föstudagur, september 26, 2014

IS er frátekið

Svo virðist sem samtök vígamanna sem vilja koma á íslömsku ríki í miðausturlöndum eigi sér mörg nöfn. Eða menn geta ekki komið sér saman um hvað á að kalla þau. Fyrst var talað um ISIS (Islamic State in Iraq and Syria) svo ISIL (Islamic State of Iraq and the Levant) og nú IS. Ég sé reyndar að erlendar fréttasíður tala enn ýmist um ISIS eða ISIL en íslenskir fréttamiðlar svo sem RÚV.IS og VÍSIR.IS er farnir að tala um IS eins og ekkert sé sjálfsagðara. Það er frekar óheppilegt.

IS er nefnilega frátekið fyrir okkur. Við merkjum bílana okkar með IS þegar við ökum salíglöð um Evrópu, við sendum tölvupósta til útlanda frá netföngum sem skarta .is endingu og að sjálfsögðu eru íslenskar vefsíður, þarmeð fréttamiðlarnir, með sama þjóðarlén: IS. Skammstöfunin IS er með öðrum orðum íslenskt vörumerki.

Ég myndi biðla til forsetans um að hlutast til um þetta mál, ef hann væri ekki álíka traustvekjandi og Sigmundur Davíð þegar hann opnar munninn. En kannski gætu fréttastofurnar beðið kollega sína erlendis að nota ekki IS sem heiti fyrir Íslamskt ríki? Ég skal ekkert stinga uppá að nota ÍR (íslamskt ríki) því það væri ljótt gagnvart einhverju íþróttafólki og myndi hljóma illa í fréttum að segja að ÍR hefði drepið fjölda manns þann daginn, og næst fréttir af víðavangshlaupi. En það hlýtur að vera lágmark að ekki sé verið að hvetja fólk til að tengja veiklaða ímynd íslensku þjóðarinnar við þessa skaðræðisgripi.

___
Viðbót 11. október: Lén vefsíðu ISIS, [reyndist] skráð á Íslandi. Síðunni var lokað af hálfu hýsingaraðila sama dag og það komst upp.

Efnisorð: , ,