fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Samnefnarinn

Ég hef tekið eftir því, þegar sumt fólk er að tala um Breiðavíkurmálið, að þeim tekst með einhverjum dularfullum hætti að kenna feministum um það á einhvern hátt. Eins og nú sitji feministar hlakkandi yfir óförum þeirra barna sem sættu ofbeldi á Breiðavík. Ég held að feministar, eins og flest annað fólk, sé mjög slegið yfir því sem komið hefur í ljós að þar gerðist. Og ég held að margt fólk sjái talsvert samhengi milli þess sem gerðist þar og svo í Heyrnleysingjaskólanum og í Byrginu.

Í öllum tilvikum er um að ræða að valdalausir einstaklingar eru einangraðir frá samfélaginu og ofurseldir starfsmönnum og/eða öðrum vistmönnum (sem voru sterkari/eldri). Niðurstaða flestra hlýtur því að verða sú, að ‘upptökuheimili’, heimavistarskólar eða meðferðarstofnanir megi ekki vera einangraðar frá samfélaginu og þær eigi að sæta stöðugu eftirliti á öllum stigum málsins. Vald þeirra sem þar starfar verður alltaf að vera dregið í efa af þeim sem eftirlitið hafi og vistmenn látnir njóta vafans. Allsekki megi láta sadista, barnaníðinga, nauðgara og aðra slíka valdasjúka einstaklinga hafa þannig vald yfir skjólstæðingum sínum að þeir nái að valda þeim skaða.

Það er og verður sjálfsagt alltaf viðvarandi vandamál að svona menn sækja þangað sem þeir sjá framá að fá útrás fyrir ógeðið í sér – en takist ekki að koma í veg fyrir að þeir komist í einstök störf þá verður allavega að vera hægt að bregðast skjótt við þegar ógeðin láta til skarar skríða.

En hver eru þessi ógeð? Jú, í öllum þessum málum eru það karlmenn sem eru gerendur. Og það verður að segjast eins og er, að það fór ekki framhjá feministanum mér.

Ég er ekki að segja að engar konur hafi nokkurntímann komið illa fram við börn eða aðra valdalausa einstaklinga (reyndar er það enn ein ástæðan fyrir því að ég vil ekki að konur séu heimavinnandi húsmæður, því þá eru börn þeirra ofurseld þeim allan daginn) en öll tölfræði sannar að karlar fremja nánast alla kynferðisglæpi og aðra ofbeldisglæpi. Og ekki draga málin, sem nú eru orðin alþjóð kunn og eiga rætur sínar að rekja til Heyrnleysingjaskólans, Byrgisins og Breiðavíkur, úr þeirri skoðun minni að karlmenn eru þeir sem eru fyrst og fremst hættulegir, þeir níðast á öllu sem fyrir verður. Og þar sem vald þeirra er ekki dregið í efa, eingöngu vegna þess að þeir eru karlmenn, þá komast þeir í ofanálag upp með að kúga fórnarlömb sín til að þegja yfir glæpunum, jafnvel áratugum saman. Þetta sést vel í sifjaspellsmálum.

Konur hafa stofnað Stígamót, konur hafa opnað umræðu, það eru konur sem hafa leitt baráttuna gegn kynferðisofbeldi. Að kenna feministum um að karlar níðist á börnum er ekki rökrétt. Né heldur að segja þeim að þær verði að greiða götu karlkyns fórnarlamba, nær væri að karlar gerðu það sjálfir. Stígamót hafa, mér vitanlega, sinnt drengjum sem hafa orðið fyrir ofbeldi, en þeim ber ekki skylda og eru örugglega heldur hvorki færar um né ættu þær að vera með fullorðna karlmenn í stuðningsviðtölum. Þó ekki væri nema vegna þess að sumir þeirra sem verða fyrir kynferðisofbeldi í æsku verða seinna gerendur. Finnst fólki virkilega að Stígamót eigi að sinna þeim?

Ég ætlaði ekki að tala um Stígamót í þessu samhengi. Ég ætlaði að benda á að karlmenn eru gerendur í kynferðisbrotamálum og öðrum ofbeldismálum. Þeir sækja sér iðulega ekki aðstoð til að hætta að beita aðra ofbeldi fyrr en lögreglunni hefur verið sigað á þá – og þá gjarnan til að draga úr refsingunni sem þeir gætu fengið (sbr. kennarinn sem var með barnaklám í tölvunni en stökk strax til sálfræðings eftir að upp um hann komst, svona eins og honum hafi ekki mátt vera ljóst fyrr hvað hann var að gera).

Eitt að lokum, svo ætla ég helst að hætta að hugsa um þessi hræðilegu mál, ég hef ekki heyrt alþingismenn eða almenning tala um að konurnar í Byrginu eða þau sem voru í Heyrnleysingjaskólanum eigi rétt á afsökunarbeiðni og fébótum. Er bara öruggt að tala um eitthvað sem gerðist fyrir svo mörgum áratugum að gerendurnir eru flestir dauðir? Og þó, það á við um Heyrnleysingjaskólann líka, eða hvað? Getur verið að það sé vegna þess að í Byrginu voru þolendurnir allir konur?

Efnisorð: , , ,