föstudagur, janúar 28, 2011

Siðblinda skilgreind út í hörgul

Fyrir réttu ári síðan skrifaði ég langan pistil um siðblindu. Hann hafði lengi verið að gerjast í kollinum á mér og hafði ég m.a. skrifað í neðanmálsgrein við færslu í apríl 2008 að til stæði að skrifa um siðblinda glæpamenn. Ég kom því loksins í verk þarna í janúar í fyrra en þá hafði mér bæst óvæntur liðsauki á mörgum bloggsíðum þar sem fólk birti skilgreiningar á siðblindu (þýddar úr erlendum greinum um þessa persónuleikaröskun sem bloggarar töldu líklegt að fyrrverandi borgarstjóri, forsætisráðherra, bankastjóri og nú ritstjóri sé haldinn) sem ég var þakklát fyrir enda staðráðin í að brúka til eigin nota.

Málið var bara að þegar ég hafði ætlað að skrifa um siðblindu þá var það í allt öðru samhengi en við bankahrunið, enda þó ég efist ekki eina mínútu um að innan vébanda útrásarvíkinganna og annarra fjárglæframanna sé siðblindingja að finna.

Ég hafði nefnilega fyrst og fremst nauðgara í huga þegar ég ákvað í upphafi að fjalla um siðblindu en þegar ég svo loks lét verða af því þá hnýtti ég ýmsu fleiru samanvið. Pistill minn (fyrir lesendur sem nenna ekki að elta tengilinn og lesa hann hér) skiptist því í kafla þar sem var fjallað um einkenni siðblindu, klám, kúgun, nauðganir, dýraníð, einelti og annað ofbeldi, nauðsyn þess að lög og reglur séu markviss og feli í sér skýr skilaboð, og um frjálshyggjusamfélag sem kjörlendur siðblindunnar. Þetta var allt skrifað án þess að vísa í heimildir og í talsverðri belg og biðu enda þótt kaflaskiptingin væri viðleitni mín til að koma reglu á óreiðuna.

En nú hefur Harpa Hreinsdóttir skrifað afar fróðlega röð af færslum um siðblindu á bloggi sínu og eru færslurnar rökstuddar með ótal vísunum, tenglum og heimildaskrá sem vert er að lesa. Yfirskrift pistlaraðarinnar er Þófamjúk rándýr sem læðast og virðist hún ætla að verða mjög yfirgripsmikil og ítarleg. Þegar þetta er skrifað hafa birst sex pistlar og fer stutt efnisyfirlit um þá hér á eftir og mun ég bæta við eftir því sem færslum Hörpu fjölgar. [Viðbót í árslok 2011: Harpa hefur sett allar færslurnar á einn stað, vefinn siðblinda.com.]

1. Fyrsti pistill Hörpu um siðblindu heitir Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, I. hluti og fjallar um einkenni siðblindu.

2. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, II. hluti.
Annar pistill hefur undirtitilinn Á hverju þekkist siðblindur og hvernig kemst maður heill frá slíkum kynnum.

3. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, III. hluti.
Fórnarlömb siðblindra: Konur. Þessi færsla og þær næstu eru um áhrif siðblindra á þá sem standa þeim næst, þ.e. elskendur, maka, börn; byrjað á ástkonum. (Allar þær færslur eru flokkaðar undir þriðja hluta umfjöllunarinnar hjá Hörpu en ég tel þær hverja fyrir sig).

4. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, III. hluti.
Í hjónabandi með siðblindum.

5. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, III. hluti.
Börn siðblindra. Hér er fjallað um það hvernig áhrif það hefur á börn að alast upp hjá siðblindum. Einnig gerir Harpa grein fyrir hugsanlegum orsökum siðblindu.

6. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, IV. hluti.
Siðblindir á vinnustað. Hér er einnig fjallað um einelti á vinnustað þar sem siðblindir eru oft gerendur.

7. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, IV. hluti.
Siðblindir í kirkjunni. Hér segir meðal annars: „Þegar maður nær tangarhaldi á sambandi fólks við guð öðlast maður ríkulegt vald.“

8. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, IV. hluti. Siðblindir í viðskiptum. Hér fjallar Harpa m.a. um samstarf og niðurstöður rannsókna þeirra Pauls Babiak og Roberts D. Hare sem skrifuðu bókina Snakes in Suit. When Psychopaths Go to Work, sem Harpa þýðir sem Höggormar í jakkafötum. Hér ber Enron aðallega á góma en íslenskir bankamenn minna enda þótt þeir leiti mjög á hugann við lesturinn.

9. Skólastjórar sem leggja kennara í einelti. Þessi pistill hefur undirtitilinn Möguleg siðblinda með í spilinu? og er einskonar utandagskrárumræða hjá Hörpu því hann er ekki undir yfirskriftinni Þófamjúk rándýr sem læðast eins og hinir pistlarnir um siðblindu.

10. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda V. hluti. Orsakir siðblindu. Hér er fjallað um líffræðilegar orsakir, arfgengi siðblindu og áhrif félagslegra þátta auk þróunarfræðilegra skýringa. Harpa segir að Robert D. Hare hafi reyndar haldið því fram að það þýði lítið að reyna að greina á milli þess hve miklu leyti félagslegar aðstæður, umönnun og uppeldi í bernsku og æsku o.fl. þess háttar skipti máli og að hve miklu leyti erfðir, enda telur hann að siðblindum sé ekki viðbjargandi hver sem orsök röskunarinnar sé talin.

11. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, V. hluti. Lækning siðblindu. Hér er fjallað um aðgerðir á heila, meðferð á heila og notkun tölvutækni til breytinga á heila, lyf, sálfræðimeðferð ýmiss konar og sagt frá kenningu Robert D. Hare um að siðblindueinkenni dvíni með aldrinum (siðblindum takist að einhverju leyti að laga sig að samfélaginu þótt persónuleikaeinkenni þeirra séu óbreytt, þ.á.m. megindrættirnir sjálfselska, drottnunargirni og kaldlyndi) og einnig sagt frá gagnstæðri kenningu sem segir að siðblindir brenna út eftir róstursamt líf og langvarandi dulda þjáningu þeirra; eftir því sem aldurinn færist yfir siðblinda geta þeir ekki viðhaldið orkufrekum lífsstíl sínum. Þeir brenna út og fyllast depurð þegar þeir líta um öxl á hvíldarlaust líf sitt þar sem fátt er um ánægjuleg samskipti við annað fólk.

12. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, VI. hluti. Hugtakið siðblinda og þróun þess. Hér er sagt frá því hver kom fyrstur fram með hugtakið siðblinda og hvernig það hefur verið notað á mismunandi hátt í geðlæknisfræðinni. Harpa birtir einnig töflu sem er yfirlit yfir helstu hugtök sem læknar hafa notað yfir siðblindu frá upphafi og hugtök sem notuð hafa verið í stöðlum; lýsingu á siðblindu og horfur á bata.

Hér eru nokkur hugtakanna sem gott er að hafa á hraðbergi á tveimur tungumálum, og ég vitna enn í Hörpu: „Af persónuleikaröskunum sem taldar eru í ICD-10 kemst „félagsleg persónuleikaröskun“ (Dyssocial Personality Disorder) næst því að dekka siðblindu. Hún er undirflokkur Sértækra persónuleikaraskana. Innan félagslegrar persónuröskunar eru: Siðleysispersónuröskun (amoral), andfélagsleg persónuröskun (antisocial), ófélagsleg persónuröskun (asocial), geðvillupersónuröskun (psychopathic) og félagsblindupersónuröskun (sociopathic). Siðblinda hefur einnig verið nefnd „geðvilla“ á íslensku.“


13. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda VI. hluti. Íslenskun psykopatiu og umræða um siðblindu á Íslandi. Hér fjallar Harpa um orðin geðvilla og siðblinda, merkingu þeirra og notkun hér á landi. Hún mælir sérstaklega með rúmlega hálfrar aldrar gömlum texta eftir Benedikt Tómasson sem birtist í bókinni Erfið börn. Sálarlíf þeirra og uppeldi, ritstj. Matthías Jónasson ritstýrði og Barnaverndarfélag Reykjavíkur gaf út 1959. Kaflinn eftir Benedikt heitir „Geðvilluskapgerð“.

14. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda VI. hluti. Siðblinda í fræðum, trúarritum og bókmenntum. Harpa nefnir sem dæmi um trúarrit og bókmenntir: Manngerðir ( skrifuð árið 319 fyrir Krist), Biblíuna, Þúsund og eina nótt, Kantaraborgarsögur Chaucers, Egils sögu (ansi skemmtileg greining á Agli Skallagrímssyni), Brennu-Njáls sögu, Passíusálmana (þar sem ekki er minnst á siðblindu!), Sjálfstætt fólk (Bjartur, sbr. pistil Illuga Jökulssonar þar sem hann stafar ofan í fattlausa að Bjartur er ekki jákvæð fyrirmynd, reyndar sé hann „eitthvert versta skrímslið í samanlögðum íslenskum bókmenntum“). Af nýjum bókum nefnir Harpa: Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur og Snjóblindu Ragnars Jónassonar. Einnig er Andrés Önd nefndur til sögunnar.

15. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda VII. hluti. Lokafærsla um siðblindu. Hér rekur Harpa helstu áherslur sínar í færsluröðinni um siðblindu og gerir grein fyrir því hverju hún sleppti (jafnframt því sem hún reifar það lauslega), s.s. siðblindu í stjórnmálum, mannfræðirannsóknum á siðblindu í ýmsum samfélögum, siðblindugreiningu í lagalegu tilliti (og nefnir þar Geirfinns- og Guðmundarmál) og segir að eflaust séu siðblindir betur geymdir í öryggisgæslu á réttargeðdeild en í fangelsi. Þá skrifaði hún hvorki um fræga siðblindingja, s.s. Ted Bundy og Bernie Madoff, né um hvernig sjálfshjálparbækur ýta undir siðblinda hegðun. Harpa segir að henni þyki mikilvægara að gera sér grein fyrir áhrifum siðblindra í grennd og umhverfi, þ.e.a.s. hvernig siðblindur maður getur framið sálarmorð á sínum nánustu; hneppt fjölskyldu sína í gíslingu og valdið skaða sem í skásta falli tekur aðra mörg ár að vinna úr og í versta falli er óbætanlegur. Og hún tekur heils hugar undir ráðleggingar Roberts D. Hare og fleiri: Eina ráðið er að flýja sem fætur toga og því fyrr því betra!

Allt er þetta hin fróðlegasta lesning og á Harpa þakkir skildar fyrir framtakið.

Efnisorð: , , , , , , , , , ,

mánudagur, janúar 24, 2011

Forsendurnar vitlausar og útkoman eftir því

Það eina sem er fyndið við kynþáttahatur er að kynþættir eru ekki til.

Mannfræðingar, líffræðingar og aðrir vísindamenn hafa fyrir löngu aflagt flokkunarkerfi sem tekið var upp fyrir næstum hundrað árum síðan og var á misskilningi byggt. Í grófum dráttum hljómaði það þannig að mannkynið skiptist í hvíta, svarta og gula menn og hefði hver „kynþáttur“ sína eðliseiginleika umfram litarhaftið. Eftir því sem leikar æstust bættust sífellt við fleiri „kynþættir“ og einhver var kominn á þá skoðun að þeir væru 64 alls. Nútíma DNA greiningar hafa sýnt fram á að við erum öll eins.
„Þrátt fyrir augljósa galla náði kynþáttahugtakið, og sérstaklega hin þríþætta flokkun í „svarta“, „hvíta“ og „gula“ kynþætti, sterkri fótfestu í hugum almennings og stjórnvalda. Þannig hefur hún haft og heldur áfram að hafa úrslitaáhrif á lífsgæði og afkomumöguleika einstaklinga um allan heim.“

„Í stuttu máli þýðir þetta að erfðafræðilegur munur á hópum manna er hvergi nógu mikill til að réttlæta það að líffræðingar mundu skipta slíkri tegund í undirtegundir eins og gert er með ýmsar aðrar tegundir.“ [s.s. hunda] „Niðurstaðan er þá sú að kynþáttahugtakið er ekki nothæft til að lýsa hópaskiptingu mannkyns.“


Þessvegna er heimskulegt að hafa andúð á fólki „af öðrum kynþætti“ eða vera sérstaklega stoltur „af eigin kynþætti“ og ber fyrst og fremst vitni um að viðkomandi viti ekki að allt upplýst fólk er hætt að tala um kynþætti.

Svo er annað mál að það er hægur vandi að kalla fólk, sem skilgreinir sig leynt og ljóst sem kynþáttahatara eða flaggar kynþáttahyggju sinni með öðrum hætti*, því ágæta og lýsandi nafni „rasisti“. Rasisti er þá einmitt sá sem aðhyllist gamaldags kenningar um að skipta fólki í flokka eftir litarhætti og gerir það fyrst og fremst til að geta fundið til yfirburða sinna (sem engir eru). Hann þarf ekki endilega að vera uppfullur af hatri og vilja drepa og meiða, heldur getur hann bara haft horn í síðu „svona fólks“ almennt en skipt um skoðun á einu og einu eintaki ef viðkomandi fellur honum í geð. Í bloggpistli Agnars talar hann einmitt um svoleiðis rasista:
„Samt hefur þetta alltaf verið svona, talað um niggara, tæjur, sandnegra og slíkt á meðal Íslendinga á kaffistofunum, í matsölum og svo hlegið dátt að brandara á þeirra kostnað. Yfirleitt hjá flestum er þetta í nösunum því þegar á reynir og „þetta fólk“ er tekið inn í fjölskylduna án þess að litarháttur, kynþáttur eða þjóðerni skipti máli.“


Enda gera flestir sér grein fyrir við nánari viðkynningu að „Fólk er bara eins og annað fólk þegar þessi aðgreining er tekin út úr myndinni, getur verið gott eða slæmt, fyndið eða ófyndið, ástúðlegt sem önugt og með flesta sömu draumanna og áhugamálin og annað fólk heimsins.

Til er fólk sem, þveröfugt við dæmið að ofan, myndar sér neikvæðar skoðanir á einhverjum af erlendum uppruna (ég held að ég haldi mig við orðalagið 'erlendur uppruni', ég nenni ekki þessu kynþáttakjaftæði) vegna þess að sá einstaklingur eða hópur hefur sýnt af sér einhverja þá hegðun sem viðkomandi líkar ekki. Dæmi um það er fólk sem búið hefur erlendis (segir ekki sú rasíska í Hveragerði það?) og hefur kynnst t.d. þeldökku fólki og eftir það hefur það sterkar neikvæðar skoðanir á öllum svörtum. Það er því ekki alltaf rétt samkvæmt orðanna hljóðan að segja að slíkt fólk hafi for-dóma, því það hefur kynnst málum af eigin raun og því ekki hægt að segja að það óttist eitthvað sem það ekki þekkir. En orðið fordómar er samt alveg ágætt og má alveg nota það til skiptis við rasisma og rasista. Það þarf ekki að vera með svo mikinn orðhengilshátt að það sé ekki hægt að nota orð sem við vitum að lýsa skoðunum fólks, hvernig sem þær eru tilkomnar.

Við tölum semsagt um fordóma og jafnvel þó við vitum að það eru ekki til kynþættir tölum við um kynþáttahyggju og kynþáttahatur (eða rasisma). Þessvegna leyfi ég mér að segja að andúð fólks á Pólverjum sé rasismi (Pólverjar eru auðvitað ekki sér kynþáttur, en það eru Asíubúar ekki heldur!) og andúð á gyðingum sé líka rasismi, rétt eins og andúð á múslimum. Það skiptir nefnilega engu máli hvernig rasistar skipta fólki upp, hvort það er í svarta og gula eða Pólverja og múslima, þetta er alltaf andúð á fólki sem auðvelt er fyrir rasistann að flokka í annan flokk en hann telur sjálfan sig vera í, hvort sem það er vegna uppruna, litarhafts, trúar eða menningarlegrar sérstöðu. Hann flakkar því gjarna á milli þess að hatast útí svarta og múslima, aðra vegna litarhafts, hina vegna trúarinnar. Miðað við gáfnafar rasista er reyndar líklegast að hann haldi að múslimar séu einn kynþátturinn enn.

___
* Það er sérkennileg og ógeðfelld hlið kynþáttahyggju sem birtist í því að líta svo á að fólk af ákveðnum kynþætti sé heppilegri bólfélagar en aðrir. Íslenskar konur hafa komið fram í fjölmiðlum og hreykt sér af þeirri skoðun sinni að þeldökkir karlmenn séu öðruvísi en hvítir. Eru notuð um það mörg orð og slett fram amerískum frösum sem eru á þá leið að ekki verði aftur snúið eftir að hafa sofið hjá svörtum. Þetta er ekkert skárra en þegar karlmenn sækjast í asískar konur umfram aðrar, enda þótt að rasisminn birtist ekki sem kynþáttahatur, heldur það að setja allt fólk af sama uppruna undir einn hatt og ætla því sömu eiginleika, hvort sem þeir eru neikvæðir eða jákvæðir (sem meint bólfimi á líklega að vera).

Viðbót, nokkrum mánuðum síðar: Illugi Jökulsson, einn stjórnlaganefndarmanna segir frá því að til standi að taka út orðið „kynþáttur“ úr jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, þar sem er að finna upptalninguna á þeim atriðum sem sérstaklega er tekið fram að ekki megi verða tilefni mismununar. „Arfgerð“ komi í staðinn. Klausan verði þá svona: „Allir eru jafnir fyrir lögum og skulu njóta mannréttinda án nokkurs manngreinarálits, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.“ Fyrir þessu færir Illugi sömu rök og ég hér fyrir ofan. (Baldur Kristjánsson, guðfræðingur, kemur svo reyndar með ágæta ábendingu til Illuga af þessu tilefni á sínu eigin bloggi.)

Efnisorð:

föstudagur, janúar 21, 2011

Loksins umræða um siðferðilegar spurningar varðandi staðgöngumæðrun

Loksins er komin upp umræða um siðferðilegar hliðar þess að leyfa eða banna staðgöngumæðrun, burtséð frá þessu eina dæmi sem allt er orðið vitlaust útaf.

Í fréttaskýringu á Vísi (sjá myndband), er viðtal við Salvöru Nordal siðfræðing og forstöðumann Siðfræðistofnunar og kemur hún með ágæta punkta varðandi velferð barns sem kemur í heiminn með þessum hætti. Í fréttaskýringunni kemur líka fram að bresk kona fær 3milljónir ISK fyrir að ganga með barn í velgjörðarskyni og er það þá kallað að hún sé að fá greitt fyrir lækniskostnað (vegna þess að í Bretlandi er bannað að gera það í hagnaðarskyni), og er það alveg í stíl við það sem ég skrifaði hér um daginn þar sem ég taldi að auðvelt væri að fara fram hjá banni við peningagreiðslum. En ef þessi upphæð er borin saman við dæmið sem við þekkjum frá Indlandi þá fékk staðgöngumóðirin þar 300þús í sinn hlut, og í fréttaskýringunni kemur fram að það sé á við 3ja mánaða leigu á einu herbergi þar um slóðir. Það er því ekkert ofsagt um að verið sé að níðast á efnahagslegri örbirgð indverskra kvenna.


Ástríður Stefánsdóttir læknir og siðfræðingur var svo í útvarpsviðtali um sama mál (sem hlusta má á hér, upptakan virðist reyndar eitthvað skrítin, a.m.k. hökti spilarinn hjá mér viðtalið út í gegn) og sagði hún margt afar athyglisvert.

Hún benti á að börn sem eru ættleidd verða fullorðið fólk og með tímanum fái þau áhuga á að vita um uppruna sinn. Sjálf þekki ég dæmi þess, sem mér skilst að sé algengt, að allt kapp sé lagt á að finna móðurina sem gaf barnið frá sér. Einnig hef ég heyrt að í brjósti þess sem var ættleidd bærist ýmist fyrirlitning á þeirri konu sem gat látið það frá sér því það hljóti að vera mjög vond manneskja eða þá (eða líka) mikill efi um eigið ágæti því að ef að konan sem gekk með barnið — og móðurástin á jú að vera sterkasta tilfinning í heimi — ef sú kona gat látið barnið frá sér, hlýtur þá ekki barnið að hafa verið afar vondur og gallaður einstaklingur sem á varla tilverurétt? Þessu vilja ættleidd börn komast að þegar þau stálpast. Staðgöngumæðrun flækir þetta mál enn meir, hefði ég haldið.

Annað sem Ástríður benti á, var að með staðgöngumæðrun væri búið að opna á möguleikann á að einhleypir karlar keyptu (eða fengju) egg og létu koma fyrir í staðgöngumóður. Það rennur kalt vatn milli skinns og hörunds á mér við þessa tilhugsun. Ég veit vel að til eru karlmenn sem eru frábærir feður hvar sem á það er litið, þekki nokkra slíka sjálf, en karlmenn sem hafa ekki getað platað nokkra einustu konu til að búa með sér eða eiga með sér barn, eða vilja það jafnvel ekki, hvernig karlmenn eru það? Hefur slíkur karlmaður endilega hagsmuni barnsins í huga eða vill hann fá alræðisvald yfir barni, ungum einstakling, stálpuðum krakka sem breytist í unga konu? Næg eru dæmin um slíkt, mér dettur í hug fyrirmyndarfaðirinn Josef Fritzl.

Svo benti Ástríður líka á að uppi eru háværar kröfur um að vera hér með heilsutúrisma, þ.e. flytja inn erlenda sjúklinga. Hún segir að þar sem að aðstæður eru þannig á Íslandi að hér er fjöldi fólks í fjárþörf þá megi velta fyrir sér hvort hingað myndist aðstæður þar sem íslenskar konur taki að sér að vera staðgöngumæður fyrir erlend hjón. (Ætli samtök skuldara myndu ekki taka að sér milligönguna?)

Og hvað ef konur taka að sér í velgjörðarskyni að ganga með barn fyrir vinkonu eða frænku, og komast svo að því að uppeldi barnsins er alls ekki sinnt sem skyldi, mega þær þá ekkert skipta sér af því? Ég veit um konu sem gaf (tilneydd) börn sín til ættleiðingar og þau lentu á vondu heimili. Ekki nógu vondu til að börnin væru tekin af uppeldisforeldrunum en nógu vondu til að hin líffræðilega móðir leið sálarkvalir að vita af aðstæðum þeirra.

Það eru svo margar spurningar sem vakna þegar þessi mál eru skoðuð. Þetta má ekki bara snúast um „réttinn til að eignast börn með öllum ráðum“.

__
Viðbót: Ástríður Stefánsdóttir skrifaði afar góða grein sem birtist í Fréttablaðinu og á Vísi. Lokaorð hennar eru að vara við því að semja lagafrumvarp um staðgöngumæðrun á tveimur mánuðum, það sé alltof stuttur tími fyrir svo viðkvæm mál.

Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, janúar 20, 2011

Sænskur þáttur um staðgöngumæðrun

Í gær var sýndur þáttur um frjósemisbransann í sænska sjónvarpinu (Korrespondenterna á SVT2).

Þar kom fram að frjósemisbransinn velti rosalegum fjárhæðum —hundruðum milljarða — og hve miklu munar fjárhagslega fyrir indverskar konur að selja aðgang að líkama sínum með því að gerast staðgöngumæður. Þær geta jafnvel keypt sér hús eða sett börn sín til mennta. Fyrir þeim eru þetta því gríðarlegir peningar og erfitt að hafna slíku. Þó ekki hafi það komið fram í þættinum, þá segja hjón í Garðabænum að þær fái 300.000 íslenskar krónur fyrir viðvikið en ljóst er að milligöngumenn eru þeir sem maka krókinn á svona viðskiptum, því það er ekkert annað sem þetta er.

En í sænska þættinum kom fram að staðgöngumæðurnar þurfa ekki að standa í heimilishaldi eða barnauppeldi meðan á meðgöngunni stendur heldur eru í fæði og húsnæði.* Sýnt var þar sem þær búa nokkrar saman í sérstöku húsi og tekið fram að þarna færi vel um þær, þær fengju meira að segja að fara út. Án þess að það væri sagt, lá í orðunum að ekki fengju allar staðgöngumæður að njóta svo mikils frelsis.

Einnig var fjallað um sölu á eggjum kvenna sem er algeng í Úkraínu „því konurnar eru svo fallegar“ og sumar þeirra selja oft úr sér egg. Í Þýskalandi má aftur á móti ekki velja sér eggjagjafa eftir útliti, hvað þá andlegu atgervi eða slíku, enda vilja Þjóðverjar hafa allan varann á og ekki hætta sér út á hálar brautir kynbóta, minnugir sögunnar. Af því má draga þá ályktun að ófrjósamir Þjóðverjar kaupi sér egg í Úkraínu og skottist með þau til Indlands þar sem einhverri fátækri konu er gert tilboð sem hún getur ekki hafnað.

Og svo er það spurningin hvort markaðslögmálin eigi að ráða í þessum efnum. Eftirspurnin er jú fyrir hendi. Eða á fólk alltaf að fá allar sínar óskir uppfylltar, bara ef það á pening?

Mér til mikillar furðu minntist enginn á Höllu Gunnarsdóttur.
___
* Ein þeirra sagðist dauðfegin að vera laus við slíkt stúss á meðan, en ekki fer sögum af því hvort öllum þykir svo frábært að sjá ekki fjölskyldu sína mánuðum saman, en oft búa þær fjarri þeim stað sem þær eru látnar ganga með barnið (líklega á vegum milligöngumannanna).
** Læknar mæla ekki með að konur gangi gegnum hormónameðferð og eggjagjöf oftar en þrisvar en eggin geta orðið allt að 40 í hvert sinn, enda fá þær margfaldan þann hormónaskammt sem gefinn er t.d. í Svíþjóð þegar konur gangast undir tæknifrjóvgun. Sagt er að þær úkraínsku fái fyrir góða þóknun þó konan sem heimsótt var hafi búið í niðurníddri sovéskri blokk svo ekki virtist hún nú velta sér uppúr peningum. Konan sem starfaði á fínu skrifstofunni sem sá um að útvega vesturlandabúum egg, hún bar aftur á móti með sér að vera vön að ganga í dýrum fötum, enda eru það milligöngumenn sem hagnast mest á viðskiptunum.

Efnisorð: , , ,

miðvikudagur, janúar 19, 2011

Dregið út

Ég veit svosem alveg hvað átt er við þegar talað er um að draga þátttakendur eða vinningshafa út og veita þeim einhverskonar verðlaun. En mér finnst það samt alltaf hljóma furðulega.* Einu sinni var notaður hattur eða pottur og þá var talað um að draga nafn vinningshafa úr pottinum en nú virðist nafn vinningshafa engu máli skipta. Líklega er þetta einhverskonar stytting í málinu sem við eigum öll að skilja (og eins og fram er komið þá skil ég hana). Mér óar þó við því að taka þátt í leikjum þar sem niðurstaðan yrði e.t.v. sú að ég yrði dregin út. Fengi ég tíma til að fara í úlpu? Eða yrði ég bara dregin út á götu eins og ég stæði, yfirhafnarlaus, og kannski kalt úti? Hvað ef ég væri upptekin og vildi ekki láta draga mig út, yrði ég þá samt dregin út, æpandi?

Um daginn var stærðar auglýsing í blöðunum sem notaði þetta „draga fólk út“ orðalag og í dag var sama auglýsing birt aftur en nú tók hún minna pláss. Ég sá samt að enn var verið að hóta eftirfarandi:

Tveir krakkar á aldrinum 7-9 ára verða dregnir út

Ekki er upplýst hvaðan þeir verða dregnir út, hvert eða hvernig. Það virðist eiga að fara með börnin til útlanda, verða þau þá dregin aftan í skipi?

Svo á einhver fylgdarmaður að fara með þeim (er búið að ákveða hver það á að vera, kannski Jón stóri?) og þar verða krakkarnir látnir leiða leikmenn inn á völlinn í ótilgreindu landi. Ekkert er sagt um hvort þau verða dregin útaf honum aftur og send heim með fylgdarmanninum.

Mér finnst ljótt mál að draga krakka út. Vill enginn vita hvað börnin heita?
___
* Með því að gúggla „vinningshafar dregnir út“ fékk ég 91.800 niðurstöður. Engar niðurstöður fengust fyrir „nöfn vinningshafa dregin út“.

Efnisorð:

þriðjudagur, janúar 18, 2011

Að draga úr nagla er að draga úr mengun

Ég ólst upp í hreinustu höfuðborg í heimi í hreinasta landi í heimi. Þessa staðreynd auglýstum við í útlöndum og vegna hennar komu hingað þúsundir ferðamanna ár hvert. Þeim bentum við á þessi óumdeilanlegu gæði og það var gott. Einn góðan veðurdag vöknuðum við upp við að vindar höfðu breyst, eða öllu heldur fallið niður. Áður næstum óþekkt logn brast á í Reykjavík, ekki bara einu sinni heldur alloft. Rigning tók að falla lóðrétt niður í stað skáhallt eða í láréttum gusum í andlit fólks og var því nú hægt að nota regnhlífar eins og siðað fólk í útlöndum. Í ofanálag varð nú ekki vart ískaldrar golu í görðum og á svölum þegar taka átti til við sólböð og minnist ég sérstaklega þeirrar stundar sem ég lá í sólbaði og áttaði mig á að ég var ekki með gæsahúð eins og venjulega þegar strekkingurinn gerði lítið úr áhrifum sólarinnar á hörundið.

Þó logn þetta væri þannig ávísun á aukin lífsgæði þá á hér vel við orðatiltæki okkar trúleysingjanna: Drottinn gaf og drottinn tók. Því um leið og vindurinn hætti að blása um höfuðborgina þá kom í ljós að allar yfirlýsingar um að loftið yfir henni væri hreinna en annarsstaðar reyndist hreinasta skröksaga. Á logndögum liggur mengunarský yfir Reykjavík*. Það gerir illt verra að bílaeign borgarbúa hefur aukist gríðarlega á síðustu áratugum** og spæna þessir bílar upp malbikið sem ýrist upp í svokallað svifryk sem ekki bara skríður innum glugga hjá fólki til að mynda þunnt sandlag í gluggakistum, heldur þjappar sér í rólegheitum ofan í lungu borgarbúa.

Margsinnis hefur verið bent á að notkun nagladekkja sé ein helsta ástæða svifryksins því naglarnir eru jú helstu orsakavaldar þess að malbikið spænist upp. Samt er eins og stór hluti fólks, tæp 40% nánar tiltekið,*** vilji ekkert frekar en aka um á nöglum. Það væri athyglisvert að spyrja fólk hvort það geri það af vana eða hvort það trúi því í raun og veru að naglarnir breyti svo miklu um aksturshæfni bifreiðarinnar, og hvort þeir dagar á ári sem færð er þannig að það skipti einhverju máli séu svo margir að það sé réttlætanlegt.

Fyrir nokkuð mörgum árum lenti ég í þeirri aðstöðu að þegar ég ætlaði að setja ný vetrardekk undir bílinn minn þá fengust hvergi ónegld dekk af réttri stærð. Ég ók dekkjaverkstæða á milli og fékk allstaðar sömu svör þess efnis að einöngu væru til negld dekk. Þarna var umræðan um skaðlega notkun nagladekkja löngu orðin hávær og ég hafði nokkur ár á undan alltaf verið á ónegldum dekkjum og þó að tími væri kominn til að skipta þeim út þá var ég allsekki sátt við að fara aftur á negld dekk. Úr varð þó að ég keypti negld dekk og var heldur lúpuleg þann veturinn þegar ég ók um á auðum götum og spændi upp malbikið.

Um vorið þegar ég skipti aftur yfir á sumardekk tók ég þó til þess bragðs sem ég hafði haft í huga þegar ég keypti nagladekkin. Þegar ég kom heim frá dekkjaverkstæðinu sem sá um dekkjaskiptin, settist ég út á stétt í góða veðrinu með skrúfjárn í hendi og tók hvert dekkið á fætur öðru og plokkaði úr því naglana með skrúfjárninu.**** Það var auðvelt verk og mér leið mun betur á eftir. Ég hefði gert þetta áður en ég lét setja dekkin undir hefði ég getað, en mér hafði verið bent á að á ný dekk eru svo stíf að það hefði verið ómögulegt að potast með skrúfjárnið undir naglana og mér var ráðlagt að bíða með það þar til búið væri að keyra talsvert á dekkjunum. Næstu vetur á eftir ók ég því um á þessum dekkjum, naglalausum. Það voru góð skipti. Eftir það keypti ég svo naglalaus dekk nokkrum sinnum en nú notast ég við heilsársdekk, sem orðin eru mun betri en áður. Ekki varð ég þess vör þennan eina vetur sem ég var á nagladekkjum að mér fyndist öryggi mitt meira eða aksturseiginleikar bílsins betri þá daga sem snjór var og hálka en þeir dagar voru reyndar mjög fáir. Ég get því ekki sagt annað en: far vel nagladekk, ég þarf aldrei aftur á ykkur að halda.

Þeir ökumenn sem nú aka um á nagladekkjum ættu kannski að setjast útá stétt í vor og a.m.k. skoða þann möguleika að draga naglana úr dekkjunum og draga þarmeð úr mengun andrúmsloftsins. Þeir þurfa jú að anda því að sér líka.

___
* Mengunarský vegna sorpbrennslustöðvarinnar við Ísafjörð hljómar þó mun verr, engin spurning. En það er svosem hluti af ímyndarvandanum; hvernig útskýrum við slík ósköp fyrir útlendingum sem hafa verið lokkaðir hingað til að njóta óspilltrar náttúru og hreina loftsins?
** Á sama tíma hafa almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, þaðeraðsegja strætó, annarsvegar verið úthrópaðar sem púkalegur valkostur og hinsvegar hefur það verið stefna rekstraraðila að þessi þjónusta eigi að skila hagnaði, og sérstaklega hefur það síðarnefnda orðið til þess að margt fólk hefur ekki minnsta geð í sér að eltast við síbreytilegt leiðakerfi og stopular ferðir.
*** Þessa tölu hef ég úr grein Hjálmars Sveinssonar, sem skrifar ágæta og þarfa grein um loftgæði og kostnað Reykjavíkurborgar (útsvarið) við að endurnýja malbikið, sem er 150 til 200 milljónir árlega.
**** Sumir naglanna voru horfnir úr dekkjunum og virðast þeir hafa spýst úr á ferðum mínum um bæinn. Ekki er þó ógætilegum akstri um að kenna enda er ég miðaldra kona sem ek afar varlega eins og þeirra er háttur. Kannski er orsakarinnar frekar að leita í þeirri staðreynd að ég er lélegur bílstjóri, en það er genetískur ágalli sem ég þarf að burðast með eins og allar konur.

Efnisorð: ,

mánudagur, janúar 17, 2011

Þegar skuldir eru lagðar að jöfnu við sparnað

Um helgina heyrði ég að til stæði að mótmæla við setningu alþingis í dag. Ég furðaði mig eilítið á þessu því ég vissi ekki betur en enn og aftur væri búið að tilkynna um einhverjar leiðréttingar lána og hvað það nú allt heitir og allskonar úrræði kynnt svo fólk gæti grynnkað á skuldum sínum. Ríkisstjórnin var alveg örugglega búin að segja að ekki væri meira hægt að gera. Sé svo í frétt í blaðinu að „öll úrræði fyrir skuldsett heimili“ séu komin til framkvæmda. Við hliðina á henni er önnur frétt um að hagsmunasamtök heimilanna boði til þessara mótmæla. Mig fýsti að sjá hvert tilefni mótmælanna er* og komst þá að því að krafan er sú að „fjárskuldbindingar almennings verði leiðréttar vegna afleiðinga banka- og gjaldeyrishrunsins.“ Það er semsagt ekki búið að ganga eins langt og hægt er í þá átt, að mati hagsmunasamtaka heimilanna, en hvenær finnst þeim þá að þeir hafi fengið allar óskir sínar uppfylltar? Jú, þeir vilja að „Staða lántaka verði þannig jöfnuð gagnvart innistæðueigendum sem fengu hlut sinn fyrirhafnarlaust bættan með ákvörðun stjórnvalda.“

Jahá.

Semsagt, sá sem var á venjulegum eða frekar háum launum (ekki bankastjóralaunum) og æddi af stað og keypti sér einbýlishús, Range Rover (og nýjan fólksbíl handa frúnni), var í sífelldum utanlandsferðum sem gengu útá gegndarlaus innkaup á fatnaði og allskyns varningi, keypti vélknúna snjósleða handa allri fjölskyldunni og í stuttu máli sagt hegðaði sér eins og vitleysingur í fjármálum því hann hefði aldrei getað þetta á launum sínum, hann á að fá stöðu sína jafnaða á við „innistæðueigendur“. Innistæðueigendur voru ekki alls ekki allir kúlulánaþegar eða aðrir útrásarvíkingar, síður en svo. Stór hluti þeirra var fólk sem er á eftirlaunaaldri** og hefur alla sína hunds og kattartíð sparað og geymt peningana til elliáranna, eða til að geta gaukað að barnabörnunum og hjálpað þeim í námi. Finnst stórskuldurunum í hagsmunasamtökum heimilana að það sé eitthvað og ég meina eitthvað réttlæti í því að sparsemi eldri kynslóðarinnar eigi eitthvað sameiginlegt með græðgi þeirra sem skulda nú eins og skrattinn skömmunum?

Það var auðvitað allt rangt við lánastefnu bankanna. Alveg frá því að dæla peningum í eigendurna (Jón Ásgeir, Björgólf Thor og alla þá „óskyldu aðila“) og yfir í það að bjóða skólakrökkum endalausan yfirdrátt. En þar sem að sumt, eða jafnvel megnið, af því sem lánað var fyrir voru ónauðsynlegir hlutir — eða ónauðsynlega stórt húsnæði — þá er ekki annað en hægt að benda fólki á að það hefði aldrei átt að taka öll þessi lán til þess að lifa lúxuslífi, jafnvel þótt það sæi að útrásarliðið leyfði sér það.

Svo skil ég ekki alveg þetta með að það skuli hafa verið svona rangt að tryggja innistæður.*** Margir hafa orðið til að gagnrýna bankakerfi og það að við skulum yfirhöfuð nota peninga, en eru hagsmunasamtök heimilana í þeim hópi? Það er alveg ljóst að ef að allir innistæðueigendur í öllum bönkum hefðu tapað öllu sínu, þá myndi enginn þeirra nokkurntímann framar leggja inn pening í banka. Og engir aðrir heldur því enginn myndi treysta bönkum fyrir peningum framar. Og hvar á fólk þá að fá lán? Ég held að þeir sem aðhyllast „við borgum ekki“ stefnu hagsmunasamtaka heimilanna séu ekki búnir að hugsa þessa kröfu sína til enda um að jafna stöðu sína gagnvart innistæðueigendum, því fyrsta verk stórskuldara yrði — fengju þeir allar skuldir sínar felldar niður — að hlaupa í bankann og heimta meiri pening til að geta haldið áfram að hegða sér eins og fífl. Væri enginn banki gætu þeir það ekki.

En stórskuldarar hugsa ekki. Þeir bara heimta.

___
* Auðvitað er tilefnið það að koma ríkisstjórninni frá. Sjálfstæðismenn eru trylltir yfir því að vera ekki í stjórn og svo eru það allir hinir sem hafa þvílíkt gullfiskaminni að þeir halda að kreppan sé þessari ríkisstjórn að kenna en ekki þeirri sem stýrði landinu lóðbeint á hausinn.
** Reyndar voru bankarnir mjög duglegir við að hvetja eldra fólk til að taka út af bankabókum til að kaupa hlut í bönkunum og því iðnari voru þeir að plata gamla fólkið eftir því sem nær dró hruninu. Margt eldra fólk missti því næstum allt sitt þegar bankarnir fóru á hliðina. En það sem ennþá átti sparisjóðsbókina sína átti sannarlega rétt á að fá að eiga innistæðu hennar áfram.
** Það hefði þó e.t.v. mátt vera þak á hve miklar innistæður svo að þeir sem áttu hundruðir milljóna af illa fengnu fé sætu ekki ennþá á hrúgunni löngu eftir að þeir komu þjóðinni á vonarvöl.

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, janúar 13, 2011

Mér þykir mest gaman þegar einhver deyr

Kvenhormónin þutu af stað þegar ég las í Fréttablaðinu í morgun að hópur karlmanna vill fá að drepa hreindýr með boga og örvum. Ég hafði ekki áttað mig á að þau verkfæri væru enn notuð við veiðar, en samkvæmt fréttinni er það algengt í öðrum löndum og síst ónákvæmara en að nota byssu. Mér finnst frábært að til séu fleiri angar á „mér þykir mest gaman þegar einhver deyr“ klúbbnum og styð þetta því heilshugar, annaðhvort væri nú.

Það er bara ein spurning sem ég velti fyrir mér — eða öllu heldur sem kvenhormónarnir í mér æpa af löngun til að vita:

Afhverju er ekki til stefnumótasíða þar sem hægt er að komast í kynni við svona karlmenn? Því hversu aðlaðandi er það ekki að finnast það skemmtilegt að drepa einhvern, sérstaklega varnarlaus dýr, að minnsta kosti fæ ég í hnén af hrifningu. Gegt töff, það er það sem það er!

Efnisorð: ,

sunnudagur, janúar 09, 2011

Íþróttir og ekki-íþróttir

Af því að ég er svo gríðarlega mikil áhugamanneskja um íþróttir og fyllist alltaf mikilli eftirvæntingu þegar kynna á úrslit í kjöri um íþróttamann ársins, þá langar mig að segja frá litlu atviki sem ég varð vitni að fyrir margt löngu.

Fyrst langar mig samt til að hneykslast pínulítið á þeim sem hneykslast á því hverjir koma helst til greina sem íþróttamenn ársins. Nú er það eitt af náttúrulögmálunum að allir hafa gaman af fótbolta og handbolta og að vitað er að fólk sem ekki stundar þær íþróttagreinar* hefur ekkert vit á íþróttum jafnvel þótt það sé kannski sjálft eitthvað að dunda sér í frístundum við að sprikla eitthvað. Það er oft þannig fólk sem virðist líta svo á að það eigi einhvern rétt á að hafa skoðun á kjöri íþróttamanns ársins, og nöldrar ógurlega útafþví að einhver úr þeirra hópi fær ekki hið glæsta stofustáss til varðveislu næsta árið. Sumum fannst meirasegja að einhverjar fimleikastelpur ættu að fá þann mikla heiður! Þó þær hafi fengið einhvern Evrópumeistaratitil þá er þetta bara kellingasport og fjarstæða að gera hóp af kellingum að íþróttamanni ársins! Skilur fólk ekki að það á að vera maður sem fær verðlaunin, ekki kona?**

Jæja, ég held að þetta lið megi bara vera ánægt að hafa náð að beita svo mikilli skoðanakúgun og þrýstingi og pólitískri rétthugsun að ein af þessum fimleikagellum komust alveg í þriðja sæti á eftir sko alvöru íþróttamönnum og restina ráku svo þrjár kellingar í viðbót (ein spilar reyndar fótbolta).

En auðvitað var boltamaður í efsta sæti, svoleiðis á það að vera og er næstum alltaf (nema þegar þrýstihópaliðið fær sínu framgengt).

Nema hvað, að þessum sannindum sögðum, þá kemur litla sagan sem ég talaði um í upphafi.

Ég var að vinna á vinnustað þar sem umræður urðu fjörugar í matarhléum. Eitt sinn sat ég til borðs þar sem verið var að ræða áætlanir um að efla félagslífið og vildu þá nokkrir sessunautar mínir (karlkyns) hittast á laugardögum til að spila fótbolta. Var þá vitnað í skoðanir eins starfsfélaga okkar sem var fjarstaddur en hann hafði einhverjar meiningar um að fólk gæti nú komið saman til íþróttaiðkana án þess endilega að spila fótbolta (sem myndi útiloka marga frá þátttöku). Varð þá einum æstum fótboltaáhangandanum að orði að umræddur samstarfsmaður okkar væri algert fífl og það væri fáránlegt að hlusta á mann sem hefði ekkert vit á íþróttum ræða þá hluti. Var ekki laust við að sumt fólk við borðið yrði langleitt við þessa yfirlýsingu. Ekki bakkaði sá æsti þó neitt með þessa skoðun sína enda þótt honum væri bent á það — sem við vissum öll og hann líka — að þessi maður væri heimsmethafi í sinni íþróttagrein og ætti í fórum sínum nokkra verðlaunapeninga frá Ólympíuleikum fatlaðra. Hann æstist meir heldur en hitt og bætti við: „Hann vill einmitt meina okkur að spila fótbolta af því að hann getur ekkert spilað sjálfur!“

Mér er því alveg ljóst að það er ekki nema sjálfsagt að taka tillit til boltaáhugamanna og velja alltaf einhvern úr þeirra röðum sem íþróttamann ársins. Aðrir geta nefnilega ekkert í íþróttum og hafa ekki á þeim vit.

___
* Skilgreiningin á að stunda íþróttir er meðal annars sú að horfa á íþróttina í sjónvarpi eða gera sér jafnvel ferð á völlinn í góðu veðri.
** Það hafa nú heilar 3 konur fengið þennan titil svo það er furðulegt af þeim að vera eitthvað að kvarta.

Efnisorð: ,