sunnudagur, apríl 03, 2016

Þriðjungur ríkisstjórnarinnar með panamahatt

Reykjavik Media, Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna (ICIJ) og þýska blaðið Süddeutsche Zeitung réðust öll gegn Framsóknarflokknum og forsætisráðherra vorum í kvöld með gagnaleka frá panömsku lögfræðistofunni Mossack Fonseca, með tilstilli Ríkisútvarpsins sem færði pólitíska áróðursþáttinn Stundina okkar sérstaklega til á dagskránni til að sýna Kastljós á sunnudegi, þátt helgaðan skattaskjólum.

Fyrirfram hefði mátt halda að ekkert nýtt kæmi í ljós í Panama-Kastljósþættinum. Það var öðru nær. Svo ítarlega var farið í aflandseyjafélagseign og félagaskipti forsætisráðherrahjónanna að öllum má vera ljóst að Sigmundur Davíð hefur logið margvíslega varðandi það mál. (Enn hefur þó ekki komið í ljós hvort í raun hafi verið greiddur skattur – og þá fullur skattur af peningunum á Tortóla — og verður kannski aldrei hægt að komast að því). Viðtalið þar sem hann áttar sig á að spyrjendurnir vissu allt um Wintris var afar áhrifamikið. Þar hjálpaði til að frá því að það viðtal var tekið hefur forsætisráðherra frúin ‘kosið’ að skýra frá aflandseyjafélaginu. Og þarna fengum við semsagt að sjá hvað varð til þess að ‘hreinskilna facebookfærslan’ var birt.

Styttri umfjöllun fengu lygar Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra sem þrætti fyrir í Kastljósi í fyrr að hafa nokkurntíma átt aflandseyjafélag. Einnig var fjallað um Ólöfu Nordal og borgarfulltrúa úr Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki. Þorbjörg Helga er hætt í borgarstjórn en þar er Sveinbjörg enn (þótt í leyfi sé) en hún er lögfræðingurinn sem veit ekki hvort eða hvenær félagi er slitið. Svo var einnig fjallað um Júlíus Vífil sem er einn fárra sem fór útí aflandseyjabissness eftir hrun, eða svo seint sem 2014. Hann segir að þarna geymi hann„eftirlaunasjóð“ (eru ekki allir sem sanka að sér peningum meira og minna með það í huga að njóta þeirra á elliárum?), sem hann telur líklega að hljómi betur en að hann sé að koma fé í skjóli frá skattheimtu eða til að fela eignarhald sitt á fyrirtækjum, sjóðum eða félögum á Íslandi eða erlendis. Júlíus Vífill átti sterka senu þar sem hann reyndi að koma sér undan viðtali við Helga Seljan og sagðist vilja tala við hann síðar. Helgi bíður örugglega enn við símann eftir að Júlíus hringi í sig.

Einna magnaðast (fyrir utan alla SDG umfjöllunina) var einmitt viðtal við Kristján Gunnar Valdimarsson, lektor í skattarétti við Háskóla Íslands, sem „lýsti því yfir að ekkert skattalegt hagræði fælist í því að eiga félag í skattaskjóli. Hann sagði ákvæði í skattalögum koma í veg fyrir það. Í umfjöllun Reykjavík Media kemur fram að hann hafi verið milliliður Júlíusar Vífils um stofnun fyrrnefnds félags hans í Panama“ Og ekki nóg með það heldur virtist Kristjáni langa mjög til að reka útibú frá Mossack Fonseca á Íslandi. Það hlýtur að losna staða lektors í skattarétti á næstu dögum, ef Háskóli Íslands vill ekki verða fyrir enn meiri álitshnekki en orðið er.

Já og talandi um panömsku lögfræðistofuna Mossack Fonseca. Þótt hún sé ein sú stærsta í heimi aflandseyja, leynireikninga og skattaskjóla, þá er hún ekki sú eina. Það gæti þessvegna verið að fullt af öðru ‘mektarfólki’ á Íslandi feli peningana sína í skattaskjólum þótt það hafi ekki átt viðskipti við þetta fyrirtæki. Þetta var bara sýnishorn af því hvernig fólk sem hefur fæðst hér og gengið í skóla, notið heilbrigðisþjónustu og ekið eftir íslenskum vegum greiddum af íslenskum skattborgurum, telur sér ekki skylt að taka þátt í að reka þetta samfélag nema þá til að stýra eignum ríkisins í hendurnar á útvöldum vinum og ættingjum.

Og þetta á auðvitað ekki bara við um Ísland, heldur stunda allra þjóða kvikindi þennan leik. Sigmundur Davíð er í fríðum hóp þjóðarleiðtoga í Panamaskjölunum. Hinir eru frá Írak, Jórdan, Katar, Sádí Arabíu, Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Úkraínu. Pútín kom lítið við sögu en ég hafði haldið að þátturinn snerist ekki síst um hann og íslenski partur sögunnar væri einskonar aukaefni. Og hvar var Assad? Þessi listi fellur annars ágætlega að upptalningu DR1 á þeim sem nýta sér skattaskjól: auðmenn, harðstjórar, spilltir pólitíkusar, hryðjuverkasamtök og eiturlyfjabarónar. Þetta er félagsskapurinn sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar og borgarfulltrúar kjósa sér.

Í sjónvarpsfréttum eftir Panama-Kastljósþáttinn var talað við Guðna Th. Jóhannesson, sem virkaði sjokkeraður. Hann segir að uppgjörinu við hrunið sé ekki lokið.
„Bankahrunið varð magnaðra hér en annarstaðar, svo áttum við að hafa verið best í endurreisn. Núna virðist vera að koma á daginn að við höfum hér mörg verið betri að fela slóð en aðrir, og það hlýtur að hafa áhrif á það hvernig við stígum næstu skref.“
Það voru fleiri slegnir en Guðni Th., og næstu skref hljóta að vera sú að að koma þessari ríkisstjórn frá völdum.

Efnisorð: , , , ,