föstudagur, janúar 12, 2007

Gleðjast nú and-feministar og aðrir nauðgarar

Ég veit ekki hvort dómur, sem féll í dag í héraðsdómi Austurlands sé sá fyrsti sinnar tegundar, en líklega er hann einn þeirra fyrstu. Eða einn fárra, vonandi. Kona er semsé dæmd í fangelsi fyrir rangar sakargiftir en hún hafði kært karlmann fyrir nauðgun þó engin nauðgun hafi átt sér stað. Mér finnst auðvitað sorglegt að þarna fái andstæðingar feminisma vatn á myllu sína og geti vísað til þess að konur séu bara alltaf alla tíð og ár og síð að ljúga uppá saklausa karlmenn að þeir hafi nauðgað þeim. Slíkt er auðvitað alger fjarstæða, en ég hef heyrt tölurnar 1% og 2% nefndar í slíkum málum, sem er sami fjöldi og í öðrum málum, þ.e. að í 1-2% tilvika ljúgi fólk (ekki bara konur) sakargiftum uppá aðra einstaklinga eða að glæpur hafi verið framinn af ótilgreindum einstaklingum (t.d. innbrot eða þjófnaður). Auðvitað á ekki að láta fólk komast upp með slíkt, en ég man ekki eftir að hafa heyrt að aðrir en þessi kona hafi verið dæmd í fangelsi. (Í desember 1996 þóttist karlmaður hafa ekið útí sjó og lét björgunarsveitir og þyrlu og allt batteríið koma til að bjarga sér en hafði allantímann verið óslasaður og fékk dóm fyrir tryggingasvik ásamt vitorðsmönnum sínum.) Ekki kæmi mér á óvart að þetta yrði notað gegn öllum konum sem hyggjast kæra eða hafa kært, og þá sem víti til varnaðar - takist þeim ekki að færa sönnur á mál sitt verði þær dregnar fyrir dómstóla. Við það mun kærum enn fækka.

Í dómsorðum er tekið fram að viðurlög við nauðgunum séu svo þung (1-16 ár, hvernig sem eitt ár getur talist þung viðurlög og aldrei hefur neinn verið dæmdur í 16 ár mér vitanlega) að það beri að refsa mjög harkalega fyrir brot konunnar. Hún hafði reyndar sjálf komið til lögreglu og játað og þaráður sagt öllum sem heyra vildu að hún hefði logið nauðgun uppá manninn, auk þess að senda honum sms og biðja hann afsökunar. Eitthvað hljómar það nú ólíkt því hvernig nauðgarar hegða sér, fæstir játa neitt hvað þá að þeir geri það af fyrra bragði og biðjist afsökunar á hegðun sinni. Samt á að dæma þau jafnt, karla sem nauðga og brjóta þannig gegn konu og eyðileggja líf hennar, og konu sem laug. Það er eflaust mjög vond lífsreynsla að vera sóttur í vinnuna (um borð í skip) af lögreglu og vera látinn sæta líkamsskoðun, en ekki tel ég það þó vera neitt í áttina að því jafnslæmt og nauðgun.

Athyglisvert er að maðurinn talar ekkert um að þetta hafi haft vond áhrif á líf sitt. Og hvers vegna ekki? Jú, það trúðu allir hans útgáfu sögunnar. Þó hafði enginn á þeim tíma neitt annað en hans orð fyrir því sem honum og konunni fór á milli. Allir trúðu honum. (Eitthvað var unnustan óviss en ekki kemur neitt fram um að hún hafi farið frá honum fyrir þessar upplognu sakir.) Um borð í skipinu var hann bara í góðum málum. Orðrétt segir í dómnum: „Hann sagði að skipsfélagar hans hefðu allir staðið með honum.“ Skipsfélagarnir stóðu semsagt eins og klettur við bakið á honum, enda þótt þeir hafi ekkert haft fyrir sér annað en orð karlmanns sem fer einn með konu í káetu sína þar sem engin vitni eru að því sem gerist. Ég efast ekki um að þeir myndu alltaf standa saman þegar einn þeirra er sakaður um nauðgun, svona eins og strákahópar gera yfirleitt. Það skiptir þá engu máli hvort félagi þeirra er nauðgari eða ekki. Kannski vegna þess að þeir hafa ekki svo góða samvisku sjálfir.

Efnisorð: , , ,