sunnudagur, nóvember 23, 2008

Víða sammála en ber á efasemdum með kvöldinu

Það er svo margt sem ég les á vefsíðum og bloggum þessa dagana sem ég er sammála og þessvegna finnst mér varla taka því að skrifa eigin hugleiðingar hér því það yrði bara hjáróma endurtekning. Sumt höfðar betur til mín en annað og svo er sumt sem ég er hrædd um að hljómi vel en gangi í raun gegn skoðunum mínum; ég skil ekki allt það sem hagfræðingar segja til þess að vita hvert það leiðir og hvenær ég myndi vera ósammála þeim ef þeir segðu heildarsýn sína á málin. Mér heyrist Þorvaldi Gylfasyni vera hampað af flestum og vilja þau hin sömu að hann setjist í stól Seðlabankastjóra, en í Silfri Egils áðan bar hann þannig blak af Alþjóða gjaldeyrissjóðnum sem væri hann Vínardrengjakórinn á tónleikaferðalagi, að mér finnst að ég eigi ekki að taka fullt mark á honum. En hvar og hvenær hefur hann þá rétt fyrir sér? (Og þá „rétt“ miðað við það að ég tortryggi Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og held jafnvel að þeir sem lofa hann og prísa séu í raun að samþykkja og styðja frjálshyggjusjónarmiðin sem hann virðist reyna að troða ofan í kok þeirra þjóða sem til hans leita).

Ef Þorvaldur yrði Seðlabankastjóri, eða fengi eitthvað það embætti sem gerði hann jafn áhrifamikinn og fólk virðist vilja, yrði þá fylgt hörðustu frjálshyggju? Og værum við þá nokkuð betur sett en áður? Eða er Þorvaldur með skynsamlegar skoðanir á öllu og yrði fínn Seðlabankastjóri þó hann sé blindaður á ágæti sjóðsins? Og hvað með alla þá sem vilja ganga í Evrópusambandið og/eða taka upp Evruna? Er þetta fólk fyrst og fremst að hugsa um eigin hag (sem stundum er byggður á gildum frjálshyggjunnar) eða okkar allra?

Stundum segir skynsamt fólk heimskulega hluti og stundum segir siðblint skítapakk skynsamlega hluti. Það skiptir gríðarlegu máli að horfa á heildarmyndina: hvað gerist ef skynsamlega fólkið kemst til valda og hvað gerist ef siðblinda pakkið fær að ráða? Við höfum sannarlega séð það síðarnefnda, en höfum við lært nógu mikið af því til þess að ganga ekki aftur í gildruna? Það lítur út fyrir að enn um sinn gildi leikreglur þeirra siðblindu. Í bönkunum starfar sama fólkið og margt bendir til þess að það sé enn að hygla sömu aðilum . Fái þetta fólk - bankafólkið og þeir sem njóta fyrirgreiðslunnar - að ráða, og fái ríkisstjórn og það allt lið að sitja áfram - þá er frjálshyggjan í raun enn á fleygiferð þrátt fyrir að við höfum séð hana með eigin augum brotlenda á Kirkjusandi, í Austurstræti og Borgartúni. Líking Kristínar Helgu um bremsulausu rútuna á hraðbraut græðginnar á þar vel við.*

Margir þeir sem tala segja líka margt skynsamlegt en kannski er búið að segja allt því mér finnst það sama vera sagt aftur og aftur (undantekning frá þessu eru uppljóstranir um tengsl við rússneskt fjármagn og þvíumlíkt) og stundum hálfgerð tímaeyðsla að hlusta á það eða lesa. Mér fannst t.d. þessi snyrtilegi ungi bankamaður sem var í Silfri Egils ekki segja neitt nýtt (þegar ég las bréf hans á síðu Egils um daginn fannst mér það ágætt en samt aðallega hlægilegt þegar hann sagði frá því að hann nú skipti mestu máli fyrir hann í lífinu, „samband við
sína nánustu og að láta gott af sér leiða.“** Það var líklega hann og hans líkar sem allar ábendingar um að hlúa að fjölskyldunni beindust að) en hinsvegar notaði hann kostulegt myndmál í Silfrinu í dag. Hann talaði t.d. um Davíð Oddsson sem fyrirliða fótboltaliðs sem nú stæði frammi fyrir því að það væri ekki verið að spila fótbolta heldur dansa ballet og sagan myndi dæma hann fyrir ferilinn í ballet en ekki fótbolta.

Þó ég hafi aldrei haldið mikið uppá ABBA þá datt mér í hug lagið þeirra um Pretty Ballerina*** og losna nú ekki við það úr hausnum, og sé um leið fyrir mér Davíð á táskónum. Og það veit Richard Dawkins að mér veitti ekki af því að hlægja.

Mæli annars með lestri á Kvennastjórnartíðindum
og dagblaðinu Nei. Og auðvitað bloggi Láru Hönnu , Silfri Egils og fleiri bloggum einstaklinga sem ausa úr sér á persónulegri máta og að kaupa Múrbrot þar sem margar gamlar greinar af Múrnum eru í handhægu formi til að taka með sér til að lesa í biðröðinni í súpueldhúsið.

___
*„Okkar forystumenn hafa keyrt bremsulausa rútu á þessari hraðbraut græðginnar. Þeir hafa gefið druslunni í botn á eftir sportbílum auðkýfinganna. Og greifarnir óku svo hratt að þeir stungu lögguna af, en skyndilega var allt komið í eina kös. Rútudruslan horfin inn í brotajárn af sportbílum og einkaþotum. Það hefur orðið stórslys á græðgisbrautinni. Almenningur skríður meðvitundarlítill út úr rútuflakinu. Nokkrir ökuníðingar draga heillega muni út úr kösinni í rykmekkinum og hrópa móðgaðir: Við hefðum getað brunað áfram ef það hefði ekki verið svínað fyrir okkur.“

**„Ég var eins og fleiri Íslendingar með háa einkaneyslu og stór hluti af tíma mínum fór í að velta 
mér upp úr hlutum sem maður sér nú að skipta í raun litlu máli ... Það sem mun uppúr standa eftir allar þessar efnahagslegur hamfarir er að þær fá okkur
 til að hugsa um hvað það er sem skiptir mestu máli í lífinu. Það eru lífsgæði eins og samband við 
sína nánustu og að láta gott af sér leiða.“

***Í textanum koma fyrir þessar línur: „Who would ever think she could be this way.“

Efnisorð: , , ,