miðvikudagur, apríl 13, 2016

Aukinn stuðningur við flokk skattamálaráðherra

Eftir allt það sem á undan er gengið er eins og kjaftshögg að komast að því að Sjálfstæðisflokkurinn stóreykur fylgi sitt. Hvað er eiginlega að þessari heimsku þjóð? Treystir hún í alvöru Bjarna Benediktssyni svona vel? Fyrir kjósendur með lélegt minni hefur Stundin rifjað upp afsakanir Bjarna sem hann notar þegar að honum er sótt, og kallar það „Allt það sem Bjarni vissi ekki“.
1. Vafningur: Vissi ekki hvað hann veðsetti

2. Borgun: Vissi ekki af fjárfestingu föðurbróður

3. Seldi hlutabréf í Glitni í febrúar 2008: Vissi ekki af innherjaupplýsingum þegar hann seldi hlutinn sinn

4. Lekamál í ráðuneyti Hönnu Birnu: Vissi ekki um lekann (þótt sérfræðingar í fjármálaráðuneytinu hefðu rannsakað hann)

5. Móaðist við að kaupa gögn um Íslendinga í skattaskjólum: Vissi ekki að hann ætti félag í skattaskjóli
Sagði þó:
„En það er aðalatriðið að fá í það niðurstöðu og vonandi getur þetta orðið að gagni við að uppræta skattsvik vegna þess að í mínu ráðuneyti, á meðan ég sit þar, verður ekkert skjól að finna fyrir þá sem ekki hyggjast standa undir sínum samfélagslegu skuldbindingum og greiða skatta.“

[Lengri útgáfa samantektarinnar er að sjálfsögðu á Stundinni, þar sem einnig er að finna þessa athugasemd lesanda: „‪Gleymdi hann því ekki líka að hann stofnaði aðgang á stefnumótasíðu?‬‬“]

Fyrir fólk sem heldur að það skipti engu máli hvar peningar eru geymdir, og að íslenskt samfélag muni ekki um milljónir hér og milljónir þar, eða þótt það séu milljarðar sem vantar í samneysluna (þ.á m. heilbrigðiskerfið), þá er hér opið bréf til þingmanna stjórnarflokkanna eftir Gunnar Skúla Ármannsson lækni. Kjósendur ættu líka að taka það til sín.
„Það virðist hafið yfir allan vafa að Bjarni ykkar hafi átt aflandsfélag. Það er staðfest að þið styðjið Ríkisstjórn þar sem Forsætisráðherranum ykkar finnst allt í lagi að fólk eigi aflandsfélag. Ykkur öllum finnst þá í góðu lagi að eiga aflandsfélag. Þar með hafið þið öll lagt blessun ykkar yfir starfsemi aflandsfélaga í heiminum og þær afleiðingar sem starfsemi þeirra valda.

Þessir tveir flokkar studdu innrás í Írak 2001 og það kostaði milljón manns lífið. Það er ekki síður alvarlegt að leggja blessun sína yfir aflandsfélög en að taka þátt í Íraksstríðinu.

Það er talið að 21-31 trilljón dollarar séu faldir í þeim 80 skattaskjólum sem finnast.

Á tímabilinu 1970-2008 hurfu 944 milljarðar dollara frá Afríku í skattaskjól. Á sama tíma voru skuldir Afríku “aðeins” 177 milljarðar dollara, það er fimm sinnum minna. Eingöngu 20% skattur hefði gert Afríku skuldlausa heimsálfu. Skattaundanskotin valda því að heimsálfan er stórskuldug.

Á svipuðu tímabili þá hurfu 7-9 trilljónir dollara frá 139 fátækari ríkjum heims meðan skuldir þeirra voru 4 trilljónir dollara.

Afleiðingarnar eru niðurskurður vegna skulda, sjúkdómar, fátækt, hungur, vanheilsa og dauði. Samkvæmt Unicef deyja 869 börn á klukkustund og flest að nauðsynjalausu. Flest öll þessi fátæku ríki væru í plús ef ekki væri fyrir skattaskjólin. Þau þyrftu enga þróunaraðstoð frá okkur. Þau væru sjálfbjarga og öll þessi börn væru ekki að deyja.

Ég get ekki treyst ykkur til frekari starfa á Alþingi meðan engin hugafarsbreyting á sér stað eða iðrun. Þið verðið að horfast í augu við alvarleika málsins. Þið styðjið stærstu meinsemd veraldarinnar með hegðun ykkar.“

Í öðrum pistli bendir Gunnar Skúli á nýlega rannsókn (hann birtir heimildaskrá, ein helsta heimildin er taxjustice.net) sem „sýnir að skattaundanskot með skattaparadísum er jafn mikil og helmingur allra útgjalda til heilbrigðismála í öllum heiminum. Að borga skatt er samfélagssáttmáli.“


Þetta mættu kjósendur hafa í huga. Já, og þessa mynd Halldórs Baldurssonar.





Efnisorð: , ,