laugardagur, september 27, 2014

Kannski ekki allir Íslendingar en sannarlega of margir og þeir hafa of mikil völd og ítök

Eitt af mörgu sem er andstyggilegt og ömurlegt í ríkisstjórnartíð Sigmundar Davíðs og Bjarna Ben er niðurskurður á framlögum til þróunarmála. Til að bæta gráu ofan á svart stendur nú til að auka framlög til NATO (um 14,4 milljóna króna, til viðbótar við 104,2 milljónirnar í fyrra) en þar á bæ þarf nauðsynlega að byggja höfuðstöðvar sem munu kosta 115 milljarða íslenskra króna. Og auðvitað gengur skrifstofubygging hernaðarsamtaka fyrir þróunaraðstoð við fátæk ríki, þannig er nú bara þessi ríkisstjórn.

Að auki, eins og Jón Kalman Stefánsson rekur í grein undir titlinum „Eru Íslendingar kaldynd og sjálfhverf þjóð?“, þá vill Gunnar Bragi utanríkisráðherra leggja Þróunarsamvinnustofnun Íslands niður og sameina ráðuneyti sínu. Það er auðvitað í nafni einhverrar hagræðingar. En Jón Kalman afturámóti kemur með svo skuggalega skýringu á því hvað sé þarna á seyði að mann rekur í rogastans. Hann segir að fullyrt hafi verið í sín eyru að hér sé á ferðinni

„vilji til að nýta þróunarsamvinnu í því skyni að koma íslenskum fyrirtækjum á framfæri í Afríku, þar eru nefnilega mörg tækifærin. Ég verð nú að segja að þótt ég hafi sæmilegt ímyndunarafl, hafði mér ekki dottið í hug að íslenskur ráðamaður gæti upphugsað jafn kaldrifjaða áætlun.“

Ég segi eins og Jón Kalman, sem þó hefur sennilega fjörugra ímyndunarafl en ég, að mér hafði ekki dottið í hug að utanríkissráðherra ætlaði að nota uppbyggingu þróunarsamvinnu í þágu íslenskra fyrirtækja í útrás. En ef rifjaðar eru upp ránsveiðar Samherja við Afríkustrendur þá á þetta auðvitað ekki að koma manni á óvart.

Ef þessi kenning Jóns um ástæðu þess að leggja á ÞSSÍ niður og sameina utanríkisráðuneytinu, þá er Gunnar Bragi kaldrifjaðri en allur Sjálfstæðisflokkurinn og Vigdís Hauksdóttir til samans.

Efnisorð: , ,