sunnudagur, maí 31, 2015

Lestrarátak maímánaðar

Margar ágætar greinar og pistlar hafa birst undanfarið. Þessar eru helstar og er mælt með að fólk lesi þær sér til fróðleiks og ánægju.


Líkamsvirðing
Sigrún Daníelsdóttir skrifaði líkamsvirðingapistil sem fjallar um tvískinnung snyrtivörufyrirtækja sem virðast bæði vinna gegn staðalmyndum og græða á þeim. Einnig ræðir hún hvort gagnrýni á þessi fyrirtæki sé baráttu fyrir líkamsvirðingu til góðs. Afar áhugavert og hægt að skipta oft um skoðun meðan á lestri stendur.

Gagnrýnin umræða
Þröstur Ólafsson hagfræðingur skrifaði fína hugvekju um gagnrýna umræðu.
„Ef fjölmiðlar eru ófrjálsir og starfa undir boðvaldi ríkisvalds eða hafa víðtæka eigendavernd að viðmiði ritstjórnar, þá getur umræðan ekki verið frjáls, leiðréttingarferlinu seinkar eða mistökin festast í sessi. Það verður viðkomandi samfélagi fjötur um fót um ókomin ár … Gagnrýnin umræða á oftast á brattann að sækja. Mörgum finnst eðlilegra að halda áfram, horfa lítt til baka, vera ekki sífellt að nöldra. Valdhafar segja gjarnan að gagnrýni á framvindu landsmálanna beri vott um neikvæði og bölsýni, menn eigi að vera bjartsýnir á framtíðina.“

Bankabónusar
Ingi Freyr Vilhjálmsson og Þórður Snær Júlíusson hafa hvor um sig skrifað um bankabónusa. Þórður Snær skrifar um bónusa hjá viðskiptabönkunum þremur, en Ingi Freyr um ALMC sem áður hét Straumur Burðarás og segir hann að þarna sé um að ræða að „gamalt fjármálafyrirtæki sem hefur misst bankaleyfið er að borga út bónusa til starfsmanna sinna“, og það litla 3.4 milljarða króna.

Þetta eru reyndar frekar fréttaskýringar og heldur harðar undir tönn en vert að skoða þær samt. Eftirfarandi er úr grein Þórðar Snæs.

„Kaupaaukakerfi voru reyndar innleidd að nýju í bankanna fyrir nokkrum árum síðan. Samkvæmt lögum sem nú eru í gildi mega bónusar starfsmanna fjármálafyrirtækja vera 25 prósent af föstum árslaunum þeirra. … En mikið vill meira.

Nú liggur fyrir frumvarp um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Í minnisblaði sem fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi frá sér í lok apríl vegna þessa kom fram að ráðuneytið teldi það að „skaðlausu“ að veita fjármálafyrirtækjum heimild til að greiða bónusa sem væru allt að 50 prósent af árslaunum starfsmanna. Þá mætti einnig skoða að smærri fjármálafyrirtækjum yrði gert kleift að greiða enn hærri kaupauka til starfsmanna, til dæmis 100 prósent af árslaunum, heldur en stóru viðskiptabönkunum.
Samtök fjármálafyrirtækja skiluðu umsögn um frumvarpið þar sem fram kom að takmörkun á bónusgreiðslum væri íþyngjandi að þeirra mati. Samtökin lögðu til að evrópskur lagarammi yrði fullnýttur og fjármálafyrirtækjum gert kleift að greiða starfsmönnum sínum á bilinu 100 til 200 prósenta af árslaunum í kaupauka.“

Þórður skrifar að auki um laun í bankageiranum og kynjaskiptingu launanna.
„Meðaltal heildarlauna allra stétta á sama tímabili hafa farið úr 431 þúsund krónum í 555 þúsund krónur. Þau hafa hækkað um 28,8 prósent og því ljóst að launaskriðið í fjármálageiranum hefur verið langt umfram það sem gerist annarsstaðar.
Og þetta er karllæg stétt sem tekur svona mikið til sín. Í tölum frá Hagstofunni, sem voru birtar á mánudag, kemur fram að óleiðréttur launamunur kynjanna er hvergi meiri en í fjármála- og vátryggingarstarfsemi, eða 37,5 prósent, og hann hækkaði á milli ára. Til samanburðar þá er var hann 18,3 prósent hjá öllum starfsstéttum á árinu 2014 og lækkaði umtalsvert á því ári.“
Mig grunar sterklega að það séu konurnar í gjaldkerastörfunum sem halda niðri meðallaununum.

Kynjakvótar
Í framhaldi af því er vert að vekja athygli á grein eftir Pál Harðarson forstjóra Nasdaq sem skrifar um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins. Ég veit ekki hvar Páll er staddur í baráttu fyrir kynjajafnrétti eða hvort hann skrifar þetta til að fegra ímynd fjármálageirans (svona er ég nú tortryggin), en það er samt ánægjulegt að maður í hans stöðu skrifi þetta á vettvangi fjármálafólks.

„Lög um kynjakvóta voru visst neyðarúrræði, ætluð sem tímabundin aðgerð til að stuðla að breytingum til framtíðar. Komandi kynslóðum mun sennilegast finnast skrýtið ef konur sjást ekki í stjórnum fyrirtækja. Vonandi mun það gilda um önnur stjórnunarstörf innan fyrirtækja – og að við sjáum miklar breytingar þar líka þegar fram í sækir. Hér verður vitund, umræða og þá ekki síst sameiginlegur áhugi karla og kvenna að stuðla að þeim breytingum sem þörf er á.“

HfHuk?
Til að létta stemninguna þá er hér vísað á skrif Þórunnar Hrefnu Sigurjónsdóttur um hunda, ketti og Hitler. Engum sögum fer af hvernig hundafólki líkar úttektin eða hvernig á að flokka fólk sem á bæði hunda og ketti. En pistillinn er skemmtilegur.

Mannréttindi, menntun og innihaldsríkt líf
Í grein sem Ólafur Páll Jónsson heimspekingur skrifar um menntun og mannréttindi er fjallað um Malölu, menntun og túlkasjóðinn — sem er einhver tómasti sjóður sem sögur fara af. Hann vitnar hér í Snædísi Rán Hjartardóttur:
„... tal um forgangsröðun [vegna framlaga í túlkasjóð er] mjög vafasamt þar sem bakkabræður einir myndu panta sér túlka til þess eins að fá túlka (ekki til að láta túlka fyrir sig, bara hafa þá hjá sér). Það er ekki neins að ákveða hverjir eiga rétt á túlkun umfram aðra, það má aðeins skipuleggja þjónustuna þannig að allir sem þurfa fái sinn sanngjarna skerf. Hvað fjármunina varðar þá er spurningin frekar hvernig við skiptum samfélagslegum gæðum milli okkar, hvort vegur meira þjónusta sem stuðlar að eðlilegri og sjálfsagðri þáttöku í samfélaginu eða munaður sem hugsanlega á rétt á sér en er kannski ekki nauðsynlegur. Ég segi bara fyrir mig að ég er ekki tilbúin að lifa í búri þar sem allar pant­anir til Samskiptamiðstöðvar lenda í einhverri forgangsröð sem á víst eftir að valda því að ég eigi bara rétt á sumum útgáfum af samskiptum við annað fólk!“

Að vekja athygli á þingmannalánum
Þorvaldur Gylfason skrifaði frábæran og mjög tvíræðan pistil um greinarmerkjapælingar (þarfar mjög) en ‘dæmið’ sem hann tvítekur í upphafi pistilsins hlýtur þó að vera megintilgangur skrifanna. Og honum komið svona skemmtilega lúmskt til skila. En ætli einhver blaðamaður taki Þorvald á orðinu og rannsaki hvort þingmennirnir hafi gert upp skuldir sínar við bankana eða hvort þeir séu enn að reka erindi þeirra á þingi?



Þá er lokið upptalningu á lesefni og nú verða sagðar íþróttafréttir.

Aníta Hinriks sló enn eitt Íslandsmet sem engin önnur kona hafði náð að slá áratugum saman. Hún hefur nú slegið sjö Íslandsmet fullorðinna (fær samt ekki að verða Íþróttamaður ársins, enda bara stelpa).

Eygló Ósk Gústafsdóttir er búin að tryggja sér þátttökurétt á næstu Ólympíuleikum og hefur síðan verið að dunda sér við að setja Íslandsmet og Norðurlandamet í sundi ótt og títt.

Fanney Hauksdóttir er ung og efnileg íþróttakona. Hún hefur unnið til gullverðlauna á heimsmeistaramóti unglinga í kraftlyftingum árin 2014 og 2015. Að auki sló hún heimsmet á síðara mótinu.

Lýkur þar með maímánuði.

Efnisorð: , , , , , , , , , ,