föstudagur, maí 31, 2013

Lof og last

Ekki gafst tækifæri til að fjalla um fjölmörg mál í maímánuði en til að bæta úr því verður útdeilt lofi og lasti í snarheitum. Fyrst verður þó bent á nokkra góða pistla sem lesendur ættu ekki að láta framhjá sér fara.

Frábærar vangaveltur Hildar Ýrar Ísberg um „íþróttir fyrir alla“.

Páll Ásgeir Ásgeirsson bendir á að viðhorf heimamanna eru ekki endilega náttúrunni fyrir bestu.

Kristín Einars skrifar opið bréf þar sem hún hvetur Sigmund Davíð til að snúa af virkjanaleiðinni og rekur framleiðsluferli áls. (Auðvitað eru engar líkur á að SDG taki mark á þessu. Hafi hann lesið Draumalandið — eða bara fylgst með — veit hann þetta allt saman, hafi hann ekki lesið það þá hefur hann hvorteðer engan áhuga og hefur ekki héðanaf).


LOF
Gunnsteinn Þorgilsson, bóndi að Sökku í Svarfaðardal, á lof skilið fyrir góðverk sem hann vann á dögunum við annan mann, Baldur Þórarinsson frá Bakka. Þeir gerðu hálmdyngju fyrir álftir að verpa í en í óefni stefndi með varpið. Svona eiga bændur að vera.

Lofsverður samtakamáttur feminista um allan heim varð til þess að Facebook mun endurskoða hvernig brugðist verður við kvenhatri og öðrum hatursáróðri á sem notendur birta.

Það er lofsvert að einn hluthafa í Hval hf (Birna Björk Árnadóttir) vill að félaginu verði slitið því hvalveiðihluti félagsins standi ekki undir sér og afurðir seljist treglega.

Lof fær HSÍ fyrir að mismuna ekki konum og körlum (öfugt við KSÍ).

Ánægjulegt er og lofsvert að samkynhneigðir geta nú gifst í Frakklandi eins og aðrir borgarar. Sko Frakka, þetta tókst þeim þó að kaþólikkar (og að öllum líkindum fleiri trúfífl) meðal þeirra hafi verið með æsing yfir þessum sjálfsögðu réttindum.


LAST

Kjósendur, sérstaklega þeir sem kusu Framsóknarflokkinn.

Fleiri eðjót: ferðamenn sem halda að ísjakar séu leikmynd fyrir skemmtilegar uppákomur.

Enn einu sinni komst upp að KSÍ er einbeitt í að mismuna konum og körlum með öllum ráðum. Nú hefur komið í ljós að það þykir svo ómerkilegt að dæma kvennaknattspyrnu að laun dómara eru lægri heldur en þeirra sem dæma karlafótbolta, þó völlurinn sé jafnstór, leikmennirnir jafnmargir og leiktíminn jafnlangur.

Mismunun gagnvart knattspyrnukonum er útbreidd: Akureyrarbær stundar líka kynjamismunun.

Ekki má gleyma skammarlegri meðferð á Króötunum sem fluttir voru úr landi, sannkallaðir gripaflutningar. Það er ömurlegt að íslensk stjórnvöld með fulltingi Útlendingastofnunar skuli koma svona fram við fólk.



Efnisorð: , , , , , , , , , , , , ,

fimmtudagur, maí 30, 2013

Markhópur WOW: strákar sem eru eða verða vændiskaupendur

Í dag bættist flugfélagið WOW í hóp þeirra fyrirtækja sem ég mun aldrei eiga viðskipti við.

Ekki nóg með að WOW hafi auglýst vændishverfið í Amsterdam eins og hvern annan afþreyingarmöguleika í útlöndum heldur var talað niðrandi um vændiskonur sem uppfylla ekki ströng skilyrði WOW um ungan aldur og glæst útlit.

Afsökunarbeiðni fyrirtækisins kom eftir að reynt hafði verið að klóra yfir skítinn. Í afsökunarbeiðninni er sagt að það hafi ekki verið ætlunin að særa eða móðga. Nei, en ætlunin var að fá vændiskaupendur til að kaupa ferðir til Amsterdam. Það dugir mér til að taka þá ákvörðun að sniðganga þetta skítafyrirtæki.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, maí 28, 2013

Fyrsta vika Framsóknarmanna við völd

Ég var meðal þeirra sem stóðu við Stjórnarráðið í dag. Veit ekki með hina en ég mætti kauplaust enda hefur aldrei þurft að borga mér fyrir að vera ósammála Framsóknarmönnum. Eins og hinir afturhaldskommatittirnir sem voru þarna og veifuðu grænu var ég þarna því mér sveið lítilsvirðingin sem nýi forsætisráðherrann sýndi öllum þeim sem sendu inn athugasemdir við Rammaáætlun. Flest þetta fólk hefur líka áhyggjur sínar af þeirri virkjanastefnu sem ríkisstjórnin virðist vera á, en ekki ég. Ekki vegna þess að ég sé ekki sammála þeim heldur vegna þess að ég er viss um að þetta er vonlaus barátta, rétt eins og andstaðan við Kárahnjúkavirkjun. Það verður hér allt virkjað í klessu.

Mörgum hefur orðið starsýnt á stjórnarsáttmála nýju ríkisstjórnarinnar þar sem talað er um sátt og samlyndi. Nánar tiltekið svona: „Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið.“ Þetta þykir nokkuð á skjön við hvernig nýi forsætisráðherrann hefur talað fyrstu viku sína í starfi.

Ég fyrir mitt leyti vona að stjórnarandstaðan, þ.e. það fólk sem sat í ríkisstjórn frá 2009-2013 taki ekki upp ósiði Sjálfstæðisflokks og Framsóknar með því að halda þinginu í gíslingu með málþófi. En að öðru leyti finnst mér fullkomlega eðlilegt að mótmæla öllu því sem kemur frá núverandi ríkisstjórnarflokkum, hátt og í hljóði, á þingi, í fjölmiðlum sem í netheimum, undir nafni eða ekki. Því sannarlega verður ekkert samlyndi þegar forsætisráðherra leggur sig í líma við að tala niðrandi til umhverfisverndarsinna og feminista, hvað þá þegar ríkisstjórnin hefur hernað gegn náttúrunni.



Efnisorð: , ,

miðvikudagur, maí 22, 2013

Jafnrétta einbýlishúsastjórnin

Jæja, þá er kynjajafnréttið komið uppúr kjörkössunum. Pláss var fyrir þrjár konur í níu manna ríkisstjórn. Byrjar vel, lofar góðu. Framhaldið verður eftir því.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, maí 21, 2013

Viðhorf til kvenna sem segja ekki nei

Guðrún C. Emilsdóttir skrifar góðan pistil á Knúzið þar sem hún ræðir nýlega sýknudóma í nauðgunarmáli, annan hér á landi og hinn í Svíþjóð.

Það eru nokkur atriði sem mig langar að nefna eftir að hafa lesið pistilinn. Það er best að byrja á að taka fram að ég er auðvitað alveg sammála Guðrúnu og mér er óskiljanlegt hvernig dómararnir komast að þeirri niðurstöðu að þessar stúlkur hafi ekki verið mótfallnar því sem var gert við þær, og að karlmennirnir hafi verið í fullum rétti að fara sínu fram gagnvart þeim. Guðrún segir rétttilega að
„Skilaboðin sem þessir dómar gefa eru að við hvaða aðstæður sem er eigi konur (og karlar þegar það á við) að segja hátt og skýrt „nei“ séu þær mótfallnar einhverjum kynferðislegum athöfnum, jafnvel þegar gerendum ætti að vera ljóst að litlar líkur séu á því að konur njóti ákveðinna athafna.“

Þetta er auðvitað ekki í fyrsta sinn sem dómarar sýkna nauðgara útfrá þessu viðhorfi, að segi kona ekki skýrt nei þá megi gera við hana hvað sem er. Héraðsdómur Reykjavíkur viðraði þá skoðun í frægu nauðgunarmáli þar sem konu var nauðgað á salerni Hótel Sögu. Lögmaður nauðgarans sagði að það sem gerðist á salerninu hefði verið í lagi því konan sagði ekki nei. Héraðsdómur var sammála honum:

„Þá er að einnig að líta til þess að X þykir, fram til þess að þau fóru inn á salernisklefann, ekki hafa gefið ákærða ástæðu til að halda það að hún væri honum andhverf. Þegar allt þetta er haft í huga álítur dómurinn að ákærða hafi ekki hlotið að vera það ljóst að samræðið og kynferðismökin væru að óvilja X.“
Samkvæmt þessu er kona, sem segir ekki skýrt nei, til í hvað sem er.

Vinkona Guðrúnar gaf út almenna yfirlýsingu um að hún sé mótfallin kynferðislegu samneyti nema hún gefi annað skýrt og skilmerkilega til kynna, að það sé vissara að tilkynna það karlmönnum að, mér hefur dottið það sama í hug, oftar en einu sinni. Það er víst öruggara fyrir konur að lýsa þessu yfir, eins og viðhorf dómsvaldsins er.

En svo er það hitt viðhorfið, viðhorf stráksins sem nauðgaði vinkonu sinni dauðadrukkinni. Hann var fenginn til að fylgja henni heim því hún var of drukkin til að vera ein á ferð. Þegar á áfangastað var komið finnst honum — eftir langa vináttu — að nú sé tækifæri til að láta til skarar skríða. Hvað var hann búinn að bíða lengi eftir þessu tækifæri? Hvernig á stelpan að geta átt karlkyns vini eftir þetta, ef hún veit að þeir eru bara að bíða færis? Stelpan gat ekki séð fyrirfram að strákurinn sem hún hélt að væri vinur sinn væri nauðgari, hvernig á hún að geta treyst karlmönnum yfirleitt eftir þetta? Í þessu fellst jafnvel mesta áfallið sem hún verður fyrir. Feministar hafa lengi bent á að það sjáist ekki utaná karlmönnum að þeir eru nauðgarar, og verið gagnrýndar fyrir að segja að allir karlmenn séu nauðgarar. Málið er að vegna þess að ekki er hægt að vita það fyrr en á reynir verður að líta á svo á að hver og einn gæti verið nauðgari. Þegar karlmaður nauðgar vinkonu sinni þá er hann þar með búinn að segja að engum karlmönnum sé treystandi. Það eru vandræði sem nauðgarar hafa komið öllum karlmönnum í og eru ekki feministum að kenna.

Guðrún veltir því upp „hvort herferðir eins og „Nei þýðir nei“ hafi misheppnast og í raun snúist upp í andstöðu sína.“ Ég er því að einhverju leyti sammála, eins og ég skrifaði um fyrir margt löngu þar sem ég bendi á að það verði alltaf að „tala um nauðgun á sem fjölbreyttastan hátt – ekki bara eitt slagorð sem látið er ganga í áraraðir þar til annað tekur við.“ Núna er í gangi „Fáðu já“-herferðin, sem Guðrún mælir með, en mér finnst augljóst að hún getur líka snúist upp í andhverfu sína: að nauðgararnir kreisti já uppúr fórnarlömbum sínum (og taki jafnvel jáið upp til að spila fyrir löggu og dómstóla) áður en þeir láta til skarar skríða.

Karlmenn geta ágætlega, eins og fram kemur í grein Guðrúnar, lesið á milli línanna og túlkað líkamstjáningu. Þeir hafa enga afsökun fyrir því að hunsa tregðu kvenna til kynmaka, þeir vita alveg hvað þeir eru að gera. En þeir nota hinsvegar skort á mótspyrnu eða að konan hafi ekki sagt nei, þegar þeir eru yfirheyrðir um málsatvik — þá ætti lögga og dómsvald afturámóti að taka ekki mark á þeim. Orð þeirra eru marklaus þegar gjörðirnar sýna annað.

Efnisorð: , , ,

sunnudagur, maí 19, 2013

Tillitsleysi hjólreiðamanna

Bloggpistill sem ég las í dag hleypti í mig illu blóði. Pistillinn ber yfirskriftina Heyrnarlaus á reiðhjóli, en ætti kannski frekar að heita Tillitslaus á reiðhjóli. 'Heyrnarleysið' í titlinum snýr að þeim sem njóta útivistar með heyrnartól í eyrunum. Pistlahöfundi finnst það óþarfi, allir eigi að vera eins og hann og hlusta á fuglasönginn eða þögnina. Honum finnst reyndar líka óþarfi að vera með bjöllu á hjóli sínu og þykir betra að nota röddina til að gera öðrum vart við sig. Hann nefnir reyndar ekki hvernig hann fari að því að ná sambandi við fólkið með heyrnartólin, hvort rödd hans nái að yfirgnæfa það sem úr þeim berst. Það myndi bjalla gera í flestum tilvikum, því bjölluhljóð er hátt og hvellt. Bjöllur eru semsagt öryggistæki og skylt er að reiðhjól hafi bjöllu.

Pistlahöfundur er reyndar fjarri því eini hjólreiðamaðurinn sem íþyngir ekki fararskjóta sínum með bjöllu, þær eru sjaldgæfar meðal þeirra sem geysast eftir hjólreiðastígum höfuðborgarsvæðisins. Það verð ég oft — næstum áþreifanlega — vör við þegar ég geng á tvískiptum gangstígum þar sem annar hlutinn er ætlaður gangandi vegfarendum og hinn hjólreiðamönnum.

En þó pistillinn fjalli að mestu leyti um 'heyrnarleysi' segir pistlahöfundur einnig frá því að kunningi hans geri það að leik sínum að bregða gangandi vegfarendum með því að hjóla eins hratt fram úr þeim auðið er, verði þeim á að vafra yfir á hjólastíginn. Ég hef oft séð hjólreiðamenn þeysast inná þann part sem er ætlaður gangandi fólki, ýmist vegna þess að þeir vilja vera samhliða eða eru að fara framúr (og nota þá aldrei bjöllu). Ég hef afturámóti engan séð reyna að bregða þeim svo þeir hrökkvi til baka eða útaf stígnum. En ég mun hafa það í huga næst þegar ég sé hjólreiðamenn gera sig breiða.

Efnisorð:

mánudagur, maí 13, 2013

Konan sem vogaði sér að skrifa um knattspyrnu

Fótboltaáhugamönnum af karlkyni finnst skoðanir Kolbrúnar Bergþórsdóttur (sem eru settar fram í augljósu gríni) óásættanlegar. Þeir hafa því farið hamförum á athugasemdakerfum — og ég sé að Hildur Lilliendahl er farin að kortleggja nokkur ummæla þeirra. Mörg þeirra sem ég hef rekist á snúast um gáfnafar Kolbrúnar og útlit, því er haldið fram að hún hafi ekkert vit á fótbolta (það er greinilega álitið galli), eru þessi ummæli gjarnan skreytt fúkyrðum, gott ef ekki ofbeldislýsingum. Inná milli má auðvitað sjá rætt um kynlífsskort hennar, enda varla annað hægt þegar gagnrýna á konur yfirleitt. Svo eru nokkur ummæli sem eiga að fá að bera höfundum sínum vitni um aldur og ævi, fái ég að ráða.

Alli Magnússon ·
Thessi ùtùr tjùttada kòkaìn hóra veit ekkert hvad hun er ad segja
(Vísir)

Ágúst Örn Víðisson
Heimsk titlinganáma!
(DV)

Ég finn að álit mitt á fótbolta og fótboltaáhangendum vex með hverri mínútunni.



Það er líka sérstaklega fallegt af DV og Vísi að leyfa þessum ummælum að standa óhreyfðum.

Efnisorð: , , ,

laugardagur, maí 11, 2013

Er þetta ekki spilling, er þetta ekki yfirhylming?

Langt er síðan upp komst að innan kaþólsku kirkjunnar hafa prestar stundað barnaníð í miklum mæli og í ofanálag hylmdu yfirmenn þeirra yfir með þeim. Barnaníðingarnir fengu ýmist að vera óáreittir í starfi eða fluttir annað þar sem þeir héldu uppteknum hætti, sumir áratugum saman. Yfirhylmingin ofan á kynferðisbrotin hefur grafið verulega undan kaþólsku kirkjunni, sem von er.

Yfirhylming er auðvitað ein tegund spillingar. Við áttuðum okkur á því eftir bankahrunið en Transparency International hafði árum saman gefið út þá yfirlýsingu að Ísland væri eitt óspilltasta land í heimi. Þar var spilling skilgreind sem mútur og þess háttar en yfirhylming (og frændhygli og fleira sem hér grasseraði) ekki tekin með í reikninginn.

Bandarískar löggumyndir sýna oft framá spillingu innan lögreglunnar þar sem flett er ofan af mútuþægni, fíkniefnasölu og allskyns ólöglegu athæfi öðru. Ég veit ekki að hve miklu leyti það sama megi segja um íslensku lögregluna, hvort spillingin lýsi sér öðruvísi, hvort hér sé aðallega um frændhygli að ræða, eða hvort menn séu að selja fíkniefni sem gerð hafa verið upptæk, þegja yfir ofbeldisbrotum félaga sinna eða hvað annað gengur þar á. En ég veit að innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eru og hafa verið kynferðisbrotamenn og að þeir hafa fengið óáreittir að halda áfram störfum sínum eftir að flett hefur verið ofan af þeim í samtölum við starfsmenn embættisins eða á opinberum vettvangi.

Nú er komin niðurstaða varðandi kæru Erlu Bolladóttur sem var nauðgað árið 1976 þegar hún sat í gæsluvarðhaldi. Vitaskuld var málið fyrnt, það eru áratugir síðan lögreglumaðurinn nauðgaði henni í Síðumúlafangelsinu. En þó ekki sé lögleg ástæða til að sækja mál á hendur honum er ansi merkilegt að hann sé enn í starfi, Erla gaf út sögu sína árið 2008 og líklegt er að innan lögreglu og dómskerfis hafi menn legið yfir bókinni. Það hefur því verið vitað í fimm ár að lögreglumaður nauðgaði henni en ekkert var gert. Núna, eftir að hún lagði fram formlega kæru á enn að leyfa nauðgaranum að starfa í lögreglunni. Hann verður ekki kærður og honum verður ekki gert að víkja úr starfi.

Mál Erlu Bolladóttur er ekki fyrsta málið sem varðar kynferðisbrot starfandi lögreglumanna, hvort sem þeir hafa framkvæmt glæpina innan eða utan vinnutíma. Árið 2000 kom út bókin Launhelgi lyganna þar sem sagt var frá kynferðisofbeldi sem lögreglumaður beitti stjúpdætur sínar. Bókin var skrifuð undir dulnefninu Baugalín en höfundur steig fram undir nafni árið 2007, kom þá m.a. í Kastljósviðtal og sagði sögu sína, en hún hafði reynt að leggja fram kæru á hendur stjúpa sínum en var vísað frá þegar löggurnar komust að því að um starfsbróður þeirra var að ræða, eins og systir hennar hefur einnig staðfest. Löggan hefur semsagt lengi vitað í áratugi af kynferðisbrotum þessarar löggu, þar af hefur málið verið opinbert í þrettán ár. Ég veit ekki hvort sá níðingur er enn starfandi lögga, hann gæti verið kominn á eftirlaun eða dauður, en hann var ekki rekinn úr löggunni, svo mikið þykist ég vita.

Það sama gildir um enn einn nauðgarann sem mér vitanlega er enn starfandi í löggunni (með fyrirvara um eftirlaunaaldur). Ég ætla ekki að nafngreina hann þó ég viti vel hver hann er. Málið sem varðar hann varð alþekkt þegar Drífa Kristjánsdóttir forstöðumaður Meðferðarheimilisins á Torfastöðum skrifaði opið bréf til þáverandi dómsmálaráðherra fyrir hönd eins skjólstæðings síns árið 1992. Þar kom fram saga ungu stúlkunnar sem var dóttir lögreglumanns sem hafði beitt hana kynferðisofbeldi um árabil. Þetta mál varð mjög umtalað, ekki síst vegna þess að hann lét son sinn taka þátt í verknaðnum, sá varð frægur kynferðisbrotamaður, sem sat inni fyrir glæpi sína. En einu afleiðingarnar fyrir kallhelvítið var að hann var færður til innan lögreglunnar og settur í skrifstofudjobb. Það eru ekki mörg ár síðan ég sá smettið á honum á síðum dagblaðs þar sem hann svaraði einhverjum spurningum varðandi starf sitt, virðulegur ásýndum í embættisklæðnaði. Nauðgari í löggubúning.

Þessir karlar hafa allir fengið að starfa óáreittir innan lögreglunnar löngu eftir að ljóst er að þeir eru nauðgarar og barnaníðingar. Og þetta eru bara þeir sem við vitum um. Miðað við þetta má draga þá ályktanir að löggan hylmi líka yfir fleiri glæpum, fleiri glæpamönnum innan sinnan raða.

Löggur sem vinna í kynferðisbrotadeildinni – sem og aðrar löggur í Reykjavík —  eiga vinnufélaga sem eru þekktir nauðgarar. Þar að auki er kynferðisbrotadeild lögreglunnar undir stjórn Björgvins Björgvinssonar sem talaði þannig um þolendur kynferðisbrota að hann var tímabundið rekinn úr starfi. Hvaða áhrif hefur þessi félagsskapur á viðhorf lögreglunnar til þeirra kvenna, karla og barna sem til hennar leita?

Sú spilling og yfirhylming sem tíðkast hefur innan raða lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er embættinu til ævarandi skammar.

Efnisorð: ,

laugardagur, maí 04, 2013

Lof og last

Margt gleymdist að minnast á í aðdraganda kosninga og verður nú tekið til við að útdeila lofsyrðum og lasti. Fleira finnst reyndar neikvætt en jákvætt og horfur eru á að sá halli aukist enn fari svo að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur taki völdin.


LOF

Lof fá þau fyrirtæki sem fyrst allra hafa fengið jafnlaunavottun VR: IKEA, ISS, Íslenska gámafélagið og Parlogis. Til að hljóta vottunina þurfa vinnustaðir að uppfylla ýmis skilyrði og sýna fram á að konum og körlum sé ekki mismunað í launum með ómálefnalegum hætti. Þeir skuldbinda sig jafnframt til að sæta eftirliti í að minnsta kosti þrjú ár.

Lof fær Þórdís Hauksdóttir fyrir að benda á að embættismenn og borgarfulltrúar hafi leyft stórfyrirtæki að leggja Úlfarsfell undir fjarskiptamöstur, með tilheyrandi jarðraski.

Lof fær Andri Snær fyrir frábær skrif undanfarið, um Lagarfljót, gegn ónauðsynlegri veglagningu um Gálgahraun og fleira áhugavert.


LAST

Bankaráð Landsbankans fyrir að vilja hækka laun bankastjórans á þeim forsendum að annars líti aðrir í bankanum ekki upp til hans. Engin rök, síst þessi, er hægt að færa fyrir að hækka laun bankastjórans umfram venjulegar launahækkanir launafólks.

Öldungadeild Bandaríkjaþings sem felldi lagafrumvarp um auknar heimildir til að kanna bakgrunn skotvopnakaupenda. Samtök byssueigenda hafa alltof mikil ítök á bandaríska þinginu.

Forsvarsmenn ferðaþjónustu fatlaðra í Kópavogi og Mosfellsbæ sem létu ábendingar um að bílstjóri fyrirtækisins áreitti kvenkyns farþega sem vind um eyru þjóta í stað þess að reka hann. Þar með hafði hann tækifæri til að nauðga öðrum farþega, sem einnig var fötluð kona eins og sú fyrri.

Kristján Loftsson fyrir að ætla að hefja hvalveiðar, eina ferðina enn. (Ég hélt að hann hefði nóg að gera við að telja peningana sem hann fékk í arð frá Granda?)

Íbúasamtök Rituhóla. Það er óþolandi að tré sem plantað er á útivistarsvæðum borgarinnar fyrir okkur öll séu felld af óðum einbýlishúsaeigendum sem þola ekki að trén skyggi á útsýnið til Esjunnar. Það er einsgott að þessi skríll verði dreginn fyrir dómstóla. (Bent hefur verið á að Árni Johnsen búi í Rituhólum. Mér þykir ólíklegt að hann hafi tekið þátt í ólöglegu skógarhöggi, strangheiðarlegur maðurinn, enda hlýtur honum að nægja tilgátuútsýni.)

Útmerkur, sú deild Reykjavíkurborgar sem hefur umsjón með Elliðaárdal og Öskjuhlíð, fyrir að æsa sig yfir (ólöglega) felldum trjám í Elliðaárdal en segja ekki múkk við því að rústa eigi trjágróðri í Öskjuhlíð. Þvílík hræsni.

Efnisorð: , , , , , , , , , ,