mánudagur, janúar 15, 2007

Konur eru ekki vandamálið

Í hvert sinn sem konur benda á óréttlæti sem bitnar á þeim, hvort sem það er ofbeldi á heimilum, nauðganir, mismunur í launum eða það að þær komast síður til áhrifa í samfélaginu, heimta karlarnir tölulegar staðreyndir vegna þess að þeir trúa aldrei konum. Og það eru gerðar kannanir og rannsóknir og stofnaðar nefndir. Þegar svo niðurstöður liggja fyrir, þetta mörg prósent og þetta fáar konur og svona prósent og svona margar konur, þá gerist samt ekkert, enda var ekki til þess ætlast, heldur átti að drepa málinu á dreif og tefja framgang kvenna. Helst að rifist sé um aðferðir til útreikninga (og sagt að konur kunni ekki að reikna) eða lagt til að leitað verði úrræða – með því að stofna enn eina nefndina.

Oft eru konur líka hvattar til að gera nú eitthvað sjálfar í málinu, t.d. bjóða sig oftar fram til ábyrgðarstarfa. (Þær hafa þegar stofnað Kvennaathvarfið og Stígamót og opnað umræðu, og þessvegna er sjaldnar talað um það – nema til að skamma þær fyrir að tala um ofbeldismennina). En málið er bara að konur eru löngu búnar að segjast vera tilbúnar til ábyrgðarstarfa, hvort sem það er í yfirmannastöður í fyrirtækjum, seta í sveitarstjórnum og Alþingi eða í stjórnum fyrirtækja. Almennt og líka einstakar konur undir nafni.

Það var að mig minnir 2004 sem nokkrar konur innan Háskóla Reykjavíkur buðust til að setjast í stjórnir fyrirtækja sem skráð eru á Aðallista Kauphallar Íslands. Nokkru áður, eða haustið 2003 var opnaður gagnagrunnur á netinu (kvennaslodir.is) með ítarlegum upplýsingum um hundruðir kvenna með ýmiskonar sérþekkingu. Þær eru reiðubúnar að koma í viðtöl í fjölmiðla (andstætt því sem alltaf er sagt; að konur vilji ekki tala opinberlega), setjast í stjórnir og nefndir o.s.frv.

Samt kemur alltaf söngurinn: Þið verðið bara að gera eitthvað í þessu sjálfar, bjóða ykkur fram! Þó er ljóst að konur bjóða sig fram og samt gerist ekkert – því það eru karlar sem hafa völdin.

Efnisorð: , ,