sunnudagur, mars 27, 2016

Öllum steinum velt við

Forsætisráðherrahjónin hafa nú endanlega velt steininum frá holunni þar sem þau földu sig, og birtu í dag pistil þar sem þau gera fullkomlega (innan gæsalappa) grein fyrir öllu því sem snertir ‘ekki aflandseyjafélagið’, og bæta enn í söguna um siðferðilegan hreinleika sinn og fórnfýsi. Undanfarið hefur verið hamrað á því hve ósanngjarnt sé að draga fjármál eiginkonu Sigmundar fram í dagsljósið — og það alltaf kallað persónulegar árásir. Að því er látið liggja að þar ráði öfund annarsvegar vegna auðæfa hennar, og hinsvegar sé tilgangurinn að koma höggi á leiðtogann.

Hér verður því farið í persónulegar árásir á Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur. Það er að segja, ef það að draga fram í dagsljósið hennar eigin orð og gjörðir teljast til persónulegra árása.

Ég fékk ábendingu um greinar sem hún skrifaði í Moggann 2006 og 2007, og ganga nú eflaust ljósum logum um internetið (þar skrifar hún nafn sitt sem Anna S. Pálsdóttir), en fyrir þau sem ekki hafa séð þessa miður skemmtilegu hlið á lífsförunaut forsætisráðherrans — þau voru þá þegar í sambúð — er réttast að gefa þeim kost á því hér.

Fyrri greinin birtist 12. júní 2006 og heitir „Kvenfyrirlitning femínista“, og snýst hún um hvað kynjakvótar í stjórnum fyrirtækja séu galnir.
„Af ótal ástæðum, sem of langt mál er að tíunda hér, eru slík lög hvorki skynsamleg né raunhæf. Verst er þó að þau eru yfirgengileg móðgun við konur. Verandi ung kona sem setið hefur í stjórn nokkurra fyrirtækja frábið ég mér svona kröfur.“
Þessi síðasta setning er gullvæg.

Anna segir að feministar tali konur niður og „krefjast þess að þær fái hinar ýmsu stöður út á það eitt að vera konur“, en virðist finnast það allt annað en að fá stöður út á fjölskyldutengsl. Eða hvernig stendur annars á því að ung kona með mannfræðimenntun, þótt í viðskiptafræðinámi sé (eins og hún kynnir sig í greinunum), sat í stjórn ekki bara eins heldur fleiri fyrirtækja? Það skyldi þó ekki vera að þessi fyrirtæki hafi verið að hluta eða öllu leyti í eigu fjölskyldu hennar? Vonandi var þekking Önnu eftirsótt hjá ýmsum henni alls óskyldum fyrirtækjum og hún hafi ekki eingöngu fengið sæti í stjórnum vegna þess að hún eða fjölskylda hennar átti hagsmuna að gæta. En hún hlýtur allavega að hafa verið mjög fegin að hún settist ekki í stjórn fyrirtækjanna vegna einhvers kynjakvóta.* Það hefði nú verið ljóti bömmerinn að komast ekki þangað á eigin verðleikum.

Merkilegt annars að síðar þetta sama ár og hún ræðst gegn kynjakvótum og feminisma, fer hún í mál við föður sinn sem henni þótti, ef marka má fréttir, hafa látið bróður hennar njóta fjölskylduauðæfanna umfram hana. Svo virðist sem sátt hafi verið gerð í málinu því aldrei kom til kasta dómstóla, og hún fékk gríðarlegar upphæðir í fyrirframgreiddan arð (sem svo endaði á Tortóla). Einhver hefði haldið að þetta væri feminísk réttlætisbarátta gegn feðraveldinu sem hyglir körlum umfram konur, en Anna hefur kannski ekki litið þannig á það.

20. maí 2007 skrifar hún svo aðra grein gegn feminisma, sem heitir hvorki meira né minna en „Hættulegur femínismi“, og þetta er niðurlag hennar.
„Alvarlegasti löstur femínismans er þó ekki rangfærslurnar heldur sú staðreynd að hann er beinlínis skaðlegur konum. Sé raunin sú að konur sætti sig við lakari kjör en karlar ætti að sannfæra þær um að þær séu jafnokar þeirra og allir vegir færir (eins og flestar okkar vita fyrir). Í stað þess að reyna daglega að brjóta konur niður með endalausu tali um að staða þeirra sé næsta vonlaus því þær verði ekki metnar að verðleikum.

Skaðsemi femínismans liggur ekki hvað síst í fordómum í garð þess sem þykir kvenlegt og minnimáttarkenndarblandaðri aðdáun á því sem talið er til karlmannlegra einkenna. Á meðan öll áherslan er á að jafna hlut kynjana í „karlagreinum“ vanrækja feministar, og líta nánast niður á, konur í „kvennastéttum“. Heimavinnandi húsmæður verða verst úti en konur í kennarastétt og heilbrigðisþjónustu koma þar fast á eftir (verkakonur sjást ekki á radar femínista). Tekjur þessara undirstöðustétta samfélagsins, þar sem konur eru í meirihluta, eru alltof lágar og þ.a.l. meðaltekjur íslenskra kvenna. Þessu lítur femelítan framhjá.

Vissulega eru þeir til sem meta verðleika fólks eftir kynferði, aldri eða öðrum fæðingarþáttum. Hins vegar er fráleitt að halda því fram að til sé samsæri um að halda konum niðri í launum. Slíkt skaðar fyrst og fremst konur. Það er tímabært að jafnréttismál fari að snúast um jafnrétti allra fremur en viðhald og eflingu stofnana femínismans.“
Það er svo sérlega áhugavert í ljósi þessara skrifa Önnu að Sigmundur Davíð hefur verið „útnefndur einn fremsti karlfemínisti heims af breska dagblaðinu Financial Times“. Ekki að nokkur feministi á Íslandi hafi álitið hann feminista, og grein Áslaugar Karenar Jóhannsdóttur fer vandlega yfir feril hans til að sjá hvort útnefningin ætti sér nokkra stoð. Sem reynist ekki vera.**

En það hlýtur að vera stirð sambúðin milli yfirlýsts andstæðings feminisma og eins helsta karlfeminista heims. Nema auðvitað þegar þau sitja við eldhúsborðið og klóra yfir skítinn sinn skrifa skýringar á fjárreiðum sínum.

___
* Forstjóri Kauphallarinnar er nú samt ánægður með kynjakvótann.
** Rétt er að geta þess að þegar Alþingi samþykkti lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja 4. mars 2010 var SDG fjarstaddur og greiddi ekki atkvæði. Kannski var hann önnum kafinn.

Efnisorð: