mánudagur, desember 01, 2008

Doði

Það sem var sorglegast við fundinn á Arnarhóli var ekki hvað fá mættu, Því fólk er eðlilega hrætt við að ganga út á miðjum vinnudegi, vitandi ekki nema því verði refsað þegar næsta hrina uppsagna ríður yfir. Það sem var sorglegt er viðhorf margra þeirra sem ekki mættu. Viðhorf doðans. Það viðhorf að það taki því ekki að mótmæla, það taki því ekki að tala um ástandið, taki því ekki að biðja um breytingar eða fylgjast með fréttum.

Og verst er að heyra fólk spyrja hverju sé verið að mótmæla, eins og það hafi aldrei heyrt minnst á ráðaleysi ráðamanna og eyðslusemi auðkýfinga. Og þegar búið er að segja þessu fólki, þessu dofna fólki, hverju sé verið að mótmæla og afhverju það skipti máli að fylgjast með og krefjast breytinga, þá spyr það hvaða lausnir sé boðið uppá. Og þegar búið er að útskýra fyrir því að vandinn liggi fyrir en ekki séu öll nákvæmlega sammála um hver lausnin sé*, en það sé m.a. það sem við viljum fá að kjósa um, þá finnst því að það sé búið að eyða alveg nógu miklum tíma í að tala um svona niðurdrepandi hluti þann daginn og vill taka upp léttara hjal.

Eins og þetta sé eitthvað sem bara hverfur ef það er þagað í hel.

___
* Dæmi:
Sum vilja ganga í Evrópusambandið, önnur ekki
Sum vilja kjósa um sömu flokkana aftur, önnur ekki
Sum vilja utanþingsstjórn, önnur ekki
Sum vilja taka upp evru, önnur ekki
Sum vilja að Vinstri græn fari í eina sæng með Sjálfstæðisflokknum - og það vil ég ekki!

Efnisorð: ,