mánudagur, nóvember 27, 2006

Fléttulistar eru fyrir kommúnista og kjellingar

Líkurnar á að ég kjósi Sjálfstæðisflokkinn eru álíka og þær að ég tilkynni um trúlofun okkar Gunnars í Krossinum. Þar með er ekki sagt að ég hafi ekki samúð með konum í Sjálfstæðisflokknum. Reyndar skil ég ekkert í konum að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, ekki fremur en ég skil lesbíur sem eru kristnar. En það er önnur saga.

Karlveldið í Sjálfstæðisflokknum er óbifanlegt. Færustu sérfræðingar á sviði almannatengsla virðast af og til ná að hnippa í ráðamenn og þá er reynt að láta líta út fyrir að konur séu einhvers metnar en allajafna gildir reglan ‘hæfustu menn eru alltaf karlmenn’. Nú er bæjarstjóri Akureyrar – sem er reyndar að hætta sem slíkur til að setjast á þing – fúll útí kvenráðherra fyrir að mælast til að kona (þingflokksformaðurinn) yrði sett á efsta sæti á lista í prófkjöri. Aðeins ein kona er í efsta sæti í sínu kjördæmi eftir prófkjör og það er einmitt þessi ráðherra. Nokkrar konur eru ofarlega á listum og á það benda Sjálfstæðismenn sem merki um ægilegt jafnrétti í flokknum, því sumar þeirra séu jafnvel í öruggum þingsætum.

Alveg virðist vera litið fram hjá því að ef til þess kemur að Sjálfstæðisflokkurinn sest (eina ferðina enn) í ríkisstjórn eftir kosningar, þá eru ráðherraefni flokksins meðal efstu manna í hverju kjördæmi. Ekki meðal fimm efstu eða þriggja efstu, heldur er efsti maður ráðherraefnið. (Sé gengið fram hjá honum, t.d. til að koma konu að, byrjar söngurinn aftur um að konum sé hyglað á kostnað karla, sem eru augljóslega alltaf hæfari.) Þessvegna skiptir það gríðarlega miklu máli að hafa konur í efsta sæti einhverra lista. Eins og staðan er núna væri Þorgerður Katrín eina ráðherraefni af kyni kvenna. Þetta þykir okkur hinum ekki benda mjög til þess að Sjálfstæðisflokkurinn sé mjög jafnréttissinnaður. Ekki að ég óski þess nú sérstaklega að hann komist í ríkisstjórn og þetta skipti þannig neinu máli.

Efnisorð: