föstudagur, mars 18, 2016

Makalaust

Nú hefur það aftur gerst að eiginkona ráðherra skrifar að því er virðist upp úr þurru tilkynningu á facebook . Í vikunni sór eiginkona forsætisráðherra af sér nokkur fjárhagsleg tengsl við maka sinn, og ekki er langt síðan eiginkona fjármálaráðherra tilkynnti að maki sinn hefði ekki auglýst á framhjáhaldssíðu eftir konu til kynmaka. Ráðherrarnir hefðu kannski betur sjálfir séð um þessar tilkynningar (forsætisráðherra hefur reyndar afneitað hagsmunatengslum við maka sinn á síðum Alþingis), en aðstoðarmenn og almannatenglar hafa sjálfsagt ráðlagt þeim að setja eiginkonunum fyrir þessi verkefni; svo væri alltaf hægt að bölva gagnrýnisröddum fyrir að reyna að ná höggi á ráðherrana með því að ráðast á eiginkonur þeirra. Og það sé svíðingslegt athæfi.

Annars ætlum við Gróa á Leiti að taka okkur frí frá þessari umræðu, enda ekki öll kurl komin til grafar (við búumst við frekari uppljóstrunum þegar Jóhannes Kr. Kristjánsson o.fl. birta fréttir af eigum Íslendinga í erlendum skattaskjólum; þangað til mæli ég með því að hlusta á fyrstu níu mínútur Hismisins, á hlaðvarpi Kjarnans, þar sem þáttastjórnendur ræða við Þórð Snæ Júlíusson* ritstjóra sinn um þetta mál).

Þess í stað vil ég aðeins fá að tjá mig um forsetaframbjóðendur. Það eru bæði góðar og slæmar fréttir að Katrín Jakobsdóttir býður sig ekki fram. Ég hefði séð mjög eftir henni úr stjórnmálum en veit að hún hefði orðið frábær forseti. Að sjálfsögðu vildi ég helst sjá konu á forsetastól en auðvitað ekki hvaða konu sem er. Ég sé alls ekki Höllu Tómasdóttur fyrir mér á forsetastóli.

Halla var framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs 2005-2007 og sat í stjórn 2008-2012. Við erum að tala um Viðskiptaráð sem hreykti sér af því að í um 90% tillagna ráðsins hefðu náð fram að ganga með því að stjórnvöld hefðu gert þær að sínum. Á sama tíma lagðist Viðskiptaráð „gegn hækkun sjómannafsláttar, íþyngjandi reglum um starfsmannaleigur“. Það sama Viðskiptaráð vildi að „Ísland hætti að bera sig saman við Norðurlöndin enda stöndum við þeim framar á flestum sviðum“, og stefndi með gölnum hætti að „Ísland, best í heimi“ — þá stefnu kynnti Halla (eins og sjá má af glærum hennar neðst á síðunni sem vísað er á).

Á LinkedIn síðu Höllu má lesa (á ensku) að starfsferill hennar hafi hafist í Bandaríkjunum þar sem hún starfaði hjá „M&M/Mars and Pepsi Cola“. — Sem er þrælmagnað í ljósi þess að Bæring Ólafsson tilkynnti framboð sitt í dag, en hann er fyrrverandi forstjóri og framkvæmdastjóri Coca Cola International.

Svona fyrir utan að þessi forsetaframboð hljóta að verða frjó uppspretta brandara um Pepsi-áskorunina, þá er lítið fyndið við tilhugsunina um að Halla eða Bæring setjist á Bessastaði. Bæði hafa þau unnið fyrir slíkra risavaxinna alþjóðafyrirtækja sem framleiða eingöngu óhollustu og gróðinn er fyrir öllu, og Halla var að auki innsti koppur í búri í þeim félagsskap sem hafði (og hefur) innleiðingu frjálshyggju í landslög að markmiði sínu. Með þessum líka eftirminnilegu afleiðingum. En þessi minnislausa þjóð gæti því miður samt eftir að kjósa fólk með slíkan bakgrunn.

___
* [Viðbót] Þórður Snær hefur skrifað fantagóða grein um trúnaðarbrot forsætisráðherra.

Efnisorð: , , , ,