þriðjudagur, janúar 22, 2019

Á mynd eftir karlmann af berbrjósta konu alltaf við?

„Ætli ein mest deilda frétt helgarinnar hafi ekki verið sú að opinber stofnun hafi tekið tillit til beiðni starfsmanna og fjarlægt listaverk af nöktum konum af skrifstofum yfirmanna. Myndirnar höfðu valdið starfsmönnum óþægindum.“
Ég leyfi mér að hefja bloggpistilinn með þessum orðum Nönnu Hermannsdóttur en nánar verður vikið að skrifum hennar síðar.

Það er auðvelt að sjá bæði sjónarmið í þessu máli. Annarsvegar þeirra sem vilja ekki að myndlist sé flokkuð eftir því hvort hún falli öllum í geð og hinsvegar þeirra sem segja að ekki sé öll myndlist allstaðar við hæfi. Seðlabankinn er annarsvegar opinber stofnun og hinsvegar vinnustaður þar sem vinna fleiri en bara kallar, og meirasegja vinnustaður þar sem ekki allir fíla að hafa myndir af berbrjósta konum fyrir augunum í vinnunni (einsog á örugglega við um fleiri vinnustaði). Það vill svo til að í síðustu viku héldu ungar athafnakonur samstöðufundar um rétt fólks til að sinna starfi sínu í friði.

„Hugmyndin um að halda slíkan fund kviknaði í fyrra eftir #metoo byltinguna … það sé ekki nóg að vandinn sé viðurkenndur heldur þurfi að bregðast við honum og skilgreina hvaða afleiðingar og eftirfylgni áreitni á vinnustað hafi fyrir gerendur og þolendur. Það þurfi að vera skýrt hvað þurfi að gerast svo það geti ríkt vinnufriður á vinnustöðum.“ [Frbl.]

Undir myllumerkinu vinnufriður hefur verið hægt að lesa margar af sögum kvenna sem hafa ekki haft vinnufrið fyrir körlum (og einstaka sögur karla af konum) og segja þær ömurlegar sögur af framkomu sem í mörgum tilfellum óharðnaðir unglingar — stelpur allt niðrí 14 ára — verða fyrir í starfi. Sem er auðvitað óásættanlegt.

Sögur þessar hljómuðu enn í kollinum á mér meðan ég fylgdist með fréttum um málverkin í Seðlabankanum. Óneitanlega stóð ég með þeim konum sem þar starfa og vildu losna við myndir sem þeim fannst óþægilegt að hafa fyrir augum sér. Og fagna má því að á þær var hlustað. (Karlkyns starfsmaður Seðlabankans skrifar ágætan pistil um málið og jafnréttisstefnu Seðlabankans.) En fáa eiga þær sér formælendur í fjölmiðlum þessa dagana (og það finnst mér leitt þeirra vegna, þeim líður varla vel undir fjölmiðlastorminum, jafnvel þótt þær hafi ekki verið nafngreindar). Fjölmiðlamenn sem þekktir eru fyrir andfeminisma skrifa frétt eftir frétt um málið. Sumir fjölmiðlamenn hafa gert sér það til dundurs að hæðast að þessum starfsmönnum Seðlabankans, er það heldur nöturleg lesning.

Margir þeirra sem taka til máls í athugasemdakerfum eru reyndar ekki vanir að skrifa jákvæðar umsagnir um myndlist og listamenn, heldur eru í hópi þeirra sem trompast árlega þegar umræða um listamannalaun stendur yfir. En eru semsagt núna allir með miklar áhyggjur af afdrifum listaverka sem þeir hafa aldrei augum litið eftir listamann sem þeir hafa örugglega fæstir heyrt minnst á áður.

Fleiri hafa þó lagt orð í belg og tala af skynsamlegu viti um málverk almennt, gildi listarinnar og listrænt frelsi, og hafa áhyggjur þegar myndlist er fjarlægð af veggjum eftir séróskum einstaklinga eða fyrirskipunum stofnana. En einhverjum þeirra hefur þó orðið á að blanda saman tveimur ólíkum hlutum; hafa reynt að leggja metoo-hreyfinguna að jöfnu við málverkin umdeildu af berbrjósta konum. (Hér verður að taka fram að enginn utan Seðlabankans veit nákvæmlega um hvaða myndir er að ræða og geta því ekki frekar en ég talað um myndirnar í smáatriðum.) Í athugasemdakerfum höfðu einmitt margir vitleysingar æpt metoo, metoo og haldið að það væri röksemd í málinu, en svo er ekki. Ekki einu sinni þegar safnstjóri Listasafns Reykjavíkur segir það.

Nanna Hermannsdóttir skrifaði síðan pistil sem vitnað var í hér fyrir ofan* og svarar þessari þvælu, og segir þar meðal annars:
#FreeTheNipple snýst um að rétt kvenna til að stjórna því hvernig brjóst þeirra eru sýnd og skilgreind. Brjóstabyltingin snýst ekki um að karlar megi núna hafa naktar konur á skrifstofunni sinni ef undirmönnum þeirra og samstarfsfélögum finnist það óþægilegt.“
Það væri annars fróðlegt að vita hvort karlmönnum almennt þætti frábært að hafa eftirprentun af hinu fræga málverki Júdit drepur Holofernes eftir Artemesiu Gentileschi á vegg vinnustaðar síns. Holofernes hafði nauðgað Júdit og hún hefndi sín með því að skera af honum hausinn. Kannski myndi karlmönnum þá þykja sér ógnað af viðhorfinu til karla sem lesa má úr myndinni.

Það er margt sem lesa má úr mynd af berbrjósta konu (líka þótt það sé ekki klámmynd heldur málverk eftir virtan karlkyns listmálara) en það sýnir aldrei að konur séu jafningjar karla. Slíkt viðhorf er óþolandi á vinnustað.


Efnisorð: , , , , ,