föstudagur, mars 11, 2016

Hlægilegt eða nauðsynlegt húsmæðraorlof?

Föstudagsviðtal Fréttablaðsins og útdráttur sem því fylgdi á forsíðu vakti athygli mína þegar blaðið barst innum lúguna.* Þar segir Unnur Brá Konráðsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokks að konur þurfi að gefa eftir réttindi til húsmæðraorlofs og í forsjármálum, því að jafnrétti þurfi að ganga í báðar áttir.

Mér finnst sérkennilegt að þingmaðurinn taki sérstaklega fyrir húsmæðraorlof sem dæmi um málaflokk þar sem konur njóti forréttinda (og þá líklega að körlum sé mismunað).* Ekki síst vegna þess að fyrir þremur dögum var viðtal við Svanhvíti Jónsdóttur formann orlofsnefndar Gullbringu- og Kjósarsýslu** þar sem hún sagði enn vera þörf á sérstöku orlofi fyrir elstu kynslóðir kvenna. Viðtalið við hana var reyndar tekið í tilefni af því að frumvarp um afnám laganna bíður afgreiðslu. Frumvarp sem Unnur Brá lagði fram.***

Auðvitað hljómar „húsmæðraorlof“ einsog tímaskekkja, og auðvelt að gera grín að því, en einsog Svanhvít segir þá mætti alveg kalla þetta kvennaorlof. Unnur Brá veit hver sagan er á bakvið húsmæðraorlofið („konur voru heimavinnandi og nutu ekki réttinda til að fara í orlof“) en virðist halda að þær konur hafi allar dáið drottni sínum þegar konur flykktust á vinnumarkaðinn. Það er auðvitað ekki svo.„Eldri kynslóðir kvenna nutu ekki réttinda á borð við fæðingarorlof og dagvistunarúrræði“, segir í Fréttablaðinu. Auk þess sem „lög um orlof húsmæðra voru til að lögfesta viðurkenningu á þjóðfélagslegu mikilvægi ólaunaðra starfa“.

Enda þótt margar og vonandi flestar konur komist í ferðalög innanlands og utan fyrir eigin rammleik og á eigin vegum, þá á það ekki við um allar konur.
„Það er rétt að tímarnir hafa breyst en við höfum samt bent á að það er mikið af konum sem eru einar, eða jafnvel með menn sem þær senda í hvíldarinnlögn til þess að komast frá … Margar eldri konur hafa einangrað sig félagslega, orlofsferðirnar eru hugsaðar til að rjúfa þessa einangrun. Þær fá í ferðunum félagsskap, öryggi og aðstoð.“
Annars finnst mér góð sú hugmynd Þóru Kristínar Þórsdóttur sem setti hana fram í Knúzgrein þar sem hún gagnrýndi húsmæðraorlof í núverandi mynd, „að grundvallaratriðið hlýtur að vera að niðurgreiðsla orlofs sé aðeins í boði fyrir þau sem þess þurfa, og niðurgreiðslan sé nægilega há svo að fólkið sjálft þurfi ekki að bera þungan kostnað.“
Eftir stendur að fjöldi kvenna þarf og vill fara í þessar ferðir á vegum orlofsnefndanna, og mér finnst alger óþarfi að taka þann möguleika af þeim, og rök Svanhvítar gegn því mjög góð.


___
* Útdrátturinn á forsíðunni hefst svona: „Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, vill rafrænt eftirlit með mönnum sem ekki fremja ofbeldisglæpi“. Í smástund íhugaði ég að fá mér umboð fyrir ökklabönd úr því fylgjast ætti með öllum þeim fjölda landsmanna sem aldrei hefur beitt ofbeldi, og sá fyrir mér stórgróða.

** Afhverju erum við alveg hætt að tala um Gullbringu-og Kjósarsýslu?

*** Samfylkingin hefur líka lagt fram slík frumvörp einsog kemur fram í grein Þóru Kristínar þar sem hún rekur einnig tilurð og ástæður húsmæðraorlofsins.

Efnisorð: , , ,