þriðjudagur, nóvember 11, 2008

Að axla pólitíska ábyrgð

Það gerist alltof sjaldan að alþingismenn og embættismenn segi af sér störfum vegna afglapa sinna. Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins játaði mistök* sín í innanflokks baktjaldamakki sem barst í hendur fjölmiðla** og sagði af sér í kjölfarið. Ekki er að efa að margir aðrir stjórnmálamenn standa í álíka makki þó þeir ættu að vera að sinna öðru, svona rétt á meðan Róm brennur. En Bjarni sagði af sér og er maður að meiri.

Reyndar hafði Bjarni lagt fram fyrirspurn í þinginu sama dag og bréfið um Valgerði fór til fjölmiðla. Þá beindi hann orðum sínum að iðnaðarráðherra*** og spurði hvort ekki ætti að grafast fyrir um gjörðir maka ráðherra þegar 3 milljarðar voru ófrjálsri hendi teknir úr almenningshlutafélagi (FL-Group) og öll stjórnin þagði útávið og kærði ekki („menn hafa gengið út úr þessu fyrirtæki, með bundið fyrir munninn“), og svo þegar Kaupþingsmenn voru að leyfa útvöldum úr sínum röðum að forða peningum og/eða sér undan skuldum áður en bankinn féll.**** Og Bjarni lagði sérstaka áherslu á að komist yrði að hve mikið af þessu ráðherrarnir***** hefðu vitað „ af því sem þarna fór fram“ en þagað yfir. Þetta var alvarleg ásökun og ég hefði viljað sjá Bjarna fylgja þessu eftir.

___
* Reyndar var gagnrýnin á einkavæðingardekrið í bréfinu réttmæt.
** Fjölmiðlar reyndust vandanum vaxnir að þessu sinni og létu ekki segja sér hvað mætti birta eða ekki birta. Liðin er sú tíð (vonandi) að ritstjóri Morgunblaðsins lét þegja yfir fréttum sem vörðuðu jafnvel þjóðarhag.
*** Bjarni valdi að spyrja Össur en ekki einhvern ráðherra Sjálfstæðisflokksins, t.d. þá ráðherra sem var um að ræða, og vegna þess að Bjarni er greinilega útsmoginn og snar, þá hefur þetta líklega verið plott hjá honum að benda Samfylkingunni á að losa sig úr ríkisstjórn með þessu liði.Reyndar er ljóst af skrifum Össurar, sem af þessu tilefni sá sig knúinn til að blogga eftir langt hlé , að honum fannst fyrirspurnin „ Níðangursleg atlaga að forsætisráðherra og eiginkonu hans.“
**** Ég kann ekki einu sinni að útskýra hvað fór þarna fram. En á Þorláksmessu summaði Páll Ásgeir þessu ágætlega upp.
***** Eiginkona forsætisráðherra var í stjórn FL-Group og eiginmaður menntamálaráðherra einn æðstu manna í Kaupþingi.

Efnisorð: , ,