þriðjudagur, apríl 05, 2016

Á svo Framsókn bara að halda áfram í ríkisstjórn eins og ekkert sé?

Dagurinn hefur verið með ólíkindum. Nýjasta vendingin er sú að Sigmundur Davíð hafi ekkert sagt af sér heldur „stigið til hliðar um óákveðinn tíma“. Og ég sem hélt í morgun þegar hann keyrði til Bessastaða að hann væri að biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt.

Að setja Sigurð Inga Jóhannsson í sæti forsætisráðherra er fáránlegt, og ekki bara vegna þess að viðbrögð hans við lygaþvælunni úr Sigmundi um Wintris-málið var að segja að það væri „flókið að eiga peninga á Íslandi“ og „einhvers staðar verða peningarnir að vera“. Framsóknarflokkurinn hefur staðið grimmt með Sigmundi Davíð eftir að Tortólafélagið komst í hámæli. Þar hefur hver þingmaðurinn og ráðherrann stigið fram á fætur öðrum og borið blak af lygalaupnum. Nú síðast í dag var Sigrún umhverfisráðherra enn að mæra Sigmund. Þetta fólk þarf að sjálfsögðu að víkja úr stjórn landsins.

Ekki hefði verið skárra að Bjarni Ben tæki við stjórnartaumunum, Engeyjarprinsinn sjálfur með ættingjana í Borgunarmálinu og sjálfur með Vafning um hálsinn. Svo ekki sé talað um aflandseyjafélag sem hann var svo ansi heppilega búinn að gleyma að hann ætti. Eða vissi ekki hvar var.

Það hefur verið alveg verið ljóst frá fyrstu dögum þessarar ríkisstjórnar að þetta er ríkisstjórn ríka fólksins. Hún hefur hækkað matarskatt og lækkað auðlegðargjald. Þetta er ríkisstjórn þeirra sem vita ekki aura sinna tal eða hvar þeir eru geymdir, og ljúga þegar þeir eru spurðir.

Ríkisstjórnin þarf að víkja. Það er hreint ekki nóg að einstakir þingmenn eða ráðherrar skipti um sæti.

Það er með ólíkindum ef þeir komast upp með þetta.


Efnisorð: , ,