þriðjudagur, mars 22, 2016

Póstkort úr sólinni

Margir dálksentimetrar hafa verið skrifaðir um aflandseyjafélag forsætisráðherrahjónanna, og vart á bætandi. En vegna þess að framsóknarmenn hafa ekki bara æst sig yfir að yfirhöfuð sé verið að ræða það mál (skyndilega finnst þeim ekki „nauðsynlegt að taka umræðuna“) heldur hafa notað tækifærið til að leggjast í gamalkunnan ríkisútvarpshatursgír, finnst mér það gott tilefni til að taka saman nokkuð af því sem vakið hefur sérstaka eftirtekt mína (fyrir margra hluta sakir) undanfarið.*

Óumdeilt er að allir fjölmiðlar hafa fjallað um málið og líklega allir mikið. (Ókei, smájátning: ég fylgist í raun ekki með öllum fjölmiðlum og veit ekkert stöðuna hjá landshlutablöðum Binga eða hjá Útvarpi Sögu.) Fjölmiðlarnir reyna að fá viðbrögð sem flestra við Tortóla-reikningnum auk þess sem fastir starfsmenn skrifa fréttaskýringar. Í ofanálag er bloggað á mörgum vefmiðlum, og þar bætist í skoðanasarpinn.

Ein ásökun framsóknarmanna er semsagt sú að Ríkisútvarpið hafi bara talað við sérvalda andstæðinga hins mikla foringja, enda standi það „fyrir herferð gegn forsætisráðherra undanfarna viku og þar hafa allar reglur um hlutlægni látið undan.“ Það hefur Nútíminn ** reyndar afsannað með því að telja upp þá stjórnmálamenn úr ríkisstjórnarflokkunum sem hafa komið í hvaða þætti Ríkisútvarpsins, og minna á að þar að auki hafi forsætisráðherra sjálfum margsinnis verið boðið að tjá sig. (Hvernig er það, ætlar hann að þegja út kjörtímabilið?)

Karl Garðarsson framsóknarþingmaður, sem heldur á lofti þessari herferðarkenningu, er fyrrverandi fréttamaður og fréttastjóri sem starfaði hjá Bylgjunni og Stöð 2 í nærri 20 ár. Hann er kannski vanur því úr sínu starfi þar að fara í herferð gegn fólki, eins og hann sakar nú Ríkisútvarpið um, en virðist hinsvegar alveg laus við að hafa öðlast þann skilning á starfi fréttamanna við að veita valdinu, og þar með valdhöfum, aðhald.

Það er kannski ekki framsóknarmennska sem stýrir orðum og gerðum Kristínar Þorsteinsdóttur (sem er nú útgefandi og aðalritstjóri Fréttablaðsins sem er gefið út af því sama fyrirtæki og Karl starfaði hjá en kallast nú 365 miðlar) en þýlyndi við valdhafa virðist hennar aðalsmerki. Í leiðara, sem margir ráku upp stór augu yfir, sagði hún m.a.
„Í þessu samhengi eru dylgjur á Alþingi um að forsætisráðherra hafi leikið tveim skjöldum í þessum viðræðum í besta falli hjákátlegar, og í versta falli sjúkdómseinkenni á fárveikri pólitískri umræðu.“
Það er semsagt skoðun ritstjóra víðlesins fjölmiðils að það sé hjákátlegt, og gott ef ekki einkenni á fárveikri pólitískri umræðu að gagnrýna að ráðamenn þjóðarinnar eigi peninga í skattaskjólum. Ég er ekki ein um að furða mig á þessum ummælum Kristínar, Illugi Jökulsson skrifaði stutta hugleiðingu um þau, og þar nefnir hann reyndar annan leiðara sem einnig birtist í Fréttablaðinu og var skrifaður af Fanneyju Birnu Jónsdóttur sem „ skrifaði einmitt fínan leiðara um það efni“ en hann má lesa hér, svona til að sýna að ekki eru allir leiðarahöfundar blaðsins heillum horfnir. Kristín sjálf skrifaði svo annan leiðara í dag og virðist hann eiga að vera útskýring á orðalaginu „fárveik pólitísk umræða“ (segir raunar „helsjúk“ í nýja leiðaranum) en gagnrýnir þó framsóknarmenn fyrir að reyna að kveða málið niður, og Sigmund Davíð fyrir að gera ekki hreint fyrir sínum dyrum. Skárri leiðari, en fær mínusstig fyrir að hamra á að stjórnarandstaðan beri sök á umræðunni.

Og að lokum þetta. Agnar Kristján Þorsteinsson spyr í bloggfærslu áhugaverðra spurninga um eignarhald á aflandseyjafélaginu Wintris Inc:
„er ekki eitthvað skrítið við það að erlendur banki telji þau sjálfkrafa vera hjón nær þremur árum fyrir brúðkaupið þegar félagið var stofnað? Er ekki líka eitthvað skrítið við það að þau virðast ekkert taka eftir þessu eignarhaldi fyrr en á árinu sem Sigmundur hellir sér út í stjórnmálin á fullu? Er það ekki líka smáskrítið að hvorugt þeirra hafi tekið eftir þessu eignarhaldi á skjölum hins erlenda banka og hefði það ekki líka átt að sjást á skattframtalinu fyrir árið 2007 þegar það var stofnað í ljósi samsköttunar? Voru þau ekki einfaldlega að taka á því sem gæti komið fram í sviðsljósið og valdið stjórnmálaferli Sigmundar skaða? Ef svo er, leynist þá eitthvað meira?“

Það kæmi varla á óvart héðan af.
___

* Hér er ekki farið útí að rekja allar fréttir og greinar eða hver sagði hvað og hvað hefur komið í ljós; ég bíð eftir einhverri feitri fréttaskýringu sem tekur það allt saman, sem ég get svo vísað á mér til hægðarauka. Verandi nú í fríi með Gróu.

**Nútíminn hefur líka haldið til haga nokkrum atriðum sem forsætisráðherrafrúin sleppti að minnast á í játningu sinni.

Efnisorð: , , ,