sunnudagur, mars 13, 2016

Vilji er ekki nóg ef hinir vilja ekki

Mig langar heilmikið að fagna 1.000 íbúða yfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Alþýðusambands Íslands. Ódýrar leiguíbúðir – eins og leigumarkaðurinn er – hljómar sannarlega afar vel. Endurreisn verkamannaíbúðakerfisins er líka gott framtak. En það dregur úr fögnuði mínum að ekki hefur verið útskýrt hvort íbúðirnar eigi að fylgja algildri hönnun (þ.e. taki mið af þörfum aldraðra og fatlaðra) eða hvort þær munu fylgja nýrri og markhópamiðaðri reglugerð og bara vera fyrir fullfrískt fólk. Að auki er ég hreint ekki bjartsýn á að frumvarp félagsmálaráðherra um „almennar íbúðir“ verði að lögum, en á því hangir viljayfirlýsingin.
„Viljayfirlýsingin sem hér er samþykkt verður unnin á grundvelli væntanlegra laga um almennar íbúðir, sem nú liggur fyrir Alþingi og er háð fyrirvara um samþykkt þess og samþykki stjórnvalda vegna stofnframlags ríkisins.“
Markmið laga um almennar íbúðir eru þessi:
„Að bæta húsnæðisöryggi efnaminni fjölskyldna og einstaklinga með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi íbúðarhúsnæði til leigu og tryggja að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda.“
Burtséð frá örugglega mjög góðum vilja Eyglóar Harðardóttur til að bæta stöðu leigjenda og fjölga leiguíbúðum (sem leigðar eru án hagnaðarsjónarmiða), er vægast sagt lítil stemning fyrir því hjá samstarfsflokk hennar í ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf haldið séreignastefnu á lofti og vill að allir búi í eigin húsnæði (byggingaverktakar og fasteignasalar eru dyggir stuðningsmenn flokksins), og þar þykja verkamannaíbúðir nógu óheppilegar þó svo ekki sé verið að lækka markaðsverð á húsaleigu í þokkabót við fasteignaverðshjöðnun. Líkurnar á að Eygló komist gegnum þingið með frumvarp sem hyglir þessum annars ágætu áformum, eru því litlar.

Það væri þá ekki nema einhver hrossakaup verði í ríkisstjórninni um eða uppúr áramótum, þar sem báðir flokkar bökkuðu með eitthvað af sínum prinsippmálum til að leyfa hinum flokknum að skella fram efnilegum kosningaloforðum. Því það verður kosið eftir rúmt ár, og allur dráttur á því að mál einstakra ráðherra séu kláruð, skulu skoðast í ljósi þess að hægt sé að stilla þeim upp sem nýunnum sigrum á kosningaári. Kannski verður Eygló voða mikið á ferð með skófluna þá?

Efnisorð: , , , , ,