föstudagur, desember 30, 2016

Ársuppgjör 2016

Áramótagleði Ríkissjónvarpsins var ágætis þáttur en skrýtinn. Þá er ég ekki að tala um þann lið þáttarins þar sem álitsgjafar ræddu hvað þeim fannst skrýtnast á árinu, heldur það sem næstum allir sem fram komu í þættinum voru sammála um að hefði sameinað þjóðina á árinu: Fótbolti. Ég er greinilega ekki þjóðin því mér er ennþá jafn skítsama um fótbolta.

Þessvegna hefði ég auðvitað ekki valið fótboltakall (enn einn fótboltakallinn) sem íþróttamann ársins. En það gerðu þó Samtök íþróttamanna. Mér fannst það asnalegt val, í fyrsta lagi vegna þess að liðið hans fékk hvorteðer verðlaun sem lið ársins, í öðru lagi vegna þess að liðið hans komst ekki einu sinni á verðlaunapall á þessu evrópumeistaramóti sem allir voru svona æstir yfir.

Og ef vandamálið er að þetta hafi verið svona frábært ár í íþróttum og margir íþróttamenn átt titilinn skilið, þá mætti kannski skipta titlinum í kvenna- og karla. Mér finnst auðvitað að konur ættu að geta orðið íþróttamenn ársins með því að etja kappi við karla um titilinn, en það hefur ekki gengið vel í karlrembusamfélagi íþróttafréttamanna. En allavega, ef bæði kona og karl hefðu fengið titilinn þá hefði ég látið Hrafnhildi Lúthersdóttur fá titilinn (og hún átti að fá hann hvorteðer því hennar árangur var mun betri en fótboltalandsliðsins) en hún vann þrenn verðlaun á EM í sundi, sem er ekkert minna en frábært. Karlinn sem hefði getað fengið kallaverðlaunin er Júlían J. K. Jóhannsson, tvöfaldur heimsmeistari unglinga í kraftlyftingum (hann komst ekki hátt á lista hjá íþróttafréttamönnum, sem finnst hann líklega of ungur, svona eins og þegar þeir völdu ekki Anítu Hinriks hér um árið). Svona er ég nú skrýtin, að vilja frekar að fólk sem hampar heimsmeistaratitlum eða verðlaunapeningum á alþjóðlegum mótum beri titilinn Íþróttamaður ársins, heldur en einhver sem er bara einn leikmaður af mörgum í liði sem ekki vinnur til verðlauna.

Í hinn bóginn er ég fjarska glöð með að björgunarsveitirnar hafi fengið titilinn Maður ársins í vinsældakosningu á Rás 2 (þótt að einhverju leyti ætti það að vera bundið við einstakling, en látum það vera). Fyrrverandi forsætisráðherra þjóðarinnar hafði nefnilega í sínu einkastríði við Ríkisútvarpið hvatt sitt fólk til að kjósa sig mann ársins. Ég held að hann hafi ekki hugsað það til enda; ætlaði hann að mæta í sjónvarpssal í kvöld og þakka fyrir sig?

Margt er áhugavert að rifja upp um áramót og sérstaklega eftir þetta ár. Hyggst er skráð eitthvað af því (með þennan lista að fyrirmynd).


Eftirfarandi má einnig lesa sem lof eða last. Lesendur eiga við sjálfa sig í hvorn flokkinn þeir telja að við sé átt.


Þyrluflug ársins: Ólafur Ólafsson, refsifangi í útivist.

Sundferð ársins: Siggi hakkari, refsifangi í útivist.

Ferðapassi ársins: Reisupassinn sem Ragnheiður Elín Árnadóttir fékk í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins.

Múgæsing ársins: Kallafótbolti í Frakklandi, Justin Bieber í Kópavogi.

Vanreikningarhagstofa ársins: Hagstofan vanreiknaði vísitölu neysluverðs í sex mánuði. Áhrif mistakanna eru sögð hlaupa á milljörðum.

Misráðna og mislukkaða forsetaframboðið: Davíð Oddsson.

Forsetaframbjóðandi ársins: Elísabet Jökulsdóttir.

Forseti ársins: Guðni Th. með 97% vinsældir.

Fjölmiðlakaup Binga ársins: ÍNN og Birtingur. Fyrir átti hann DV og landshlutablöðin.

Viðskiptamannadekur að hætti ársins 2007: Fréttablaðið hrósaði Björgólfi Thor fyrir „viðskipti ársins“ (hann seldi Nova og græddi einhver ósköp) og er langt síðan einhver hefur hampað Björgólfi jafn glaðlega. Reyndar kom í ljós í Panamaskjölunum að nær öll fyrirtæki hans eru beint eða óbeint í skattaskjóli. Þá valdi Fréttablaðið Skúla Mogensen í Váflug sem viðskiptamann ársins. Leiðarinn sama dag olli mörgum ógleði (Illugi Jökuls og Egill Helgason þar á meðal) en þar segir: „Hlutverk stjórnmálanna er að skapa umgjörð sem er hvetjandi fyrir þá sem vilja og þora. Tryggja að skattar og efnahagsumhverfi tryggi þeim ávinning sem taka mikla áhættu.“ Semsagt skattahagræði fyrir auðmenn svo þeir auðgist meir. Allt mjög 2007.

Skiljanlega var Fréttablaðið gagnrýnt fyrir þetta, því einsog Illugi segir: „Ef fjölmiðlar hafa eitthvert hlutverk, þá er það að gagnrýna valdastéttina“ — en ekki „verðlauna valdastéttina“. Fréttablaðið er reyndar í eigu auðmanna, einsog kunnugt er, þannig að þó það stingi í augu ætti það kannski ekki að koma svo á óvart að auðmönnum og afrekum þeirra sé hampað í blaðinu. Afturámóti má spyrja hvað í fjandanum Skúli Mogensen var að gera í Áramótagleði Ríkisútvarpsins, fannst þeim að það þyrfti að auglýsa þetta eftirlæti Fréttablaðsins eitthvað betur?

Flokkur ársins: Framsókn. Þar með talið SDG & Wintris, Vigdís Hauks, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir (Panamaskjöl), skýrsla Vigdísar Hauks (sem blessunarlega er hætt á þingi), átök um formannsstólinn, tvístrað 100 ára afmæli flokksins. Og svo framvegis og svo framvegis.

Húsbyggingarframkvæmdir ársins: Hótelin, öll hótelin. Fleiri hótel! Og sólbaðsstofur! Og loðdýrarækt! Og videóleigur!

Airbnb ársins: allar þær ágætu íbúðir sem leigðar eru túristum á okurprís í gróðaskyni meðan húsnæðisekla er á höfuðborgarsvæðinu.

Kjörkassi ársins: Fljúgandi, fljótandi, siglandi kjörkassi Grímseyinga.

Leynivinaleikur ársins: Þegar Jóhannes Kr. Kristjánsson steig fram og settist við hlið Sven Bergman í Ráðherrabústaðnum.

Eiginkonur ársins: Anna Sigurlaug Pálsdóttir eiginkona Sigmundar Davíðs og Ingibjörg Kristjánsdóttir eiginkona Ólafs Ólafssonar.

Flugvallarrifrildið: Flugvöllinn burt en spítalinn verði eftir; spítalinn burt en flugvöllurinn kjurt. Eða eitthvað. Byggjum samt íbúðir fyrir Valsmenn á miðri flugbraut meðan við erum að ákveða okkur.

Ræða ársins: Þegar Óttar Proppé sagði „Guð blessi Ísland og allt það, en tröll taki þessa ríkisstjórn“ í ræðustól Alþingis í apríl síðastliðnum.

Óþægilegasta trúlofunin: Sami Óttarr Proppé þegar hann lét fallerast af Benedikt Jóhannssyni.

Trúlofunarslit ársins: Þegar Panamabræðurnir Sigmundur Davíð og Bjarni Ben hættu saman.

Sleipasti stjórnmálamaðurinn: Bjarni Ben. Icehot1, Falson aflandseyjafélagið, Borgunarmálið, Sjóvá/Milestone/Vafningur; ekkert festist við hann. Nú þegar þetta er skrifað þykist hann viss um forsætisráðherrastólinn.

Spæjó ársins: Vigdís Hauks sem skrifaði skýrslu um Steingrím Joð.

Spæjaður um ársins: Sigmundur Davíð, milli loftárása.

Viðtal ársins: Falsaða viðtalið með svarta filternum við fautann og leynivin hans þar sem RÚV reyndi að útrýma óskasyni Íslands.

Kjósendur ársins: Þeir sem merktu við Davíð Oddsson í forsetakosningunum, og sem stuðluðu að því að Bjarni Ben, Ólöf Nordal, Sigmundur Davíð og Þorgerður Katrín komust aftur á þing — þrátt fyrir allt.

Köttur ársins: Gosi kvennaskólaljón.

Vegaspotti ársins: Allir litlu vegaspottarnir milli vondu vegakaflanna og holuskreytta malbiksins.

Lýðheilsumarkmiðið: kleinuhringjastaðir, vantar ekki örugglega fleiri svoleiðis?

Máltíð ársins: fiskur undir fölsku nafni.

Tímahraksklúður ársins: Ríkissaksóknaraembættið sem skilaði ekki inn greinargerð í tæka tíð í ellefu ára gömlu máli. Það snerist um 3ja milljarða sem Hannes Smárason millifærði af reikningi FL Group til þess að Pálmi í Fons gæti keypt Sterling flugfélagið. Málið hafði verið rannsakað í átta ár en á lokametrunum gafst skyndilega ekki tími til að skrifa eina greinargerð. (Fá menn borgað fyrir að 'gleyma' að skrifa greinargerð?)

Afneitun ársins: Sigmundur Davíð í öllum flokkum sem keppt er í.

Fylgistap ársins: Píratar þegar talið var uppúr kjörkössunum.

Álitshrap ársins: Óttar Proppé og Björt framtíð.

Gamalmennagleðjarar ársins: Kettirnir á Hrafnistu í Kópavogi.

Gamalmennahrellir ársins: Fjármálaráðherra með öll sín svik við aldraða (og öryrkja líka, svei honum).

Harðasti iðnaðarmaður ársins: Halldóra Þorvarðardóttir 74 ára starfandi blikksmiður.

Myndlistarmaður ársins: Ragnar Kjartansson, sem einnig bauð sig fram í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir Vinstrihreyfingina - grænt framboð, auk þess sem hann sýndi í Bretlandi og er nú með sýningu í Bandaríkjunum við góðan orðtstír.





Efnisorð: , , , , , , , , , , , , ,