miðvikudagur, nóvember 26, 2008

Að taka ábyrgð á eftirspurn eftir vændi

Í fyrirspurnartíma á alþingi í dag spurði Kolbrún Halldórsdóttir hvernig líði tillögum um aðgerðaráætlun gegn mansali. Af svörum Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra mátti ráða að niðurstaða starfshóps lægi bráðlega fyrir. Útgangspunktur er að Palermosamningurinn verði samþykktur. Kolbrún Halldórsdóttir sagði að það þyrfti að taka ábyrgð á eftirspurn eftir vændi og virkasta tækið gegn mansali væri að gera kaup á vændi refsiverð. Þær báðar og Siv Friðleifsdóttir voru allar sammála um að gera kaup á vændi refsivert og fá þær allar hrós dagsins fyrir það. Fleiri tóku ekki til máls.

Félagsmálaráðherra nefndi sérstaklega að það þyrfti (t.d. með að nota upplýsingaherferðir) að móta lífsafstöðu ungra karlmanna þannig að þeir gerðust ekki kaupendur að kynlífi.

Jóhanna Sigurðardóttir nefndi reyndar óþægilegan möguleika, sem er sá að verði vændi gert refsivert í Bretlandi, eins og til stendur*, auk þess sem það er refsivert í Noregi og Svíþjóð, geti aukist að karlmenn komi gagngert til Íslands til að kaupa sér vændi. Með versnandi lífskjörum á Íslandi séu líkur á fleiri leiðist útí vændi og það muni þeir notfæra sér, verði ekki kaup á vændi refsivert eins og í nágrannalöndunum.

___
* Mér skilst að áætlanir um þetta séu runnar undan rifjum Gordons Brown, og sé það rétt þá leyfi ég mér að vera hæstánægð með hann, burtséð frá aðgerðum hans í kjölfar bankahrunsins.

Efnisorð: , ,