mánudagur, desember 11, 2006

Klósettfruss

Önnur hver sjónvarpsauglýsing virðist vera til að selja þetta skrítna litla plaststykki, sem ég man aldrei hvað heitir, en er ætlað til að dreifa bakteríudrepandi og vellyktandi um klósettskálar í hvert sinn sem sturtað er niður. Mér finnst þetta eitt ógeðslegasta fyrirbæri sem ég sé, þegar ég þarf að tylla mér niður annarstaðar en heima hjá mér. En jafnframt er ég undarlega heilluð af fyrirbærinu og stari á það með hryllingssvip. Mér er eiginlega alveg sama hvort það bakteríuhreinsar restina af klósettskálinni eða ekki, þó mér sé til efs að það geri nokkuð gagn í þá átt, því það er sjálft morandi í bakteríum. Þetta klósetthreinsifrussplaststykki er nefnilega iðulega sjálft útmakað í öllu því sem gossað hefur ofan í klósettskálarnar vikur og mánuði á undan. Sé klósettið gamalt og ekki af einhverri staðlaðri stærð og þykkt, þá passar hankinn á plaststykkinu ekki endilega á brúnina og spennist því upp á undarlegan hátt. Ég man eftir að hafa fundið fyrir því við lærið á mér meðan ég var að pissa, og fæ enn hroll.

En svo ég komi mér nú að efninu, eftir þessa skemmtilegu og lystaukandi lýsingu, þá velti ég fyrir mér afhverju þetta er auglýst svona ótt og títt í sjónvarpinu. Á upphafsárum sjónvarps voru auglýsingar eina aðferð sjónvarpsstöðva til að afla sér tekna og völdu ákveðnir vöruframleiðendur sér þætti til að styrkja, stundum voru þættirnir jafnvel gerðir með vöruna í huga eða að beiðni auglýsenda. Þannig styrktu hveitimyllur General Mills (sem nú framleiða morgunkorn) þætti þar sem fjallað var um uppskriftir, sem auðvitað allar þörfnuðust hveitis frá þeim. Þættirnir áttu að höfða til húsmæðra (útaf uppskriftunum) og þannig varð til þáttagerð sem átti að höfða til kvenna. Leiknir þættir þar sem fjallað var um örlög og ástir eða fjölskylduerjur urðu vinsælir en þeir voru iðulega styrktir af framleiðendum hreinlætisvarnings, þar á meðal sápu. Þaðan kemur hugtakið sápuópera, sem þessir þættir draga nafn sitt af.

Ég hef ekki enn gert könnun á því hvort auglýsingarnar sem ég minntist á hér í byrjun séu birtar sérstaklega á undan, eftir og inní miðjum þáttum sem talið er að konur horfi á, eða hvort þeim sé dreift hist og her um dagskrána, en mikið óskaplega langar mig til að vita hvaða þættir það eru, svo ég geti kallað þá klósettfruss-óperur. Eitthvað segir mér að það muni fara vel við efni þáttanna.

Efnisorð: