laugardagur, desember 31, 2016

Á heimsvísu hefur þetta (líka) verið hræðilegt ár — en það hefði getað verið verra

Ekki sér enn fyrir endann á bloggfærslu gærdagsins en þó er ljóst að þar er fyrst og fremst fjallað um innlenda atburði og fólk. Hér verður gerð smá tilraun til að láta líta út fyrir að umheimurinn sé ekki alveg afskiptur.

2016 hefur verið hörmulegt ár fyrir margra hluta sakir. Hryðjuverk. Og Sýrland. Og Trump. En það eru stríð mun víðar en í Sýrlandi og Trump er ekki eini fávitinn sem kemst til valda. Á fleti fyrir eru tildæmis Pútín og Erdoğan. Sá síðarnefndi hefur hreinsað til í Tyrklandi undir því yfirskini að reynt hafi verið valdarán. Hann hefur líka notað Sýrlandsstríðið sem afsökun fyrir að ráðast á Kúrda þegar hann þóttist ætla að ráðast á Íslamska ríkið. Pútín afturámóti er einfaldlega að hjálpa helvítinu honum Assad, svona milli þess sem hann skiptir sér af forsetakosningum í Bandaríkjunum. 2017 lítur mjög illa út fyrir Bandaríkjamenn, og jafnvel heimsbyggðina alla. Fagnaðarlætin vegna Parísarsamkomulaginu voru varla þögnuð þegar Trump var kosinn forseti, og eitt af því sem hann ætlar að vinna gegn er allt þetta sem honum þykir bull og þvæla en við hin köllum loftslagsvá.

Að því er virðist óvenju margir hæfileikaríkir frægir söngvarar og leikarar féllu í valinn á árinu. Margir syrgja þetta fólk enda hefur það haft margvísleg áhrif á aðra með list sinni. Ekki skal gert lítið úr því en hinsvegar langar mig til að minnast tveggja manna sem voru ekki frægir í sama skilningi og stórstjörnurnar, en höfðu sannarlega mikil áhrif á líf annarra.


Maður sem ég þekki er á lífi vegna þess að Henry Heimlich fann aðferð til að bjarga lífi fólks sem annars hefði kafnað vegna aðskotahlutar í hálsi. Sjálfur lést Heimlich (af eðlilegum orsökum) nú í desember. Í þættinum Samfélagið má hér heyra góða útskýringu á hvernig beita á Heimlich aðferðinni. Það er þekking sem bjargar mannslífum.

Donald Henderson, sem var hvatamaður að og stýrði herferð alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar gegn bólusótt (e. smallpox), lést einnig á árinu. Bólusótt er mjög smitandi sjúkdómur sem er einn af hrikalegustu sjúkdómum sem mannkynið hefur komist í kynni við.

Allt fram að 18. öld lést tíunda hvert barn í Svíþjóð og Frakklandi af völdum bólusóttar og sjöunda hvert barn í Rússlandi. Dánartíðni var mjög há eða allt að 30% smitaðra. Talið er að á 18. öld í Evrópu hafi 400.000 manns látist árlega af völdum bólusóttar.

Stórabóla eins og bólusóttin var kölluð á Íslandi, geisaði nokkrum sinnum á Íslandi, en sérlega skæð bólusótt gekk yfir landið á árunum 1707-1709 þegar að stór hluti Íslendinga fékk sjúkdóminn og létust um 16.000-18.000 manns.

Bólusótt sem hafði drepið 500 milljónir á 20. öldinni var útrýmt árið 1977 en þegar herferð alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar hófst létust um 2 milljónir árlega af völdum sjúkdómsins. En enginn síðan þá.
(Tekið meira og minna orðrétt úr greinum á Vísindavefnum, 1, 2, 3).

Þrátt fyrir óáran megum við þó þakka fyrir að þurfa ekki að óttast bólusóttina.


Efnisorð: ,

föstudagur, desember 30, 2016

Ársuppgjör 2016

Áramótagleði Ríkissjónvarpsins var ágætis þáttur en skrýtinn. Þá er ég ekki að tala um þann lið þáttarins þar sem álitsgjafar ræddu hvað þeim fannst skrýtnast á árinu, heldur það sem næstum allir sem fram komu í þættinum voru sammála um að hefði sameinað þjóðina á árinu: Fótbolti. Ég er greinilega ekki þjóðin því mér er ennþá jafn skítsama um fótbolta.

Þessvegna hefði ég auðvitað ekki valið fótboltakall (enn einn fótboltakallinn) sem íþróttamann ársins. En það gerðu þó Samtök íþróttamanna. Mér fannst það asnalegt val, í fyrsta lagi vegna þess að liðið hans fékk hvorteðer verðlaun sem lið ársins, í öðru lagi vegna þess að liðið hans komst ekki einu sinni á verðlaunapall á þessu evrópumeistaramóti sem allir voru svona æstir yfir.

Og ef vandamálið er að þetta hafi verið svona frábært ár í íþróttum og margir íþróttamenn átt titilinn skilið, þá mætti kannski skipta titlinum í kvenna- og karla. Mér finnst auðvitað að konur ættu að geta orðið íþróttamenn ársins með því að etja kappi við karla um titilinn, en það hefur ekki gengið vel í karlrembusamfélagi íþróttafréttamanna. En allavega, ef bæði kona og karl hefðu fengið titilinn þá hefði ég látið Hrafnhildi Lúthersdóttur fá titilinn (og hún átti að fá hann hvorteðer því hennar árangur var mun betri en fótboltalandsliðsins) en hún vann þrenn verðlaun á EM í sundi, sem er ekkert minna en frábært. Karlinn sem hefði getað fengið kallaverðlaunin er Júlían J. K. Jóhannsson, tvöfaldur heimsmeistari unglinga í kraftlyftingum (hann komst ekki hátt á lista hjá íþróttafréttamönnum, sem finnst hann líklega of ungur, svona eins og þegar þeir völdu ekki Anítu Hinriks hér um árið). Svona er ég nú skrýtin, að vilja frekar að fólk sem hampar heimsmeistaratitlum eða verðlaunapeningum á alþjóðlegum mótum beri titilinn Íþróttamaður ársins, heldur en einhver sem er bara einn leikmaður af mörgum í liði sem ekki vinnur til verðlauna.

Í hinn bóginn er ég fjarska glöð með að björgunarsveitirnar hafi fengið titilinn Maður ársins í vinsældakosningu á Rás 2 (þótt að einhverju leyti ætti það að vera bundið við einstakling, en látum það vera). Fyrrverandi forsætisráðherra þjóðarinnar hafði nefnilega í sínu einkastríði við Ríkisútvarpið hvatt sitt fólk til að kjósa sig mann ársins. Ég held að hann hafi ekki hugsað það til enda; ætlaði hann að mæta í sjónvarpssal í kvöld og þakka fyrir sig?

Margt er áhugavert að rifja upp um áramót og sérstaklega eftir þetta ár. Hyggst er skráð eitthvað af því (með þennan lista að fyrirmynd).


Eftirfarandi má einnig lesa sem lof eða last. Lesendur eiga við sjálfa sig í hvorn flokkinn þeir telja að við sé átt.


Þyrluflug ársins: Ólafur Ólafsson, refsifangi í útivist.

Sundferð ársins: Siggi hakkari, refsifangi í útivist.

Ferðapassi ársins: Reisupassinn sem Ragnheiður Elín Árnadóttir fékk í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins.

Múgæsing ársins: Kallafótbolti í Frakklandi, Justin Bieber í Kópavogi.

Vanreikningarhagstofa ársins: Hagstofan vanreiknaði vísitölu neysluverðs í sex mánuði. Áhrif mistakanna eru sögð hlaupa á milljörðum.

Misráðna og mislukkaða forsetaframboðið: Davíð Oddsson.

Forsetaframbjóðandi ársins: Elísabet Jökulsdóttir.

Forseti ársins: Guðni Th. með 97% vinsældir.

Fjölmiðlakaup Binga ársins: ÍNN og Birtingur. Fyrir átti hann DV og landshlutablöðin.

Viðskiptamannadekur að hætti ársins 2007: Fréttablaðið hrósaði Björgólfi Thor fyrir „viðskipti ársins“ (hann seldi Nova og græddi einhver ósköp) og er langt síðan einhver hefur hampað Björgólfi jafn glaðlega. Reyndar kom í ljós í Panamaskjölunum að nær öll fyrirtæki hans eru beint eða óbeint í skattaskjóli. Þá valdi Fréttablaðið Skúla Mogensen í Váflug sem viðskiptamann ársins. Leiðarinn sama dag olli mörgum ógleði (Illugi Jökuls og Egill Helgason þar á meðal) en þar segir: „Hlutverk stjórnmálanna er að skapa umgjörð sem er hvetjandi fyrir þá sem vilja og þora. Tryggja að skattar og efnahagsumhverfi tryggi þeim ávinning sem taka mikla áhættu.“ Semsagt skattahagræði fyrir auðmenn svo þeir auðgist meir. Allt mjög 2007.

Skiljanlega var Fréttablaðið gagnrýnt fyrir þetta, því einsog Illugi segir: „Ef fjölmiðlar hafa eitthvert hlutverk, þá er það að gagnrýna valdastéttina“ — en ekki „verðlauna valdastéttina“. Fréttablaðið er reyndar í eigu auðmanna, einsog kunnugt er, þannig að þó það stingi í augu ætti það kannski ekki að koma svo á óvart að auðmönnum og afrekum þeirra sé hampað í blaðinu. Afturámóti má spyrja hvað í fjandanum Skúli Mogensen var að gera í Áramótagleði Ríkisútvarpsins, fannst þeim að það þyrfti að auglýsa þetta eftirlæti Fréttablaðsins eitthvað betur?

Flokkur ársins: Framsókn. Þar með talið SDG & Wintris, Vigdís Hauks, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir (Panamaskjöl), skýrsla Vigdísar Hauks (sem blessunarlega er hætt á þingi), átök um formannsstólinn, tvístrað 100 ára afmæli flokksins. Og svo framvegis og svo framvegis.

Húsbyggingarframkvæmdir ársins: Hótelin, öll hótelin. Fleiri hótel! Og sólbaðsstofur! Og loðdýrarækt! Og videóleigur!

Airbnb ársins: allar þær ágætu íbúðir sem leigðar eru túristum á okurprís í gróðaskyni meðan húsnæðisekla er á höfuðborgarsvæðinu.

Kjörkassi ársins: Fljúgandi, fljótandi, siglandi kjörkassi Grímseyinga.

Leynivinaleikur ársins: Þegar Jóhannes Kr. Kristjánsson steig fram og settist við hlið Sven Bergman í Ráðherrabústaðnum.

Eiginkonur ársins: Anna Sigurlaug Pálsdóttir eiginkona Sigmundar Davíðs og Ingibjörg Kristjánsdóttir eiginkona Ólafs Ólafssonar.

Flugvallarrifrildið: Flugvöllinn burt en spítalinn verði eftir; spítalinn burt en flugvöllurinn kjurt. Eða eitthvað. Byggjum samt íbúðir fyrir Valsmenn á miðri flugbraut meðan við erum að ákveða okkur.

Ræða ársins: Þegar Óttar Proppé sagði „Guð blessi Ísland og allt það, en tröll taki þessa ríkisstjórn“ í ræðustól Alþingis í apríl síðastliðnum.

Óþægilegasta trúlofunin: Sami Óttarr Proppé þegar hann lét fallerast af Benedikt Jóhannssyni.

Trúlofunarslit ársins: Þegar Panamabræðurnir Sigmundur Davíð og Bjarni Ben hættu saman.

Sleipasti stjórnmálamaðurinn: Bjarni Ben. Icehot1, Falson aflandseyjafélagið, Borgunarmálið, Sjóvá/Milestone/Vafningur; ekkert festist við hann. Nú þegar þetta er skrifað þykist hann viss um forsætisráðherrastólinn.

Spæjó ársins: Vigdís Hauks sem skrifaði skýrslu um Steingrím Joð.

Spæjaður um ársins: Sigmundur Davíð, milli loftárása.

Viðtal ársins: Falsaða viðtalið með svarta filternum við fautann og leynivin hans þar sem RÚV reyndi að útrýma óskasyni Íslands.

Kjósendur ársins: Þeir sem merktu við Davíð Oddsson í forsetakosningunum, og sem stuðluðu að því að Bjarni Ben, Ólöf Nordal, Sigmundur Davíð og Þorgerður Katrín komust aftur á þing — þrátt fyrir allt.

Köttur ársins: Gosi kvennaskólaljón.

Vegaspotti ársins: Allir litlu vegaspottarnir milli vondu vegakaflanna og holuskreytta malbiksins.

Lýðheilsumarkmiðið: kleinuhringjastaðir, vantar ekki örugglega fleiri svoleiðis?

Máltíð ársins: fiskur undir fölsku nafni.

Tímahraksklúður ársins: Ríkissaksóknaraembættið sem skilaði ekki inn greinargerð í tæka tíð í ellefu ára gömlu máli. Það snerist um 3ja milljarða sem Hannes Smárason millifærði af reikningi FL Group til þess að Pálmi í Fons gæti keypt Sterling flugfélagið. Málið hafði verið rannsakað í átta ár en á lokametrunum gafst skyndilega ekki tími til að skrifa eina greinargerð. (Fá menn borgað fyrir að 'gleyma' að skrifa greinargerð?)

Afneitun ársins: Sigmundur Davíð í öllum flokkum sem keppt er í.

Fylgistap ársins: Píratar þegar talið var uppúr kjörkössunum.

Álitshrap ársins: Óttar Proppé og Björt framtíð.

Gamalmennagleðjarar ársins: Kettirnir á Hrafnistu í Kópavogi.

Gamalmennahrellir ársins: Fjármálaráðherra með öll sín svik við aldraða (og öryrkja líka, svei honum).

Harðasti iðnaðarmaður ársins: Halldóra Þorvarðardóttir 74 ára starfandi blikksmiður.

Myndlistarmaður ársins: Ragnar Kjartansson, sem einnig bauð sig fram í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir Vinstrihreyfingina - grænt framboð, auk þess sem hann sýndi í Bretlandi og er nú með sýningu í Bandaríkjunum við góðan orðtstír.





Efnisorð: , , , , , , , , , , , , ,

fimmtudagur, desember 29, 2016

Framsóknarflokkurinn skapaði mann

Í marsmánuði árið 2005 var Auðun Georg Ólafsson ráðinn fréttastjóri RÚV. Í þann tíð var hver starfsmaður Ríkisútvarpsins ráðinn af útvarpsstjóra sjálfum sem í þessu tilviki var sjálfstæðismaðurinn Markús Örn Antonsson. Það sem þótti gagnrýnivert við ráðninguna var í fyrsta lagi reynsluleysi Auðuns Georgs, og í öðru lagi að hann var tekinn framyfir fimm manns sem þóttu hæfir í starfið, og síðast en ekki síst að ráðningin þótti pólitísk og þarna væri Framsóknarflokkurinn að koma manni inn sem mundi „ekki vera með neinn sjálfkrafa uppsteyt gegn okkur framsóknarmönnum – sérstaklega ekki ef hann gerir sér ljósa grein fyrir því hverjum hann eigi starfið að þakka.“, eins og segir í ítarlegri úttekt Illuga Jökulssonar.

Það þótti semsé einsýnt að verið væri að koma framsóknarmanni að hjá Ríkisútvarpinu eingöngu vegna þess að hann væri framsóknarmaður en ekki vegna þess að hann væri hæfastur í starfið. Um þetta mál stóð mikill styrr, fréttamenn stofnunarinnar mótmæltu, Blaðamannafélag Íslands mótmælti, Alþjóðasamtök blaðamanna mótmæltu, og þegar Auðun Georg mætti loks til vinnu var það jafnframt síðasti dagurinn hans sem fréttastjóri því hann sagði (eftir ýmsar bommertur) af sér. Það þótti semsé einsýnt að verið væri að koma framsóknarmanni að hjá Ríkisútvarpinu eingöngu vegna þess að hann væri framsóknarmaður en ekki vegna þess að hann væri hæfastur í starfið. Um þetta mál stóð mikill styrr, fréttamenn stofnunarinnar mótmæltu, Blaðamannafélag Íslands mótmælti, Alþjóðasamtök blaðamanna mótmæltu, og þegar Auðun Georg mætti loks til vinnu var það jafnframt síðasti dagurinn hans sem fréttastjóri því hann sagði (eftir ýmsar bommertur) af sér.

Á þessum tíma var, séu heimildir mínar réttar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þáttastjórnandi og fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu.

Hvar stóð hann í þessu máli? Framsóknarþingmannssonurinn? Sveið Sigmundi móttökurnar sem Auðun Georg fékk? Reyndi hann að mótmæla andstöðu starfélaga sinan, leggja inn gott orð fyrir þann sem framsóknarmenn með dyggum stuðningi hins helmingaskiptaflokksins vildu í starfið? Var hann úthrópaður fyrir vikið, einangraður á vinnustaðnum? Hversu mikið situr þetta í Sigmundi?

Ég velti þessu nú bara upp svona til að taka þátt í samkvæmisleiknum Hvað í ósköpunum hrjáir Sigmund Davíð, og hversvegna hatar hann Ríkisútvarpið svona heitt? Bréfið sem hann birti í Mogganum (sem er fjölmiðill sem hann treystir) og aðrir fjölmiðlar hafa birt eða endursagt (og hægt er að lesa í heild á síðu SDG), gefur enn eina innsýnina í undarlegan þankagang Sigmundar.

Það er annars áhugavert að þarna árið 2005 skrifar Illugi að framsóknarmönnum finnist sem fréttastofan hafi lagt sig í einelti síðustu árin, og leggur þeim þessar hugsanir í munn:
„Og ætli það hafi ekki einmitt verið einelti fréttastofu Ríkisútvarpsins sem átti einhvern þátt í að við framsóknarmenn mælumst nú gang í gang með bara eitthvað kringum tíu prósenta fylgi? Þessu þarf að breyta – fréttastofan þarf að taka upp nýja háttu – þar sem okkur framsóknarmönnum er sýnd aukin virðing og vinsemd í fréttatímum – svo þar sé ekki sífellt verið að elta uppi allskonar óþægileg mál fyrir okkur framsóknarmenn.“

Er Sigmundur Davíð kannski sú afurð Framsóknarflokksins sem var ræktuð til þess að bera í sér öll særindi sem flokkurinn telur sig hafa orðið fyrir? Er hann skrímsli sem er samansafn allra ofsóknaróra og valdagræðgi Framsóknar? Það skýrir þó eitthvað.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, desember 27, 2016

Gerir dómskerfið ekkert í svo augljósri kúgun fórnarlambs og misbeitingu lögmannsréttinda?

Eru engin takmörk hvaða skítverk Sveinn Andri tekur að sér?

Það er algjörlega augljóst hver fékk hann til verka; það eru nauðgarar en ekki fórnarlömb nauðgara sem sækjast eftir þjónustu Sveins Andra.

Og það má ekki á milli sjá, hvor er meira ógeð, nauðgarinn eða lögmaðurinn sem aðstoðar hann við að þagga niður í fórnarlambinu – í hennar nafni. Veslings manneskjan.

___
Viðbót vegna viðbjóðs: Fjölmiðlar hafa nafngreint nauðgarann og heitir hann Stefán Þór Guðgeirsson. Hann hefur áður komið við sögu bloggsins; fékk fyrst um sig pistil þegar hann fékk dóm í Héraðsdómi Reykjavíkur og svo aftur þegar Hæstiréttur þyngdi dóminn.

Efnisorð: ,

sunnudagur, desember 25, 2016

Ráðleggingar fyrir jólaboð

Hér á eftir fara ráðleggingar um hverjum skal bjóða í jólaboð og hverjum ekki. Því miður kemur þetta kannski of seint fyrir suma, ég biðst velvirðingar á að tímaplanið mitt virðist eitthvað hafa skekkst, en það eru einhver jólaboð eftir hjá mörgum svo það er þá hægt að grípa í taumana áður en þau hefjast.

En ráðleggingarnar eru semsagt úr viðtali við bandarískan kardinála að nafni Raymond Burke. Hann var gerður að kardinála í tíð Benedikts páfa sextánda (sem áður hét Ratzinger) svo seint sem 2010. Hann hefur afturámóti verið í talsverðri uppreisn gegn Frans páfa því hann er ósáttur við linkind páfans í ýmsum efnum þar sem kaþólska kirkjan hefur verið með harða afstöðu hingaðtil. Viðtalið við Burke kardinála birtist árið 2014 á Life Site News, sem státar sig af því að vera mest lesna vefritið sem berst gegn fóstureyðingum (ég fann umfjöllun um viðtalið á þessari síðu, en man afturámóti ekki hver vísaði mér þangað). Life Site News er semsagt síða öfgasinnaðra hægri trúaðra. Og þar má finna þessar líka fínu ráðleggingar kardinálans.

Viðtalsbúturinn byrjar á því að Burke kardináli er spurður að því hvernig hann myndi svara spurningu hjóna sem spurðu kaþólska kirkjuþingið (e. Synod) hvernig þau ættu að bregðast við því að samkynhneigður sonur þeirra ætlaði að koma með kærasta sinn í jólamatarboðið.

Og í framhaldi af því er kardinálinn spurður hvernig kirkjusöfnuðir eigi að sama skapi bregðast við ef opinberlega samkynhneigð pör vilja taka sakramenti eða sækjast eftir leiðtogahlutverki innan safnaðarins.
„Þetta er mjög viðkvæm spurning, og verður enn viðkvæmari vegna árásargirni þeirra sem stunda áróður fyrir samkynhneigð. En maður verður að nálgast málefnið mjög yfirvegað og með fullur af trú, æðruleysi og sanngirni. Ef samkynhneigð sambönd eru sem slík brengluð, sem þau eru — skynsemi okkar og trú kennir það — hvað þýðir það þá fyrir barnabörn okkar ef ættingi okkar sem er í brengluðu sambandi mætir í fjölskylduboð? Við mundum ekki, ef það væri annarskonar alvarlega skaðlegt og brenglað samband, bjóða börnum okkar upp á það, að láta þau beinlínis verða vitni að því. Við ættum heldur ekki að gera það þegar um er að ræða fjölskyldumeðlim, sem þjáist ekki eingöngu af hneigð til eigin kyns heldur hefur kosið að uppfylla hana, að stunda hana, og framkvæma athafnir sem eru alltaf og allstaðar rangar, illar.

Og því eiga fjölskyldur að finna leið til þess að halda nánu sambandi við fjölskyldumeðliminn í svona tilvikum, son eða barnabarn eða hver það er —í því skyni að draga hann út úr þessu brenglaða sambandi.

Við vitum að þessháttar samband gerir einstaklinginn afar óhamingjusaman með tímanum. Og því er mikilvægt að halda eins nánu sambandi við hann og hægt er. En þessu tiltekna sambandsformi ætti ekki að vera þröngvað upp á aðra fjölskyldumeðlimi, og sérstaklega ekki áhrifagjörn börn. Og ég hvet foreldra, afa og ömmur — eða hvern sem er — að vera mjög klók í þessu máli og ekki hneyksla börn sín eða barnabörn.

Því er sífellt komið á framfæri í samfélagi okkar nútildags að hverskonar kynferðissambönd, hvað sem þér hentar — eða þú laðast að því — sé í lagi, sé rétt. En við viljum ekki að börnin okkar komist á þá skoðun, sem við gerum ef svo virðist sem við látum afar syndugar athafnir fjölskyldumeðlims óátaldar.

Þetta er sannarlega uppspretta mikilla þjáninga, en það felur alltaf í sér þjáningu að leitast við að gera hið góða og rétta. Og í svona tilfelli verður það örugglega þannig. En sú þjáning leiðir reyndar til frelsunar á endanum.

Þegar kemur að kirkjusöfnuðum er staðan mjög áþekk því söfnuðurinn er — ég held að það hafi verið heilagur Jóhannes Páll páfi annar, sem sagði eitt sinn, að söfnuðurinn er „fjölskylda sem samanstendur af fjölskyldum“. Þannig að ef meðlimur safnaðarins er opinberlega í samkynhneigðri og þar með syndugri sambúð, já þá ætti presturinn að reyna að halda góðu sambandi við þann aðila — eða þá báða ef þeir eru kaþólikkar — og reyna að hjálpa þeim til að yfirgefa þetta synduga samband og byrja að lifa skírlífi. Presturinn ætti einnig að hvetja þá til að mæta í messu á sunnudögum, biðja og gera aðra hluti við hæfi, í því skyni að reyna að vinna bug á þessari alvarlegu synd.

Þetta fólk sem lifir svona lífi getur vitaskuld ekki verið í neinskonar leiðtogahlutverki í söfnuðinum, því slíkt mundi gefa öðrum sóknarbörnum til kynna að samband þeirra sé sjálfsagt og eðlilegt. Því þegar við erum safnaðarleiðtogar, erum við á vissan hátt að bera því vitni hvernig hegðun samræmist því að vera kaþólikki. Og fólk sem lifir ekki í samræmi við kaþólska trú sína fær ekki leiðtogahlutverk. Það er til dæmis ekki beðið um að lesa úr ritningunni við messu — eða að takast á hendur annað leiðtogahlutverk — fyrr en það hefur leiðrétt stöðu sína og tekið sinnaskiptum, og er þá tilbúið í slíkt leiðtogahlutverk.

Það hneykslar safnaðarmeðlimi okkar annars vegar vegna þess hvað það þýðir fyrir grundvallarþátt í lífi okkar, kynverund okkar, og hvað hún er. Hins vegar er það ekki hollt fyrir þessar tvær manneskjur sem eru í brengluðu sambandi vegna þess að þær fara að halda að kirkjan samþykki á einhvern hátt það sem þær gera.“

Það verður að segja Frans páfa til hróss að hann hefur smám saman svipt Burke kardinála flestum embættum. En svona í alvöru, er ekki eitthvað galið við stofnun sem hampar svona manni upp í sess biskups og síðan kardinála?

Burke er því miður ekki eini kaþólikkinn með þessar skoðanir á hvernig lífi samkynhneigðu fólki lifir, og skoðanir hans eiga einnig hljómgrunn í fjölmörgum öðrum trúarbrögðum.

Vonandi eru þær þó á undanhaldi, og vonandi stimpast Frans páfi gegn þeim (allavega svona skítaáróðri) en eins og árið 2016 hefur verið má svosem vera að barátta forheimskunnar gegn samkynhneigðum eflist á næstu árum.

Efnisorð: , ,

laugardagur, desember 24, 2016

Dómurinn yfir nuddaranum

Skal nú áframhaldið skrifum um kynferðisbrot og dóma.

Ef þetta þykir óvenjulegt umræðuefni á þessum degi má í staðinn velta upp þeim möguleikum
- að hið velskipulagða bloggplan hafi raðast svona upp af einskærri tilviljun og nú sé einfaldlega kominn tími á að birta tilbúna pistla ef á annaðborð eigi að birta þá á þessu ári
- að bloggritari sé með samviskubit yfir að hafa ekki tekið þátt í 16 daga átaki gegn kynferðisofbeldi
- eða þá að það sé svona mikill jólastemmari í gangi.

Nema auðvitað að allt ofangreint eigi við.

En semsagt.

Tveir úrskurðir Hæstaréttar verða hér nefndir. Öðru málinu skilaði Hæstaréttur aftur í hérað því honum fannst ekki eins líklegt og héraðsdómurum að kona sem væri nýbúið að nauðga með einum hætti hefði sjálfviljug tekið þátt í annarskonar kynlífi strax í kjölfarið. Héraðsdómur sá ekki tenginguna og sýknaði nauðgarann af endaþarmsnauðguninni en þarf nú aftur að skoða málið, kannski jafnvel með kynjagleraugum.

Öfugt við sjúkraflutningsmálið rúmum áratug áður (sjá síðasta pistil) þá tók Hæstiréttur sig til og dæmdi nuddara í tveggja ára fangelsi fyrir að setja fingur í kynfæri konu sem var í nuddi hjá honum árið 2012. Nuddarinn neitaði auðvitað sök og kom með aðrar skýringar á athæfi sínu en var samt dæmdur. Það er ágætt að svo virðist sem að í minnsta kosti þessu máli hafi Hæstiréttur áttað sig á alvarleika kynferðislegs áreitis, ekki síst þegar brotaþolinn er í viðkvæmri stöðu. Fólk verður að geta treyst því að geta farið til lækna og sjúkraþjálfara og annarra fagmanna — eða vera ekið í sjúkrabíl — án þess að verða fyrir kynferðislegu áreiti, burtséð frá því hvað er almennt erfitt að verða fyrir því.

Ég man reyndar vel eftir umræðu um þetta nuddaramál þegar það kom í fjölmiðlum. Það þótti allsekki öllum það neitt alvarlegt að nuddarinn hefði gert þetta við konuna. Eva Hauksdóttir, yfirlýstur andfeministi, lét sér tildæmis sæma að hæðast að fórnarlambi nuddarans.

Nú skilst mér að Eva sé í laganámi, eða eða er hún kannski útskrifuð og farin að verja kynferðisbrotamenn að hætti Brynjars Níelssonar? Hann, Sveinn Andri Sveinsson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson yngri eru samherjar hennar í því að berjast gegn brotaþolum í kynferðisbrotamálum með öllum ráðum, niðurlægingarherferð ef þeim þykir það þurfa. Við hin fyllumst viðbjóði.

Efnisorð: , , ,

föstudagur, desember 23, 2016

Meðvitund og munnviksvatn

*Líklega er rétt að vara við lestrinum (sem ég man of sjaldan eftir að gera) því hér eru nokkuð nákvæmar lýsingar.*

Þegar ég hafði skrifað síðasta pistil rifjaðist upp fyrir mér gamalt mál þar sem kona kærði karlmann fyrir kynferðislega áreitni, hann var dæmdur í níu mánaða fangelsi í héraðsdómi fyrir kynferðisbrot og brot í opinberu starfi en Hæstiréttur sýknaði hann. Ég las dómana í gær og margt sem þar kom fram stakk mig mjög. Ég tek fram að ég þekki ekkert til málsins annað en það sem ég hef lesið mér til um, og veit því ekkert um sekt og sýknu þótt ég dragi mínar ályktanir og sé sammála öðru dómstiginu en ekki hinu. Þess má líka geta að fyrir héraðsdómi hafði ákærði einhvern nóboddí sér til varnar en í Hæstarétti var hann kominn með harðsnúinn verjanda sem nú situr á þingi og heitir Brynjar Níelsson.

Það er ágætt að vitna í blaðafrétt frá 2003 til að fá yfirlit um hvað málið snýst:
„Hæstiréttur sýknaði í gær sjúkraflutningamann af ákæru um að hafa áreitt kynferðislega konu sem flutt var frá heimili sínu á Landspítalann í ágúst árið 2001. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður dæmt manninn sekan.

Lífsýni sem tekin voru af brjósti konunnar og borin saman við blóðsýni úr manninum þykja ekki með óyggjandi hætti benda til að maðurinn hafi, líkt og konan hélt fram, sleikt brjóst hennar. Þá sakaði hún manninn einnig um að hafa káfað á lærum sínum og kynfærum. Konan hefur staðfest að hafa tekið inn lyf umrætt kvöld í þeim tilgangi að svipta sig lífi.

Í dómi Hæstaréttar segir að þegar litið sé til lýsinga mannsins á því hvað honum bar að gera samkvæmt starfsreglum þyki ekki útilokað að eðlilegar skýringar geti legið til þess að lífsýni úr honum fannst á brjósti konunnar, hvort sem það hafi komið úr munnvatni hans eða á annan hátt, en annarra gagna naut ekki við um ætlað áreiti hans. Þar segir ennfremur að ekki verði útilokað eins og aðstæðum var háttað að konan hafi getað mistúlkað athafnir mannsins.“
Hér á eftir er vitnað í dóma Héraðsdóms Reykjavíkur og Hæstaréttar (sem var kveðinn upp 15. maí 2003) en þá má lesa í sama skjalinu undir málsnúmerinu 544/2002 á síðu Hæstaréttar.

Málavextir eru semsagt þeir að í ágúst 2001 tekur kona inn lyf í þeim tilgangi að stytta sér aldur. Dóttir hennar kemur að henni og hringir á sjúkrabíl og lækni. Konan fyrirverður sig mjög fyrir þessa mislukkuðu tilraun og grúfir andlit í höndum sér þegar sjúkraflutningamenn koma á staðinn til að flytja hana á spítala. Hún virtist „með litla meðvitund“, „hjálpaði ekkert eða lítið til“ þegar var verið að færa hana í sjúkrakörfu til að bera hana út, og „hafi þeir eiginlega farið með hana eins og meðvitundarlausa manneskju“. Læknirinn fylgir með útí sjúkrabíl en fer ekki með á spítalann svo að sjúkraflutningamaðurinn, hinn ákærði, er einn aftur í hjá konunni. Fram kemur að hann er með latexhanska, að minnsta kosti meðan læknirinn sér til (sem skiptir máli síðar enda þótt ekki sé útskýrt hvort hanskarnir eigi að vernda hann fyrir sjúklingunum eða þá fyrir honum).

Hann setur á hana elektróður til að fylgjast með hjartslættinum. Þau greinir á um restina.
„Kærandi sagði að sig hafi bara langað til að sofna en sjúkraflutningamaðurinn hafi kallað til sín nokkrum sinnum og ýtt á bringuna á sér. Hún hafi ekki svarað honum og hafi þá orðið þess vör að hann kleip og þuklaði á vinstra brjóstinu á sér og muni að hún hugsaði hvort hann ætti að gera þetta til að athuga vökuástand hennar. Hún hafi verið fljót að ýta þeirri hugsun frá sér. Hann hafi haldið þessu áfram og þuklað bæði brjóstin og farið með höndina ofan í buxurnar og snert skapahárin en ekki farið neðar. Hún hafi stífnað öll upp og hann þá fært höndina. Hann hafi þá kallað aftur til hennar og ýtt aftur á bringuna á henni. Hún hafi ekki svarað honum og hann hafi farið með höndina strax upp á hægra brjóst og þuklað á sér þar. Síðan hafi hún orðið þess vör að hann nartaði í vinstri geirvörtuna. Þetta hafi ekki verið langur tími, en fyrir sér heil eilífð. Síðan muni hún eftir því þegar verið var að bakka að sjúkrahúsinu hafi hann staðið upp og glennt fætur sína í sundur, en hún hafi verið með bogna fætur, og síðan hafi hann káfað á lærum sínum og sköpum að utanverðu. Loks hafi hann lagt fæturna niður og lagað bolinn. Hún hafi allan tímann haft hendur fyrir andlitinu. Þegar sjúkraflutningamaðurinn hafi örugglega verið farinn hafi hún sagt hjúkrunarkonu frá því að hann hefði káfað á sér.

Hjúkrunarfræðingarnir, sem tóku á móti kæranda, sögðu fyrir dómi að hún hefði eflaust verið eitthvað undir áhrifum lyfja en ekkert „útslegin“, bara miður sín, og staðfestu að hún hafi strax sagt þeim að ákærði hefði leitað á sig. Þær töldu að sjúkraflutningamaðurinn hefði lýst meðvitund kæranda minni en þær upplifðu hana.

[H] læknir, sem síðan var kölluð til, kvaðst muna óljóst eftir atvikum. Tilfellið hafi verið tilkynnt sem lyfjaeitrun, en hún taldi þó að kærandi hefði rætt við sig með fullri meðvitund. Hún hafi sagt að sjúkraflutningamaðurinn hefði leitað á sig og sleikt geirvörturnar. Hún kvaðst ekki hafa viljað trúa þessu og þótt þetta út í hött og viljað spyrja hana um lyfin, sem hún hefði tekið, en kærandi hefði alltaf komið aftur að þessu. Þar sem hún var þetta stöðug í framburði sínum hafi hún kallað til geðlækni sem var á bakvakt.

[Þ] geðlæknir kvaðst muna greinilega eftir samtali við kæranda. Hún hafi verið ágætlega vakandi, ef til vill eitthvað merkt því að vera undir áhrifum lyfja. Hún hafi sagt sér frá því að sjúkraflutningamaður hefði þreifað á brjóstum sér og kysst þau. Hún hafi komist í uppnám við að segja frá þessu. Hann hafi rætt frekar við hana og síðan deildarlækninn og þar sem sagan sem kærandi sagði þeim hvoru í sínu lagi var samhljóða, hafi í raun ekki verið um annað að ræða en að senda kæranda á neyðarmóttöku.

[A] læknir, sem skoðaði kæranda á neyðarmóttöku Landspítalans í Fossvogi, hefur eftir henni líka frásögu um áreiti sjúkraflutningamannsins og aðrir. Segir í skýrslu hans að kæranda hafi liðið illa og grátið einkum þegar hún rifjaði atburðinn upp. Kærandi hafi virst eðlileg við almenna skoðun og hafi síðan verið tekin strok frá geirvörtum í von um að finna lífsýni úr munnvatni.“
Lífsýni fannst með DNA frá ákærða, þótt Hæstiréttur tæki ekki jafn mikið mark á þeirri niðurstöðu og Héraðsdómur Reykjavíkur gerði. (Ég rek ekki tæknilegu hliðina á því hér en bendi á að lesa dómana.)

Sjúkraflutningamaðurinn hafnaði lýsingum brotaþola og hélt því fram að hann hafi fylgt starfsreglum í einu og öllu (sem lýst er ítarlega í dómnum). Útskýring hans á því hvernig munnvatn hans hefði borist á brjóst konunnar var sú að „hann hefði þann kæk að þurrka sér um munnvikin með handarbakinu.“ Og svo bæta hæstaréttardómararnir við: „Þessi tilgáta hans virðist ekki hafa verið könnuð nánar.“ Kannski vegna þess að í héraðsdómi þótti þessi skýring fjarstæðukennd?

Er ekki annars merkileg tilviljun að það hittist svo á að konan ímyndi sér að maður, sem hefur einmitt þann kæk að þurrka sér um munnvikin með handarbakinu, skuli sleikja á henni brjóstin og skilja þar eftir munnvatn? Hversu óheppinn getur einn ákærður karlmaður verið? Jú, hann getur verið svo óheppinn að sjúklingurinn, sem hann telur að sé nánast meðvitundarlaus, er með nægilegri rænu til að taka eftir því sem fram fer.

(Og hér er tilefni til að spyrja: ef sjúkraflutningamenn eru með hanska til að verja sjúklingana, er þá ekki alveg galið að nota hanskaklæddar hendur til að þurrka úr munnvikunum á sér? Eða er almennt bara viðurkennt að það megi liggja munnvatnsslóð á líkömum sjúklinga eftir sjúkraflutningamenn eða heilbrigðisstarfsfólk?)

Hæstaréttardómararnir sýknuðu semsagt manninn og rökstyðja mál sitt þannig (í styttri útgáfu):
„Í niðurstöðu héraðsdóms er sagt að framburður kæranda sé helsta sönnunargagnið í málinu og því haldið fram að hún sé staðföst í þeim framburði sínum að ákærði hafi sleikt brjóst hennar og káfað á kynfærum þegar hún var flutt með sjúkrabifreið á Landspítalann við Hringbraut. Á það er bent að hún hafi strax sagt frá atvikinu er ákærði og samstarfsmaður hans voru farnir af sjúkrahúsinu og frásögn hennar hafi, samkvæmt framburði hjúkrunarfólks þar og á neyðarmóttöku Landspítalans, verið í samræmi við framburð hennar síðar fyrir dómi og skýrslugjöf hjá lögreglu. Þá er talið að trúverðugleiki kæranda styrkist af þeim ákveðnu vísbendingum sem fram komi um að ákærði hafi talið meðvitund hennar skerta. Þó ráði úrslitum að munnvatn úr ákærða hafi greinst á vinstra brjósti kæranda.“

„Þótt ásakanir kæranda á hendur ákærða hafi verið staðfastar verður að fallast á það með verjanda ákærða að nokkrar breytingar hafa orðið á frásögn hennar frá fyrstu skýrslutöku 19. ágúst 2001, bæði við skýrslugjöf hjá lögreglu 11. desember 2001 um nokkur atriði og síðar fyrir dómi varðandi stöðu brjóstahaldarans.“
(Minnispunktar til sjálfrar mín: ekki rugla neitt með stöðu brjóstahaldarans.)

„Þá hefur hún frá upphafi borið að hún hafi allan tímann haft hendur fyrir augunum og ekki séð athafnir ákærða heldur skynjað þær … Þótt hjúkrunarfræðingarnir sem fyrst sáu hana á sjúkrahúsinu beri að hún hafi verið með meiri meðvitund en sjúkraflutningamennirnir sögðu þeim, liggur ekkert fyrir um veruleikaskyn hennar meðan á flutningi þeirra stóð.“

„Vitnið A, sem ók sjúkraflutningabifreiðinni, varð einskis óvenjulegs var og sat hann þó rétt fyrir framan kæranda og ákærða og gat fylgst að hluta með því sem fór fram á milli þeirra um baksýnisspegil bifreiðarinnar. Kærandi vissi samkvæmt framburði sínum af honum en lét ekkert vita af ætluðu broti.“
Algengt er að fólk frjósi þegar það verður fyrir kynferðisofbeldi og konan segist hafa orðið stjörf. Hún var auk þess vægast sagt ekki í sínu besta formi — skammaðist sín reyndar svo mikið að hún hélt fyrir andlitið allan tímann — en átti semsagt að æpa á bílstjórann þegar starfsfélagi hans var að misnota aðstöðu sína?

„Þegar litið er til lýsinga ákærða á því hvað honum bar að gera og athöfnum hans í greint sinn þykir ekki útilokað að eðlilegar skýringar geti legið til þess að DNA-snið úr ákærða fannst á vinstra brjósti kæranda, hvort sem það var komið úr munnvatni hans eða á annan hátt. Annarra gagna nýtur ekki um ætlað áreiti ákærða við kæranda. Verður ekki útilokað eins og aðstæðum var háttað að kærandi hafi getað mistúlkað athafnir ákærða.

Af því sem að framan er rakið leiðir að ákæruvaldinu hefur ekki tekist að sanna sekt ákærða.“
Það er ekki útilokað að það séu eðlilegar skýringar á því að munnvatn karlmanns finnist á brjósti konu sem hann er að setja elektróður á. Það er oftúlkun að það skipti máli að DNA-ið er úr ákærða (eins og einnig kemur fram í dómnum). Það getur hafa komið DNA úr ákærða á annan hátt en með munnvatninu. Þetta eru allt frábær rök.

Hér kemur svo tengingin við síðasta pistil: Heldur einhver að ef sjúkraflutningamaðurinn væri gamall hommi en sjúklingurinn á sjúkrabörunum 17 ára strákur, að frásögn sjúklingsins yrði ekki tekin trúanleg? Eða að það þýddi eitthvað að vera með einhverja útúrsnúninga á því hvernig munnvatn gat borist á líkama hans?

Ég er nokkuð viss um ekki.

Efnisorð: ,

miðvikudagur, desember 21, 2016

Það er ekki sama hvers kyns er

Það eru víst fleiri en ég sem eru hlessa yfir dómnum sem var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur yfir nafngreindum manni sem fékk skilorðsbundinn dóm (merkilegt annars að skilorðsbundinn 2ja mánaða dómur skuli verða til þess að hann er nafngreindur) fyrir að áreita tvo 17 ára unglingspilta kynferðislega í heitum potti í Laugardalslaug. Hann hafði uppi kynferðislegt tal við þá báða og hann togaði í sundbuxur annars piltsins. Þeim pilti voru gerðar 600 þúsund í miskabætur, hinn sem slapp við það en varð þó fyrir kynferðislega talinu voru gerðar 400 þúsund í miskabætur.

Nú hef ég svosem engar sannanir heldur heyrði bara orðróm (og get eingöngu vísað í tvær stuttar frásagnir á netinu), en árum saman vissu allar stelpur sem stunduðu Sundhöllina að þær þyrftu að vara sig á einum kallinum þar. Ég get auðvitað ekki fullyrt að sundlaugarverðir hafi vitað um hann, en það var allavega ekkert gert. Það voru auðvitað aðrir tímar og allt það, en það vill bara svo til að enn í dag geta karlmenn komist upp með að káfa og áreita kvenfólk á öllum aldri án þess að lenda í verulegum vandræðum. Þeir eru allavega ekki dregnir fyrir dómstóla nema í undantekingatilvikum, því kerfið (löggan) stoppar kærur af þegar þær berast. Og ég sæi einhverja stelpu fá 400 þúsund í miskabætur fyrir að þurfa að hlusta á einhvern kall segjast vilja gera við hana kynferðislega hluti. Eða að stelpa fái 600 þúsund fyrir að einhver kippi til fötunum hennar, sama hversu fáklædd hún er. Stelpur sem færu með slíkt til löggunnar væru eflaust gerðar afturrækar. Já svona eins og þær sem reyndu að bera sig upp við lögguna eftir að hafa orðið fyrir áreiti af einhverju ógeði, eins og segir frá í rúmlega ársgamalli frétt.
„Hann eltir þær heim, káfar á þeim, situr fyrir þeim, sleikir sumar á kinnina. Minnst á fjórða tug íslenskra kvenna á öllum aldri hefur þurft að þola síendurtekið kynferðislegt áreiti af hálfu karlmanns á fertugsaldri á undanförnum árum. Áreitið hefur líka átt sér stað á Facebook, í síma og með smáskilaboðum. Í sumum tilfellum hefur það staðið yfir í nokkur ár. “
Á fjórða tug kvenna, og að minnsta kosti tvær tilkynningar borist til lögreglu, og hvað er gert?
„Hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fengust þær upplýsingar að tvær tilkynningar hefðu borist á þessu ári vegna mannsins. Þung sönnunarbyrði gerir kærendum þó erfitt fyrir vilji þeir tilkynna mál af þessu tagi og má af samtali blaðamanns við lögreglu draga þá ályktun að brot mannsins þurfi að vera grófari áður en gripið er í taumana.“
Aha.

En hann er ekki hommi. Og hann er ekki að áreita unglingspilta. Það er auðvitað allt öðru vísi með gangkynhneigða karla sem áreita konur. Það er bara eitthvað sem gerist, því þær eru sætar og hann graður eða hömlulaus vegna þess að það er eitthvað að honum. En vei þeim sem segir eitthvað kynferðislegt í eitt sinn við tvo stráka og kemur við annan þeirra. Það er lögreglumál. Dómsmál. Blaðamál. Skaðabætur. Nafnbirting í blöðum. Því það verður jú að vara stráka við honum, annars gætu fleiri lent í honum.

Ég vil auðvitað ekkert að fleiri lendi í honum, eða neinum öðrum köllum. Eða að strákar séu áreittir í sundi eða hvar sem er. Ekkert frekar en ég vil að stelpur séu áreittar. En það er tryllingslega áberandi munur á því hvernig er tekið á málum eftir því af hvaða kyni brotaþoli er og af hvaða kyni — og þá sérstaklega kynhneigð kynferðisbrotamaðurinn er.

Mættum við þessar af kvenkyninu biðja auðmjúklega um að fá sömu meðferð og strákar fá þegar þeir kæra samkynhneigða karla?

Efnisorð: , , , ,

sunnudagur, desember 18, 2016

Viðreisn er ekki miðju-Viðreisn heldur hægriflokkur með hægrimannaáherslur

Mikið varð ég fegin þegar ég sá grein (og greiningu) Karls Th. Birgissonar í Stundinni. Hann er þar að ræða Viðreisn sem hægri flokk, en ég var farin að halda að enginn nema ég tæki eftir því að Viðreisn er enginn miðjuflokkur heldur hægriflokkur. Með fólk eins og Pawel Bartoszek innanborðs finnst mér reyndar að megi tala um Viðreisn sem frjálshyggjuflokk (frést hefur af fólki sem rak upp stór augu þegar Pawel flutti gamla Ayn Rand möntru um að skattar séu ofbeldi, eins og hann hafi ekki skrifað á netið árum saman) og þegar Hanna Katrín Friðriksson bætist við (sem var aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs þegar hann sem heilbrigðisráðherra undirbjó einkavæðingu heilbrigðiskerfisins) hefur mér fundist undarlegt að einhver álíti Viðreisn vera miðjufólk. Og er Þorgerður Katrín kannski ekki hægrimanneskja (sem aðhyllist frjálshyggju að miklu leyti), eða Þorsteinn Pálsson? Þegar flokkurinn er meira og minna samsettur af fyrrverandi Sjálfstæðismönnum og ráðherrum þess flokks, þá er afar sérkennilegt að álíta hann miðjuflokk.

Nema hvað, Karl Th. rekur hvernig Viðreisn var stofnuð vegna óánægju sjálfstæðismanna vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hætti við að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB. Einnig hafi fólkið sem fór yfir til Viðreisnar vegna þess að það vildi „í alvöru laata einkaframtak og frjáls viðskipti ráða för“ en dekstra ekki við sérhagsmuni „ákveðinna atvinnugreina og jafnvel einkahagsmun[i] tiltekinna fjölskyldna“. Og svo vilja Viðreisnarmenn „koma skikki á eilífðarvandamálið, gjaldmiðilinn“.
„Með öðrum orðum sagt: Við erum raunverulegir sjálfstæðismenn, raunverulegir talsmenn viðskipta og frjálsar samkeppni sem vinnurí þágu almannahagsmuna.
Undirtónninn var líka þessi: Við erum allt það sem Davíð Oddsson er ekki.
Að þessu leytinu spratt Viðreisn fram sem klassískur hægri flokkur sem aðhylltist frjáls, alþjóðleg viðskipti og markaðslausnir.“
Karl Th. segir að í sjávarútvegsmálum vilji Viðreisn lágmarks breytingar á sjávarútvegsmálum, sem sé klassísk hægri stefna: „sem sagt að reyna að koma á friðið og sátt um umdeilda atvinnugrein með því að gera lágmarksbreytingar sem skipta eingum sköpum fyrir þá sem eiga og reka fyrirtækin, bjóða varla upp á viðunandi lausnir …“ Aðhaldsstefna í ríkisfjármálum, sem Þorsteinn Víglundsson núverandi þingmaður Viðreisnar og áður framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, boðaði vegna þenslunnar í efnahagslífinu, er einnig klassísk sjónarmið hægri mannsins: „Á þenslutímum má ríkið ekki útgjöld og þarf helzt að draga þau saman … Hin hliðin á þessari skoðun er svona: Á samdráttartímum — hvað þá í kreppu — má ríkið ekki auka útgjöld sín af því að ekki eru til nægar tekjur…“

„Þið getið valið ykkur efnahagsástand, ágætu lesendur,“ segir Karl Th., „en niðurstaða hægri mannsins er alltaf hin sama: Ríkið þarf að draga úr útgjöldum sínum svo að ekki fari illa.“ Niðurstaða Karls er að grein Þorsteins Víglundssonar sé „skýrt dæmi um að Viðreisn er hægri flokkur í allri hefðbundinni merkingu þess hugtaks. Um það verður varla deilt.“

Og þá kemur Karl Th. loksins að þeim punkti sem átti að verða aðalinntak pistlis míns, en það eru stjórnarmyndunarviðræður undanfarinna vikna. Ég vitna hér í grein Karls ekki bara vegna þess að hann rökstyður afhverju hann skilgreinir Viðreisn sem hægriflokk, heldur vegna þess að hann kemst að sömu niðurstöðu og ég:
„Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að illa gangi hjá Viðreisn og Vinstri grænum að mynda saman ríkisstjórn“.
Einhverra hluta vegna hefur því verið ítrekað haldið fram að það sé VG að kenna að ekki hafi tekist að mynda ríkisstjórn fimm flokka, en Viðreisn hafi verið ægilega tilbúin til þess, sérstaklega í seinni tilrauninni. Fyrri tilraunin fór út um þúfur vegna þess að Viðreisn átti ekkert erindi í vinstristjórn undir forystu Vinstri grænna, og vildi ekkert vera þar. Síðari tilraunin var öllu skrítnari, þegar Píratar stjórnuðu ferðinni. Þá virtist Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar vera komin með sömu tök á Pírötum og Samfylkingu og hann hefur nú þegar á Óttarri í Bjartri Framtíð. Þá er ég ekki að tala um neitt ofbeldi.

Benedikt Jóh. er, eins og Karl Th. lýsir,
„fyrst og fremst viðskiptamaður, en af fágaðri skólanum, þeirri tegund sem hefur lesið bækur og býr yfir launfyndni sem þeir einir geta beitt sem hafa notið alvörumenntunar.
Benedikt getur lesið texta sér til gagns sem Bjarni frændi hans hefði ekki einurð til, og óvíst er hversu vel myndi skilja.“
Með öðrum orðum: Benedikt hefur sjarmerað Óttarr upp úr skónum, er á hans plani í húmor. Í stjórnarmyndunarviðræðum töluðu Píratar um að nú væru þau öll búin að kynnast mikið betur: nýju mennirnir voru Samfylkingarformaðurinn Logi og svo Benedikt. Og þetta fólk náði allt svona prýðilega saman, enda Benedikt skemmtilegur (eins og pistlar hans sem ég hef oft lesið bera vitni). Píratar, sem ég hef alltaf haft grunaða um frjálshyggju, voru því enn ginnkeyptari fyrir því að binda trúss sitt við Viðreisn, og Samfylkingin er aðallega þakklát fyrir að fá að vera með (og svo er Logi kannski stemningsmaður, vill vera þar sem gaman er) svo þetta stefndi allt í þetta líka ágæta samstarf. Samstarf til hægri. En Katrín, sem ég held seint að teljist fúllynd og ófélagslynd, er kannski örlítið prinsippfastari en svo að hún kasti hugmyndum um fjármögnun heilbrigðiskerfisins og annarra innviða samfélagsins í skiptum fyrir blik í auga. Og þar mætti viðskiptamaðurinn Benedikt viðsemjanda sem hefur ekki gleymt tilgangi sínum.

Áhersla Vinstri grænna er á að auka verulega framlög til velferðar-, heilbrigðis-, samgöngu- og menntamála — og til þess þarf að afla fjár. „Vinstri græn hafa ekki verið hrædd við að stinga upp á leiðum til að fjármagna samneysluna“, en hvorki aukin ríkisútgjöld né leiðirnar sem Vinstri græn vilja fara til fjármögnunar hafa fallið Viðreisn í geð.

Eigi að kenna Vinstri grænum eða Katrínu um að hafa eyðilagt þetta fyrirhugaða fimm flokka samstarf, þá segi ég: Það skiptir máli hvernig ríkisstjórn þessir fimm flokkar mynda. Ef hún væri afgerandi til vinstri væri það fínt. En ef Viðreisn réði för og allir hinir hallast til hægri með þeim, þá eiga félagshyggjusjónarmið ekki góðan hljómgrunn. Ég vona að það endi ekki með að Vinstri græn fari í ríkisstjórnarsamtarf við Sjálfstæðisflokkinn. En ég sé ekki fyrir mér að það sé skárra að vera hornreka í stjórnarsamstarfi við Viðreisnar-Bensa og fylgihnetti hans.

Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, desember 15, 2016

Munurinn á r og t

Með morgunmatnum eru lesnar kjötauglýsingar stórfyrirtækja. Heilsíðuauglýsing frá Hagkaup vakti sérstaka athygli mína í morgunsárið. Þar má sjá A) fölsk formerki, B) verksmiðjubúskap kynntan með ‘beint frá bónda’ stemningu, C) skemmtilega villu sem afhjúpar hið fyrra.

A) Afhverju er hamborgarhryggur undir fyrirsögninni Villibráð í miklu úrvali? Neðst á síðunni kemur fram að Hagkaup láti „framleiða sérstakan hrygg“. (Veit Kári af því að hægt er að rækta hrygg án höfuðs, fóta og innyfla?) Er framleiddi hryggurinn = villibráð?

B) Svínabóndinn á Vallá á Kjalarnesi hefur um árabil verið með risastórt svínabú. Það má vera að það komist ágætlega frá (hinu stranga eða hittþóheldur) eftirliti Matvælastofnunar, en það er ekki þar með sagt að svínin lifi í vellystingum pragtuglega. Aldrei hefur mér vitanlega sést til svína í útiveru á Kjalarnesi og gyltur eru þar þrautpíndar til undaneldis jafnt sem í öðrum verksmiðjubúskap.

C) Allt þetta afhjúpast reyndar í auglýsingunni þar sem stendur að grísinn (nú hamborgarhryggurinn) hafi verið alinn „í góðu yfirlæti við kjötaðstæður“. Einmitt, það er eingöngu litið á grísina sem kjöt og þeir meðhöndlaðir sem slíkir. Að þeir séu sagðir séraldir, fóðraðir á einhverju góðgæti og í góðu yfirlæti gefur til kynna einhvern heimalning sem allir knúsa og kjassa. Bágt á ég með að trúa að það sé raunveruleikinn sem hamborgarhryggurinn séraldist upp við meðan hann var lifandi dýr sem aldrei andaði að sér fersku lofti.

Þótt þetta sé hlægileg auglýsing finnst mér ekkert fyndið að svínakjöt seldist sem aldrei fyrr um þetta leyti í fyrra. Var þó nýbúið að koma upp um ógeðslega meðferð á gyltum í svínarækt.

Verði þeim að góðu sem vilja halda áfram að styðja verksmiðjurækt svínabænda og kjötaðstæður dýranna.






Efnisorð: ,

miðvikudagur, desember 14, 2016

Aleppo

Að vita af þessu veslings fólki í Aleppo sem kemst ekki burt — er meinað að flýja — og svo eru aftökur á konum og börnum … 

Þetta er ólýsanlegur hryllingur.

Efnisorð:

mánudagur, desember 12, 2016

Enginn hörgull á ummælum rasista

Hælisleitandinn sem kveikti í sér lést í dag. Það er hræðilegt að vita til þjáninganna sem hann hlýtur að hafa liðið.

Ekki er opið fyrir athugasemdir við fréttir um dauða hans hjá DV eða Vísi. Þessir fjölmiðlar fylgdust aðgerðarlausir með um daginn þegar hæðst var að hælisleitandanum í athugasemdum við fréttir af örþrifaráði hans.

Eftir að ég birti sum þessara ummæla í síðasta bloggpistli bættust fleiri við, og þá við frétt á DV þar sem sagði frá hatursfullum ummælum við fyrri fréttir. Semsagt: DV gerir frétt um ógeðslegu kommentin sem þeir sjálfir leyfðu. Og þá bættist í hópinn á nýju fréttina. Það magnaða er að þeim var ekki eytt úr athugasemdakerfi DV heldur standa þar enn þegar þetta er skrifað. Það er með miklum ólíkindum. Hér eru þau svæsnustu.


Birkir Jónsson:
„Ég ætla að þakka manninum fyrir að hafa kveikt í sjálfum sér aðeins, en ekki heilum skóla, öðru fólki eða valda öðrum skaða. Ekki víst að aðrir hugsi svona og skaði annað saklaust fólk frekar.“

Guðrún Ruiz Lennert:
„Því fallegt af honum að lýsa það svona upp fyrir okkur (stolið hér að ofan).“

Guðrún Ruiz Lennert:
„Kærleikur minn endar þar sem íkveikjan byrjar.
Pínu djók, enda endar kærleikur minn töluvert fyrr.“

Jon Valgeir Páls:
„var hann ekki nogu svartur fyrir?“

Sigurður Jón Kristmundsson:
„Þetta hefur orðið til að kynda undir eldfimt umræðuefni.“


Hafi þetta fólk einhverja samvisku (sem ég efast um) ætla ég rétt að vona að þau hafi iðrast þegar þau fréttu að maðurinn sem þau hæddust að lést af sárum sínum. Eða kipptu þau sér ekkert upp við fréttina?



Efnisorð: ,

miðvikudagur, desember 07, 2016

Flest verður rasistum að gleðiefni

Fréttin um að hælisleitandi hefði kveikt í sér og hefði brunnið illa vakti með mér sorg og hrylling. Veslings maðurinn að líða svo illa að sjá þetta sem sitt eina úrræði.

Svo hugsaði ég ekkert um þetta í marga klukkutíma, svona eins og oft er með fréttir sem þó hreyfa við manni. En svo gerði ég þau mistök að lesa frétt um þennan atburð á Vísi — og athugasemdirnar. Mér ofbauð alveg en setti undir mig hausinn og las líka athugasemdir á DV. Nú veit ég auðvitað ekkert hvort allt þetta fólk er að skrifa undir réttu nafni, en ef svo er þá vil ég að orð þeirra séu vandlega skrásett. Hugsunarháttur þeirra sem svona skrifa er hræðilegur.


Guðjón Jónsson, á DV:
„Það er ekki verið að spara bensínið, og ríkið borgar það fyrir hann.“

Gummi Jóns, á DV:
„Um að gera að lýsa upp skammdegið.“

Karen Anna Sveinsdottir, á DV:
„Andskotin er buið að slökkva eg sem ætlaði í bónus og ná í Sykur púða. Hringja svo í árna johnesen djöful jæja verð þá bara að bíða til næstu þjóðhátíðar“

Lúðvík Finnsson, á DV:
„Hann er hepinn að velja þennan tíma þvi bensínið á að hæka um áramótin.“

Lúðvík Finnsson [aftur, svar við athugasemd], á DV:
„Þessi hundur var örugglega minna þjófótur en sumir hælisleitendurnir.“

Lúðvík Finnsson [aftur, svar við athugasemd], á DV:
„Ég þarf ekkert að skammast mín þetta fólk kemur mér ekkert við og má kveikja í sér ef það vill.“

Ragnar Þóroddsson, á Vísi:
„setja þá alla á áramótabrennurnar!!!!!“

Svanur Eliasson, á Vísi:
„Úr landi með þetta helvítis pakk. Kyndlar sem ekki kyndlar. Þetta er að verða þvílíkur ófögnuður sem maður gæti orðið heitur út í vegna djðfuls frekju.“


Fleiri rasistar viðruðu skoðanir sínar en ekki af slíkri gengdarlausri mannfyrirlitningu.






Efnisorð: ,

föstudagur, desember 02, 2016

Myndlistaroktóber kynntur (örlítið seint) til sögunnar

Dagur myndlistar er haldinn árlega í október en þetta árið var allur októbermánuður tekinn undir að vekja athygli á starfi myndlistarmanna. Þetta fór reyndar framhjá mér þar til langt var liðið á mánuðinn og vegna þess að kosningarnar (hér á landi og í Bandaríkjunum) áttu hug minn allan tókst mér ekki að skrifa um sýningarnar sem ég þó sótti; ég fór semsagt bara á sýningar en ekki á vinnustofur listamanna. Mér fannst samt ekki annað hægt en sjá að minnsta kosti nokkrar sýningar enda er fátt betra til að útiloka umheiminn en fara á myndlistarsýningar. Nema auðvitað þegar myndlistin tekur uppá því að reka veruleikann harkalega framan í mann, sem hún gerir oft.

Í október heimsótti ég semsagt tvö lítil sýningarrými og þrjú söfn.

Á Kjarvalsstöðum var Kjarval sjálfur að vanda í Austursal en Hildur Bjarnadóttir með sýninguna Vistkerfi lita í vestursalnum. Lengi hef ég haft dálæti á Hildi og þessi sýning er algjört yndi.

Alltannar veruleiki var í Harbinger (listamannarekið sýningarrými á Freyjugötu 1) þar sem Unnar Örn Auðarson sýndi ljósmyndir sem fjalla um óeirð og hét sýningin Þættir úr náttúrusögu óeirðar. Þarna æstist upp í mér byltingamaðurinn.

Af einskærri forvitni en ekki vegna aðdáunar á Guðbergi Bergssyni gerði ég mér ferð í Bókasafn Mosfellsbæjar þar sem sýnt var úr smáverkasafni Guðbergs, og hét sýningin Að safna og hafna. Öllu áhugaverðari eru verk úr einkasafni Rögnu Róbertsdóttur og Péturs Arasonar sem eru sýnd í Listasafni Íslands við Fríkirkjuveg. Verk eftir íslenska listamenn á borð við Birgi Andrésson og Steingrím Eyfjörð eru þar í bland við mismikið kunnuglega en þó heimsþekkta útlendinga; frægasta nafnið er líklega Yoko Ono.

Í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur í Grófinni eru nokkrar áhugaverðar sýningar. Erró er kominn á jarðhæðina og þar eru verk sem tengjast stríði og friði. Á hæðinni fyrir ofan er meira stríð. Írinn Richard Mosse sem dvaldist meðal uppreisnarmanna í Lýðveldisinu Kongó í fjögur ár. Ljósmyndir hans og videóinnsetning höfðu afar mikil áhrif á mig.

Yoko Ono er víða. Hún er með tvo sali í Hafnarhúsinu og breiðir úr sér á göngunum. Annar salurinn er aðallega með verk sem hún fékk íslenska listamenn til að gera með vatn í huga. Hinn er eins og leiksvæði því þar mega áhorfendur að taka þátt í að gera allskonar hluti, allt frá því að skrifa fallegt um mömmu sína til að negla nagla í vegg. Á ganginum fyrir framan er svo til sýnis frásagnir fjölmargra kvenna sem svöruðu auglýsingu frá Yoko Ono sem hljóðaði svona:
„Til allra kvenna, hvar sem er í heiminum: ykkur er boðið að senda inn frásagnir af meinum sem ykkur hafa verið unnin fyrir það eitt að vera konur.

Skrifið frásagnirnar á ykkar eigin tungumáli, með ykkar eigin orðum og eins opinskátt og þið viljið. Merkið með skírnarnafni ef þið viljið, en notið ekki fullt nafn.

Sendið mynd sem aðeins sýnir augu ykkar.“
Það er mjög magnað og mjög erfitt að lesa þessar sögur, jafnvel þótt maður gefist upp og fari án þess að lesa nærri allar.

Síðasta þátttökuverk Yoko Ono er svo einnig á ganginum skammt frá. Þar eru tré og býðst gestum að skrifa óskir sínar og hengja á trjágreinarnar. Margar óskanna eru um frið.


Úr því ég ekki skrifaði um þessa yfirreið mína um listalífið í október hefði ég kannski bara átt að geyma það fram á næsta ár í stað þess að æsa upp listaáhuga lesenda nú þegar enginn hefur tíma til annars en undirbúa jólin. En þar sem að sumum sýninganna lýkur um áramótin (öðrum er löngu lokið) finnst mér ekki annað hægt en bjóða áhugasömum þann möguleika að laumast inn á listasafn og hugsa um eitthvað allt annað, mitt í öllu jólastressinu. Það er kannski ekki óvitlaust að nota bara þessa helgi í það.


Hafnarhús: Richard Mosse, til 1. janúar 2017
Kjarvalsstaðir: Hildur Bjarnadóttir, til 8. janúar 2017
Hafnarhús: Erró, til 22. janúar 2017
Hafnarhús: Yoko Ono, til 5. febrúar 2017
Listasafn Íslands: Valin textaverk úr safni Péturs Arasonar og Rögnu Róbertsdóttur, til 26. febrúar 2017

Efnisorð:

fimmtudagur, desember 01, 2016

Andað léttar og fáni dreginn að hún

Í dag var flaggað fyrir því að Vinstrihreyfingin – grænt framboð og Sjálfstæðisflokkurinn fara ekki í ríkisstjórnarsamstarf. Annars mætti þessu spennuástandi fara að ljúka. Ekki með frjálshyggjustjórn samt.




Efnisorð: