þriðjudagur, nóvember 25, 2008

Breytt fyrirkomulag?

Á sveitabæ þar sem ég þekki til, voru þrír hundar. Þeir voru allir ólíkir bæði í útliti og atferli og hver þeirra átti sinn eiganda. Tveir hundanna voru nánast vonlausir til smalamennsku og voru frekar að reyna að bíta kýrnar í júgrin en halda þeim á þeirri slóð sem lá í bithagana. Í frítíma sínum spilltu þeir hreiðrum fugla. Sá þriðji var frábær smalahundur og eftirsóttur um allar sveitir þegar smala þurfti fé á haustin og var þá eigandi hans allstaðar velkominn væri Lappi með í för. Sá ágæti hundur veiddi minka í frítíma sínum. Eiganda hans var mikill ami að hinum hundunum á bænum og sagði eitt sinn að ef hann yrði að fórna sínum hundi til að losna við hina hundana, þá myndi hann glaður skjóta Lappa.

Mér er misilla við stjórnmálaflokkana. Sumir þeirra bera alla ábyrgð á því misrétti sem hefur viðgengist um árabil og því ástandi sem við stöndum frammi fyrir núna. Aðrir nánast enga og hafa jafnvel gagnrýnt linnulaust án nokkurs árangurs.

Ég er ein þeirra sem held að stjórnmálaflokkar séu góð leið til að manna þingið. Samt blundar í mér sá grunur að kannski værum við betur sett ef kosnir væru einstaklingar en ekki flokkar. En kannski myndi það fólk bara mynda með sér óvænt bandalög inná þingi og við værum engu betur sett. En eins og staðan er núna, þá þarf að koma núverandi ríkisstjórn frá.* Og ekki bara þannig að næstu menn á lista flokkanna færist upp um sæti og setjist á ráðherrastóla, því stefna a.m.k. Sjálfstæðisflokksins er slík að hann má ekki halda völdum án þess að kjósendur hafi eitthvað um það að segja.

Ég vil reyndar að landið verði eitt kjördæmi eða a.m.k. að öll atkvæði hafi sama vægi, að atkvæði Vestfirðinga hafi ekki margfalt vægi á við þeirra sem kjósa á höfuðborgarsvæðinu. Slíkt þarf örugglega að samþykkja á nokkrum þingum og fara í gegnum kosningar áður en hægt er að breyta kosningalögunum, rétt eins og ef breyta ætti flokkakerfinu í einstaklingsframboð. Þannig að rétt eins og umræða um inngöngu í ESB er bara umræða en þýðir ekki innganga á næstu vikum og mánuðum, þá er ég bara að ræða þetta. Hugsa upphátt.

Í bili erum við ein á báti, með ESB sem andstæðing en ekki bandamann og með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem háseta sem gæti hvenær sem er stokkið uppí brú og tekið völdin. (Nú er ég dottin ofaní sjómannamálið líka). Og þessvegna styð ég auðvitað þann stjórnmálaflokk sem mér finnst hafa staðið sig afar vel meðan á öllu góðæriskjaftæðinu stóð og hefur viljað réttlátara samfélag fyrir okkur öll, ekki bara auðmenn og útvalda.

En ef ég þyrfti að skjóta góðan hund til að losna við hin kvikindin, þá myndi ég líklega ekki hika.

___
*Auðvitað þarf fyrst og fremst að losna við ríkisstjórnina því hún ber ábyrgð á því sem gerðist og er eins og margoft hefur komið fram, rúin trausti. Og það traust verður ekki endurheimt, innan lands eða utan með hana við stjórnvölin. En frjálshyggjustefnan er enn grasserandi innan flokksins og þessvegna þarf að losna við hann alveg af valdastóli, ekki bara þessa einstaklinga.

Efnisorð: , , ,