fimmtudagur, október 09, 2014

Ekki óvænt en samt svekkjandi

Það var auðvitað óþarfi af mér að dylgja um sekt og sakleysi Landsbankastjórans fyrrverandi í síðustu færslu, hann verður auðvitað sýknaður. Frjálshyggjustefna þáverandi stjórnvalda (sem því miður eru aftur komin við völd) var búin að liðka til í regluverkinu svo það mátti nánast allt, þessvegna brutu fjárglæframenn líklega ekki lög í neinum svipuðum mæli og skaðinn af gjörðum þeirra. En það er auðvitað svekkjandi fái þeir sýknudóma (og teljist því saklausir um alla eilífð í hugum þeirra sem hugsa allt útfrá saklaus uns sekt sannast).

Það eru fleiri dómsmál en yfir banksterum og í dag voru birtar fréttir um dóma sem vöktu kannski ekki beint undrun (enda löng reynsla af því að sjá ömurlegar dómaniðurstöður) en voru samt svekkjandi þó af ólíkri ástæðu væri.

Fyrst má nefna dóma yfir níumenningunum sem ákærðir voru fyrir mótmæli í Gálgahrauni. Þau voru öll dæmd sek og á hvert um sig að borga 100þúsund í sekt og málskostnað að auki sem er 150þús hjá hverju fyrir sig. Í sjálfu sér er það ekki upphæðin — þó flest fólk muni alveg um 250þúsund — heldur að fólk sem mótmælir friðsamlega sé dregið fyrir dómstóla og lýst sekir menn, sem er ömurlega svekkjandi.

Hinn dómurinn sem var ekki óvæntur en þó svekkjandi: karlmaður sem var sakaður um nauðgun var sýknaður í héraðsdómi í desember í fyrra. Ég get nánast skrifað upp orðrétt það sem ég skrifaði um Hótel Sögu nauðgunina, en þar var nauðgarinn fyrst sýknaður í héraðsdómi og svo (eftir ýmsar vendingar) dæmdur sekur í Hæstarétti. Og þá sagði ég eftir að hann hafði verið sýknaður:

„Sé litið á dóminn má lesa þar enn ein skilaboðin um að konum sé réttnauðgað hvar sem til þeirra næst. Kona sem er þaraðauki drukkin, sem þaraðauki á kurteisleg orðaskipti við ókunnuga karlmenn … Og eins og ekkert sé, er líka gefið til kynna, að konur sem þó vilja skyndikynni með ókunnugum karlmönnum … séu einmitt þær sem svo bresta í grát að þeim loknum …“

Við þetta má bæta að stúlkan í dómnum hafði farið heim með manni sem hún svaf sjálfviljug hjá, en þegar hún ætlaði að fara rakst hún á frænda hans í íbúðinni, að hans sögn vildi hún kynlíf með honum líka, en hún afturámóti segir að hann hafi nauðgað sér. Nú er það auðvitað alveg til í dæminu að konur vilja skyndikynni og jafnvel kynlíf með fleirum en einum sama kvöldið — en eru það þá sömu konurnar sem fara grátandi til vinkvenna sinna og segja að sér hafi verið nauðgað? Ef konan stundar kynlíf af fúsum og frjálsum vilja er varla tilefni til að gráta eða kæra.

En nei, það er vandlega gefið í skyn í dómnum og frétt Vísis (þarsem athugasemdakerfið er opið og þarmeð veiðileyfi á stelpuna*), að stelpa sem sefur hjá einum gaur hlýtur að vilja þann næsta líka. Ef hún þekkir þann fyrri lítið (en hefur þó myndað sér þá skoðun á honum að hún vilji sofa hjá honum og fer heim með honum til þess) hefur hún enga ástæðu til að neita þeim seinni (enda þótt hún hafi ekki haft neinn umþóttunartíma heldur var drifin inní svefnherbergi). Það að seinni strákurinn grobbar sig af að hafa stundað kynlíf með henni í einu orðinu og þrætir fyrir það í næsta, það er talið honum til tekna, sérstaklega þetta með grobbið. Svona einsog karlmenn sem hafa nauðgað hafi aldrei sagt frá því sem grobbsögu þar sem stelpan auðvitað vildi það.

Já og svo er það líka notað gegn stelpunni að hún á að hafa farið að skemmta sér næstu helgi. Hvað hafa nú aftur verið birt mörg viðtöl og greinar eftir konur sem segja að eftir nauðgun hafi þær reynt að deyfa sig með áfengi, jafnvel árum saman.

En nei, þessi dómur er auðvitað bara í stíl við svo marga marga aðra dóma þar sem kona sem kærir er vegin og léttvæg fundin. Það er samt alltaf svekkjandi.

___
* Viðbót: svo virðist sem athugasemdakerfinu hafi verið lokað um það leyti sem bloggfærslan var birt, eftir að hafa verið opið allan daginn.

Efnisorð: , , ,