þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Eitthvað fyrir alla fjölskylduna

Sumir segja að nær væri fyrir feminista að framleiða sjálfar ‘kvenvænt’ klám og hætta að berjast á móti klámi útafþví að það er svo vonlaus barátta, klámið sé komið til að vera.

Frábær hugmynd.

Framleiðum í leiðinni barnvænt barnaklám, við náum hvorteðer aldrei að koma í veg fyrir misnotkun á börnum.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, febrúar 22, 2007

Bóndadagur hinn betri

Miðað við hvað ég er geðvond, stygg og svartsýn, þá er óvenju létt yfir mér í dag. Mér finnst meira segja ástæða til að vera jákvæð hérna og þakka Femínistafélagi Íslands, talskonu þess og einstökum félögum fyrir frábært starf. Þetta hefði aldrei gerst nema fyrir þeirra þrotlausu vinnu og fórnfýsi í þágu málstaðarins. Þá finnst mér ástæða til að þakka borgarstjórn en allra ánægðust er ég þó með bændur.

Spurning um að keyra uppí sveit og faðma næsta bónda.

Efnisorð: ,

Frelsi karla

Frelsi karlmanna felst í því að fá að fróa sér yfir myndum af nöktum konum, sem hafa verið misnotaðar í æsku eða nauðgað á unglingsárum eða þurfa að fjármagna eiturlyfjafíkn eða hafa fyrir börnum að sjá án möguleika á annarri afkomu, sumar beinlínis neyddar til með barsmíðum og endurteknum nauðgunum, hefur verið rænt eða gabbaðar til að flytjast búferlum með von um betra líf. Frelsi karlmanna skiptir miklu máli, meira máli en líf þessara kvenna. Frelsi er það að fá kynferðislega nautn út úr óhamingju kvenna.

Rúnk rúnk.

Efnisorð: , , , ,

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Óskaríkisstjórnin

Ég vil Ingibjörgu Sólrúnu í stól forsætisráðherra. Konan er einn besti stjórnmálamaður okkar tíma og fjarstæðukennt að vinna gegn henni á nokkurn hátt. Fortíð hennar sem Kvennalistakona og ritstýra Veru er líka einhver bestu meðmæli sem hægt er að gefa nokkrum stjórnmálamanni.

Ingibjörg Sólrún yrði auðvitað ekki ein í ríkisstjórn og ég yrði voða glöð ef hún hefði með sér eftirtaldar konur:

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir
Björk Vilhelmsdóttir
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir
Guðrún Ögmundsdóttir
Jóhanna Sigurðardóttir
Kolbrún Halldórsdóttir
Kristrún Heimisdóttir
Margrét Frímannsdóttir
Svandís Svavarsdóttir
Svanfríður Jónasdóttir
Valgerður Bjarnadóttir
Þórunn Sveinbjarnardóttir

Ráðuneytum mættu þær skipta milli sín að vild, enda geta konur gengið í öll verk. Líklega stemmir ekki fjöldi kvennanna við fjölda ráðuneyta eins og þau eru í dag en það eru fordæmi fyrir því að ráðuneytum hafi verið steypt saman undir einn stól (mætti gera meira af því, ráðherrar eru of margir) eða þeim fjölgað.

Sumar þessara kvenna eru ekki í framboði núna en mér er slétt sama, ég vil þær samt. (Hér hefði líklega verið hægt að bæta við nöfnum margra ungra stjórnmálakvenna sem ég bara þekki ekki nóg til að vilja gera þær að ráðherrum, enda svosem fínt að hafa þær í hópi óbreyttra þingmanna).

Auðvitað hefði ég ekkert á móti því að Steingrímur J Sigfússon yrði forsætisráðherra né heldur því að Atli Gíslason yrði ráðherra, enda réttsýnir menn, en ríkisstjórn skipuðum konum að öllu leyti væri náttúrulega bara svo dásamlegt. Og vonandi fer ekki framhjá neinni að ég vil að Samfylkingin og Vinstri græn verði saman í ríkisstjórn. Vinni nú að því allt gott fólk.

Efnisorð: ,

mánudagur, febrúar 19, 2007

No comment

Eftir að hafa fylgst með umræðum í athugasemdakerfum ýmissa feministabloggara undanfarna daga, og orðið óglatt af viðbjóðnum sem klámfíknu frjálshyggjupostularnir láta útúr sér og flökrað við öllum þeirra lífsviðhorfum, þá er ég afar þakklát sjálfri mér að hafa tekið þá ákvörðun að hafa ekki athugasemdakerfi hér. Þá vil ég nú heldur tala ein við sjálfa mig.

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Kynlíf er jákvætt

Fólki sem þykir kynlíf gott, fallegt og skemmtilegt, er óskiljanlegt hvernig hægt er að rugla saman nauðgun og kynlífi, vændi og kynlífi eða klámi og kynlífi.

Klám, vændi og nauðganir eru andstæða alls þess sem er fallegt, gott og skemmtilegt.

Efnisorð: , ,

mánudagur, febrúar 12, 2007

Klám sem áfallahjálp

Klám er áróður sem haldið er að karlmönnum, þess eðlis að heimur þeirra sé í raun ekki í hættu, konur séu ekki vel menntaðar, klárar eða geti unnið störfin sem þeir halda að þurfi karlmann til að vinna. Þeir eru látnir trúa því að konur séu þeim undirgefnar og vilji ekkert frekar en þjóna þeim. Aukabónus fyrir þá er að þær eru allar með ofurbrjóst.

Hliðarverkun er það sem snýr að öðrum konum, þeim sem eru í samskiptum við mennina sem horfa á klámið. Konum sem upplifa að þær verði aldrei teknar alvarlega, geti ekki ýmsa hluti en eigi alltaf að vera girnilegar fyrir karla og eru aldrei álitnar alveg mennskar. Sumar trúa þessu, rétt eins og karlarnir og gangast því uppí hlutverkinu (dæmi: Anna Nicole Smith) en aðrar berjast gegn því að hvortheldur karlar eða konur ánetjist þessari hugsun (dæmi: róttækir feministar). Helsta aðferðin til að koma í veg fyrir það er að berjast gegn klámi.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Samnefnarinn

Ég hef tekið eftir því, þegar sumt fólk er að tala um Breiðavíkurmálið, að þeim tekst með einhverjum dularfullum hætti að kenna feministum um það á einhvern hátt. Eins og nú sitji feministar hlakkandi yfir óförum þeirra barna sem sættu ofbeldi á Breiðavík. Ég held að feministar, eins og flest annað fólk, sé mjög slegið yfir því sem komið hefur í ljós að þar gerðist. Og ég held að margt fólk sjái talsvert samhengi milli þess sem gerðist þar og svo í Heyrnleysingjaskólanum og í Byrginu.

Í öllum tilvikum er um að ræða að valdalausir einstaklingar eru einangraðir frá samfélaginu og ofurseldir starfsmönnum og/eða öðrum vistmönnum (sem voru sterkari/eldri). Niðurstaða flestra hlýtur því að verða sú, að ‘upptökuheimili’, heimavistarskólar eða meðferðarstofnanir megi ekki vera einangraðar frá samfélaginu og þær eigi að sæta stöðugu eftirliti á öllum stigum málsins. Vald þeirra sem þar starfar verður alltaf að vera dregið í efa af þeim sem eftirlitið hafi og vistmenn látnir njóta vafans. Allsekki megi láta sadista, barnaníðinga, nauðgara og aðra slíka valdasjúka einstaklinga hafa þannig vald yfir skjólstæðingum sínum að þeir nái að valda þeim skaða.

Það er og verður sjálfsagt alltaf viðvarandi vandamál að svona menn sækja þangað sem þeir sjá framá að fá útrás fyrir ógeðið í sér – en takist ekki að koma í veg fyrir að þeir komist í einstök störf þá verður allavega að vera hægt að bregðast skjótt við þegar ógeðin láta til skarar skríða.

En hver eru þessi ógeð? Jú, í öllum þessum málum eru það karlmenn sem eru gerendur. Og það verður að segjast eins og er, að það fór ekki framhjá feministanum mér.

Ég er ekki að segja að engar konur hafi nokkurntímann komið illa fram við börn eða aðra valdalausa einstaklinga (reyndar er það enn ein ástæðan fyrir því að ég vil ekki að konur séu heimavinnandi húsmæður, því þá eru börn þeirra ofurseld þeim allan daginn) en öll tölfræði sannar að karlar fremja nánast alla kynferðisglæpi og aðra ofbeldisglæpi. Og ekki draga málin, sem nú eru orðin alþjóð kunn og eiga rætur sínar að rekja til Heyrnleysingjaskólans, Byrgisins og Breiðavíkur, úr þeirri skoðun minni að karlmenn eru þeir sem eru fyrst og fremst hættulegir, þeir níðast á öllu sem fyrir verður. Og þar sem vald þeirra er ekki dregið í efa, eingöngu vegna þess að þeir eru karlmenn, þá komast þeir í ofanálag upp með að kúga fórnarlömb sín til að þegja yfir glæpunum, jafnvel áratugum saman. Þetta sést vel í sifjaspellsmálum.

Konur hafa stofnað Stígamót, konur hafa opnað umræðu, það eru konur sem hafa leitt baráttuna gegn kynferðisofbeldi. Að kenna feministum um að karlar níðist á börnum er ekki rökrétt. Né heldur að segja þeim að þær verði að greiða götu karlkyns fórnarlamba, nær væri að karlar gerðu það sjálfir. Stígamót hafa, mér vitanlega, sinnt drengjum sem hafa orðið fyrir ofbeldi, en þeim ber ekki skylda og eru örugglega heldur hvorki færar um né ættu þær að vera með fullorðna karlmenn í stuðningsviðtölum. Þó ekki væri nema vegna þess að sumir þeirra sem verða fyrir kynferðisofbeldi í æsku verða seinna gerendur. Finnst fólki virkilega að Stígamót eigi að sinna þeim?

Ég ætlaði ekki að tala um Stígamót í þessu samhengi. Ég ætlaði að benda á að karlmenn eru gerendur í kynferðisbrotamálum og öðrum ofbeldismálum. Þeir sækja sér iðulega ekki aðstoð til að hætta að beita aðra ofbeldi fyrr en lögreglunni hefur verið sigað á þá – og þá gjarnan til að draga úr refsingunni sem þeir gætu fengið (sbr. kennarinn sem var með barnaklám í tölvunni en stökk strax til sálfræðings eftir að upp um hann komst, svona eins og honum hafi ekki mátt vera ljóst fyrr hvað hann var að gera).

Eitt að lokum, svo ætla ég helst að hætta að hugsa um þessi hræðilegu mál, ég hef ekki heyrt alþingismenn eða almenning tala um að konurnar í Byrginu eða þau sem voru í Heyrnleysingjaskólanum eigi rétt á afsökunarbeiðni og fébótum. Er bara öruggt að tala um eitthvað sem gerðist fyrir svo mörgum áratugum að gerendurnir eru flestir dauðir? Og þó, það á við um Heyrnleysingjaskólann líka, eða hvað? Getur verið að það sé vegna þess að í Byrginu voru þolendurnir allir konur?

Efnisorð: , , ,

föstudagur, febrúar 02, 2007

Strákarnir okkar


Undanfarna daga hef ég sífellt verið að sjá og heyra talað um „strákana okkar“ og ekki alveg skilið við hverja er átt. En svo sá ég loks myndir af þeim og nú veit ég hverjir þeir eru. Það er forsíðumynd af þeim á Mogganum í dag.

Þetta eru mennirnir sem standa í vegi fyrir því að dómar í kynferðisbrotamálum verði þyngdir. Sömu menn og fannst sjálfsagt að verða við tilmælum almennings og ráðamanna að þyngja snögglega dóma í fíkniefnamálum. En hér standa þeir fastir fyrir. Topp fimm vinsælustu karlmenn þjóðarinnar, strákarnir sem standa vörð um karlveldið.

Efnisorð: , , , ,