laugardagur, febrúar 27, 2010

Hnuggnin húsverk


Eftir síðari heimstyrjöld komu á markað margar tækninýjungar sem auðvelda áttu húsmæðrum heimilisstörfin.* Nú þykja okkur rafmagnseldavélar, ísskápar, hrærivélar, þvottavélar og hvað-það-nú-allt-heitir sjálfsagðir hlutir á hverju heimili og vildum auðvitað ekki skipta. Ekki alls fyrir löngu kom svo enn ein tækninýjungin sem ég hef — rétt eins og hinar fyrri — svikalaust tekið í þjónustu mína við heimilisstörfin. Hér er ég að tala um hlaðvarp** eins og það sem Ríkisútvarpið býður uppá á heimasíðu sinni.

Ég hef aldrei almennilega kunnað að hlusta á útvarp. Mér er ómögulegt að sitja stillt og hljóð og hlusta án þess að hafa nokkuð annað fyrir stafni. Þegar ég á annaðborð sit (stillt og hljóð) er það vegna þess að ég er að lesa bók, horfa á sjónvarp eða lesa eitthvað á netinu. Jafnframt þeirri iðju get ég ekki hlustað á talað mál. Þessvegna hafa útvarpsþættir á gömlu Gufunni nánast alltaf farið framhjá mér, ja nema þegar ég kveiki á útvarpinu í bílnum, en sú hlustun verður mjög brotakennd því sjaldnast standa bílferðir mínar yfir svo lengi að ég heyri heilan þátt frá upphafi til enda.

En þegar ég uppgötvaði hlaðvarpið gat ég farið að hlusta á útvarp þar og þegar ég hafði tíma og áhuga. Þetta geri ég með því að hlaða útvarpsefninu inná litla sjálfbelginginn minn,*** festa hann í barminn og setja heyrnartólin í eyrun. Get ég þá hlustað meðan ég vinn heimilisverkin og verður að segja að gömlu auglýsingarnar höfðu rétt fyrir sér: Með réttum tækjum verða húsverkin leikur einn!

Enn hef ég þó ekki komist yfir að hlusta á allt það sem þar er í boði en þó hef ég heyrt Jökul Jakobsson ganga með ótöldum leiðsögumönnum um götur Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaga í þættinum Gatan mín, fylgst með spekúleringum gáfumenna um Heim hugmyndanna hjá þeim Ævari Kjartanssyni og Páli Skúlasyni, hlustað með andakt á Pétur Gunnarsson fjalla um Jörund Hundadagakonung í þáttum sem hann kallaði Drottning hundadaganna og fyllst áhuga á skipulagsmálum eftir að hafa fylgst með Krossgötuþáttum Hjálmars Sveinssonar.****

Meðfram þessu hef ég reynt að vinna upp margra ára vanrækslu á Víðsjárþáttum (og er sífellt að heyra um skemmtilega tónleika og sýningar sem eru löngu liðnar) jafnframt því sem ég hef skemmt mér konunglega yfir skagfirsku þáttunum Sagnaslóð sem sendir eru úr hljóðstofu á Sauðárkróki á vorum tímum. Síðast en ekki síst hef ég hlustað á Andrarímur þar sem gömul viðtöl, upplestur Jóhannesar Birkilands á harmsögu ævi sinnar og ævintýri Mírmanns hafa heyrst jöfnum höndum í bland við ýmislegt annað sem Guðmundur Andri Thorsson hefur fundið áheyrendum sínum til fróðleiks og skemmtunar.

Í dag komst ég svo að því að til stendur að leggja niður Andrarímur og því mun ekki vera von á fleiri þáttum þar sem hljómfögur rödd Guðmundar Andra heyrist. Þessar fréttir flutti Kolbeinn Proppé***** jafnframt því sem hann vandaði útvarpsstjóra ekki kveðjurnar og veltir fyrir sér hvort hann skilji hlutverk Ríkisútvarpsins sem menningarstofnunar. Nú loksins þegar ég er farin að hlusta á útvarp þá get ég ekki annað en tekið undir þetta sjónarmið og undrast þessa tilhögun hjá stofnun sem sér sig knúna til að halda úti Evróvisjón söngvakeppninni ár eftir ár, svo ekki sé nú talað um beinar útsendingar á íþróttum svo annað dæmi sé tekið um lágmenningu. Ekki það, ég hef alltaf gagnrýnt árásir frjálshyggjunnar á Ríkisútvarpið því ég hef einmitt gert mér grein fyrir menningarhlutverki þess enda þótt ég hafi ekki hlustað sjálf. Rétt eins og ég vil öflugt heilbrigðiskerfi og félagslegt kerfi enda þótt ég vonist til að þurfa aldrei að vera uppá náð þess komin.

Nú er menningarstarfsemi Ríkisútvarpsins í hættu af að minnsta kosti þremur ástæðum. 1) Hruni bankanna — sem er afleiðing frjálshyggjuhugsunar, 2)ohf-væðingar Ríkisútvarpsins — sem var eitt skref frjálshyggjumanna í þá átt að selja RÚV eða leggja það niður; þeir þoldu ekki að borga fyrir útvarp sem þeir hlustuðu ekki á, 3) og einræðisvalds útvarpsstjóra — sem valinn var í hlutverkið vegna þjónkunar við peningaöflin (lesist: frjálshyggjuna).

Eflaust er andskotanum erfiðara að snúa þessari þróun við. Ljóst er þó að við húsmæður eigum bágt með að sætta sig við að missa uppáhaldsútvarpsþættina okkar af dagskrá. Líklega verða heimilisstörfin unnin af hnuggnum húsmæðrum ef þau verða þá unnin á annað borð.


___
* Með þeim duldu skilaboðum að þær ættu að hunskast heim af vinnumarkaðnum og eftirláta karlpeningnum störfin sem þær höfðu haft með höndum meðan á stríðinu stóð.

** Hlaðvarp er íslensk þýðing á orðinu podcast sem einungis fólk tekur sér í munn sem þykist svo gáfað að það þurfi að sletta útlensku öllum stundum.

*** Sjálfbelgingur er eigin útúrsnúningur á beinni þýðingu á orðinu ipod.

**** Glöggir lesendur þessarar síðu, sem tekið hafa eftir að feminismi með tilheyrandi kynjahlutfallshausatalningu liggur henni til grundvallar, átta sig e.t.v. á við upptalningu uppáhaldsútvarpsefnis að ákveðið karladekur virðist ná yfirhöndinni þegar að útvarpshlustun kemur. Glöggir lesendur fá hrós fyrir þetta.

***** Þó ég deili áhuga á Andrarímum (og ýmsu fleiru) með Kolbeini þá hef ég ekki alltaf vandað honum kveðjurnar hér fremur en hann Páli.

Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, febrúar 25, 2010

Við erum jafnréttissinnar, alveg satt!

Ég varð hugsi þegar ég las í blaðinu að bankarnir, sem ekki hafa skipað nema örfáar konur í stjórnir þeirra fyrirtækja sem bankarnir reka nú, tilkynna jafnframt glaðbeittir að þeir taki mið af jafnréttislögum við ráðningu fólks í stjórnirnar. Og ég fór semsagt að hugsa hvort það geti verið að þeim finnist í alvöru að þeir séu alveg næstum með jafnmargar konur og karla í stjórnunum, hvort það sé nóg að sjá nokkur kvenmannsnöfn á listanum til að þeim finnist þeir standa sig harla vel.

Og mér varð hugsað til kunningja míns sem fyrir nokkrum árum síðan var stjórnarformaður í fyrirtæki sem þá var með um 40 starfsmenn. Í jafnréttislögum er kveðið á um að
Fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn skulu samkvæmt lögunum setja sér jafnréttisáætlun eða kveða sérstaklega á um jafnrétti kvenna og karla í starfsmannastefnu sinni. Þar þarf að kveða sérstaklega á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsmönnum þau réttindi sem kveðið er á um í 19.-22. grein jafnréttislaganna. Endurskoða þarf jafnréttisáætlun og jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu á þriggja ára fresti.

Ég spurði þennan kunningja minn hvort jafnréttisáætlun væri fylgt í hans fyrirtæki og hann kannaðist ekki við það, sagði að slíkt væri ekki á valdsviði sínu heldur forstjórans. Ég hvatti hann þá til að ræða málið á stjórnarfundi og hvetja til þess að lögboðinni jafnréttisáætlun yrði fylgt. Nokkru síðar spurði ég hann svo aftur hvort hann væri eitthvað farinn að gera í málinu. Svo var ekki. Á þessu gekk nokkrar vikur eða mánuði þar til mér varð algerlega ljóst að hann ætlaði sér hreint ekki að koma á jafnréttisáætlun í sínu fyrirtæki. Þetta var þó maður sem hreinlega hrópaði á torgum að hann væri svo mikill jafnréttissinni að leitun væri á öðru eins. Hann væri sko sannarlega baráttumaður fyrir konur. Og greinilega fannst honum það sjálfur enda þó störf hans sem stjórnarformaður í fyrirtæki segðu annað.

Og hvernig hljómar svo hin grimma jafnréttisáætlun sem fyrirtæki með fleiri en 25 starfsmenn eru svo svívirðilega neydd til að þröngva upp á starfsemi sína? Er ætlast til að karlmönnum með reynslu og þekkingu sé hent út á guð og gaddinn og vanhæfar kellingagribbur ráðnar í staðinn?

Svona lítur þessi fasíska, nasíska og níðingslega áætlun út:

Gæta þess að konur og karlar fái sömu laun og njóti sömu kjara fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf.

Laus störf hjá fyrirtækinu skulu standa opin bæði konum og körlum.

Tryggja að starfsþjálfun og endurmenntun sé aðgengileg báðum kynjum.

Koma á kerfi sveigjanlegs og fyrirsjáanlegs vinnutíma ásamt því að minna á mikilvægi þess að samhæfa fjölskyldu- og atvinnulíf.

Mikilvægt er að bæði konur og karlar nýti sér þann rétt sem þau eiga varðandi foreldra- og fæðingarorlof og leyfi vegna veikinda barna.

Kynferðisleg áreitni er ekki liðin á vinnustaðnum. Því eru fyrirbyggjandi aðgerðir og fyrirfram ákveðin viðbrögð nauðsynleg.

Það sér auðvitað hver jafnréttissinnaður karlmaður að þessi óhæfa má aldrei verða í þeirra fyrirtæki. En þeir eru auðvitað alltaf umþaðbil alveg búnir að redda okkur þessu jafnrétti sem við erum alltaf að tala um.

Þeir ætlast allavega til þess að við trúum því.

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, febrúar 23, 2010

Margur verður af aurum api

Fyrir nokkru hófu að birtast í sjónvarpi (og blöðum) auglýsingar sem mér fundust svo ömurlegar að enn hef ég ekki séð eina einustu þeirra til enda. Þetta voru auglýsingar fyrir Símann og í þeim léku nokkrir af vinsælustu ungu leikurum þjóðarinnar, allir klæddir eins og hálfvitar. Það sem mér fannst ömurlegt var niðurlæging þessara ágætu manna og velti ég því talsvert fyrir mér hvað í ósköpunum fengi þá til þess að lítillækka sig svona. Sannarlega klæðast leikarar ýmsum gervum og mörg hlutverk eru eflaust mjög fjarri þeirra eigin smekk og hegðun, en það hefur þá einhvern tilgang í persónusköpun og framvindu leikritsins. En að fara í ávaxtabúning til þess að leika í sjónvarpsauglýsingu — hvaða tilgangi þjónar það? Eina skýringin er sú að leikararnir hafi verið að vinna sér inn smá aur. Nú eru þetta leikarar sem hafa verið í nánast hverjum leiknum sjónvarpsþætti og kvikmynd sem hér hafa verið sýnd undanfarin ár, auk þess að varla er hægt að ramba í leikhús án þess að þeir séu á fjölunum. Þannig að ekki er það verkefnaskortur sem hrjáir þá og því álykta ég að enginn þeirra búi við verulega fátækt.

Sannarlega þarf fjöldi fólks — hér á landi sem annarstaðar — að taka hverja þá vinnu sem býðst, vinna langa vinnudaga við erfiðar aðstæður og getur ekki sett fyrir sig atriði eins og samvisku eða sómakennd, heldur verður einfaldlega að gera hvað sem er svo það eigi til hnífs og skeiðar.*

Á þetta við um það fólk sem tekur að sér að leika í heimskulegum sjónvarpsauglýsingum? Eða finnst því bara allt í lagi að gera hvað sem er fyrir peninga? Nú eru heimskulegar auglýsingar svosem ekkert mjög alvarlegt mál í sjálfu sér, þær eru bara niðurlægjandi fyrir það fólk sem tekur þátt í þeim og sýnir hvað það er til í að gera fyrir peninga, en hvað með auglýsingar þar sem verið er að blekkja fólk? Til dæmis í öllum bankaauglýsingum gróðærisins?** Ætli virðulegir rithöfundar sjái ekkert eftir að hafa lýst því yfir, íbyggnir á svip, að þeir treystu bankanum sínum — og ýttu þar með undir að vanþroskaður pöbullinn gerði hið sama? Má vera að fjárhagsleg staða þeirra sjálfra hafi verið svo slæm að aurinn fyrir auglýsinguna hafi gert gæfumuninn um hvort fjölskyldur þeirra ættu að borða þann mánuðinn, en einhvernveginn finnst mér það ekki líklegt.

Það er auðvitað ekkert nema hroki að gera lítið úr fólki sem er bara að vinna sér inn peninga — en hvar liggja mörkin? Ég er ekki einu sinni að tala um einhverja útrásarvíkinga sem nú er vitað að voru ræningjar og ruplarar með enga siðferðisvitund, heldur venjulegt fólk. Sumt starfsfólk bankanna vissi auðvitað ekkert hvað gekk þar á, en allmörgu virðist hafa fundist í lagi að hringja í viðskiptavini og leggja hart að þeim að taka peninga úr öruggum sjóðum eða af innistæðureikningum og kaupa hlutafé í bönkunum fyrir aleiguna — varla hefur það allt verið svo skyni skroppið að sjá ekki að þetta var óeðlilegt, en gerði það samt, var bara í vinnunni. Klassísk afsökun auðvitað.***

Mér finnst heldur ekki eðlilegt að vera til í að ráða sig í vinnu sem gengur útá að ljúga að fólki (auglýsingamennska, markaðssetning, mikið af sölumennsku og almannatengsl virðast ganga útá einmitt það) eða skrifa slúðurfréttir (t.d. á Séð og heyrt,**** Vísi, Eyjunni, Pressunni). Samt er fullt af fólki sem vinnur slík störf og sér ekkert athugavert við það.

Svo eru það auðvitað þeir sem eru hreinlega til í að gera hvað sem er fyrir peninginn. Ráða sig tildæmis í forstjóradjobb og þegar þeir átta sig á að þeir eru þar bara útá nafnið og andlitið á sér en ekki er ætlast til að þeir skipti sér af neinu eða þvælist fyrir meiriháttar ákvörðunum, þá hefur það engin áhrif á sjálfsvirðinguna heldur einblína þeir á launatékkann og gera það sem þeim er sagt. Ja, eða segja allavega eftirá að svoleiðis hafi það verið. Mestu máli skiptir þó alltaf að þeir fengu peninginn sinn.

Sér þetta fólk ekki niðurlægingu sína eða er afl peninga svo mikið í lífi þess að ekkert fær bitið á það svo framarlega sem veskið þykknar? Kemur kannski bara heim á kvöldin og kveikir undir grillinu og hugsar, assgoti var þetta góður dagur — ég lék í svo skemmtilegri auglýsingu þar sem ég var klæddur eins og ávöxtur.

Eða er það bara ég sem sé samasemmerki milli hugsunarháttar leikara í ávaxtabúningi og viðskiptalífsforkólfanna?

___
* Auk fólks sem ræður sig í þrælavinnu í verksmiðjum eru vændiskonur og klámmyndaleikarar augljós dæmi um fólk í slíkum aðstæðum.

** Kannski voru auglýsingar bankanna ekki byggðar á blekkingum enda þótt svo virðist núna (einhver á sjálfsagt eftir að grandskoða þær allar), en þær ýttu a.m.k. undir þá stemningu að bankarnir væru með þetta allt á hreinu og við ættum endilega að rétta þeim peningana okkar.
Annars var undarlegt atriði í áramótaskaupinu síðasta með poppstjörnunni sem gaf sparisjóðnum Byr heilsufarsvottorð, þar sem hann var sýndur hneykslaður á þeim sem gerðu grín að honum vegna auglýsinganna. Ég hneykslaðist aðallega á því að hann skyldi ekki biðjast opinberlega afsökunar, enda þótt Byr hafi sannarlega ekki verið einn hrunbankanna þá var greinilega ekki allt með felldu þar á bæ heldur, enda þó það hafi e.t.v. ekki verið komið uppá yfirborðið þegar auglýsingarnar voru teknar.

*** Ásmundur Stefánsson núverandi bankastjóri Landsbankans líkti slíku starfsfólki við fangaverði í útrýmingarbúðum, sem töldu sig líka hafa þá afsökun að vera bara að gera það sem þeim var sagt. Ekki varð Ásmundur mjög vinsæll fyrir þessi orð sín. —  Viðbót: Samtök lánþega hafa tilkynnt bankastarfsmönnum að þeir geti átt von á lögsókn vegna þess tjóns sem viðskiptavinir bankanna hafi orðið fyrir vegna rangra eða gáleysislegra vinnubragða þeirra. Ég er nú ekki viss um að þetta sé sérlega heppileg leið fyrir Samtök lánþega, svona í ljósi þess að sumir þeirra einfaldlega fóru fram úr sjálfum sér, en það er samt ágætt ef þetta verður til þess að ábyrgð starfsmanna á störfum sínum verði rædd, og þá á ég ekki bara við um bankastarfsfólk.

**** Einhverntímann stóð ég í röð við kassann í Krónunni og þarnæst fyrir framan mig var þekkt kona í þjóðfélaginu. Útundan mér sá ég Séð og heyrt á hillu við kassann og þegar ég var komin nógu nálægt sá ég skilnað þessarar konu auglýstan með flennifyrirsögn og jafnframt mynd af manninum hennar með nýju konunni í lífi hans — allt hafði þetta gerst innan við mánuði áður en skítasnepillinn ákvað að smyrja þessum fréttum framan í alþjóð. Ég dauðvorkenndi aumingjans konunni að þurfa að hafa þetta fyrir augunum og vita af öllu fólkinu inní búðinni að lesa fyrirsagnirnar. Ég spurði sjálfa mig, og ekki í fyrsta sinn: hvernig getur fólk unnið á Séð og heyrt?

Efnisorð: , , , ,

föstudagur, febrúar 19, 2010

Öll gagnrýni er sprottin af öfund, alltaf

Það er mikið um öfund í þessu þjóðfélagi og líklega er það nú helsta þjóðarbölið. Sjáið bara allt þetta fólk sem getur ekkert og kann ekkert og notar því hvert tækifæri til að níða niður það sem aðrir gera, af einskærri öfund.

Fatahönnuðir sem fást við kennslu á háskólastigi eru auðvitað að kafna úr öfund útí ómenntaða fatahönnuði. Spáðu í hvað það er glatað að vera bara að kenna eitthvað í staðinn fyrir að fá að vera með kjól á Júróvisjón?

Myndlistarmenn sem skrifa myndlistargagnrýni eru auðvitað bara misheppnaðir listamenn sem öfunda hina — svo ekki sé nú talað um ef gagnrýnandinn er ekkert myndlistarmenntuð heldur hefur eingöngu lagt stund á listfræði sem háskólafag. Þegar svoleiðis fólk skrifar gagnrýni er hún alltaf byggð á öfund.

Sama má segja um helvítis bókmenntafræðingana sem sitja um að níða niður helstu meistaraverk andans manna,* alltaf af eintómri öfund þeirra sem hafa menntað sig svo mikið að þau bera ekki kennsl á alvöru bókmenntir.

Lengi mætti telja upp öfundsjúkt hyski með háskólagráður sem sér ofsjónum yfir velgengni sér betur heppnaðs fólks en þó ekki verði það allt talið hér verður þó að nefna þetta:

Feministar. Ég meina, það er margsannað í fjölmörgum athugasemdakerfum bloggsíðna, að feministar hata fallegar konur og konur sem ganga í augun á karlmönnum. Þú veist, svona fegurðardrottningar og fáklæddar fyrirsætur. Þær barasta hatast útí þær vegna þær eru svo ljótar sjálfar og enginn vill þær og þessvegna eru þær að kafna úr öfund!

Og talandi um öfund — muniði hvað það voru margir afturhaldskommatittir sem öfunduðust útí alla þá sem áttu peninga og ferðuðust um á einkaþotum, ha? Sumt af þessu kommahyski var þvílíkt alltaf að gagnrýna eitthvað (og við vitum öll að gagnrýni er bara þykjustuleikur til að fela öfundina) og segja að það væri bara ekki í lagi þessi munur á ríkum og fátækum og eitthvað.** Öfundin alveg skein af þessu liði, bæði því sem var að reyna að stoppa partýið úr ræðustólum á alþingi og því sem bara nöldraði útí bæ — greinilega hrikalega svekkt yfir að komast aldrei á forsíðuna á Séð og heyrt!

Kræst, hvað fólk lætur alltaf öfundina stjórna sér. Ótrúlega neikvætt eitthvað.***

___
* Muniði eftir honum þarna leikhúsgagnrýnandanum sem var svo leiðinlegur að honum var ekki hleypt í leikhús? Hann var greinilega mega svekktur yfir að vera bara ekki jafn flottur og Ingvar Sigurðsson þegar hann er ber að ofan.

** Hugsa sér að það sé til fólk sem talar meirasegja um 'uppbyggilega gagnrýni' — hvað er það? Eða 'gagnrýni sem aðhald'? Getur þetta lið ekki bara sagt hreint út að það sé ljótt og misheppnað og haldi að enginn fatti það ef það böggar bara alltaf nógu mikið þá sem gengur vel og eru flottir?

*** Meira segja þegar fólk bjargast úr lífsháska þá er alltaf einhver sem er neikvæður og gagnrýnir. Eins og þegar konan bjargaðist af jöklinum um daginn, allskonar fólk að gagnrýna það! Eins og það væri ekki aðalmálið að hún var lifandi og allt, þó að einhver hallæris íslenskir veðurfræðingar hefðu spáð einhverju roki!

Efnisorð: , , , , ,

miðvikudagur, febrúar 17, 2010

Vodafone hættir að dreifa klámi vegna þrýstings

Skyndilega og alltíeinu berast góðar fréttir mitt á milli allra þeirra vondu.* Ekki það, í fyrstu voru það líka vondar fréttir. Sagt var frá því að Vodafone væri að dreifa klámi sem hægt væri að skoða í gsm símum. Upplýsingafulltrúi fyrirtækisins sagði að reynt væri að koma í veg fyrir að börn sæu efnið — eins og það væri aðalmálið. Málið er auðvitað að það er ólöglegt og fullkomlega siðlaust að dreifa klámi, hver sem svo skoðar það.

Félagar í Femínistafélaginu kærðu dreifingu klámefnis árið 2005 með engum árangri því kærunni var vísað frá. Engar skýringar hef ég heyrt á því hversvegna var ekki látið reyna á lögin sem banna dreifingu kláms.**

,,Ef klám birtist á prenti, skal sá sem ábyrgð ber á birtingu þess eftir prentlögum sæta sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum. Sömu refsingu varðar það að búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt út klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum."


Kæra feministanna um árið sneri að klámsýningum á vegum Skjásins og 365 (sem hét eitthvað annað þá en er fjölmiðlafyrirtækið sem m.a. rekið hefur Stöð 2) og enn er því efni dreift í sjónvörp þeirra sem borga áskrift fyrir klámrásirnar.

En góðu fréttirnar eru semsagt þær, að Vodafone hefur ákveðið að hætta dreifingu og sölu á klámi í gegnum vefgátt fyrir farsíma. Sömuleiðis verður hætt að bjóða slíkt efni á Leigunni, sem er stafræn leiga á myndefni fyrir sjónvarp. Þessi ákvörðun var greinilega tekin eftir þrýsting frá fólki sem hefur þá skoðun að klám og hin ólöglega dreifing þess sé ekki sæmandi. Og húrra fyrir því!

___
* Vondu fréttirnar eru m.a. þær að barnanauðgari var sýknaður í Hæstarétti og að Sveinn Andri skuli fenginn í sjónvarpssal til að lýsa því yfir að það sé iðulega lygi þegar fólk kærir nauðgun. Þá fannst mér það einnig vondar fréttir að karlmaðurinn sem ætlaði að skjóta þá menn sem höfðu nauðgað kærustu hans og áreitt fleiri konur var dæmdur í sex ára fangelsi. Það munar ekki um refsigleðina þegar líf karlmanna á í hlut. Líklega fær náunginn sem reyndi að stinga konu í „bringusvæði“ og aðra höndina ekki svo þungan dóm, enda varla tiltökumál að ætla að stinga kvenfólk í hjartað.
** Einhver fáviti í Moskvu hélt að hann væri að gera samborgurum sínum greiða með því að sýna klámmynd sem blasti við öllum sem áttu leið um fjölfarna götu. Hann á nú yfir höfði sér tveggja ára fangelsi fyrir tölvuglæpi og ólöglega dreifingu á klámefni. Rússar líta semsagt svo á að fara beri eftir lögum sem banna dreifingu á klámi. Húrra fyrir Rússum!

Efnisorð: , , ,

laugardagur, febrúar 13, 2010

Vera var vorum vorið

Enn er staðið í tímaritatiltektum. Ekki stendur þó til að henda einu einasta snifsi heldur er verið að raða í réttar möppur því sem hefur farið á flakk yfir í möppur sem tilheyra jafnvel öðrum áratugum. Allt er þetta þó sama tímaritið, þ.e.a.s. VERA. Saga VERU spannar frá 1987 og ég á flest tölublöðin (mig vantar það fyrsta!) allt til þess að síðasta tölublaðið kom út á árinu 2005.

VERA hafði gríðarleg áhrif á skoðanir mínar á heiminum og ég er þakklát öllum þeim sem tóku viðtöl, skrifuðu greinar, tóku myndir, sáu um umbrot, ritstýrðu, hönnuðu, teiknuðu, skrifuðu gagnrýni og komu á einn eða annan hátt að VERU gegnum árin. Ég hefði aldrei orðið að feminista ef ekki hefði verið fyrir VERU.

Þegar ég var að umstafla VERU undraðist ég að sumar forsíðurnar kveiktu engum bjöllum og ef ég vissi ekki betur þá héldi ég að ég hefði ekki lesið öll þessi blöð. En ég mun örugglega taka mig til fljótlega og lesa hvert einasta eintak mér til upprifjunar og skemmtunar. Jafnvel mun ég birta einhverjar greinanna (eða valda kafla úr þeim) hér. Ég gaf mér ekki tíma til að lesa neina VERU í dag og fletti ekki nema tveimur blöðum en rak strax augun í þetta gullkorn:

„Og þið munið stelpur: Alltaf að tyggja vel áður en þið kyngið.“
(Úlfhildur Dagsdóttir, 1/1999)

Efnisorð: ,

þriðjudagur, febrúar 09, 2010

Það er ekkert konunglegt við spilavíti

Þegar íslenskur almenningur hafði í fyrsta sinn tækifæri til að ferðast til útlanda fóru heilu hjarðirnar til sólarlanda. Það þótti hámark sælunnar og margir fóru árlega á sama staðinn til að gista á sama hótelinu og svamla í sömu sundlauginni. Sögurnar sem sagðar eru frá þessum fyrstu árum sólarlandaferða eru flestar á einn veg: þetta var eitt heljarins fyllerí. Áratugir liðu og heilu fjölskyldurnar, gott ef ekki kynslóðirnar, þekktu ekkert til útlanda nema ódýra áfengið, grísaveislurnar og best af öllu: bjórinn. Ennþá er til fólk sem finnst utanlandsferðir vera svo mikil breyting frá sínu daglega lífi að því þykir ekkert tiltökumál að byrja að hella í sig strax á Keflavíkurflugvelli, jafnvel þó lagt sé af stað snemma morguns. Í útlöndum á að vera fullur.

Þó nú séu mun fjölbreyttari ferðir í boði en bara sólarlandaferðir þá breytist hugsunarhátturinn ekkert mikið. Útlönd = fyllerí. Á síðustu árum (ég veit ekki nákvæmlega hvenær þetta byrjaði) kom skyndlilega upp sú stemning að það væri enginn maður með mönnum nema hann færi og sæi „sitt lið“ í enska boltanum spila heimaleik, og því fóru heilu hjarðirnar af Íslendingum á fótboltaleiki víðsvegar um Bretland — og svo þurfti auðvitað að fara á heimsmeistarakeppnir og Evrópumótið og svo framvegis. Og alltaf nóg af áfengi haft um hönd.

Þetta er nú stemningin sem margir Íslendingar hafa fyrir utanlandsferðum. Fyllerí, fyllerí og meira fyllerí.* Soldið af kellingum innámilli og samanvið (stripparar og vændiskonur), svona allavega ef eiginkonur eru ekki með í för.

Það er því von að karlmenn sem þekkja ekkert annað en svona utanlandsferðir sjái ekki hvað annað ferðamennska getur haft uppá að bjóða. Gullfoss og Geysir eru nú ekki merkilegir í augum fótboltafíkla og annarra fíkla, hvað þá spilafíkla (má setja nafn Eiðs Smára hér?). Þessvegna þykjast tvíburarnir fótboltafræknu** nú vera að gera ferðaþjónustu á Íslandi sérstakan greiða með því að koma með þá snjöllu hugmynd að opna hér spilavíti.

Mér finnst það reyndar jafngáfuleg hugmynd og sú sem Hannes Hólmsteinn viðraði hér um árið þegar honum fannst að Ísland ætti að verða alþjóðleg fjármálamiðstöð, aflandseyja held ég að það sé kallað í dag, skattaparadís, allsherjar fríhöfn eða hvað hann nú kallaði það. Flestum fannst þetta fáránleg hugmynd og eftir hið fræga bankahrun er þetta eitt af því sem er beinlínis notað gegn HHG og frjálshyggjumönnum; að þeim hafi ekki nægt ástandið eins og það var með Tortólum og Cayman eyjum heldur viljað gera okkur líka að einni af peningaþvottastöðvum heimsins.

Það má vel vera að spilavíti á Hilton hótelinu myndi trekkja að fullt af ógeðfelldu ríku hyski sem kæmi til að reyna að auðgast enn meir, en það myndi líka kalla á ýmsa aðra „þjónustu“ svo sem vændi í stórum stíl. Það þarf varla að taka það fram að Las Vegas er ekki bara spilaborg heldur gróðrastía allskyns glæpa, vændis, fíkniefnaviðskipta, rána og morða.*** En tvíburarnir á takkaskónum hafa nú ekki miklar áhyggjur af því og fá líklega dyggan stuðning KSÍ í þessum undirbúningi öllum.

Mér féllust hinsvegar eiginlega bara hendur þegar ég heyrði af þessu. Eins og fleirum finnst mér hugmyndin um spilavíti verulega mikið 2007 hugsunarháttur. En frjálshyggjupostular ýmiskonar fara nú mikinn á vefsíðum og segja þetta mikið framfaramál og allir sem hafi eitthvað við þetta að athuga séu kommúnistar (vilja ekki leyfa neinum að græða peninga) og forræðissinnar.

Ég tek hinsvegar undir með þeim sem gagnrýna spilakassanna sem Rauði krossinn og SÁÁ reka og græða á. Það er eitthvað verulega fáránlegt að SÁÁ græði á spilafíklunum sem þeir þykjast svo ætla að hjálpa (RKÍ á náttúrulega ekki að koma nálægt spilakössum, punktur). Mörg dæmi eru um að fólk hafi eytt öllu sínu í þessa sakleysislegu kassa.

En spilakassarnir afsaka ekki spilavíti,**** ekki frekar en það að ríkið skuli selja áfengi í búðum sé fín röksemd fyrir að lögleiða fíkniefni eða fara að selja áfengi í búðum. Það er óþarfi að gera illt verra.

Ferðamenn koma ekki til Íslands til að spila í spilavítum. Þeir sem hafa slíkar langanir geta annaðhvort stillt sig rétt á meðan þeir jafna sig eftir að hafa skoðað náttúrufegurð uppsveita Árnessýslu eða sleppt því að þvælast hér norður undir heimskautsbaug. Í staðinn geta þeir farið á einhvern ágætan bar á sólarströnd, mér skilst að Klörubar á Kanaríeyjum sé voða vinsæll.
___
* Talandi um fyllerí. Alveg er ég upprifin af hamingju að heyra um nemendur Fjölbrautarskólans í Breiðholti sem berjast fyrir rétti sínum til drykkjuferðalaga. Það stefnir aldeilis í frábært þjóðfélag þegar svona baráttujaxlar erfa landið.
** Án þess að ég viti neitt um þessa fótboltatvíbura umfram að annar þeirra er giftur konu sem er fræg í íslenskum fjölmiðlum fyrir að vera dugleg að koma sér á framfæri við íslenska fjölmiðla [glögg lesönd hefur bent á að fjölmiðlaglaða sé mágkona þeirra tvíburanna en gift hvorugum þeirra], þá rámar mig í að þeir hafi báðir búið erlendis um hríð og hljóta því að hafa gert fleira en bara drekka áfengi í útlöndum. En einhvernveginn sé ég þá nú ekki alveg fyrir mér á kafi í lista- og menningarlífi þar sem þeir hafa viðdvöl um lengri eða skemmri tíma. Andskoti sem þeim tekst samt vel upp að viðhalda skoðun minni á fótboltamönnum.
*** Nei, ég hef ekki bara CSI sem heimild fyrir þessu. Án þess að ég hafi lagst í miklar rannsóknir fann ég vefsíður með upplýsingum um glæpi í Bandaríkjunum og þar skorar Las Vegas hátt og Nevada sem slíkt sé litið á ríki en ekki borgir (en í Nevada er fjárhættuspil semsagt löglegt). Í Nevada eru fleiri nauðganir en í öðrum ríkjum Bandaríkjanna og rán eru þar líka algengari.
**** Spilavíti er helvíti gott orð og ætti að vera notað um spilasalina með spilakössunum auk þess sem það á að sjálfsögðu að nota um fyrirbærið þar sem fínna fólkið mætir og spilar rassinn úr buxunum. Hann þarna ritstjóranefnan á Fréttablaðinu fer rúmlega yfir strikið í frjálshyggjublaðrinu þegar hann reynir að breyta víti í 'stofu' í leiðara dagsins. Og spilafíkn er ekki bara ímyndarvandi og vandamál íslensks þjóðfélags, heldur raunverulegur vandi sem stafar af fjárhættuspili þar sem of mikið var lagt undir.

Efnisorð: , , , ,

laugardagur, febrúar 06, 2010

Tímaskekkja

Af og til gegnum árin hefur verið rætt á síðum blaðanna um hvort seinka ætti klukkunni. Mér hefur aldrei fundist þetta áhugaverð umræða og heldur verið á móti þessari hugmynd, ekki síst vegna þess að einhver viðskiptagaurinn (Vilhjálmur Egilsson?) lagði alltaf orð í belg og það varð nóg til þess að mér leiddist og varð á móti þessu.* Nú er þessi umræða komin af stað eina ferðina enn og í fyrsta sinn finnst mér vera komin rök í málinu sem mér finnst mark takandi á. Bent er á að líkamsklukkan okkar sé á skjön við klukkuna sem miðað er við á vinnustöðum og skólum og fólk sé því í raun að rífa sig á fætur um hánótt til að mæta í vinnuna eða skólann.

Ég er ein þeirra sem hef liðið ómældar þjáningar hvern þann morgun sem ég hef neyðst til að mæta í skóla eða vinnu klukkan átta og jafnvel klukkan níu. Mér hefur liðið illa andlega og ekki náð að hugsa heila hugsun á þessum tíma hvorteðer og því ekkert gagn að mér í vinnu og lærdómur síaðist ekki inn svo snemma dags heldur. Helgarnar notaði ég alltaf til að vinna upp glataðan svefn, sem varð svo aftur til þess að ég missti af fjölmörgu af því sem annað fólk tók sér fyrir hendur til að nýta frítíma sinn. Mætti þó alltaf jafn súr í vinnu eða skóla á mánudagsmorgni, úthvíld en samt ekki almennilega vöknuð og leið aldrei vel fyrr en undir hádegið.

Enda þótt nú sé ég svo gömul sem á grönum má sjá og finni sterklega fyrir þeim einkennum ellinnar að vakna af sjálfsdáðum hvort sem ég þarf þess eða ekki, þá held ég að það sé góð hugmynd að stilla klukkuna hér á landi uppá nýtt. Það er óþarft að kvelja fjölda fólks með þessum morgunæfingum ef hægt er að létta því lífið með þessum einfalda hætti.

___
* Svo getur vel verið að Vilhjálmur - eða hver þetta nú var - hafi einmitt líka verið á móti því að færa klukkuna, og ég því óvart verið sammála honum, en ég lagði ekki einu sinni á minnið hans afstöðu.

Efnisorð: