þriðjudagur, mars 15, 2016

Nálægð er teygjanlegt hugtak

Í síðasta pistli minntist ég á að frumvarp framsóknarráðherra sem fær engar undirtektir hjá sjálfstæðismönnum. Fleiri mál eru rakin á vef Ríkisútvarpsins um ágreining í stjórnarliðinu sem snýr m.a. að búvörusamningum. Einnig rekja fjölmiðlar þessa dagana uppnámið útaf hugmyndum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um staðsetningu Landspítalans á Vífilsstöðum. Þeir sem vilja sjá bútasaumsaðgerðirnar við Hringbraut verða að veruleika hugsa honum þegjandi þörfina og Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra er æfur.

Kátlegast er þó að Sigmundur Davíð er með fabúleringum sínum ekki bara að hrella samstarfsflokkinn í ríkisstjórn, heldur sína eigin flokksmenn og fótgönguliða í borgarstjórn. Framsóknarflokkurinn fór fram undir heitinu Framsókn og flugvallarvinir, og kjörnir fulltrúar flokksins í borgarstjórn eru með tryggt bakland hjá þeim sem vilja að flugvöllurinn verði kyrr (og allskonar mis-stækum rasistum reyndar líka) en kjörorð flugvallarvina er Hjartað í Vatnsmýrinni, sem vísar ekki síst til þess að (hjarta)sjúklingar komi fljúgandi með sjúkraflugi og lendi sem næst sjúkrahúsinu. Að formaður flokksins vilji nú flytja sjúkrahúsið í þarnæsta sveitarfélag setur því borgarfulltrúana í nokkra klemmu. Og það má næstum heyra Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur gnísta tönnum þegar hún svarar spurningum um staðarval fyrir sjúkrahúsið í ljósi orða formannsins hennar.
„Það er vel hægt að hafa flugvöllinn áfram á þessum stað þótt spítalinn verði annars staðar,“ segir Guðfinna. „Þetta snýst ekkert um það að flugvöllurinn þurfi að vera við hliðina á sjúkrahúsinu heldur þarf hann að vera nálægt sjúkrahúsinu.“
Mikla jákvæðni þarf til að kalla fjarlægðina milli Vífilsstaða og Vatnsmýrar nálægð. Allavega ef tekið er mið af sjúkrafluginu. Og einhvernveginn held ég ekki að Guðfinna hafi svarað þessu full jákvæðni.

Það vill til að vinnustaðasálfræðingar eru mikið teknir núna.

Efnisorð: , , ,