sunnudagur, október 12, 2014

Bleiki liturinn til bjargar

Fyrir nokkrum dögum (7. þessa mánaðar) komst þyrluflug með túrista að gosstöðvunum í fréttirnar. Þyrluflugmaðurinn hafði lent við hraunjaðarinn og hleypt fólkinu út, enda þótt almenningi sé stranglega bannað að þvælast þarna. Þarna er rennandi hraun, eiturgas og aldrei að vita hvar opnast nýr gígur. Ef rýma þarf svæðið í skyndi er alveg nóg fyrir björgunarsveitir að þurfa að hjálpa þeim burt sem hafa leyfi til að vera þar en vonlaust að eiga að giska á hvar einhver þyrla hafi hugsanlega lent eða fjallaferðajeppi stoppað og leyft túristum að spóka sig. Enda var þetta gönuhlaup harðlega átalið. Þó eru til þeir sem finnst að allt sé falt fyrir peninga og ef ríku fólki langar til að gera hættulega og bannaða hluti gegn gjaldi þá eigi bara að láta það eftir þeim. Því fólki finnst kannski bara gott á björgunarsveitirnar að hætta lífinu til að bjarga forríku vitleysingunum og þyrluflugmanninum þeirra ef illa fer. Og líklega treysti flugmaðurinn á slíka björgun, ja eða fyrirtækið sem sendi hann.

Þyrlufyrirtækið sór af sér að selja ferðir þar sem þyrlum væri lent við gosið, enda þótt myndir sem sýna annað hafi verið notaðar til að skreyta vefsíðu fyrirtækisins og sagði að flugmaðurinn hefði tekið þetta upp hjá sjálfum sér, hann verður þó ekki rekinn. (Ferðaþjónustur með jeppaferðir á hálendið sverja líka alltaf af sér að neinn á þeirra vegum aki utanvega, samt segja túristarnir sem fara með þeim aðra sögu.*) Allt er þetta nokkur álitshnekkir fyrir þyrlufyrirtækið. Þar til nú.

Í dag birtist þessi fína frétt á Vísi um að þyrlufyrirtækið taki þátt í Bleikum október, árveknis-og fjáröflunarátaks Krabbameinsfélags Íslands: „Mun Krabbameinsfélagið njóta góðs af sölu Reykjavík Helicopters í mánuðinum en ákveðinn hluti hennar mun renna til söfnunarinnar.“ Það er ekki Krabbameinsfélagið sem sendir inn fréttatilkynninguna, heldur þyrlufyrirtækið sjálft. Í leiðinni notar það tækifærið og auglýsir sérstakar „bleikar“ útsýnisferðir um nágrenni Reykjavíkur. Þyrlan í baksýn er bleikmáluð.

Nú veit ég auðvitað ekkert um hvenær þessi ákvörðun var tekin eða hvað langan tíma tekur að heilsprauta þyrlu, en ég veit að það er kominn 12. október og mig grunar að fyrirtæki sem hafi ætlað að vera með í bleiku herferðinni í október hafa líklega flest löngu ákveðið það og reynt að vera með frá mánaðarmótum.** Mig grunar semsé, verandi nú tortryggin og illa innrætt, að hér sé verið að bjarga ímynd fyrirtækisins með „bleikþvotti“. Bleikþvottur er „birtingarmynd þeirrar jákvæðu ímyndar sem fyrirtæki getur öðlast með því að tengja sig málstaðnum,“ sagði Helga Þórey Jónsdóttir í Knúzgrein í fyrra,*** og spyr
„hvaða áhrif hefur það á fyrirtæki á samkeppnismarkaði að tengja ímynd sína við lækningu á hræðilegum sjúkdómum í hagnaðarskyni? Tengja sig við von kvenna um bata og lengra líf?“

Það kemur í ljós. Kannski tekst þyrlufyrirtækinu með þessari bleiku ímyndarsköpun að tengja sig við lífsvon í stað lífshættu í huga einhverra. Ég er ekki sannfærð.

___
*[viðbót:] Við þetta má bæta að þeir sem selja torfæruhjólamönnum ferðir um hálendið hafa einnig gerst uppvísir að því að bjóða uppá utanvegaakstur. Sjá frétt um ferð á vegum Arctic Rider og myndband utanvegartúristanna.

**[viðbót:]Um miðjan október voru Eimskip og Samskip kærð fyrir ólöglegt samráð. Rannsókn hófst í fyrra. Samkvæmt kærunni hafa fyrirtækin skipt á milli sín viðskiptum við fyrirtæki og heilu landshlutana. Á bleika deginum, tveimur dögum eftir að ákæran varð fréttaefni, veitti Eimskip Krabbameinsfélaginu styrk. En sú tímasetning er nú örugglega bara tilviljun.
*** Auk Helgu Þóreyjar hafði Hilma Gunnarsdóttir Druslubókardama einnig skrifað gagnrýni á bleika krabbameinsátakið, og hvet ég lesendur til að lesa greinar Hilmu og Helgu Þóreyjar.

Efnisorð: ,