuði um svifryk frá umferð í þéttbýli hérlendis. Í svifryki frá olíuhreinsistöðvum er m.a. að finna þungmálma á borð við arsenik, kvikasilfur, nikkel og vanadíum. […]
Ætla má að umrædd stöð myndi losa um 425-51.000 tonn af rokgjörnum kolvetnum (VOCs) út í andrúmsloftið árlega. Eins og fram hefur komið geta þessi efni hvarfast við köfnunarefnisoxíð og myndað óson við yfirborð jarðar. Þessu fylgir þreykur sem þekkist af gulri mengunarslikju. Rokgjörn kolvetni eiga einnig að hluta til sök á lyktarvandamálum sem fylgt geta olíuhreinsistöðvum
[…]
[M]agn fráveituvatns frá umræddri stöð [gæti] orðið á bilinu 0,85-42,5 Mtonn á ári, enda gríðarlegt magn af vatni notað í ferlinu og til kælingar. Á leið sinni gegnum stöðina tekur vatnið í sig ýmis efni á borð við olíur, ammoníak og fenól, en virkni hreinsistöðva ræður að sjálfsögðu mestu um það hvað af þessum efnum sleppur út í umhverfið. Vatnssparnaður, endurnýting vatns og fyrirbyggjandi aðgerðir inni í stöðinni hafa einnig úrslitaáhrif hvað þetta varðar. Veðurfar hefur einnig nokkuð að segja, en þar sem úrkoma er mikil er alltaf einhver hætta á að olía berist í yfirborðsvatn. Hér má einnig nefna olíumengað vatn úr ballestum olíuflutningaskipa, en í sumum tilvikum er það tekið til hreinsunar í hreinsivirkjum olíuhreinsistöðvanna.
[…]
Í Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs er gert ráð fyrir að samtals falli til um 1,6 tonn af úrgangi hérlendis á hvern íbúa á ári. Sé þessi tala yfirfærð á Ísafjarðarbæ gæti heildarmagnið þar verið rúm 6.500 tonn á ári, en tæp 12.000 tonn á Vestfjörðum öllum. Því er ekki fjarri lagi að áætla, miðað við fyrirliggjandi forsendur, að árlegt heildarmagn fasts úrgangs frá umræddri olíuhreinsistöð gæti verið svipað og sá úrgangur sem nú fellur til á Vestfjörðum.
[…]
Mikil áhersla er hvarvetna lögð á að koma í veg fyrir að olía komist í jarðveg eða grunnvatn við olíuhreinsistöðvar. Starfseminni fylgir þó alltaf einhver áhætta á slíku, sérstaklega þar sem verið er að flytja jarðolíu eða olíumengað vatn milli staða við stöðina, svo sem úr og í geymslu. Annar úrgangur í vökvaformi getur einnig hugsanlega borist í jarðveg eða grunnvatn, svo sem efnahvatar eða vatn með öðrum uppleystum mengunarefnum.
[…]
Dæmi eru um grunsemdir um mun alvarlegri óþægindi vegna nálægðar við olíuhreinsistöðvar. Þannig hefur tíðni hvítblæðis meðal íbúa í grennd við stærstu olíuhreinsistöð Norðurlandanna, Preemraff i Lysekil í Svíþjóð, hækkað á síðustu 10-12 árum umfram það sem vænta mætti.
[…]
Vinnuumhverfi í fullkomnum olíuhreinsistöðvum á að geta verið þokkalegt, enda mikil áhersla lögð á það nú til dags að verja starfsmenn fyrir hvers konar óþægindum og skaða, þ.m.t. snertingu við hættuleg efni. […] Einhver áhætta er þó alltaf til staðar, enda unnið með hættuleg efni á borð við brennisteinsvetni, bensen, ammoníak, fenól, vetnisflúoríð, köfnunarefnisoxíð og brennisteinsoxíð.
[…]
Hvar sem olía er flutt er óhjákvæmilega einhver mengunarhætta til staðar, t.d. ef olíuskipum hlekkist á. Reyndar hefur verið á það bent að mengunarhætta vegna olíuflutninga aukist ekki verulega þótt olíuhreinsistöð yrði byggð á Vestfjörðum, enda muni olíuflutningar í stórum stíl í vaxandi mæli fara um hafið umhverfis Ísland hvort sem er. Hér kemur þó fleira til. Í fyrsta lagi myndi tilkoma stöðvarinnar væntanlega leiða til meiri flutninga um umrætt hafsvæði en ella, og í öðru lagi verður að gera stóran greinarmun á mengunarhættu vegna flutninga á rúmsjó annars vegar og á grunnsævi eða í fjörðum hins vegar. Flutningur 8,5 milljóna tonna af olíu árlega inn og út úr Dýrafirði myndi vissulega hafa aukna áhættu í för með sér. Líkurnar á óhöppum eru ekki miklar, en skaðinn gæti orðið gríðarlegur, þrátt fyrir að fullkomnasti mengunarvarnarbúnaður væri til staðar. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að líkurnar á óhöppum eru mestar við aðstæður þar sem erfiðast er að koma vörnum við, þ.e. í aftakaveðrum og sjógangi.
[…]
Olíuhreinsistöðvar nota mismikið rafmagn, en flestar notast fyrst og fremst við eigið hráefni sem orkugjafa. Fram hefur komið að umrædd stöð í Dýrafirði myndi þurfa um 15 MW af raforku, sem líklega samsvarar um 100 GWst á ári. Þetta er mjög lítil orka miðað við ætlaða árlega framleiðslu stöðvarinnar og reyndar mun minna en gert er ráð fyrir í mynd 1. Þótt rétt sé með farið er olíuhreinsun engu að síður undantekningarlaust mjög orkufrekur iðnaður. Í því sambandi er nauðsynlegt að hafa í huga að einungis litlu broti af orkuþörf stöðvar af þessu tagi er mætt með aðkeyptri raforku, þar sem langstærstur hluti orkunnar er fenginn úr hráefninu sjálfu, þ.e.a.s. innfluttu jarðefnaeldsneyti. Þetta skýrir mikla losun gróðurhúsalofttegunda frá starfseminni, en eins og fram hefur komið má ætla að hún verði um 50% meiri en losun frá öllum vegasamgöngum á Íslandi.
[…]
Svo virðist sem skiptar skoðanir séu uppi um það hvort skilgreina beri umrædda olíuhreinsistöð í Dýrafirði sem stóriðju eður ei. […] Þessir útreikningar benda til að samanlögð orkuþörf olíuhreinsistöðvar í Dýrafirði gæti verið um 80% af orkuþörf álversins á Reyðarfirði. Vissulega eru hér á ferðinni mjög grófir útreikningar, en þeir nægja þó sem rök fyrir því að þessi tvö umræddu stórverkefni séu ekki eins gjörólík hvað orkuþörf varðar eins og ætla mætti miðað við umræðu síðustu daga[…] Meginniðurstaða þessara vangaveltna um framleiðslumagn og orkuþörf er sú, að umrædd olíuhreinsistöð í Dýrafirði hljóti að teljast stjóriðja, hvernig sem á það er litið. Þar með er ljóst að áform um byggingu stöðvarinnar stangast á við þá stefnu Fjórðungsþings Vestfirðinga að Vestfirðir skuli vera stóriðjulaust svæði.
[…]
Vestfirðir hafa um 15 ára skeið verið markaðssettir með sérstakri áherslu á hreina ímynd svæðisins og þess varnings sem þaðan kemur. Olíuhreinsistöð fellur ekki vel að þessari ímynd, hvorki huglægt né þegar rýnt er í einstaka umhverfisþætti sem tengjast starfsemi stöðvarinnar (sjá framar). Því má leiða að því rök að með tilkomu stöðvarinnar skerðist aðrir möguleikar til markaðssetningar og sölu afurða og þjónustu. Í þessu sambandi er vert að benda á að ferðaþjónusta er sú atvinnugrein í heiminum sem vex hraðast. Ekkert lát virðist vera á þeim vexti og flest bendir til að hann verði mestur í vistvænni ferðaþjónustu á borð við þá sem Vestfirðir geta boðið. Þessum vexti munu fylgja ný tækifæri í öðrum atvinnugreinum, sem í framtíðinni munu óhjákvæmilega tengjast ferðaþjónustunni meir og meir. Þar má m.a. nefna matvælaframleiðslu af ýmsu tagi, einkum staðbundna framleiðslu í smáum stíl. Enginn veit hversu stór tækifæri felast í þessu, en ljóst er að sú sérstaða sem Vestfirðir virðast hafa hvað þetta varðar mun minnka til muna ef af umræddri uppbyggingu olíuiðnaðar verður. Hér verður ekki bæði sleppt og haldið.

Efnisorð:

miðvikudagur, ágúst 22, 2007

Allt við það sama: Fávitar á DV og í löggunni

Forsíða DV í dag er svo ógeðsleg að mig rak í rogastans þegar ég sá hana. Hótanir í garð lögreglukonu eru þar með stríðsletri, og eins og hótanir eru líklega gjarna, þá er hótunin mjög ógeðsleg og ekki eftir hafandi. Hvernig dettur blaðamönnum DV að skella þessu framan í almenning? Eru þeir að vonast til að þetta verði að frasa sem krakkar garga hver á annan á skólalóðinni?

Ég lét mig samt hafa það að opna blaðið (svo lítið bar á í sjoppunni, líklega er ætlast til að blöðin séu keypt en ekki lesin á staðnum) og renndi yfir fréttina. Mér sýnist samkvæmt fréttinni, að þetta sé sama málið og það sem snýst um að kona var beitt kynferðisofbeldi af hálfu lögreglu þegar hún neitaði að skila þvagprufu eftir að hafa verið staðin að ölvunarakstri. Það sem ekki kom fram í fréttinni, sem taldi samviskusamlega upp allt sem konan hafði brotið af sér (keyrt full, sparkað í löggur auk hótananna), var hvenær hún sagði þessi hræðilegu orð við kvenlögguna. Var það kannski þegar ljóst var að þvaglegg yrði troðið í hana gegn hennar vilja? Eða jafnvel meðan á því viðurstyggilega athæfi stóð? Ef svo er – og það finnst mér hreinlega líklegt – þá tilkynni ég hér og nú að ég myndi örugglega hóta löggunni og afkomendum þeirra í sjöunda ættlið ef þau ætluðu að gera þetta við mig (þó ég myndi ekki nota þetta viðbjóðsorðalag og haft er eftir konunni).

1) Það hlýtur að hafa mátt bíða eftir að konunni yrði mál
2) Það hlýtur að hafa mátt notast við blóðprufu
3) Það hlýtur að vera hægt að taka blóðprufu eða þvagprufu af manneskjunni þegar nægilega er runnið af henni til að hún taki sönsum og reikna tímann sem hún fékk til að láta renna af sér inní þá tölu sem kemur þá út úr prófinu.

Hvarflaði ekki að neinum viðstöddum að það að troða þvaglegg í konu sem berst á móti og mótmælir sé ofbeldi? Og þar sem þvagleggur fer augljóslega í þvagrás sem er í klofi konu þá sé um kynferðisbrot að ræða? Eða er ekkert í lögunum sem segir að það megi ekki nota aðskotahluti til að niðurlægja konur og níðast á þeim?

Alveg er ég handviss um að allir þeir sem þarna eiga hlut að máli verða sýknaðir – nema konan auðvitað (sem DV nafngreinir af alkunnri smekkvísi) sem verður dæmd fyrir að gera eitthvað og segja eitthvað við lögregluna.

(Hvarfli það að einhverjum hér að mér finnist í lagi að aka drukkin þá er það mikill misskilningur. Hinsvegar þykir mér ekki að fólk sem keyrir drukkið hafi afsalað sér mannréttindum.)

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, ágúst 21, 2007

Hvaða máli skiptir aðferðin?

Það er ekki rétt að ég hati alla karlmenn. Atli Gíslason er til dæmis í algeru uppáhaldi hjá mér. Pistill hans í Fréttablaðinu í dag er svo ágætur að ég birti hann í heild sinni (en vara við að fólk lesi athugasemdahalann á Vísis-síðunni, þar mun margur óhreinn andinn verða á sveimi, sýnist mér) :

Hvenær nauðgar karl?
„Hvenær drepur maður mann og hvenær nauðgar karl konu? Fyrri spurninguna lagði Halldór Kiljan Laxnes í munn sögupersónu. Sú síðari er sprottin úr ömurlegri afstöðu réttarvörslukerfisins til kynbundins ofbeldis. Báðar spurningar varða árásir á friðhelgi einkalífs sem felur í sér dýrmætustu mannréttindi hvers einstaklings.

Friðhelgi einkalífs nær yfir heimili, fjölskyldu, persónulega hagi manns og umfram allt það að hver maður hefur rétt til að ráða yfir eigin líkama og sálarlífi. Og ríkinu og stofnunum þess ber að tryggja að þessi mannréttindi séu virk í reynd en gera það alls ekki þegar kynbundið ofbeldi á í hlut. Því fer þó víðsfjarri. Manndráp og líkamsárásir sæta nær undantekningarlaust refsingum á meðan aðeins er sakfellt fyrir innan við 5% af nauðgunum tilkynntum til lögreglu. Það er sama hvert litið er, til hegningarlagaákvæða, dómsmálayfirvalda, lögreglu, saksóknar og dómstóla, réttarvernd kynfrelsis kvenna er fjarri því að vera tryggð. Fordómar og vanþekking ráða för.

Sárast er að horfa til þess hvernig hegningarlög mismuna konum eftir því hvers konar ofbeldi á í hlut. Í 211. gr. almennra hegningarlaga segir einfaldlega: Hver, sem sviptir annan mann lífi, skal sæta fangelsi, ekki skemur en 5 ár, eða ævilangt.

Það skiptir nákvæmlega engu máli hvernig maður drepur mann, það er alltaf refsivert. Líkið er sönnun fyrir verknaðinum, ekki aðferðin við manndrápið. Lögfræðin talar um hertan ásetning þegar morðið er fyrirfram skipulagt og þokukenndan ásetning þegar hann myndast rétt í þann mund sem manndrápið er framið. Skorti sönnun fyrir ásetningi er gerandanum refsað fyrir manndráp af gáleysi. Einnig fyrir líknarmorð. Sama gildir um líkamsárásir. Þar ræður áverkinn sönnun hvernig svo sem honum er valdið. Svo fremi að sá finnist sem valdur er að áverkunum er honum refsað.

Þegar kemur að kynbundnu ofbeldi gjörbreytist staðan.

Nauðgunarákvæði alm. hgl. er svohljóðandi: Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum.

Hér skiptir verknaðaraðferðin öllu máli. Afleiðingar nauðgunar hverfa í skuggann fyrir aðferðinni og samþykki þolandans er aukaatriði. Hún ber sönnunarbyrði fyrir að hafa sagt nei. Bílum, bréfum og híbýlum er veitt meiri réttarvernd en líkömum og sálarlífi kvenna. Samkvæmt alþjóðlegum sjúkdómsgreiningarskrám er áfallið í kjölfar nauðgunar talið sambærilegt því sem einstaklingar verða fyrir eftir stórfelldar náttúruhamfarir, stríðsátök og stórslys. Það er sameiginlegt með þessum aðstæðum að þolandinn hefur það ekki í hendi sér hvort hún lifir eða deyr. Fyrstu viðbrögð þolanda nauðgunar eru doði, tómleiki, óraunveruleikatilfinning, brenglað tímaskyn, spenna ásamt öðrum áfallseinkennum. Líkamleg viðbrögð, skjálfti, hraður hjartsláttur, kviðverkir, niðurgangur, ógleði, uppköst, svimi, hræðsla, óöryggi, eyrðarleysi, grátköst og ótti eru mest áberandi. Hvaða kona kemur þannig frá sjálfviljugum samförum?

Langtíma afleiðingar eru meðal annars skömm, sektarkennd, léleg sjálfsmynd, depurð, þunglyndi, svefntruflanir, einangrun, svipmyndir og upplifanir tengdar ofbeldinu og tilfinningalegur doði. Afleiðingarnar eru mun alvarlegri til langs tíma litið. Þolendurnir þróa með sér varanlegan sjúkdóm sem mótar alla þeirra tilveru til frambúðar. Hætta er á sjálfsvígum og sjálfsvígstilraunum. Talið er að allt að 60% til 70% kvenna með geðraskanir og kvenna sem missa tök á lífi sínu, lenda í neyslu fíkniefna og eða afbrotum, eigi að baki sögu um kynferðislegt ofbeldi.

Þrátt fyrir að þessar tímabundnu og varanlegu afleiðingar nauðgana séu sannreyndar og þar með séu löglíkur fyrir fullframinni nauðgun dugir það ekki til sem sönnun og ofbeldismennirnir sleppa refsilaust í langflestum tilvikum. Þetta ástand eru ólíðandi. Af hverju er nauðgunarákvæði alm hgl. ekki orðað með sama hætti og manndrápsákvæðið, eða þannig?: Hver, sem gerist sekur um nauðgun, skal sæta fangelsi, ekki skemur en 3 ár, eða ævilangt.

Ég ákæri íslensk dómsmálayfirvöld og réttarvörslukerfið fyrir að láta kynbundið ofbeldi, þessi einkalífsmorð, viðgangast átölulítið og það þótt Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hafi lýst þungum áhyggjum sínum vegna ofbeldis gegn konum á Íslandi í skýrslu frá árinu 2005. Í skýrslunni gerði finnskur sérfræðingur eftirfarandi athugasemd: „Were all the women lying or did authorities just not care? Was the message that women should just not report the cases because they would only get into trouble."

Stjórnvöld og réttarvörslukerfið hafa í verki margsinnis svarað spurningum þessa finnska sérfræðings játandi. Konur lenda bara í meiri sálarháska með því að kæra. Það er mál að þessu ófremdarástandi linni.“

Efnisorð: , ,

mánudagur, ágúst 20, 2007

Sá sem umgengst dýr er ekki endilega dýravinur

Kemur mér ekki á óvart að lögreglan í Reykjavík ætli ekki að leggja fram kæru á hendur dýraníðingnum sem barði hestinn í Víðidalnum, enda þótt maðurinn hafi þekkst og náðst á myndband við misþyrmingarnar. Lögreglunni hefði fundist tilefni til aðgerða ef mannhelvítið hefði barið jeppann hans Jóns Ásgeirs svona en ógnanir og ofbeldi gegn dýrum og konum eru utan áhugasviðs lögreglunnar.

Reyndar skil ég ekki afhverju karlmönnum sem er illa við konur eða dýr (eða börn) geta ekki bara forðast samskipti við þau í stað þess að nota þau til að fá útrás fyrir ógeðið í sér. Ó, ég svaraði víst sjálfri mér þarna.

Efnisorð: ,

laugardagur, ágúst 11, 2007

„Lólítur“ - fórnarlömb kynóra karlmanna

Chris Langham, sem leikið hefur í kvikmyndum, s.s. Life of Brian, og tugum sjónvarpsþátta þ.á.m. Kiss Me Kate, sem sýndur hefur verið á BBC Prime,* var í byrjun ágústmánaðar fundinn sekur um að hafa barnaklámmyndir í tölvunni sinni (refsing verður ákveðin um miðjan september**). Myndirnar voru af kynferðisbrotum gegn börnum, en leikarinn kvaðst hafa verið að undirbúa sig fyrir að leika barnaníðing í sjónvarpsþætti. Enginn annar sem vann við sjónvarpsþáttinn vissi af ‘rannsóknum’ hans.

Í Kompásþætti sem sýndur var á Stöð 2 í vetur voru karlmenn gabbaðir til að halda að þeir væru að fara að hitta stúlku undir lögaldri og þegar einn þeirra kom á vettvang hélt hann því einmitt líka fram að hann væri að vinna rannsóknarvinnu fyrir blaðagrein. Þetta virðist vinsæl afsökun hjá barnaníðingum. Chris Langham bar því líka við að hann hefði sjálfur orðið fyrir kynferðisofbeldi sem barn (önnur afsökun sem þessir menn bera fyrir sig – margir þeirra hafa reyndar verið þolendur sjálfir í æsku, en mér finnst það samt sérkennileg afsökun fyrir að níðast á næsta barni) og hefði verið að reyna að vinna úr sínum málum með því að skoða barnaklám. Einhvernveginn hefði ég haldið að hann þyrfti þá einmitt ekki að sjá hvernig kynferðisofbeldi gegn börnum færi fram, hann þekkti það of vel.

Í sömu réttarhöldum var hann sýknaður af því að hafa haft samræði við stúlku undir lögaldri, en það hafði hann gert fyrst þegar hún var fjórtán ára og margoft eftir það. Hann játaði bara að hafa verið með henni einu sinni eftir að hún var átján ára og slapp með það, enda greinilega vandaður maður á ferð og full ástæða til að taka orð hans trúanleg.

Ætli vinsældir Chris Langham muni dala við þetta eða fellur hann í sama flokk og Roman Polanski, sem enn nýtur virðingar margra þrátt fyrir að hafa nauðgað 13 ára stúlku? Ekki að ég vilji gleyma Woody Allen í þessari upptalningu, en hann hefur þó aldrei mér vitanlega verið dreginn fyrir dómstóla fyrir sifjaspell með dótturinni sem hann svo giftist. Ég held reyndar ekki að það sé bara vegna þess að þessir menn eru frægir sem þeim er svona auðveldlega fyrirgefið, ég held að það sé frekar vegna þess að fólki finnst ‘skiljanlegt’ að karlmenn girnist stúlkubörn sem eru rétt um það bil orðin kynþroska.

Flestir gera mikinn greinarmun á því að girnast börn og kalla slíka menn barnaníðinga (sem þeir eru) og þeim sem girnast 13-16 ára stelpur og tala um það í léttum tón að ‘hann vill hafa þær ungar’. En munurinn er lítill sem enginn. Sannarlega eru flestar stelpur á unglingsaldri orðnar sér að einhverju leyti meðvitaðar um að til er eitthvað sem heitir kynlíf en börn afturámóti vita lítið sem ekkert um það. En börn – sama hversu gömul þau eru – eru ekki tilbúin til kynlífs með fullorðnum. Hvorki andlega né líkamlega. Karlmennirnir vilja hinsvegar hið fullkomna vald sem felst í aldursmuninum (Polanski var þrjátíu árum eldri en fórnarlamb hans) og því að barnið lítur upp til þeirra eða óttast þá. Reynsluleysi barnanna – eða táningsstúlknanna - hentar þeim auk þess vel, þeir geta þá logið því að sjálfum sér að þeir séu góðir í rúminu, fullvissir að stúlkan veit ekki betur. Margir þeirra halda því fram að þeir séu að kynna fórnarlömb sín fyrir kynlífi og ‘unaðssemdum’ þess.

Og svo eru einhverjir sem halda því fram að börn, sérstaklega stúlkubörn, sækist beinlínis eftir að eiga sína fyrstu kynlífsreynslu með eldri mönnum og hinar miklu vinsældir skáldsögunnar Lolitu eftir Vladimir Nabokov hafa ekkert gert til að draga úr almennu samþykki fyrir þeirri afsökun.

___
* Uppfært: Skömmu eftir að Langham var fundinn sekur, hóf Ríkissjónvarpið að sýna þættina Mæðst í mörgu (The thick of it) á miðvikudagskvöldum.
** Uppfært: 14.september 2007 var Langham dæmdur til 10 mánaða fangelsvistar fyrir vörslu barnakláms. Tekið var fram að um allra grófasta kynferðisofbeldi gegn börnum hafi verið að ræða. (Dómurinn auðvitað skammarlega vægur, en Bretar eru ekkert skárri en aðrir í þeim efnum).
Viðbót: Í september 2009 var svo Polanski handtekinn, sjá færslu mína um það hér.

Efnisorð: , , , ,

föstudagur, ágúst 03, 2007

Bara nefna það!

Og það er búið að loka einni strippbúllunni í miðbænum!

Efnisorð: ,

fimmtudagur, ágúst 02, 2007

Það mjakast

Ég held að það fari mér betur að skrifa um það sem mér finnst vera gagnrýnivert heldur en fjalla um góða hluti og skemmtilega. Enda eðli þessa bloggs að vilja geri heiminn betri en ekki lýsa því yfir að við búum í besta heimi allra heima. Því það er sannfæring mín að svo sé ekki. En stundum er eins og stigið hafi verið hænuskref í áttina og jaðrar við að hægt sé að trúa að alt í þessum heimi miðaði til hins besta.

Nokkrar góðar fréttir
Ekki fylgist ég neitt að ráði með íþróttum og hef aldrei silast til að skrifa um árangur íslenskra fótboltakvenna, enda þótt mér finnist þær eiga allt gott skilið, þ.m.t. aðstöðu, laun og styrki. Það að gladdi mig þó að heyra að Líney Rut Halldórsdóttir hafi verið ráðin framkvæmdastjóri ÍSÍ , bæði vegna þess að ég vil sjá jafnmargar konur og karla í allrahanda stjórnunarstöðum, en líka vegna þess að í framtíðinni vaxa vonandi upp kynslóðir kvenna sem finnst íþróttir líka vera fyrir konur (bæði að skipuleggja og taka þátt í íþróttum og að eiga þátt í að semja um þær reglur, hvað þá stýra í hvað fjármunir íþróttahreyfingarinnar fara). Það var eiginlega ekki stemningin langt fram eftir minni ævi og á örugglega sinn þátt í því hvað mér finnst flestar íþróttir óáhugaverðar, sérstaklega fótbolti.

Það lá við að ég tryði ekki eigin eyrum þegar ég heyrði að í Héraðsdómi Vestfjarða hefði karlmaður verið dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps. Í fyrsta lagi leið ekki nema rúmur mánuður frá því að karlmaðurinn skaut konuna sína og í öðru lagi virtist dómurinn gefa til kynna að karlmenn mættu bara allsekki reyna að drepa konur, ekki einu sinni sínar eigin. Þetta er ótrúlega gleðilegt, ekki síst í ljósi þess hvernig dómur féll nýlega í máli nauðgarans á Hótel Sögu. Ég verð þó að viðurkenna að ég hef áhyggjur af því að Hæstiréttur snúi annaðhvort dómnum við eða mildi hann verulega.

Í dag bárust svo fréttir af því að nektardans væri bannaður á Goldfinger. Eins og áður, þá efast ég stórlega um að þetta sé satt (allur nektardans? ekki bara einkadans?) og ef svo er þá finnst mér líklegt að eigandanum og stórvinum hans takist með einhverjum hætti að snúa þessu sér í hag. En vonandi verður bara helvítis búllunni lokað.

Í framhaldinu mætti Reykjavíkurborg gera gangskör að því að loka ‘kampavínsklúbbunum’ sem opnaðir voru í miðborginni í fyrra, og svo auðvitað Bóhem, Óðali og Vegas.* Þá mætti kannski halda því fram að „alt sé í allrabesta lagi.“

___
*Eru þessar klámbúllur ekki annars enn við lýði?

Efnisorð: , , , ,