mánudagur, nóvember 24, 2008

Að fótum fram

Ríkisstjórnin er á síðasta snúning. Hún mun auðvitað ekki segja af sér strax, það væri að viðurkenna uppgjöf, hún mun finna sér einhverja leið til að hætta með því sem henni finnst vera „reisn“. Yfirlýsingar formanns Samfylkingarinnar um helgina gerðu bara enn augljósara að Samfylkingin - eða a.m.k. hluti hennar - hangir á völdum eins og hundur á roði. Og roðið er rýrt.

Enn og aftur tala ráðherrar Samfylkingar um „björgunarleiðangur“. Og Sjálfstæðisflokkurinn talar um að það megi ekki eyða orkunni í að leggjast í kosningabaráttu. Væri til of mikils ætlast af ríkisstjórnarflokkunum að beita samflokksmönnum sínum í kosningabaráttunni og halda hinum óskaplega mikilvægu ráðherrum sínum að verki á meðan í hinum stórkostlega vel heppnaða björgunarleiðangri sínum?

Ég treysti þjóðinni að kjósa flokka eftir verkum þeirra, skyndiuppsuða á nýjum kosningaloforðum myndi líklega ekki slá ryki í augu margra, hvort sem búið væri að líma inn nýjar upplýsingar um að „flokkurinn hyggst taka til umræðu að hugsa málið hvort hann vilji kannski hefja aðildarviðræður við ESB“, eða ekki.

Innan Samfylkingarinnar er ekki einhugur um að halda áfram ríkisstjórnarsamstarfinu, meira segja sumir ráðherrarnir vilja burt. En þeir hinir sem bera mesta ábyrgð, þeir sem eru yfir þeim stofnunum sem brugðust, þeir þora ekki að standa uppúr stólunum því þá eru þeir hræddir um að sjáist hlandpollurinn sem þeir sitja í. En við finnum pissulyktina leggja frá þeim og þeir finna sjálfir að þeir geta ekki setið þarna til eilífðarnóns.

Eina skýringin á því að ríkisstjórnin segir ekki af sér hlýtur að vera sú að hún er hræddari við að hætta en að halda áfram, jafnvel þótt hún ráði ekki neitt við neitt og ljúgi bara og hylmi yfir mér sjálfri sér og öðrum.

Vantrauststillagan, sem nú er til umræðu í þingsal Alþingis, verður kannski ekki samþykkt, en hún er eitt merkið enn um að þetta er að verða búið. Bráðum verður kosið (þegar ég segi bráðum er ég ekki endilega að tala um á þessu ári heldur með vorinu) og við verðum laus við þetta spillingarlið.

Svo er annað mál hvort þessir flokkar sem á þingi sitja, eiga erindi við kjósendur, hvort ekki verði að stokka alveg uppá nýtt. Meira um það seinna.

Efnisorð: , ,