föstudagur, mars 21, 2014

Helvítis hælisleitendapakk

Hvað vill þetta hyski hingað? Þessir helvítis útlendingar taka vinnu frá Íslendingum. Við höfum ekki pláss fyrir alla sem hingað vilja koma. Þetta eru ekkert flóttamenn, þeir vilja bara komast á ríkisspenann hjá okkur. Það ætti að senda alla hælisleitendur úr landi umsvifalaust.

(Yfirskrift bloggfærslunnar, svo og upphafsorð eru skrifuð til að lokka að og laða fólk sem ég vil yfirleitt ekki umgangast.)

Af öllu því sem ég hef lesið um málefni hælisleitenda og flóttamanna hér á landi finnst mér Víðsjárþáttur sem var á dagskrá Ríkisútvarpsins 14. mars síðastliðinn* ná að fjalla einna best um málefnið. Þar er ekki einblínt á einstök mál (þó nóg sé tilefnið) heldur fjallað um hvernig móttökur hælisleitendur fá almennt.

Úr kynningu á þættinum:
„30. nóvember 1955 gerðist Ísland aðili að Flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Með þeirri aðild skuldbindur Ísland sig, ásamt öðrum aðildaríkjum, til að axla í sameiningu ábyrgð á því fólki sem orðið hefur fyrir ofsóknum í heimalandi sínu og hefur ekki getað notið réttarverndar í því landi. En hver er veruleiki þeirra einstaklinga sem hingað leita í von um betra líf? Hvernig hefur Íslandi tekist að axla þá ábyrgð sem henni ber að axla? Málefni flóttamanna og hælisleitenda á Íslandi hafa verið í brennidepli að undanförnu en ótal mál hafa komið upp sem vekja spurningar um hvernig Ísland sinnir þessum brýna málaflokki.

Í Víðsjárþættinum verður leitast við að rýna í stöðu flótta- og hælisleitenda hér á landi með liðsinni blaðamannsins Jóns Bjarka Magnússonar og lögmannanna Helgu Völu Helgadóttur, Katrínar Oddsdóttur og Katrínar Theódórsdóttur. Einnig verður stuðst við rannsókn sem Júlíana Einarsdóttir gerði á stuðningi við flóttamenn á Íslandi.
Umsjón hafa Elísabet Indra Ragnarsdóttir og Þorgerður E. Sigurðardóttir.“
Eftirfarandi tölur um flóttamenn skipta máli í þessu sambandi.

Samkvæmt nýrri skýrslu Flóttamannastofnunnar Sameinuðu þjóðanna fjölgaði nýjum hælisumsóknum í Evrópu um þriðjung árið 2013 frá árinu áður. Það er rakið beint til neyðarinnar í Sýrlandi.

1,2 milljónir sýrlenskra barna eru í flóttamannabúðum, og alls eru yfir fjórar milljónir manna á flótta frá Sýrlandi.

Hælisumsóknum fjölgaði á öllum Norðurlöndunum, í heildina um 24%. Langflestir sóttu um hæli í Svíþjóð og fæstir hér á landi.

Af öllu því fólki sem er á flótta í heiminum eru örfáir sem slæðast hingað. Þeir ættu ekki að mæta öðru eins viðmóti og við höfum hingað til sýnt þeim.

En hlustið á þáttinn. Hann er góður.

___
* Að ofan er tenging á Víðsjárþáttinn hjá Sarpi en hann má einnig finna á hlaðvarpinu og hlusta á hér.

Efnisorð: , , , ,

miðvikudagur, mars 19, 2014

Gullfoss og Geysir, túkall

Frekja og græðgi virðast vera lykilorð þeirra sem sjá ferðamannastrauminn í hillingum. Bílaleigur verða sífellt uppvísar að því að leigja út bíla á sumardekkjum um hávetur og mega björgunarsveitir hafa sig allar við að bjarga túristunum uppúr sköflum. Allir og amma þeirra selja gistingu og hirða lítt um að fá til þess leyfi eða greiða af skatt af gróðanum. Og þá eru ótalin hótelin sem spretta upp víðsvegar um landið með veði í komandi túristavertíð.

Ekkert af þessu er skemmtilegt afspurnar en sýnu verst er að frétta af gjaldtöku einkaaðila á ferðamannastöðum. Landeigendur sem annaðhvort hafa náttúruundur á bæjarhlaðinu hjá sér (Geysir) eða sjá í fjarska vegarspotta sem liggur að fjölsóttu náttúrufyrirbæri (Dettifoss), hafa nú ákveðið að umræðan um nauðsynlegt en fram að þessu lélegt viðhald ferðamannastaða sé komin á það stig að enginn muni fetta fingur útí að för ferðamanna sé hindruð með gjaldtöku. Þeir sem keyptu Kerið (í þessu skyni) fóru í fararbroddi og nú stendur til að rukka aðgang að Dettifossi og gjaldtaka er hafin við Geysi. Verði það látið átölulaust má búast við að fleiri fylgi í kjölfarið.

Einusinni þótti okkur nægilegt að útlendingar væru hrifnir af landinu, svo fannst okkur þeir verða að hrósa okkur í fjölmiðlum erlendis svo við fengjum fleiri túrista, núna eru þeir nískupakk sem skilja ekki nógu mikinn pening eftir í landinu og við veltum fyrir okkur hvernig við getum losnað við sparsama túrista og fengið ríkari, neysluglaðari og betri túrista í staðinn. (Á sama tíma dáumst við að íslenskum ungmennum sem fara í interrail eða margra vikna og mánaða bakpokaferðalög um Asíu og eyða nánast engu. En það er 'góð lífsreynsla' en þeir sem ferðast ódýrt um Ísland eru 'afætur sem skilja ekki eftir sig neitt nema rusl'). Kannski verður okkur að ósk okkar að fækka ferðamönnum með því að standa með hringlandi betlarabauka við skúra (sem gera arkitekta öfundsjúka vegna þess hvað þeir stinga skemmtilega í stúf við umhverfið) sem hróflað er upp til að illa launuðu aðgangssölumennirnir geti pissað og drukkið kaffi milli þess sem þeir hindra frjálsa för fólks um landið.

Jafnvel þó við Geysi sé greinilega öllu til kostað að rukka inn (sbr. fjöldi starfsmanna) þá eru daglegar tekjur greinilega mjög háar og varla líður á löngu áður en svæðið verður komið í frábært stand. Hvað ætla þá landeigendur að gera eftir það, stinga aðgangseyrinum í vasann? Þeim hefði verið nær að hefja framkvæmdir á hverasvæðinu á eigin kostnað og fá þannig meðbyr í stað þess að standa í stappi við ríkið og rukka svo grandalausa ferðamenn án þess að hafa til þess nokkra heimild, og skapa jafnvel hættu. Þessa dagana yfirgnæfir græðgisfnykurinn hveralyktina.

Anna Kristjáns skrifar um þessa græðgisvæðingu á ferðamannastöðum. Lokaorð hennar eru þessi: „en í guðanna bænum, setjið ekki upp gjaldhlið við sérhvern afleggjara af þjóðvegi eitt eins og nú stendur til að gera. Það mun valda hruni í ferðaþjónustu á Íslandi.“. Ég óttast að hún hafi rétt fyrir sér, ekki vegna nísku ferðamannanna heldur vegna þess að þeim ofbjóði fjárplógsstarfsemin.

Ríkisstjórnin gerði það að einu af sínum fyrstu verkum að hætta við að hækka gistináttagjaldið og Guðmundur Andri Thorsson bendir á að í staðinn ætli hún að „innleiða svokallaðan náttúrupassa með yfirskriftinni: Þeir borgi sem njóta.“ Hann talar út frá tilfinningarökum — og er það vel — og það sem hann segir er ekki hægt að endursegja í stuttu máli eða höggva niður í stuttar tilvitnanir, lesið frekar pistilinn í heild.

Náttúrupassi er vond hugmynd, aðallega vegna þess að þá þarf skúra við alla vinsæla ferðamannastaði (og í stað "upp með veskið" verður heimtað "upp með passana",* á því er lítill munur) en ekki síður vegna þess að þá þarf íslenskur almenningur að borga ekki síður en útlendingar, og andskotinn hafi það að við sem þreyjum hér þorrann megum ekki njóta náttúrunnar á stuttum íslenskum sumrum þá sjaldan veður gefst til að sjá gegnum suddann. Það heitir staðaruppbót.

Benedikt Sigurðarson veltir upp mörgum flötum á málinu. Ég er þó alveg ósammála honum um að það sé „slæm hugmynd að leggja gjald á flugmiðana til landsins og tollafgreiðslu í höfnum.“ Ég held nefnilega að gistináttaskattur og skattur á alla sem koma til landsins sé skásta leiðin til að láta ferðamenn taka þátt í kostnaði við viðhald ferðamannastaða. Hugmynd Benedikts um að setja bílastæðagjald kallar á risavaxin bílastæði með tilheyrandi raski og munu þau ekki prýða umhverfið, auk þess sem mér finnst myndavélaeftirlit óviðeigandi úti í náttúrunni þó við sættum okkur við slíkt í borg óttans.

Einar Á. E. Sæmundsen fræðslufulltrúi þjóðgarðsins á Þingvöllum skrifar vel ígrundaða grein, og það getur verið góð leið að allir sem hafi „fjárhagslegan ávinning af því“ að vera á ákveðnum svæðum borgi fyrir það samkvæmt fyrirframgerðum samningi. Hér virðist allir ætla að rukka fyrst og sjá svo til hverjir séu hlynntir rukkuninni en hinir fái ekki að koma inn á svæðið. Ég er þó Einari ósammála um að gera eigi greinarmun á rútufarþegum og bílaleigufarþegum (en þeir flokkast undir það sem Einar nefnir „ferðamenn á eigin vegum“). Ég veit ekki fjölda þeirra sem ferðast um á bílaleigubílum, en þeim myndi hugsanlega fjölga mjög ef þeir þyrftu hvergi að borga. Það ætti síst að hygla þeim umfram þá sem ferðast með bílstjóra (og yfirleitt leiðsögumanni) með þekkingu á íslenskum aðstæðum.

Svo finnst mér góð ábending hjá Ögmundi Jónassyni með eignarnám á jörðum. Ef Landsvirkjun getur látið gera eignarnám þar sem henni þóknast að leggja rafmagnslínur, er þá nokkuð því til fyrirstöðu að gera eignarnám hjá þeim sem „í krafti einkaeignarrétti ætla, í trássi við lög, að græða á náttúruperlum Íslands.“ Það væri að mati okkar Ögmundar fullkomlega réttlætanlegt.

Ég vil semsagt að gistináttagjaldið sé hækkað. Farþegar sem koma til landsins borgi sérstakt gjald. Ríkið sjái um að lagfæra og halda úti aðstöðu á ferðamannastöðum á eigin reikning og með eigin starfsfólki, greitt með komufarþegaskattinum. Tekið sé fyrir skúravæðingu og græðgisvæðingu landeigenda.

___
* Hugmyndir um að löggan fylgist með náttúrupössunum er fráleit. Hvað hefur ekki mikið verið kvartað undan því hve fáar löggur eru á vakt hverju sinni á stórum svæðum, tildæmis á Suðurlandi?

Efnisorð: , ,

sunnudagur, mars 16, 2014

Leitið að allskonar, og þér munuð finna alltöðruvísi

Það getur verið áhugavert og stundum skemmtilegt — og stundum áhyggjuefni —  að fylgjast með leitarorðunum sem eru þess valdandi að fólk ratar inn á bloggsíðuna.

Fyrir þau sem ekki vita það, þá er hægt að skoða hvort einhver lenti inni á blogginu með því að slá inn ákveðin orð í leitarvélar, tildæmis hvort einhver gúglaði „feminismi“ og fann bloggið þannig. Að auki er hægt að sjá hvaða stakar bloggfærslur hafa verið lesnar.

Vissulega hef ég skrifað pistla þar sem sum (en ekki öll!) þessi orð koma fyrir. Þeir sem leita virðast ekki endilega hafa búist við að lenda inná róttæku feministabloggi. Ég held líka að sá (eða sú) sem fyrir helgina leitaði að „umræðuefni á fyrsta stefnumóti“ hafi ekki haft þessa upptalningu í huga en datt inn á hana samt.

Vonandi var stefnumótið vel heppnað, það hefur að minnsta kosti ekki vantað umræðuefni!







Efnisorð:

fimmtudagur, mars 13, 2014

Dagur líkamsvirðingar

Samtök um líkamsvirðingu eru tveggja ára í dag en Sigrún Daníelsdóttir sálfræðingur hefur haldið úti bloggi um málefnið í fimm ár. Fleiri skrifa á bloggið þar sem m.a. er fjallað um fitufordóma, megranir, fitness keppnir, megrunarátaksraunveruleikasjónvarpsþáttinn Biggest Loser, ímyndir og holdafar almennt.

Á þessum baráttudegi líkamsvirðingar er best að leita til þeirra sem skynsamlegast hafa skrifað um málið.

Hér ræðir Sigrún fyrirsætubransann og áhrif hans.
„Tískuiðnaðurinn er byggður upp af unglingsstúlkum sem í sumum tilfellum eru ekki einu sinni búnar að klára grunnskóla. Þetta eru „konurnar“ sem ganga á tískupöllunum og birtast okkur í myndaseríum hátískublaðanna. Þetta eru „konurnar“ sem hin venjulega kona ber sig saman við og óskar þess að hún gæti líkst meira í útliti.“
Og
„Þegar ég vann við meðferð átraskana kynntist ég nokkrum stelpum með fyrirsætudrauma. Þeir voru undantekningarlaust partur af veikindum þeirra, því þær vildu ekki taka sénsinn á því að batna og missa af „stórkostlegum“ tækifærum fyrir framtíðina. En svo urðu þær ekki nýjasta undrið í tískuheiminum og fengu í staðinn endalausa höfnun og vonbrigði. Sem gerir auðvitað mikið fyrir sjálfstraustið.

Í fyrirsætubransanum er stelpum kennt að byggja sjálfsmynd sína, framtíð og atvinnutækifæri á einhverju sem þær hafa enga raunverulega stjórn á: Útliti sínu og velþóknun annarra. Hvernig hægt er að telja sér trú um að þetta hjálpi þeim að öðlast sjálfstraust og blómstra á eigin forsendum er óskiljanlegt. Þetta hlýtur að vera eitt ömurlegasta veganesti sem hægt er að gefa ungri manneskju.“
Þegar blásið var til herferðar í tilefni af megrunarlausa deginum en ekki voru allir sáttir við hana. Eins og oft áður var Sigrún gagnrýnd fyrir að hvetja til offitu og ofáts en einnig var amast við því hverjir tóku þátt í herferðinni. Hér svarar Sigrún gagnrýni á herferðina.
„Það er einfaldlega ekki hægt að vera í réttri stærð fyrir þennan málstað. Ef þú ert grannvaxin þá færðu að heyra að þú vitir ekkert hvað þú ert að tala um af því þú ert ekki feit. Ef þú ert feit þá færðu að heyra að þú sért bara að reyna að réttlæta tilvist þína af því þig skortir viljastyrk til að grennast. Þau viðhorf sem við tölum fyrir eru ögrandi og því er reynt að kveða þau niður með því að gera fólkið sem talar fyrir þeim ómarktækt. Staðreyndin er að ríkjandi þyngdaráherslur meiða alla. Þegar við dæmum fólk á grundvelli holdafars þá eru allir gagnrýndir nema þeir sem falla inn í þann þrönga flokk sem við höfum skilgreint sem „norm“ eða „fegurð“ eða whatever. Við erum allskonar og því tapa allir ef fjölbreytileikinn er ekki virtur. Allir hafa fitu, bara í mismiklum mæli, en flestir hafa nóg til að hafa komplexa yfir því. Það er því öllum í hag að hugmyndir um þóknanlega líkama séu víkkaðar út.“
Á bloggsíðunni er gjarnan rætt um fitufordóma (sem birtast í allt frá 'velviljuðum athugasemdum' uppí hreint ofbeldi eins og lesa má um í þessari frétt) en auðvitað snýst málið um að allt fólk, feitt, mjótt, lítið og stórt, eigi og megi vera stolt af líkama sínum og aðrir eiga ekkert með að gagnrýna fólk útfrá útliti þess.

Í þessum pistli nefnir Sigrún það sem sjaldan er rætt, lágvaxna karlmenn, en hún á syni sem eru lágvaxnir.
„Vitandi hvað bíður þeirra ef þeir vaxa úr grasi, alltaf minnstir í bekknum, og verða síðan lágvaxnir fullorðnir menn, þá er það eina sem ég get gert að stappa í þá stálinu. Hjálpað þeim að þróa með sér jákvæða sjálfsmynd út frá þeim mörgu styrkleikum og kostum sem þeir hafa til að bera. Ekki gera hæð þeirra að neinu aðalatriði en ekki vera heldur með neina vitleysu ef þeir viðra áhyggjur eða leiða yfir hæð sinni. Ég segi ekki: “Hvaða vitleysa, þú ert ekkert lítill”. Þeir vita að þeir eru litlir. Ég er sjálf lítil. Að halda öðru fram er bara kjánalegt. Það sem ég segi er að já, þeir séu frekar lágvaxnir en það sé ekkert að því að vera lítill. Fólk sé allskonar. Og svo er gott að spyrja af hverju þeir séu yfirleitt að hugsa um þetta. Gerðist eitthvað? Sagði einhver eitthvað? Er eitthvað að gerast í þeirra félagslega umhverfi sem ég þarf að bregðast við?

Ef börnin mín væru feit þá hugsa ég að ég myndi nálgast málið á sama hátt. Ég myndi hins vegar aldrei segja þeim að þau væru “of” feit. Það er ekki það sama. Það felur í sér neikvæðan dóm. Ef þú ert “of” eitthvað þá er eitthvað að þér. Ég segi sonum mínum ekki að þeir séu “of” litlir þrátt fyrir að þeir skeri sig úr meðaltali íslenskra barna. Þeir eru bara nákvæmlega eins og náttúran skapaði þá. Þeir eiga ættarsögu um lága líkamshæð. Að ætlast til þess að þeir verði öðruvísi er ekki raunhæft. Þeir verða að mega vera litlir og þeim verður að geta liðið vel með það. Til þess þarf þýðing merkimiðanna að breytast. Það verður að vera í lagi að vera lítill. Það verður að vera í lagi að vera feitur. Annars erum við að dæma öll börn sem eru ekki vaxin samkvæmt meðaltali til að vaxa úr grasi sem brotnir einstaklingar, alltaf ósátt við að vera eins og þau eru. Það eru ekki örlög sem ég óska neinu barni.“
Ég mæli með að lesa í heild þær bloggfærslur sem hér er vísað á, sem og aðra pistla á líkamsvirðingarblogginu. En umfram allt ættum við öll að tileinka okkur virðingu fyrir eigin líkama og annarra.

Efnisorð:

mánudagur, mars 10, 2014

Stattu úti

Þau furðulegu tíðindi berast frá Noregi að þar ætli ríkisstjórnin að leggja fram frumvarp sem hefur það að markmiði að takmarka aðgengi kvenna að fóstureyðingum. Stjórnarflokkarnir munu hafa lofað Kristilega þjóðarflokknum (sem í staðinn lofar að styðja stjórnina)* að leggja fram frumvarp þess efnis að þeir heimilislæknar sem þess óska þurfi ekki að gefa konum tilvísun á fóstureyðingu. Sem þýðir að ef eini læknirinn í þorpinu er á móti fóstureyðingum getur hann sisvona komið í veg fyrir að konur sem til hans leita komist í fóstureyðingu. Frumvarp ríkisstjórnarinnar nýtur ekki stuðnings innan eigin raða eða hjá öðrum flokkum og líklega verða ríkisstjórnarflokkarnir þeirri stund fegnastir þegar frumvarpið verður fellt í þinginu; þeir verða þá búnir að standa við sitt gagnvart kristlingunum en þurfa ekki að horfast í augu við bálreiða kjósendur sem töldu sig búa í þjóðfélagi þar sem konur njóta hvað mestu réttinda í heimi þessum.

Alveg er það annars makalaust hvað heittrúarfólk reynir að koma því í lög að mega neita fólki um heilbrigðisþjónustu, hjónavígslu eða bara afgreiðslu, allt eftir því hvar í trúartaugina það verkjar. Til dæmis eru talsverð brögð eru að því í Bandaríkjunum að lyfjafræðingar neiti að afgreiða eftirápilluna — sem gerir auðvitað ekkert annað en þröngva konum í þær aðstæður að þurfa fóstureyðingu sem svo einhver annar neitar að framkvæma af sínum trúarástæðum.

Mismunun er auðvitað vond hugmynd almennt en ef á annað borð það á að leyfa fólki að hafna því að sinna starfi sínu sé viðskiptavinurinn eða sjúklingurinn því ekki þóknanlegur, finnst mér að það eigi ekki að einskorðast við trúarskoðanir. Ég myndi þá sannarlega fara í skyndiverkfall í hvert sinn sem ég sæi framan í sjálfstæðismenn, framsóknarmenn, trúarbrjálæðinga og andfeminista.

___
* Það er semsagt víðar en hér sem stofnað er til ríkisstjórnarsamstarfs á vafasömum forsendum og farið í að uppfylla loforð sem hentar utanaðkomandi en ganga gegn hagsmunum almennings.

Efnisorð: , , ,

laugardagur, mars 08, 2014

8. mars

„VERU barst til eyrna að á umhverfisráðstefnunni í Ríó de Janeiro hefði verið indversk kona með fríðu föruneyti, sem vinnur að umfangsmikilli þróunaraðstoð í heimalandi sínu á eigin vegum.“
Þetta er upphafið á viðtali sem birtist í maíhefti Veru árið 1994 við frú Sundaram (hún er ekki kynnt með fullu nafni). Hér eru valdir bútar úr viðtalinu, birtir í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

Í byrjun viðtalsins segir frú Frú Sundaram frá starfi sínu, fjölskyldu og samtökum hennar sem berjast m.a. gegn mengun af völdum iðnaðar. Hún segir skort á drykkjarvatni mikinn og það bitni mjög á konunum sem sæki vatnið langt að, sem og eldivið. Frú Sundaram segir að það sé erfitt að ímynda sér hvílíka erfiðisvinnu þær inna af hendi.

„Þess utan eiga þær að sjá um búpeninginn, nautgripina, annast börnin og vinna fyrir daglegu brauði. Aðstæður þeirra eru því hrikalegar og mikilvægt að þær komist til áhrifa til að geta haft eitthvað að segja um þróun mála. Þannig að samtökin beina sjónum sínum að konum og vinna markvisst að því að bæta stöðu þeirra. Þó er langt frá því að einungis þær njóti góðs af starfi okkar en það gengur þó ekki þrautalaust að sannfæra karlana um ágæti framfara ef þeir eru ekki sjálfír í sviðsljósinu.

Ég veit ekki hvernig ástandið er nákvæmlega í öðrum heimshlutum en ég held það láti nærri að við lifum í karlstýrðum heimi og það er ekki réttlátt. Það sjáum við í sveitum Indlands þar sem karlarnir eru allsráðandi og standa gegn því að konur komist til áhrifa. Konur eru beinlínis aldar upp til að vera dætur, systur, eiginkonur, tengdadætur og eru alltaf neðar settar en bræður þeirra og eiginmenn. Þó að stúlka hafi meiri námshæfileika en bróðir hennar er henni innprentað að hún hafi ekkert uppúr því að læra.

Ég kenni ekki bara körlunum um þetta ástand, eldri konur eru einnig oft mjög tortryggnar og vinna beinlínis gegn því að stúlkur fái að mennta sig og taka óafvitandi þátt í að viðhalda þessu ástandi.“

Þær þekkja ekkert annað!

„Nei og þess vegna er svo mikilvægt að mennta stúlkur þannig að þær ali dætur sínar ekki upp á sama hátt. Ólæsi er eitt stærsta vandamálið. Sá, sem ekki getur lesið, hefur ekki jafna stöðu á við aðra, er fullur minnimáttarkenndar og getur ekki aflað sér upplýsinga og þekkingar og finnst hann því ekki geta haft neitt að segja. En það þýðir ekki að leggja einungis áherslu á bóknám, eldra fólk er oft hrætt við bækur. Þess vegna leggjum við áherslu á að kenna þeim einnig munnlega, t.d. um næringu, heilbrigði og hreinlæti og hver réttur þeirra er, að lífið sé dýrmætt og þær eigi ekki að þurfa að líða fyrir kyn sitt. Ofbeldi gagnvart konum innan veggja heimilisins er mikið, en það hefur hingað til varla verið til í huga kvenna að þær geti skilið við eiginmanninn.

Þótt þær geti ekki lesið þá hafa þær augu og því keyptum við sjónvörp fyrir fræðslumiðstöðvarnar. Karlarnir voru ekki par hrifnir af því, héldu að konurnar myndu bara spillast. En þetta var gert og nú geta þær fylgst með því sem er að gerast í kringum þær, og horft á fræðsluþætti sem bæði ríkissjónvarpið í Dehli sendir út og svo svæðisstöðin. Þetta eru þættir um hreinlæti, fjölskylduna, lagaleg mál og mikið er af þáttum um næringarfræði sem fjalla um hvernig fá megi sem mesta næringu úr einhæfum fæðutegundum. Nú eru líka sérstakir þættir fyrir óléttar konur, m.a. um nauðsyn þess að þær fái rétta næringu á meðgöngunni. Konur sitja enn á hakanum hvað fæðuna varðar, fyrst borða karlarnir og siðan konurnar það sem afgangs er. Þannig er þetta nú ennþá.“

„Konur standa oft ráðalausar þegar eitthvað amar að börnunum og vita ekki að veikindin stafa oft af rangri næringu barnsins. Fræðslan er þó fljót að skila sér og konur eru almennt fljótar að komast upp á lagið með að nýta sér þjónustu heilsugæslunnar. Eftir aðeins nokkra mánuði komu þær sjálfar og sögðu mér frá sínum eigin sjúkdómseinkennum. Ég fékk þrjár konur, kvensjúkdómalækna úr Lionsklúbbnum mínum, til að koma með mér í þorpið einn laugardag, þær skoðuðu konurnar og við komumst að þvi að rúm 70% þeirra voru með sýkingu í móðurlífinu. Þessir læknar komu eftir þetta á hverjum laugardegi í fleiri mánuði og meðhöndluðu konurnar. Þú getur ímyndað þér kvalirnar sem þær voru búnar að ganga í gegnum og höfðu tekið þeim eins og hverju öðru hundsbiti, eins og svo mörgu öðru.“

Er staða kvenna í borgunum eitthvað betri?

„Já, hún er það að mörgu leyti því þar eru konur meira menntaðar og starfa við fjölbreyttari störf. En það verður að skoða stöðu kvenna í dreifbýlinu. Það er aldrei hægt að gera sér í hugarlund þróun í neinu landi með því að horfa einungis til borganna. Framfarir í sveitum eru forsenda almennrar þróunar og konur verða að komast þar til áhrifa til að svo megi verða.“

Hvernig reynið þið að leiða körlunum fyrir sjónir að þetta leiðir til framfara sem þeir muni einnig njóta góðs af?

„Þeir virða starf okkar þegar við höfum sýnt þeim fram á hversu samfélagið allt hagnast á framförunum. Margir yngri karlanna skilja það og eru okkur þakklátir fyrir að aðstoða konurnar. En margir mótmæla og telja að konur séu að fara inn á þeirra svið og séu að riðla því skipulagi sem viðgengist hefur, kynslóð fram af kynslóð. Þetta hefst þó hægt og bítandi með því að finna réttu leiðirnar. Í einu þorpinu voru fjórar stúlkur sem ekki áttu að fá að fara í framhaldsskóla, fjölskyldur þeirra sögðust ekki hafa efni á því. Miðstöðin okkar lagði því út fyrir bókakostnaði og ég talaði við foreldra þeirra. Ein þessara stúlkna var systir þorpshöfðingjans og ég leiddi honum fyrir sjónir hversu mikilvægt það væri að hann skapaði fordæmi með viðhorfi til skólagöngu systur sinnar. Nú eru þær allar í skólanum og hjóla þangað saman, tíu km á hverjum degi.

Það er algengt þegar spurt er að því hvers vegna stúlkurnar fari ekki í skólann að foreldrar segjast ekki hafa efni á að missa stúlkur frá vinnu. Við ætlum að reyna að brúa það vandamál með því að koma á fót einhverskonar handverksmiðstöðvum þar sem stúlkurnar læra að búa til hluti sem má selja og þannig gætu þær lagt eitthvert fé í fjölskyldusjóðinn. Og þarna myndum við einnig kenna þeim að lesa og skrifa einn til tvo tíma á dag. Með næstu kynslóð verður svo auðveldara að fá foreldrana til senda börnin í skóla og þá verða atvinnutækifæri stúlkna raunverulegri.“
Viðtalið tók NH, sem að öllum líkindum er Nína Helgadóttir sem þá var önnur ritstýra Veru. Hér stytt og birt án leyfis.


Efnisorð: , , , ,

miðvikudagur, mars 05, 2014

ESB farsinn

Eitt af einkennum farsa er að persónurnar á leiksviðinu eru sífellt að æða inn og útum dyr og þegar einn fer útaf sviðinu kemur annar inn, þeir fara sífelldlega á mis, og af þessu sprettur misskilningur á misskilning ofan. Af þessu má oft hlægja dátt.

ESB farsanum virðist hvergi nærri lokið því sem helstu persónur eru enn að þeytast um sviðið og uppákomum linnir ekki. Farsinn er lélegur að því leyti að hann er ófyndinn, svo eru líka vond og vandræðaleg augnablik einsog þegar þingmenn detta í forarpoll fúkyrða, en hlægileg augnablik eru fá þó nefna megi vandræðasvipinn á Illuga Gunnarssyni þegar hann var dreginn fyrir sjónvarpsmyndavélar og látinn svara fyrir eigin orð sem hann lét falla (einsog svo margir samráðherrar hans úr sama flokki) á atkvæðaveiðum í fyrra.

Þá er líka skemmtilegt þegar fólk útí bæ rifjar upp vendingar og vafninga Bjarna Ben frá því áður en hann lét undan flokksræðinu (les: LÍÚ og Davíð Oddssyni) og gerðist svarinn andstæðingur ekki bara ESB umsóknar heldur ESB aðildar. Hann hafði áður aðra skoðun en þá sem hann viðrar núna „samkvæmt bestu sannfæringu“. Og það er gott framlag til umræðunnar að vísa í orð hans og Illuga í grein frá 2008 þar sem þeir sögðust vilja að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið og að innganga í sambandið verði borin undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Núna finnst þeim það „ómöguleiki“ því núverandi ríkisstjórn vilji ekki ganga í ESB. Samt gat fyrrverandi ríkisstjórn sætt sig við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave og fylgt því máli eftir til enda, jafnvel þótt hún hefði viljað fara aðra leið, en svoleiðis ráða ekki núverandi ráðamenn við.

Þegar líkingum við farsa sleppir stendur uppúr að forsætisráðherrann er enn og aftur staðinn að ósannindum. Nú síðast sagði hann að ESB hefði heimtað að íslensk stjórnvöld slitu viðræðunum úr því ekki stæði til að halda þeim áfram. En sendiherra ESB segir að það megi alveg setja viðræðurnar á bið án þess að slíta þeim (innan ESB virðast menn einnig margsaga, svo kannski er um farsakenndan misskilning að ræða). Merkilegast er að Sigmundi Davíð varð tíðrætt um heiðarleika í viðtalinu.

Það væri óskandi að væri hægt að setja punkt hér aftan við, en það er ljóst að þessu máli er hvergi nærri lokið. Á meðan er mikilvægt að fólk sem misbýður endurteknar lygar ríkisstjórnarinnar um kosningaloforð sín og svikin við vilja þess stóra hluta þjóðarinnar sem vill þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort aðildarviðræðum verði haldið áfram, skrifi undir hér og /eða mótmæli á Austurvelli.

___
Hér má lesa ræðu sem Illugi Jökulsson hélt á Austurvelli. Þótt ég sé ekki hlynnt því að ganga í ESB (og þannig lagað ekki 100% sammála því sem Illugi segir um sambandsaðild í ræðunni) þá mælist honum afar skynsamlega um þetta alltsaman.
Og hér er ræða Sigurðar Pálssonar á sama stað af sama tilefni.

Efnisorð: ,