miðvikudagur, mars 02, 2016

Arðgreiðslur tryggingafélaga

Frétt um arðgreiðslur tryggingafélaganna sem var á forsíðu Fréttablaðsins var fylgt eftir í Markaðnum, sérblaði sem fylgir blaðinu. Þar sem að mig grunar að lesendur bloggsíðunnar séu ekki fremstir í flokki þeirra sem lesa Markaðinn ætla ég að taka saman helstu atriði sem stinga í augu.

Tryggingafélögin – þessi sem við þurfum öll að eiga viðskipti við ef við eigum bíl eða húsnæði – hafa grætt alveg svakalega undanfarin ár og í stað þess að lækka iðgjöld viðskiptavina sinna ætla þau að greiða eigendum sínum 8,5 milljarða í arð.

Svona hljóðar undirfyrirsögn Markaðarins:
„VÍS, Sjóvá og TM [áður Tryggingamiðstöðin] hafa greitt 30 milljarða til eigenda sinna frá 2013 gangi áform um arðgreiðslur og endurkaup hlutabréfa eftir. Félögin drógu úr afsláttum og hækkuðu iðgjöld í fyrra.“
VÍS sendi viðskiptavinum sínum „bréf í lok nóvember þar sem tilkynnt var að iðgjöld yrðu hækkuð vegna slæmrar afkomu.“

Þessi sömu félög eru þau sem ætla nú að greiða eigendum sínum 8,5 milljarða í arð. (Tryggingafélagið Vörður greiddi sínum eigendum arð uppá 300 milljónir í fyrra, en hefur ekki enn tilkynnt um arðgreiðslur nú.) Framkvæmdastjóri Félags Íslenskra bifreiðenda bendir á að
til að mynda bifreiðatryggingar, brunatryggingar og fleiri tryggingar séu skyldutryggingar. „Þetta er eitthvað sem þú kemst ekkert undan að kaupa. Á okkar markaði ert þú bara með þessa fjóra aðila sem þú getur verslað við“.

Ef ég væri haldin fjármálalæsi (sem ég held að sé einhverskonar sjúkdómur) þá skildi ég kannski útskýringarnar í fréttinni, sem mér sýnist eiga að benda til þess að tryggingafélögin séu í raun ekkert svona vel haldin.* Stóra fréttin er sú að þau ætla að moka fé útúr fyrirtækjunum eigendum þeirra til góða, en kreista í staðinn hverja krónu sem hægt er útúr viðskiptavinunum.

Það skyldi þó ekki vera að tryggingafélögin séu að feta í slóð bankanna sem voru étnir að innan af eigendum sínum, sem væri þá enn ein sönnunin fyrir því að 2007 sé komið aftur — og að enn einu sinni eigi almenningur að borga brúsann.


___

* Bloggfærslunni verður snarlega breytt reynist þessar ályktanir mínar rangar. Eftir stendur þó að það er verið að níðast á viðskiptavinum til að geta greitt eigendunum hærri arð.

[Viðbót nokkrum dögum síðar] Félag íslenskra bifreiðaeigenda segir hreinlega að eigendur tryggingafélaganna séu að tæma bótasjóðina, og bendir á að það sé í annað sinn á stuttum tíma (sbr. Wernersbræður og hvernig þeir fóru með bótasjóði Sjóvár). Jafnframt hvetur FBÍ fjármálaráðhera (um tengsl Bjarna Benediktssonar við þá Wernersbræður og Vafningsmálið má lesa í grein Hallgríms Helgasonar) til að skipa fjármálaeftirlitinu að skakka leikinn. Bjarni er nú aldeilis rétti maðurinn til þess!

Efnisorð: ,