laugardagur, júní 29, 2019

Þegar Jakobínar eru orðnir ráðherrar, eru þeir ekki framar jakobínskir ráðherrar

Það er merkilegt að bók sem er skrifuð fyrir níutíu árum sem fjallar um atburði sem gerðust í og eftir frönsku byltinguna á átjándu öld minnir á köflum á atburði sem hafa átt sér stað — eða eru enn að eiga sér stað — í samtímanum. Höfundur bókarinnar, Stefan Zweig,* segir reyndar að kommúnisminn hafi komið fram í fyrsta sinn árið 1793 (bls. 27), og virðist hafa rússnesku byltinguna og byltingarforingja hennar talsvert í huga meðan hann skrifar bókina. Hann setur tildæmis samasemmerki milli hinna frönsku Jakobína, sem voru róttækir byltingarsinnar, og sósíalista 20. aldarinnar.

En þá að nokkrum þeim atriðum sem eiga enn að einhverju leyti við um vora daga. Þegar hér er komið sögu er byltingin afstaðin og komið árið 1895 eða þar um bil.
„Nýtt vald er að koma undir sig fótum í Frakklandi og þess þjónn ætlar Fouché sér að verða. Þetta nýja vald eru peningarnir. Naumast hefur gröfin gleypt Robespierre og liðsmenn hans, þegar peningarnir eru orðnir alls ráðandi og hafa þúsundir þjóna og þræla til að stjana við sig. Nú sjást aftur á götunum viðhafnarmiklir vagnar, sem fallegir hestar með skínandi aktýgjum gagna fyrir, og í vögnunum sitja yndislegar konur í skrjáfandi silkikjólum, hálfnaktar eins og grísku gyðjurnar. Æskulýðurinn, skrautlega búinn, í hvítum, þröngum nankinsbuxum og gulum, brúnum eða rauðum jökkum, lætur fákana spretta úr spori í Boulogne listigarðinum. Hringskreyttar hendur sveifla svipum gulli búnum og láta þær oft ríða á þeim, sem áður stóðu fyrir ofbeldisverkunum. Í snyrtivöru- og gimsteinaverzlunum er þröng mikil og á örskömmum tíma þjóta upp fimm hundruð, sex hundruð, þúsund dans- og skemmtiskálar. Skrautleg hús eru byggð og keypt, fólkið þyrpist í leikhúsin, brallar, veðjar, kaupir, selur og spilar fjárhættuspil innan við silkidyratjöld Palais Royals. Gullið er komið aftur — ósvífið, aðgangsfrekt og drýldið.

En hvar voru peningarnir í Frakklandi á árunum 1791-1795? Þeir voru þar, en þeim var leynt alveg eins og í Austurríki og Þýzkalandi 1919, er auðmennirnir klæddust tötrum og kveinuðu um fátækt sína vegna óttans við að kommúnistar létu greipar sópa hjá þeim. Á meðan Robespierre réði lögum og lofum, var hver maður grunsamlegur, sem eitthvað barst á. Þá var auðurinn aðeins til óþæginda. En nú má enginn sín neins nema sá, sem hefur gnægð fjár. Og svo vel vill til — eins og ávallt þegar er á ringulreið — að ágæt tækifæri bjóðast til þess að safna fé. Fjármunir skipta um eigendur — fasteignir eru seldar — það gefur gróða, jarðeignir útflytjendanna eru boðnar upp, — á því er hægt að græða. […]

Og svo er hin óþrjótandi auðuppspretta. Árið 1791 höfðu nokkrir menn — alveg eins og 1914 — komist að þeirri niðurstöðu, að hægt væri að hagnast vel á styrjöld, þessari mannætu, sem allt leggur í rúst. En nú […] rann upp gullöld braskaranna og birgðasala hersins. […]

Og vegna hinna góðu „sambanda,“ sem Fouché hefur nú við hina nýríku annars vegar og hina spilltu ríkisstjórn hins vegar, stofnar hann nú nýtt félag, sem á að annast um birgðaúthlutunina til Scherers hersins. Liðsveitir þessa hrausta herforingja fá lélegan skófatnað og skjálfa í skjóllitnum hermannakápunum. Þær bíða ósigur á sléttunum á Ítalíu. En hverju skiptir það? Mestu varðar, að Fouché, Hinguerlot-félagið og sennilega Barras sjálfur hafi sínar vissu tekjur. Nú er hann farinn, viðbjóðurinn sem Fouché, róttæki Jakobíninn og kommúnistinn, hafði á hinum „fyrirlitlega skaðsemdarmálmi“ þremur árum áður og hafði svo mörgu orð um, nú eru gleymd ókvæðisorðin, sem hann lét dynja á hinum illviljuðu auðmönnum, og nú er það gleymt, að „hinn sanni lýðræðissinni þarf ekki annað en brauð og járn og fjörtíu ecus í daglaun.“ Nú er um það eitt að ræða að verða loks sjálfur ríkur. […]

Enn hafa hin viturlegu orð Mirabeaus reynzt sönn, og enn þann dag í dag eiga þau við sósíalistana: Þegar Jakobínar eru orðnir ráðherrar, eru þeir ekki framar jakobínskir ráðherrar.

Frakkland vill aðeins hafa frið og ró og góða fjármálastjórn.“

___
Af blaðsíðum 69-73. Á nokkrum stöðum var bætt greinarskilum í textann til að auðvelda lesturinn. Af sömu ástæðu var síðasta setningin stytt án þess að geta þess með hornklofum.

* Bók Stefans Zweig kom út árið 1929 og hét á frummálinu Joseph Fouché: Bildnis eines politischen Menschen en var gefin út hér á landi 1944 undir heitinu Lögreglustjóri Napoleons: Joseph Fouché. Magnús Magnússon íslenzkaði.

Efnisorð: , , ,

föstudagur, júní 21, 2019

Konur mega ekki ræða um kynferðisofbeldi sem þær eða aðrar konur verða fyrir, samkvæmt dómi

Hér hefur verið illilega svikist um að birta pistil á 19. júní. Ekki nóg með það heldur átti launsátursbloggið afmæli í gær og ekkert var birt þá heldur. Svik á svik ofan. En nú verður bætt úr því með því að skauta á hraðferð yfir það mál sem tengist umfjöllunarefni bloggsíðunnar verulega. Kynferðisbrotum, umfjöllun um þau, og feminisma.

Í vikunni voru semsé tveir feministar (eða ég gef mér að Oddný Arnardóttir sé feministi rétt eins og Hildur Lilliendahl) dæmdar til að greiða skaðabætur fyrir að hafa skrifað um svokallað Hlíðamál (sem einnig var skrifað um hér á síðunni) en það er nauðgunarkærumál sem snerist um að tveir menn voru kærðir fyrir að hafa í sameiningu nauðgað konu, og svo annarri nokkrum dögum síðar (eða þannig minnir mig að málsatvik hafi verið). Fréttablaðið var líka krafið um miskabætur og afsökunarbeiðni vegna forsíðufréttar þar sem sagði að íbúð karlmannanna hefði verið „sérútbúin til nauðgana“*, en feministarnir höfðu skrifað ummæli sín útfrá þeirri frétt.** Lögmaður karlmannanna sem voru kærðir í Hlíðamálinu er reyndar þekktur fyrir að hóta öllu og öllum skaðabótamáli sem leyfa sér að segja múkk um ekki bara þessa skjólstæðinga hans heldur alla aðra sem hann tekur að sér að verja, ekki síst í kynferðisbrotamálum. En nú endaði það semsagt að konur sem eru feministar voru dæmdar til greiðslu skaðabóta. Það er nefnilega eins og Þórdís Þorvaldsdóttir segir:
„Þú mátt trúa gömlum kreddum úr fornum trúarritum en ekki glænýjum fréttaflutningi um kynferðisofbeldi, þá ertu á hálum ís. Né máttu endursegja slíkar fréttir út frá eigin sannfæringu án þess að eiga skaðabótamál yfir höfði þér, jafnvel þótt þú nefnir engin nöfn, jafnvel þótt þér sé ekki einu sinni kunnugt um hverjir hinir grunuðu eru. Þér er nefnilega lagalega óheimilt að halda öðru fram en að þú trúir á sakleysi grunaðra ofbeldismanna, eða leyfir þeim að minnsta kosti að njóta vafans, óháð því hversu nákominn brotaþolinn er þér eða hversu lífsnauðsynlegur stuðningur þinn væri geðheilsu hans. Þú mátt ekki verja heiður fólks sem þú elskar þegar það lendir milli tannanna á Virkum í athugasemdum og er sakað um að hafa logið til um ofbeldið sem það var beitt, eða kallað það yfir sig með einhverjum hætti.“
Það má kæra fólk fyrir að taka (mark á fréttaflutningi) opinberlega afstöðu gegn nauðgurum og með þolendum.

En þegar nánar er að gáð reynist dómurinn í málinu vera mjög gildishlaðinn. Dómarinn sjálfur virðist síður en svo hlutlaus, ekki bara í dómsorði heldur í skrifum sínum gegn feministum og málefnum sem feministar brenna fyrir. Árið 2017 bar dómarinn, Arnar Þór Jónsson, blak af Robert Downey, sem áður hét Róbert Árni Hreiðarsson, og spurði hvort við sem samfélag vildum brennimerkja fólk; „Þegar öllu er á botninn hvolft, þá snýst þetta um það hvers konar samfélagi við viljum búa í“. Sama ár skrifaði hann gegn fóstureyðingum í Moggann. Hann svo skrifaði aftur grein í Moggann*** í fyrra þar sem hann hamaðist gegn stjórnendum Facebookhópsins Karlar gera merkilega hluti, en þar er Hildur Lilliendahl meðal stjórnenda; mánuði síðar er hann skipaður dómari í málinu gegn henni. Í greininni líkir hann stjórnendum, þarámeðal Hildi, við nasista.

Illugi Jökulsson skrifar ágætan pistil um dóminn:
„Dóminum yfir Oddnýju og Hildi verður vonandi áfrýjað. Hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á orðum þeirra, þeim sem kært var fyrir, þá eiga þær eins og aðrir rétt æa að vera dæmdar af verkum sínum en ekki verða einshverskonar sektarlamb fyrir þörf dómara til að belgja sig. Og það verður að útkjá hvort æðri dómstólar á Íslandi gúteri þær forsendur sem dómarinn byggir niðurstöðu sína á.“
Mér þykir að auki blasa við að fara fram á ógildingu dómsins þar sem dómarinn hlýtur að hafa verið óhæfur til að dæma í máli feminista, þar af konu sem hann hefur beinlínis skrifað um, og sem honum virðist mjög í nöp við.

___
* Þetta orðalag breyttist í meðförum annarra og talað var um að íbúðin hefði verið „sérútbúin til nauðgana“.
** Oddný Arnardóttir, önnur hinna dæmdu útskýrir í hvaða samfélagslega samhengi ummælin féllu.
** Þetta eru læstar greinar sem þarf að borga fyrir og þessvegna er ekki hlekkur á þær hér.

Efnisorð: , , ,

mánudagur, júní 17, 2019

Vel heppnað val á fjallkonu og ljóðinu sem hún flutti

Eflaust hafa einhverjir aðdáendur Bubba Morthens átt erfiðara en aðrir með boðskap Landið flokkar ekki fólk sem hann samdi til flutnings á þjóðhátíðardeginum. En einmitt vegna þess að höfundurinn er maður sem höfðar til fjöldans er eitursnjallt að láta fjallkonu, íslenska af blönduðum uppruna, flytja þetta ljóð með þessum boðskap.

Sjáðu
landið okkar allra
með mosamjúkan opinn faðminn
tekur okkur öllum eins og við erum
landið okkar flokkar ekki fólk

Sjáðu
við stiklum á hálum arfinum
kærleikurinn vex upp úr rauðu hafi hjartans

Í kvöld er stjörnurnar falla á spegilinn
og rökkurmjúk aldan ber þær að landi
skal ég tína upp þó ekki væri nema eina
til þess að minnast sumarkvölda norður í dumbshafi

Við skulum drekka sólargeisla saman að norðan
og sáldra yfir hann blágrýtismylsnu úr esjunni
og fagna fjölmenningu hér í miðnætursólinni

Múrar gera það sem múrar gera
loka þig inni
rammgerðastir eru þeir sem
reistir eru í höfðum manna

Rífum þá niður og göngum inn í víðáttu frelsisins
og fögnum lífinu

Sjáðu
sífellt bætast við blóm í garðinn
undursamlega fögur
hér eru auð rúm sem bíða barna
og drauma þeirra

Júníbjört nóttin mun þvo af þeim martröðina
og dögunin mun leiða þau inn í bjarta framtíð

Regnboginn hefur blessað börnin
silfurtært er málið í munni þeirra
hlustum á orð þeirra því dag einn
munum við hin eldri ganga í spor þeirra

Ég veit ekki alveg
hvað það þýðir
að vera Íslendingur
nema ég vakna dag hvern
með landið mitt á tungunni

Það dugar


Efnisorð: ,

laugardagur, júní 15, 2019

Glæpavæðing samkenndar

Sif Sigmarsdóttir skrifar um glæpavæðingu samkenndarinnar í pistli í dag. Hún er þar að tala um þessi ömurlegu dæmi sem hafa verið í fréttum undanfarið frá Evrópuríkjum „ þar sem almennir borgarar eru ákærðir, dæmdir og sektaðir fyrir almenna manngæsku í garð flótta- og farandfólks fer snarfjölgandi“.

Sif nefnir dæmi: Sóknarprestur í Þýskalandi gæti átt fangelsisvist yfir höfði sér fyrir að skjóta skjólshúsi yfir flóttamenn frá Súdan.

Vefurinn Open Democracy hefur tekið saman 250 dæmi um slíkt á síðustu fimm árum. Þar á meðal eru spænskur slökkviliðsmaður sem átti yfir höfði sér þrjátíu ára fangelsi í Grikklandi fyrir að bjarga flóttafólki frá drukknun, franskur ólívuræktandi sem var handtekinn fyrir að gefa farandfólki mat við landamæri Ítalíu og sjötug dönsk amma sem var dæmd og sektuð fyrir að gefa fjölskyldu með ung börn far í bíl sínum.

Þar að auki samþykkti Ítalska ríkisstjórnin nú í vikunni „tilskipun sem gerir það formlega refsivert að bjarga flótta- og farandfólki á Miðjarðarhafinu. Hunsi hjálparsamtök reglurnar mega þau eiga von á háum sektum“.

Allt ofangreint miðar að því að stöðva för ‘óæskilegs fólks’ til Evrópu, og liður í því er að meina öðrum að hjálpa þeim á neinn hátt. Það er viðbjóðsleg og rasísk stefna, og enn viðbjóðslegra er að nota lög og dómstóla til að framfylgja þessari stefnu.

Þegar blogghöfundur las þennan ágæta pistil Sifjar sem fjallar um siðblindu, átök góðs og ills, og glæpavæðingu samkenndar þá flettist upp í fréttaminninu dæmi hér á landi — alls ótengd rasisma þó eða flóttamönnum yfirleitt — þar sem skilaboðin eru augljóslega þau að það borgi sig ekki að hjálpa öðrum.

Við skjóta leit fannst eitt þeirra frá árinu 2017.
Bjargvættur á ekki rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu bifreiðar eftir að hafa slasast við að draga ökumanninn úr bifreiðinni. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar í vátryggingamálum.

Málsatvik voru þau að þann 24. nóvember 2015 varð harður árekstur í Ljósavatnsskarði. Sagt var frá honum á sínum tíma og myndband birt af honum. Eftir áreksturinn kviknaði í annarri bifreiðinni.

Mikil mildi þykir að enginn hafi týnt lífi í árekstrinum. Það má meðal annars rekja til þess að ökumaður sem kom að slysinu brást við og dró slasaðan ökumann úr bifreiðinni sem kviknaði í. Við þá björgun kippti ökumaður brennandi bifreiðarinnar í hönd hans með þeim afleiðingum að bjargvætturinn slasaðist á hægri öxl.
Ekki veit ég hvort bjargvætturinn hefði átt rétt á einhverskonar opinberum bótum (líklega ekki úr því reynt var að sækja þær til tryggingafélagsins) en það er óneitanlega nöturlegt að slasist einhver við að bjarga mannslífi þá geti tryggingafélög — eða úrskurðarnefnd á vegum tryggingafélaga í þessu tiviki — úrskurðað alveg ískalt að hann eigi ekki að fá það bætt. Það eru ekki beinlínis skilaboð sem ala á samkennd. Vonandi verður það þó ekki til þess að fólk hiki við að bjarga öðrum. Það er samt auðvitað langur vegur frá því að bæta ekki einhverjum skaða eða beinlínis refsa fyrir að sýna samkennd, en hugsunin að baki er jafn brengluð fyrir því, hvort sem hún er rasísk eða í þágu kapítalískra stórfyrirtækja.

Vonandi verður það aldrei sett í lög hér að refsivert sé að rétta öðrum hjálparhönd.

Efnisorð: , ,

sunnudagur, júní 09, 2019

Fjármálaáætlunin og útþynntu stjórnarskrárbreytingarnar

Það er orðið vandræðalegt hve oft ég er sammála Pírötum. Tildæmis um að fjármálaráðherra sé drasl. Ný fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er vægast sagt glötuð.
Öryrkjar fá átta milljörðum minna en í fyrri áætlun og framlög til sjúkrahúsþjónustu verða tæpum fimm milljörðum minni.

Til framhaldsskóla fer rúmlega 1,7 milljörðum minna en fyrirhugað var og til umhverfismála tæplega 1,4 milljörðum minna.
Fyrri fjármálaáætlun var svosem engin himnasending, en það er ískalt að sjá á hverjum það á að bitna að fyrri útreikningar gerðu ekki ráð fyrir samdrætti sem þó var fyrirsjáanlegur.

Já og svo er ég sammála Illuga Jökuls um fyrirhugaðar stjórnarskrárbreytingar og lýsi yfir frati á þær, enda væri nær að taka í notkun stjórnarskrána sem stjórnlagaráð samdi hér um árið.

Þetta er drasl ríkisstjórn.

Efnisorð: , , , , ,

sunnudagur, júní 02, 2019

Sjómannadagurinn 2019

Nú hillir undir að aftur verði kosið um stjórn hjá Sjómannafélagi Íslands og er vonandi að sú kosning fari heiðarlega fram þetta sinn, og auðvitað er óskandi að Heiðveig María Einarsdóttir verði formaður nýrrar stjórnar.

Þann sautjánda apríl 2003 var í þeim hluta Morgunblaðsins sem hét Viðskipti/Atvinnulíf (einnig kallað blað B) næstum heil opna lögð undir viðtöl við konur í sjómannastétt. Meginviðtalið er við Ragnheiði Sveinþórsdóttur og Þórunni Ágústu Þórsdóttur. Einnig var talað við Sigrúnu Elínu Svavarsdóttur sem er „eina konan sem lokið hefur 4. stigs skipstjórnarnámi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík, skipherrastiginu svokallaða, en það gerði hún árið 1981“.

Viðtölin eru hér mjög stytt.*

TVÆR konur stunda nú nám við Stýrimannaskólann í Reykjavík og mun önnur ljúka fyrsta stigs prófi í vor. Frá upphafi skólans hefur ein kona útskrifazt af öðru stigi, fjórar af því þriðja en aðeins ein hefur lokið fjórða stiginu, skipherrastiginu svokallaða. Aðeins þrjár konur hafa lokið fjórða stigs námi frá Vélskólanum, sú fyrsta 1978 og sú síðasta 2001. Það er ekki algengt að konur afli sér menntunar til stjórnunarstarfa á sjó, en tvær ungar stúlkur eru nú að nýta sér þá menntun sína.

Þórunn Ágústa Þórsdóttir brautskráðist frá Vélskóla Íslands og Ragnheiður Sveinþórsdóttir lauk þriðja stigs stýrmannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík, báðar í desember árið 2001. Þær voru þannig samtíða í námi, þá einu konurnar á skólabekk með hátt í 200 karlmönnum. Það þarf því kannski ekki að koma á óvart að þeim varð strax vel til vina.

Þórunn Ágústa:
„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á vélum og langaði til að láta á það reyna hvort að þetta væri ekki eitthvað sem ég gæti lagt fyrir mig. Líklega er áhuginn sprottinn frá föður mínum sem útskrifaðist úr Vélskólanum árið 1979, sama ár og ég fæddist. Þegar ég var í maganum á mömmu gekk ég undir nafninu vélstjórinn á meðal skólafélaga pabba en þeir hættu að kalla mig það þegar ég fæddist. En það rættist víst úr mér, þó þeir hafi greinilega ekki gert ráð fyrir því. Þó ég hafi ekki farið mikið með pabba til sjós þegar ég var lítil, kom ég oft til hans um borð og fékk stundum að ræsa og drepa á vélinni og þótti það ógurlega spennandi.“

Ragnheiður hóf nám við Stýrimannaskólann í Reykjavík haustið 1998, strax að loknu skyldunámi og lauk þriðja stigi skipstjórnarmenntun þremur árum síðar, aðeins 19 ára gömul. Hún er þriðja konan sem klárar þriðja stig stýrimannanáms frá skólanum og aðeins ein kona hefur lokið fjórða stigi, skipherrastiginu. Ragnheiði er, líkt og Þórunni, sjómennskan í blóð borin. Hún er fædd og uppalinn í Reykjavík en fór fyrst til sjós þegar hún var 16 ára gömul og var á sjó í sumarog jólaleyfum frá náminu, aðallega á fraktskipum. Frá því að hún kláraði námið við Stýrimannaskólann hefur hún verið á ýmsum bátum frá Vestmannaeyjum, bæði togurum og netabátum en nú síðast var hún á Guðmundi VE á nýafstaðinni loðnuvertíð.

Þær Þórunn og Ragnheiður eru sammála um að viðhorf til bæði vélstjórnar- og skipstjórnarnáms þurfi að breytast. Námið sé mjög hagnýtt og sífellt fleiri sæki sér þessa menntun, án þess endilega að ætla sér að starfa til sjós. „Þetta nám hefur ekki verið metið að verðleikum. Skipstjórnarnámið snýst til dæmis um miklu meira en siglingafræði og stöðugleika skipa,“ segir Ragnheiður. „Í náminu er til að mynda kennd hagfræði, markaðsfræði, fiskifræði, fiskvinnsla og meðferð afla, auk fleiri hagnýtra greina sem vitaskuld nýtast víðar en einmitt í sjómennskunni.“

Þær stöllur segja miklar ranghugmyndir uppi um þátttöku kvenna í sjávarútvegi og námi tengdu greininni. Það hafi haft í för með sér að konur skorti hreinlega kjark til að mennta sig á þessum vettvangi.

„Ef konur hafa á annað borð áhuga á því að mennta sig í sjávarútvegi þá er ekkert sem mælir gegn því að þær láti af því verða. Ég þekki til kvenna sem segja sig hafa langað til að læra vélstjórn en ekki treyst sér til þess vegna þess að litið er á starfið sem karlmannsstarf,“ segir Þórunn og Ragnheiður segir svipað viðhorf ríkjandi varðandi skipstjórnarmenntunina.

„Margar konur langar til að starfa til sjós en viðhorfið hefur verið þannig að þær hafa ekki kjark til að láta drauminn rætast,“ segir Ragnheiður og bætir við að sjómennskan hafi breyst mikið síðustu árin og líkamlegt erfiði sé ekki eins mikið og áður. „Það hafa glettilega margar konur hafið nám við skólana en því miður hafa þær ekki allar klárað. Það á vonandi eftir að breytast,“ segja þær.

Þórunn er aðeins þriðja konan sem klárar vélstjórnarnám við Vélskóla Íslands og sú fyrsta sem útskrifast frá skólanum í heil 18 ár eða frá því að Rannveig Rist, núverandi forstjóri ÍSAL, útskrifaðist frá skólanum. Hún viðurkennir að það hafi vissulega verið skrýtið að hefja nám við skólann, eina konan í hópi hátt í 200 karlmanna. „Fyrsta daginn leið mér eins og í dýragarði, það mynduðst hópar af strákum fyrir utan skólastofuna því allir vildu berja augum stelpuna í Vélskólanum,“ segir Þórunn.

„Það var líka erfitt fyrir okkur að ganga inn í matsal sjómannskólans til að byrja með, þar sátu allir strákarnir úr bæði Vélskólanum og Stýrimannaskólanum. Ég þorði ekki að stíga fæti þar inn fyrstu vikurnar,“ segir Ragnheiður og er greinilega skemmt við tilhugsunina. „En þegar Kennaraskólinn hóf að nýta matsalinn líka breyttist kynjahlutfallið konum í hag og þá var líka haft orð á því að hávaðinn og skvaldrið í salnum hefði aukist til muna. En við féllum ótrúlega fljótt inn í hópinn og urðum fljótlega einar af strákunum,“ segja vinkonurnar.

Ragnheiður vill lítið gera úr þeirri staðreynd að hún er sennilega eina konan sem hefur nýlega gegnt yfirmannsstöðu á íslensku fiskiskipi. Hún segir að skipsfélagarnir taki sér eins og hverjum öðrum nýliða. „Viðbrögðin eru ekkert öðruvísi en á öðrum vinnustöðum, nýliðum er alltaf misjafnlega tekið. Ég varð að minnsta kosti ekki vör við mikla fordóma. Það eru þó alltaf til einhverjir sem segja að það sé ekki hægt að nota konur til sjós en eftir nokkra daga eru þeir nú yfirleitt farnir að kalla mig elskuna sína og verða hálf klökkir þegar ég fer frá borði. Ef maður sýnir dugnað og áhuga á starfinu þá hverfa strax allir fordómar. Ég hef gengið í öll störf um borð og það hafa sjaldan komið upp vandamál.“

Þær Þórunn og Ragnheiður segjast þó hafa orðir varar við fordóma í garð kvenna sem stunda sjóinn, sumir karlmenn bókstaflega neiti að vinna með konum. „Margir eru hræddir við að hafa konur um borð, sérstaklega í löngum veiðiferðum. Þar getur einangrunin orðið mikil og sumir eru hræddir við afleiðingar þess, án þess þó að tilgreina sérstaklega hverjar þær ættu að vera. Það hefur heyrst að eiginkonur sjómanna hafi sett sig upp á móti því að útgerðir ráði konur á skip sín!“ Vinkonurnar segja að fólk hafi einnig oft undarlega mynd af þeim konum sem starfi til sjós. „Myndin er gjarnan sú að þær séu hálfgerðar karlkonur og ýmsar ranghugmyndir á lofti. Það er auðvitað alrangt, það sést bara á okkur sem erum svona fínar og sætar,“ segja þær Þórunn og Ragnheiður hlæjandi að lokum.

Þá er komið að viðtalinu við Sigrúnu sem útskrifaðist með skipstjórnarréttindi árið 1981.
Sigrún segir að sér hafi yfirleitt verið vel tekið hvar sem hún kom um borð, þrátt fyrir að í þann tíma hafi verið afar sjaldgæft að konur réðu sig í skipspláss. „Vissulega voru einstakir gamlir sjóhundar sem fussuðu og sveiuðu, vildu ekkert hafa með einhverja stelpu á dekki, hvað þá ef að hún var yfirmaður þeirra. En það bráði nú fljótt af þeim. Það er dálítið sérstakt að það voru helst miðaldra menn sem frekar voru tortryggnir í minn garð en þeim allra elstu fannst mjög skemmtilegt að starfa með konu til sjós.“
Þegar viðtalið er tekið árið 2003 er Sigrún grunnskólakennari á Stykkishólmi.
Sigrún hefur samt ekki sagt alveg skilið við sjómennskuna, því hún bregður sér oft til sjós á sumrin. „Mér finnst nauðsynlegt að fá smá sjávarloft í lungun öðru hverju. Ég hef leyst af á sumrin í siglingunum og hef líka verið á eyjaferjunni Særúnu. Ég efast hinsvegar um að ég myndi vilja vera til sjós allan ársins hring. En draumurinn er
að fá sér lítið trilluhorn til að geta skroppið út á sjó og jafnvel náð sér í soðið,“ segir Sigrún.

Til hamingju með daginn, sjómenn af öllum kynjum!

___
* Beinir tenglar á viðtölin þurfa að vera þrír: Fyrri blaðsíða opnunnar og seinni bls. og baksíðan.

Efnisorð: ,