Stimpill æðstu manna ríkis og kirkju á áróður gegn fóstureyðingum
Forsetinn og þjóðkirkjubiskupinn mættu og tóku þátt í furðulegri bænasamkomu um helgina. Nú þykist biskupinn ekkert hafa vitað fyrir hverju átti að biðja, en forsetinn lýsti því glaðbeittur yfir að það hefði hann engu máli skipt, hann hefði komið samt. Hann er auðvitað auðfúsugestur hjá ofsatrúuðu fólki sem trúir fremur „orðinu“ en því sem stenst raunveruleikann. (Ég ætla annars ekki að eyða púðri í að gagnrýna Ólaf Ragnar, það þarf ekki að hafa fleiri orð um hann eftir að Jónas Kristjánsson hefur pakkað honum snyrtilega í nokkra pistla.) Bæði hefðu þau mátt hafa í huga hve illa trúarsamkoman sem kölluð var Hátíð vonar fór í allan almenning, en það virtist ekki skipta þau neinu, um að gera bara að vera í liði með trúfólki sem fer allsérkennilegar leiðir í trúarlífi sínu. Hver leigir Hörpu til að biðja fyrir útgerðarmönnum? Og ef það á að biðja sérstaklega fyrir „þjóðum heims“ afhverju þá ekki einhverjum af hinum fjölmörgu stríðshrjáðu eða sveltandi þjóðum, sjúkdómshrjáðum þjóðum — en í staðinn er beðið fyrir Sviss og Þýskalandi?
Það kemur auðvitað ekkert á óvart í þessum galskap að fóstureyðingar beri á bænheita góma. Skv. bænaskránni var beðið „um breytt viðhorf til fóstureyðinga, hugarfarsbreytingu og endurnýjaða ábyrgðartilfinningu.“ Ath. ekki breytt viðhorf, hugarfarsbreytingu eða ábyrgðartilfinningu útgerðaraðalsins, frjálshyggjumanna, bankabófanna eða annarra þeirra sem véla með hag þjóðarinnar. Nei, það eru konur sem glyðrast til að verða óléttar sem þurfa að endurnýja hjá sér ábyrgðartilfinninguna. Og breytta viðhorfið til fóstureyðinga á auðvitað að vera það að það sé betra að gefa (eða selja gegn áföllnum kostnaði) einhverju góðu fólki barn sem konan gengi með í níu mánuði og fæddi í þágu kristilegs kærleika.* Í viðtali segir einn af skipuleggjendum hátíðarinnar að fimmtugar og sextugar konur alveg svoleiðis snarsjái eftir að hafa farið í fóstureyðingu, en minnist auðvitað ekkert á eftirsjá kvenna hafi þær gefið börn til ættleiðingar.
Það eru sannarlega til þjóðkirkjuprestar sem taka ekki undir áróðurinn gegn fóstureyðingum og höfnuðu þátttöku í bænasamkomunni, einmitt vegna þess að þær lásu prógrammið. En þegar biskupinn og forsetinn (ég er mest hissa á að SDG hafi ekki verið þarna) mæta og leggja þarmeð samþykki æðstu yfirvalda á svona samkomu, þá mega líklega raddir ungra og framsækinna presta sín lítils. Því einsog Silja Bára segir þá setur nærvera biskups „stimpil þjóðkirkjunnar á málefni samkomunnar í augum þeirra sem á horfa“. Áróðurinn af hálfu ofsatrúarfólksins er greinilega ekki á undanhaldi, hann fær hljómgrunn á æðstu stöðum. Það er ískyggilegt.
___
* Ég hef skrifað um ættleiðingar og margt fleira sem tengist fóstureyðingaumræðunni. Og ég hef margvarað við áróðri trúmanna gegn þessum sjálfsögðu réttindum kvenna. Sjá yfirlit yfir helstu skrif mín um þetta efni.
Það kemur auðvitað ekkert á óvart í þessum galskap að fóstureyðingar beri á bænheita góma. Skv. bænaskránni var beðið „um breytt viðhorf til fóstureyðinga, hugarfarsbreytingu og endurnýjaða ábyrgðartilfinningu.“ Ath. ekki breytt viðhorf, hugarfarsbreytingu eða ábyrgðartilfinningu útgerðaraðalsins, frjálshyggjumanna, bankabófanna eða annarra þeirra sem véla með hag þjóðarinnar. Nei, það eru konur sem glyðrast til að verða óléttar sem þurfa að endurnýja hjá sér ábyrgðartilfinninguna. Og breytta viðhorfið til fóstureyðinga á auðvitað að vera það að það sé betra að gefa (eða selja gegn áföllnum kostnaði) einhverju góðu fólki barn sem konan gengi með í níu mánuði og fæddi í þágu kristilegs kærleika.* Í viðtali segir einn af skipuleggjendum hátíðarinnar að fimmtugar og sextugar konur alveg svoleiðis snarsjái eftir að hafa farið í fóstureyðingu, en minnist auðvitað ekkert á eftirsjá kvenna hafi þær gefið börn til ættleiðingar.
Það eru sannarlega til þjóðkirkjuprestar sem taka ekki undir áróðurinn gegn fóstureyðingum og höfnuðu þátttöku í bænasamkomunni, einmitt vegna þess að þær lásu prógrammið. En þegar biskupinn og forsetinn (ég er mest hissa á að SDG hafi ekki verið þarna) mæta og leggja þarmeð samþykki æðstu yfirvalda á svona samkomu, þá mega líklega raddir ungra og framsækinna presta sín lítils. Því einsog Silja Bára segir þá setur nærvera biskups „stimpil þjóðkirkjunnar á málefni samkomunnar í augum þeirra sem á horfa“. Áróðurinn af hálfu ofsatrúarfólksins er greinilega ekki á undanhaldi, hann fær hljómgrunn á æðstu stöðum. Það er ískyggilegt.
___
* Ég hef skrifað um ættleiðingar og margt fleira sem tengist fóstureyðingaumræðunni. Og ég hef margvarað við áróðri trúmanna gegn þessum sjálfsögðu réttindum kvenna. Sjá yfirlit yfir helstu skrif mín um þetta efni.
Efnisorð: fóstureyðingar, trú
<< Home