mánudagur, desember 25, 2006

Ímyndaði heimurinn er ekkert betri

Þegar feministar benda á að fáar konur komist í viðtöl í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna er þeim oft bent á að fréttirnar endurspegli raunveruleikann en sé ekki ætlað að bæta hlut kvenna. Fáar konur séu í stjórnunarstöðum í þeim greinum sem fréttnæmastar eru og í ráðherrastólum og því sé frekar talað við karlana. Þannig verða svo karlarnir mest áberandi í fjölmiðlum og konur minna sýnilegar sem ýtir enn undir þá almennu skoðun að karlar séu betur til þess fallnir að axla ábyrgð á því sem máli skiptir. En það er semsé ekki hlutverk fréttatímanna að breyta því. (Eins og það er ekki hlutverk moggabloggsins að auglýsa jafnmarga kvenbloggara, því þær blogga hvorteðer ekkert um neitt skemmtilegt.)

Vinsælustu teiknimyndir síðustu ára eru ekkert skárri en fréttatímarnir. Kvenhlutverk eru fá. Karlarnir eru aðal. Hvort sem þeir eru fiskar, skrímsli, ljón eða bílar, þá eru það þeir sem lenda í ævintýrunum, segja brandarana og halda fjörinu gangandi. Kvenpersónur eru þær sem einhver verður skotinn í. Ef þær eru í stóru hlutverki þá er það eina kvenhlutverkið, það eru ekki mörg stór hlutverk í einni mynd eins og fyrir karlpersónurnar. Þetta er eins og í leiknum kvikmyndum fyrir fullorðna, en þar er yfirleitt í mesta lagi ein kona í stóru hlutverki, ef þær eru fleiri þá eru þær óvinir (bítast um sama manninn) eða sjást ekki í sömu atriðunum. Myndir sem hafa margar konur í stórum hlutverkum og þær eiga samskipti sín á milli, eru kallaðar kvennamyndir og eru ekki vinsælar hjá stórum hluta áhorfenda, þ.e. karlmönnum.


Dæmi úr nokkrum teiknimyndum.

Finding Nemo. Flestöll hlutverk, stór sem smá gerð fyrir karlraddir (og þetta skiptir líka máli því færri leikkonur fá vinnu við þessar myndir), nema hlutverk Dory sem er snilld í meðförum Ellen DeGeneres.

Lion King. Aðalsöguhetjan er karlkyns og vinir hans líka. Merkileg áhersla á karlhlutverkið miðað við hlutverk kvenljóna í raunveruleikanum.

Shrek. Karlkyns og asninn vinur hans er karlkyns. Nánast allir sem hann hittir og talar við eru karlkyns, nema auðvitað prinsessan sem hann kvænist. Hennar hlutverk er reyndar frekar stórt og meira segja alveg frábært því hún velur að vera ekki sæt. (Í Shrek 3 munu nokkrar kvensöguhetjur ævintýranna birtast: Mjallhvít, Rapunzel, Þyrnirós og Öskubuska þannig að þar bætist örlítið í kvenhópinn en fram að því hafa Gosi, Grísirnir þrír (allir karlkyns), Piparkökumaðurinn, Stígvélaði kötturinn, Pétur pan og Hrói höttur séð um aukahlutverkin í myndunum um Shrek.)

Monsters, Inc. Flestöll hlutverkin eru fyrir karlraddir, efsta kvennafn á lista er lítil stelpa sem hjalar, grætur og skrækir.

Cars. Bílarnir eru flestir karlkyns og í teiknimyndasöguheiminum geta konur ekki verið kappakstursbílar, þær eru bara aðdáendur kappakstursbíla.

Toy Story. Þessi þykir mér eiginlega verst þeirra allra. Ekki nóg með að karlhlutverkin séu stærri, fleiri og skemmtilegri eins og í öllum hinum myndunum, heldur eru kartöflurnar hjón og karlinn fer af stað í ævintýri en kvenkartaflan verður eftir heima í örygginu. Karlkartafla hefur meira hugrekki en kvenkartafla. Hversu lágt er hægt að leggjast?

Hvernig stendur á því, að eins og allir þykjast nú sammála um að jafnrétti eigi að komast á – og það hljóti að komast á fyrr eða síðar ef við bara bíðum rólegar – að það sem borið er á borð fyrir börn sýnir áfram þessa skökku mynd? Afhverju er ekki reynt að sýna börnum jafnréttisheim í þeirri von að þau muni líta á hann sem sjálfsagðan þegar þau fá einhverju ráðið? Þarf nauðsynlega að halda áfram að sýna karla í öllum aðalhlutverkum, að þeir ráði og séu merkilegir en stelpurnar séu bara uppá punt?

Efnisorð: ,